Ljós Guðs hrekur burt myrkrið!
Ljós Guðs hrekur burt myrkrið!
„[Jehóva], Guð minn lýsir mér í myrkrinu.“ — 2. SAMÚELSBÓK 22:29.
1. Hvernig er líf tengt ljósi?
„GUÐ sagði: ‚Verði ljós!‘ Og það varð ljós.“ (1. Mósebók 1:3) Með þessum merku orðum bendir sköpunarsaga 1. Mósebókar á að Jehóva sé uppspretta ljóssins en án þess væri jörðin lífvana. Jehóva er einnig uppspretta andlegs ljóss sem er nauðsynlegt til að lýsa okkur á vegi lífsins. (Sálmur 43:3) Davíð konungur benti á hið nána samband milli andlegs ljóss og lífs er hann skrifaði: „Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.“ — Sálmur 36:10.
2. Hverju er ljós nátengt eins og Páll benti á?
2 Páll postuli vísaði í sköpunarsöguna um 1000 árum eftir að Davíð var uppi. Hann sagði í bréfi til kristna safnaðarins í Korintu: ‚Guð sagði: „Ljós skal skína fram úr myrkri!“‘ Síðan benti hann á að andlega ljósið væri nátengt þekkingunni á Jehóva og sagði: „Hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.“ (2. Korintubréf 4:6) Hvernig nær þetta ljós til okkar?
Biblían er ljósgjafi
3. Hvaða ljós sendir Jehóva í Biblíunni?
3 Innblásið orð Guðs, Biblían, er helsta leiðin sem Jehóva notar til að senda okkur andlegt ljós. Við leyfum ljósi hans að skína á okkur með því að nema Biblíuna og taka á móti þekkingu á honum. Í Biblíunni varpar Jehóva ljósi á tilgang sinn og segir okkur hvernig við getum gert vilja sinn. Það gefur lífi okkar gildi og hjálpar okkur að fullnægja andlegum þörfum. (Prédikarinn 12:1; Matteus 5:3) Jesús lagði áherslu á að við yrðum að sinna andlegu þörfunum er hann vitnaði í Móselögin og sagði: „Ritað er: ‚Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.‘“ — Matteus 4:4; 5. Mósebók 8:3.
4. Í hvaða skilningi er Jesús „ljós heimsins“?
4 Jesús er nátengdur andlega ljósinu. Reyndar kallaði hann sig „ljós heimsins“ og sagði: „Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ (Jóhannes 8:12) Þessi orð leiða okkur fyrir sjónir að Jesús fer með aðalhlutverk í því að miðla sannleika Jehóva til mannkyns. Til að forðast myrkrið og ganga í ljósi Guðs verðum við að hlýða á allt sem Jesús segir og fylgja gaumgæfilega fordæmi hans og kenningum eins og Biblían greinir frá þeim.
5. Hvaða ábyrgð hvíldi á fylgjendum Jesú eftir dauða hans?
5 Jesús talaði aftur um sig sem ljós nokkrum dögum fyrir dauða sinn er hann sagði lærisveinunum: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið, meðan þér hafið ljósið, svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri, veit ekki, hvert hann fer. Trúið á ljósið, meðan þér hafið ljósið, svo að þér verðið börn ljóssins.“ (Jóhannes 12:35, 36) Þeir sem urðu börn ljóssins lærðu hin ‚heilnæmu orð‘ Biblíunnar. (2. Tímóteusarbréf 1:13, 14) Þeir notuðu þau síðan til að leiða aðra hreinhjarta menn út úr myrkrinu og inn í ljós Guðs.
6. Hvaða grundvallarsannleika varðandi ljós og myrkur er að finna í 1. Jóhannesarbréfi 1:5?
6 Jóhannes postuli skrifaði: „Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum.“ (1. Jóhannesarbréf 1:5) Þú tekur eftir andstæðunni milli ljóss og myrkurs. Jehóva er uppspretta andlega ljóssins og hjá honum er ekkert andlegt myrkur. Hver er þá uppspretta myrkursins?
Andlegt myrkur — uppsprettan
7. Hver stendur að baki andlega myrkrinu í heiminum og hvaða áhrif hefur hann?
7 Páll postuli talaði um „guð þessarar aldar“ og átti þar við Satan djöfulinn. Hann benti síðan á að Satan hafi „blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ (2. Korintubréf 4:4) Margir segjast trúa á Guð en æ færri trúa að til sé djöfull. Hver er ástæðan? Þeir vilja ekki viðurkenna að það sé til eitthvert illt, ofurmannlegt afl sem geti haft áhrif á hugsunarhátt þeirra. En eins og Páll bendir á er djöfullinn til og hefur þau áhrif á fólk að það getur ekki séð ljós sannleikans. Satan hefur þvílík áhrif á hugsunarhátt manna að í spádómi er sagt að hann ‚afvegaleiði alla heimsbyggðina.‘ (Opinberunarbókin 12:9) Hann hefur beitt áhrifum sínum þannig að nú er ástand mannkyns, að þeim undanskildum sem þjóna Jehóva, orðið eins og spámaðurinn Jesaja lýsir: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum.“ — Jesaja 60:2.
8. Hvernig sýnir það sig að þeir sem eru í andlegu myrkri hafa tapað áttum?
8 Maður sér ekkert í niðamyrkri og getur auðveldlega villst eða tapað áttum. Þeir sem eru í andlegu myrkri eru sömuleiðis skilningsvana og tapa fljótlega áttum andlega. Þeir hætta kannski að geta greint milli sannleika og lygi og milli góðs og ills. Spámaðurinn Jesaja skrifaði eftirfarandi um þá sem ganga í slíku myrkri: „Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku.“ (Jesaja 5:20) Þeir sem búa í andlegu myrkri eru undir áhrifum frá guði myrkursins, Satan djöflinum, og eru þar af leiðandi fráhverfir uppsprettu ljóss og lífs. — Efesusbréfið 4:17-19.
Frá myrkri til ljóss — áskorunin
9. Hvernig sækja syndarar bæði í bókstaflegt og andlegt myrkur?
9 Hinn trúfasti Job benti á hve mjög syndarar sæktu í bókstaflegt myrkur. Hann sagði: „Auga hórkarlsins bíður eftir rökkrinu, og hann segir: ‚Ekkert auga sér mig,‘ og dregur skýlu fyrir andlitið.“ (Jobsbók 24:15) Syndarar eru líka í andlegu myrkri og þetta myrkur getur verið feikilega magnað. Páll postuli sagði að kynferðislegt siðleysi, þjófnaður, ágirnd, drykkjuskapur, lastmælgi og rán væru algeng meðal þeirra sem væru í fjötrum myrkursins. En allir sem ganga inn í ljós Guðs geta breytt sér. Páll sýnir fram á að það sé hægt í bréfi sínu til Korintumanna. Margir kristnir menn þar í borg höfðu ástundað verk myrkursins en Páll sagði þeim: „Þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.
10, 11. (a) Hvaða tillitssemi sýndi Jesús er hann gaf manni sjónina? (b) Hvers vegna vilja margir ekki velja ljósið?
10 Það tekur dálitla stund að aðlagast ljósi eftir að hafa verið í niðamyrkri. Jesús læknaði blindan mann í Betsaídu en sýndi honum þá tillitssemi að gefa honum sjónina smátt og smátt. „Hann tók í hönd hins blinda, leiddi hann út úr þorpinu, skyrpti í augu hans, lagði hendur yfir hann og spurði: ‚Sér þú nokkuð?‘ Hann leit upp og mælti: ‚Ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga.‘ Þá lagði hann aftur hendur yfir augu hans, og nú sá hann skýrt, varð albata og heilskyggn á allt.“ (Markús 8:23-25) Greinilegt er að Jesús veitti manninum sjónina smám saman þannig að hann gæti aðlagast skæru sólarljósinu. Við getum ímyndað okkur gleði mannsins er hann fékk sjónina.
11 En þeir sem fá hjálp til að stíga skref fyrir skref út úr andlegu myrkri inn í ljós sannleikans eru ekki síður glaðir en þessi maður. Þegar við sjáum gleði þeirra er okkur kannski spurn hvers vegna það laðist ekki fleiri að ljósinu en raun ber vitni. Jesús tiltekur ástæðuna: „Þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís.“ (Jóhannes 3:19, 20) Margir hafa yndi af því að ‚gera illt‘ — svo sem að kúga, ljúga, svíkja, stela og stunda siðleysi — og hið andlega myrkur Satans er fullkomið umhverfi fyrir þá til að gera eins og þeim sýnist.
Að taka framförum í ljósinu
12. Hvaða gagn höfum við haft af því að koma til ljóssins?
12 Hvaða breytingar höfum við séð í fari okkar síðan við kynntumst ljósinu? Stundum er hollt að líta um öxl og rekja hinar andlegu framfarir sem við höfum tekið. Hvaða ósiðum höfum við hætt? Hvaða vandamál í lífinu höfum við getað leiðrétt? Hvernig hafa framtíðaráform okkar breyst? Í krafti Jehóva og með hjálp heilags anda getum við haldið áfram að breyta persónuleika okkar og hugsunarhætti þannig að ljóst megi vera að ljósið hefur áhrif á okkur. (Efesusbréfið 4:23, 24) Páll orðar það þannig: „Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. — Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.“ (Efesusbréfið 5:8, 9) Með því að láta ljós Jehóva leiða okkur öðlumst við von og markmið og auðgum líf þeirra sem við umgöngumst. Og við gleðjum hjarta Jehóva svo sannarlega með því að gera þessar breytingar. — Orðskviðirnir 27:11.
13. Hvernig getum við sýnt að við séum þakklát fyrir ljós Jehóva og hvað þarf til að gera það?
13 Við sýnum þakklæti okkar fyrir hamingjuna og gleðina, sem við njótum, með því að endurspegla ljós Jehóva — með því að segja ættingjum, vinum og nágrönnum frá því sem við höfum lært í Biblíunni. (Matteus 5:12-16; 24:14) Prédikun okkar og kristilegt líferni er síðan eins og áminning til þeirra sem vilja ekki hlusta. Páll segir: „Metið rétt, hvað Drottni þóknast. Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim.“ (Efesusbréfið 5:10, 11) Það kostar hugrekki að hjálpa öðrum að yfirgefa myrkrið og velja ljósið. En miklu fremur þurfum við að sýna þeim umhyggju og langa innilega til að miðla þeim af ljósi sannleikans svo að þeir njóti góðs af um eilífð. — Matteus 28:19, 20.
Vörumst villuljós
14. Eftir hvaða viðvörun ættum við að fara varðandi ljós?
14 Ljós er kærkomin sjón eftir langa siglingu í myrkri. Forðum daga voru kveikt bál á klettum uppi á ströndum Englands til að vísa skipum á lægi í stormum. Sjófarendur voru þakklátir fyrir ljósið sem vísaði þeim í örugga höfn. En stundum voru kveikt villuljós. Í stað þess að finna örugga höfn voru sjómenn ginntir upp að klettóttri strönd þar sem skipið fórst og farminum var stolið. Við verðum að gæta þess að láta ekki villuljós þessa heims tæla okkur svo að við bíðum andlegt skipbrot. „Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd,“ er okkur sagt. Þjónar hans, þeirra á meðal fráhvarfsmenn, eru sömuleiðis „svikulir verkamenn“ sem ‚taka á sig mynd réttlætisþjóna.‘ Ef við hugleiddum falsrök þeirra gæti traust okkar á sannleiksorði Jehóva, Biblíunni, dvínað og trúin dáið. — 2. Korintubréf 11:13-15; 1. Tímóteusarbréf 1:19.
15. Hvað hjálpar okkur að halda okkur á veginum til lífsins?
15 Sálmaritarinn skrifaði: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ (Sálmur ) Jehóva, okkar ástríki Guð, sér til þess að ‚mjói vegurinn sem liggur til lífsins‘ er vel upplýstur, enda vill hann að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ ( 119:105Matteus 7:14; 1. Tímóteusarbréf 2:4) Að fara eftir lífsreglum Biblíunnar verndar okkur svo að við villumst ekki út af mjóa veginum út á brautir myrkursins. Páll skrifaði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Við lærum af orði Guðs jafnframt því sem við vöxum andlega. Við getum vandað um við sjálf okkur í ljósi Biblíunnar eða, ef þörf krefur, fengið umvöndun hjá kærleiksríkum hirðum safnaðarins. Við getum einnig leiðrétt okkur og þegið menntun í réttlæti til að halda okkur á veginum til lífsins.
Göngum þakklát í ljósinu
16. Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar fyrir hið undursamlega ljós Jehóva?
16 Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar fyrir hið dásamlega ljós sem Jehóva sendir? Í 9. kafla hjá Jóhannesi segir frá því er Jesús læknaði mann sem fæddist blindur og maðurinn sýndi þakklæti sitt með því að trúa á Jesú sem son Guðs og benda öðrum á að hann væri „spámaður.“ Og hann andmælti djarfmannlega þeim sem reyndu að gera lítið úr kraftaverki Jesú. (Jóhannes 9:17, 30-34) Pétur postuli kallar hina smurðu í kristna söfnuðinum ‚eignarlýð.‘ Hvers vegna? Vegna þess að þeir sýna sama þakklæti og maðurinn sem fæddist blindur en læknaðist. Þeir sýna Jehóva, hinum góðgjarna Guði, þakklæti sitt með því að ‚víðfrægja dáðir hans sem kallaði þá frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.‘ (1. Pétursbréf 2:9; Kólossubréfið 1:13) Þeir sem hafa jarðneska von eru sömuleiðis þakklátir og þeir styðja smurða bræður sína með því að boða „dáðir“ Jehóva vítt og breitt. Þetta er ómetanlegt tækifæri sem Guð veitir ófullkomnum mönnum.
17, 18. (a) Hvaða ábyrgð hvílir á hverjum og einum? (b) Hvað eru kristnir menn hvattir til að forðast, líkt og Tímóteus?
17 Það er ákaflega mikilvægt að vera innilega þakklát fyrir ljós sannleikans. Munum að ekkert okkar þekkir sannleikann frá fæðingu. Sumir læra hann á fullorðinsaldri og eru fljótir að koma auga á yfirburði ljóssins yfir myrkrið. Aðrir búa við þá sérstöðu að alast upp á guðræknu heimili. Þeim gæti hætt til að líta á ljósið sem sjálfsagðan hlut. Stúlka, sem ólst upp í sannleikanum, viðurkennir að það hafi kostað sig langan tíma og mikla vinnu að skilja til fulls gildi og þýðingu þeirra sanninda sem hún hafði lært frá barnæsku. Hvort sem við erum ung eða gömul þurfum við öll að læra að meta mjög mikils þann sannleika sem Jehóva hefur opinberað.
18 Hinn ungi Tímóteus hafði verið fræddur í ‚heilagri ritningu‘ frá barnæsku en hann þurfti sjálfur að leggja sig fram í þjónustunni til að ná kristnum þroska. (2. Tímóteusarbréf 3:15) Þá fyrst var hann fær um að aðstoða Pál postula sem hvatti hann: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ Líkt og Tímóteus skulum við öll forðast að gera nokkuð sem við gætum þurft að skammast okkar fyrir — eða gæti valdið því að Jehóva skammaðist sín fyrir okkur! — 2. Tímóteusarbréf 2:15.
19. (a) Hvaða orð Davíðs höfum við öll ástæðu til að taka undir? (b) Um hvað er fjallað í greininni á eftir?
19 Við höfum ærna ástæðu til að lofa Jehóva sem gaf okkur sannleiksljósið. Við segjum eins og Davíð konungur: „Þú ert lampi minn, [Jehóva], Guð minn lýsir mér í myrkrinu.“ (2. Samúelsbók 22:29) En við vogum okkur ekki að vera andvaralaus því að það gæti orðið til þess að við leiddumst aftur út í myrkrið sem okkur hefur verið bjargað frá. Greinin á eftir hjálpar okkur að leggja mat á hve mikla áherslu við gefum sannleikanum í lífi okkar.
Hvað hefurðu lært?
• Hvernig upplýsir Jehóva okkur andlega?
• Hvaða áskorun er fólgin í hinu andlega myrkri umhverfis okkur?
• Hvaða hættur þurfum við að forðast?
• Hvernig getum við sýnt að við séum þakklát fyrir ljós sannleikans?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 9]
Jehóva er uppspretta bókstaflegs og andlegs ljóss.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Jesús hjálpar okkur að yfirgefa andlega myrkrið skref fyrir skref, líkt og hann veitti blindum manni sjónina smám saman.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Það er ávísun á andlegt skipbrot að láta blekkjast af villuljósum Satans.