Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Notaðu hugann og hjartað til að leita Guðs

Notaðu hugann og hjartað til að leita Guðs

Notaðu hugann og hjartað til að leita Guðs

Sönn kristni hvetur fólk til þess að nota bæði hugann og hjartað til að byggja upp trú sem er Guði að skapi.

JESÚS KRISTUR, stofnandi kristninnar, kenndi jafnvel að við ættum að elska Guð af „öllum huga,“ eða vitsmunum, auk þess að elska hann af „öllu hjarta“ og „allri sálu.“ (Matteus 22:37) Já, hugurinn verður að gegna lykilhlutverki í tilbeiðslu okkar.

Oft spurði Jesús áheyrendur sína: „Hvað virðist yður?“ og hvatti þá þannig til að hugleiða það sem hann kenndi. (Matteus 17:25; 18:12; 21:28; 22:42) Pétur postuli hvatti trúsystkini sín til að ‚vera reiðubúin að færa rök fyrir von sinni.‘ (1. Pétursbréf 3:15) Páll postuli, sem ferðaðist mest af öllum trúboðum síns tíma, hvatti kristna menn til að nota ‚skynsemina‘ og „reyna hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:1, 2, Biblían 1912) Kristnir menn þurfa sem sagt að rannsaka málin vel og rækilega til að byggja upp trú sem er Guði að skapi og gerir þeim kleift að takast á við vandamál lífsins. — Hebreabréfið 11:1, 6.

Frumkristnir trúboðar hjálpuðu fólki að byggja upp slíka trú með því að ‚ræða við það og leggja út af ritningunum, ljúka þeim upp fyrir því‘ og sanna með tilvitnunum það sem þeir kenndu. (Postulasagan 17:1-3) Þessi skynsamlega aðferð vakti góð viðbrögð hjartahreinna manna. Fjöldi fólks í makedónsku borginni Beroju ,tók til dæmis við orðinu með mjög fúsu geði og rannsakaði daglega ritningarnar hvort þessu [sem Páll og félagar hans voru að útskýra] væri þannig farið.‘ (Postulasagan 17:11, Biblían 1912) Hér er tvennt sem mikilvægt er að taka eftir. Í fyrsta lagi voru Berojubúar mjög fúsir til að hlusta á orð Guðs og í öðru lagi gerðu þeir ekki bara ráð fyrir að það sem þeir heyrðu væri rétt heldur notuðu þeir ritningarnar til að staðfesta það. Kristni trúboðinn Lúkas hrósaði Berojumönnum fyrir þetta og sagði þá ‚veglynda.‘ Nálgast þú andleg mál með þessu hugarfari?

Hugur og hjarta vinna saman

Eins og minnst var á fyrr í greininni snertir sönn tilbeiðsla bæði hugann og hjartað. (Markús 12:30) Leiddu hugann aftur að líkingunni í greininni á undan um málarann sem ráðinn var til að mála hús en notaði ranga liti. Ef hann hefði hlustað vandlega á fyrirmæli vinnuveitandans hefði hann getað unnið verkið heilshugar og verið fullviss um að eigandinn yrði ánægður með það. Það sama á við um tilbeiðslu okkar.

Jesús sagði: „Hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:23) Því skrifaði Páll postuli: „Höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans, svo að þér hegðið yður eins og [Jehóva] er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.“ (Kólossubréfið 1:9, 10) Þessi ‚þekking‘ gerir einlægum mönnum kleift að tilbiðja Guð af heilum huga og öryggi af því að þeir ‚tilbiðja það sem þeir þekkja.‘ — Jóhannes 4:22.

Af þessum sökum skíra vottar Jehóva ekki ungbörn eða fólk sem nýlega hefur fengið áhuga á trúnni en hefur ekki kynnt sér ritningarnar vandlega. Jesús sagði fylgjendum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Einlægir biblíunemendur verða að afla sé nákvæmrar þekkingar á vilja Guðs áður en þeir geta tekið upplýsta ákvörðun í sambandi við tilbeiðslu. Leggur þú þig allan fram um að afla þér slíkrar þekkingar?

Að skilja faðirvorið

Til að sjá muninn á því að hafa nákvæma þekkingu á Biblíunni og að kannast lítillega við það sem hún segir skulum við skoða bæn sem oftast er kölluð faðirvorið og skráð er í Matteusi 6:9-13.

Milljónir manna fara reglulega með fyrirmyndarbæn Jesú í kirkju. En hversu mörgum hefur verið kennt hvað hún þýðir og þá sérstaklega fyrsti hluti hennar sem fjallar um nafn Guðs og ríki? Þetta eru svo mikilvæg málefni að Jesús nefnir þau fyrst í bæninni.

Bænin byrjar svona: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ Þú tekur eftir að Jesús sagði okkur að biðja þess að nafn Guðs yrði helgað. Hjá mörgum vekur þetta að minnsta kosti tvær spurningar. Í fyrsta lagi, hvert er nafn Guðs? Og í öðru lagi, af hverju þarf að helga það?

Svarið við fyrri spurningunni er að finna á yfir 7000 stöðum í Biblíunni á upprunalegu tungumálunum. Einn staðurinn er í Sálmi 83:19: „Að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Jahve, hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ (Biblían 1908) Önnur Mósebók 3:15 talar um nafn Guðs, Jahve eða Jehóva, og segir: „Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns.“ * En Guð er ímynd alls sem er hreint og heilagt. Af hverju þarf þá að helga nafn hans? Af því að allt frá upphafi mannkynssögunnar hefur það verið smánað og rægt.

Í Eden sagði Guð Adam og Evu að þau myndu deyja ef þau borðuðu forboðna ávöxtinn. (1. Mósebók 2:17) Satan andmælti Guði blygðunarlaust og sagði Evu: „Vissulega munuð þið ekki deyja!“ Þar með ásakaði hann Guð um lygi. En hann lét ekki þar við sitja. Hann hélt áfram að rægja nafn Guðs og sagði Evu að Guð væri óréttlátur og væri að synja henni um dýrmæta þekkingu. „En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af [skilningstrénu góðs og ills], munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ Hvílíkur rógur! — 1. Mósebók 3:4, 5.

Þegar Adam og Eva borðuðu forboðna ávöxtinn tóku þau afstöðu með Satan. Síðan þá hafa flestir menn aukið við þennan upprunalega róg, vitandi eða óafvitandi, með því að hafna réttlátum stöðlum Guðs. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Fólk er enn að rægja Guð með því að kenna honum um erfiðleika sína — jafnvel þótt þeir séu sjálfskaparvíti. „Flónska mannsins eyðir efnum hans en hjarta kennir Drottni um,“ segja Orðskviðirnir 19:3. (Biblíurit, ný þýðing 1998) Sérðu af hverju Jesús, sem elskaði föður sinn, bað þess að nafn hans yrði helgað?

„Til komi þitt ríki“

Eftir að hafa beðið þess að nafn Guðs yrði helgað sagði Jesús: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Í þessu sambandi mætti spyrja: ‚Hvað er ríki Guðs? Og hvernig tengist það því að vilji Guðs verði gerður á jörðinni?‘

Í Biblíunni þýðir orðið „ríki“ í grundvallaratriðum „stjórn í höndum konungs.“ Það væri því rökrétt að hugsa sem svo að Guðsríki sé stjórn eða ríkisstjórn Guðs í höndum konungs sem hann velur. Þessi konungur er enginn annar er hinn upprisni Jesús Kristur — „Konungur konunga og Drottinn drottna.“ (Opinberunarbókin 19:16; Daníel 7:13, 14) Spámaðurinn Daníel skrifaði um messíasarríki Guðs í höndum Jesú Krists: „Á dögum þessara konunga [ríkisstjórna manna sem nú eru] mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.

Já, Guðsríki mun taka völdin yfir jörðinni, losa hana við alla vonda menn og ríkja „að eilífu.“ Þannig mun Jehóva nota ríki sitt til að helga nafn sitt og hreinsa það af öllum lygum og svívirðingum Satans og vondra manna. — Esekíel 36:23.

Guðsríki á sér líka þegna eins og allar ríkisstjórnir. Hverjir eru þeir? Biblían svarar: „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:11) Jesús sagði líka: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ Þetta hógværa fólk mun auðvitað hafa nákvæma þekkingu á Guði en það er skilyrði fyrir því að fá að lifa. — Matteus 5:5; Jóhannes 17:3.

Geturðu ímyndað þér alla jörðina fulla af hógværu fólki sem elskar Guð og hvert annað? (1. Jóhannesarbréf 4:7, 8) Það var þetta sem Jesús var að biðja um er hann sagði: „Til komi þitt ríki. Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.“ Skilurðu af hverju Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja svona? Og gerirðu þér enn fremur grein fyrir því hvernig uppfylling þessarar bænar getur haft áhrif á þig persónulega?

Milljónir manna eru að rannsaka ritningarnar núna

Jesús boðaði mikið fræðsluátak þar sem ríki Guðs yrði kunngert um allan heim. Hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn [á núverandi heimi eða heimskerfi] koma.“ — Matteus 24:14.

Um sex milljónir votta Jehóva út um allan heim miðla þessu fagnaðarerindi til nágranna sinna. Þeir hvetja þig til að læra meira um Guð og ríki hans með því að nota rökhugsunina og ‚rannsaka ritningarnar.‘ Það mun styrkja trú þína og auka þér gleði er þú hugsar til vonarinnar um líf í paradís á jörð sem verður „full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ — Jesaja 11:6-9.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Sumir fræðimenn kjósa nafnmyndina „Jahve“ í stað „Jehóva“ en síðari myndin er þekktari. Hins vegar hafa flestir nútímabiblíuþýðendur fjarlægt nafn Guðs algerlega úr þýðingum sínum og sett almennu titlana „Drottinn“ eða „Guð“ í staðinn. Nánari útskýringu á nafni Guðs er að finna í bæklingnum Nafn Guðs sem vara mun að eilífu, gefinn út af Vottum Jehóva.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 8]

Líktu Eftir Kennaranum Mikla

Jesús beindi oft athyglinni að ákveðnu biblíulegu málefni þegar hann kenndi. Eftir að hann reis upp talaði hann til dæmis við tvo lærisveina, sem voru ráðvilltir vegna dauða hans, og útskýrði hvert hlutverk sitt væri í tilgangi Guðs. Lúkas 24:27 segir: „Hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.“

Þú tekur eftir að Jesús valdi sértakt umræðuefni — sjálfan sig, Messías — og í umræðu sinni vitnaði hann í ‚allar ritningarnar.‘ Jesús raðaði saman viðeigandi ritningarstöðum eins og bútum í púsluspili og þannig gátu lærisveinarnir séð skýra heildarmynd andlegra sanninda. Þar af leiðandi fengu þeir ekki aðeins fræðslu heldur voru einnig djúpt snortnir. Frásagan segir: „Og þeir sögðu hvor við annan: ‚Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?‘“ — Lúkas 24:32.

Í þjónustu sinni reyna vottar Jehóva að líkja eftir aðferðum Jesú. Helstu kennslugögn þeirra eru bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur? og bókin Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Þessi kennslugögn fjalla um athyglisverð biblíuleg málefni eins og „Hver er Guð?,“ „Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?,“ „Hvernig getur þú fundið hina sönnu trú?,“ „Núna eru síðustu dagar!“ og „Fjölskylda sem er Guði til heiðurs.“ Í hverjum kafla eru margir ritningarstaðir.

Þér er velkomið að hafa samband við Votta Jehóva til að biðja um ókeypis heimabiblíunámskeið. Þannig geturðu fengið nánari upplýsingar um þessi mál og önnur. Þú getur notað heimilisfangið á blaðsíðu 2 í þessu blaði.

[Mynd]

Náðu til hjarta nemandans með því að beina athyglinni að ákveðnu biblíulegu málefni.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Skilur þú fyrirmyndarbæn Jesú?

„Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn . . .“

„Til komi þitt ríki [í höndum Messíasar] . . .“

„Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“