Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ýmsar algengar hugmyndir um dauðann

Ýmsar algengar hugmyndir um dauðann

Ýmsar algengar hugmyndir um dauðann

Í ALDANNA rás hefur maðurinn staðið ráðþrota og kvíðinn frammi fyrir hinni dapurlegu tilhugsun um dauðann. Þar að auki hefur samtíningur af röngum trúarhugmyndum, vinsælum hefðum og rótgrónum skoðunum kynt undir ótta við dauðann. En vandamálið er að ótti við dauðann getur gert menn ófæra um að njóta lífsins og eyðilagt tiltrú þeirra á að lífið hafi tilgang.

Ráðandi trúarbrögð eru sérstaklega ámælisverð fyrir að ýta undir margar vinsælar ranghugmyndir um dauðann. Þegar þú skoðar nokkrar þessara hugmynda í sannleiksljósi Biblíunnar skaltu athuga hvort skilningur þinn á dauðanum skýrist.

1. hugmynd: Dauðinn er eðlilegur endir lífsins.

„Dauðinn . . . er óaðskiljanlegur þáttur lífsins,“ segir í bókinni Death — The Final Stage of Growth. Athugasemdir eins og þessi endurspegla þá trú að dauðinn sé eðlileg endalok allra lifandi vera. Slík trú hefur ýtt undir róttæka efahyggju og hentistefnu hjá mörgum.

En er dauðinn eðlilegur endir lífsins? Það eru ekki allir rannsóknarmenn á þeirri skoðun. Calvin Harley er líffræðingur sem rannsakar öldrun mannsins og í viðtali sagðist hann til dæmis ekki trúa því að mennirnir „séu forritaðir til að deyja.“ Ónæmisfræðingurinn William Clark sagði: „Dauðinn þarf ekki að vera samtvinnaður skilgreiningunni á lífinu.“ Og Seymor Benzer við California Institute of Technology segir: „Öldrun ætti ekki að lýsa sem klukku heldur atburðarás sem við getum vonast til að breyta.“

Hönnun mannsins er vísindamönnum ráðgáta. Þeir sjá að manninum er gefin miklu meiri hæfni og geta en hann þarf að nota á 70 til 80 ára ævi. Þeir hafa til dæmis komist að raun um að mannsheilinn hefur gríðarlega minnisgetu. Einn rannsóknarmaður hefur áætlað að mannsheilinn geti geymt upplýsingar sem „myndu fylla um tuttugu milljónir bóka, álíka margar og eru í stærstu bókasöfnum heims.“ Það er mat sumra taugavísindamanna að meðalmaður noti á ævinni aðeins 1/100 úr prósenti (0,0001) af getu heilans. Það er því viðeigandi að spyrja: Hvers vegna erum við með svona öflugan heila fyrst við notum ekki nema örlítið brot af honum á venjulegri mannsævi?

Hugleiddu líka hversu óeðlilega menn bregðast við dauðanum. Dauði eiginkonu, eiginmanns eða barns er sennilega mesta áfall sem fólk getur orðið fyrir á ævinni. Fólk er oft lengi að ná sér eftir að náinn ástvinur deyr. Jafnvel þeir sem segja að dauðinn sé manninum eðlilegur eiga erfitt með að kyngja því að þeirra eigin dauði sé endir alls. Tímaritið British Medical Journal talaði um þá „almennu ályktun sérfræðinga að allir vilji lifa eins lengi og mögulegt er.“

Þegar við hugleiðum almenn viðbrögð mannsins við dauðanum, ótrúlega hæfni hans til að muna og læra, og innri löngun hans til að vera eilífur, er þá ekki ljóst að hann var gerður til að lifa? Jú, þegar Guð skapaði manninn átti dauðinn ekki að vera hinn eðlilegi endir lífsins heldur átti maðurinn það fyrir höndum að lifa að eilífu. Taktu eftir þeirri framtíðarsýn sem Guð gaf fyrstu hjónunum: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:28) Þetta var stókostleg framtíðarsýn.

2. hugmynd: Fólk deyr af því að Guð tekur það til sín.

Tuttugu og sjö ára gömul móðir, sem var að deyja frá þrem börnum, sagði við kaþólska nunnu: „Ekki koma hingað og segja mér að þetta sé það sem Guð hafi ætlað mér. . . . Ég þoli ekki þegar fólk segir svona.“ Samt sem áður er þetta það sem mörg trúarbrögð kenna um dauðann — að fólk deyi af því að Guð taki það til sín.

Er skaparinn virkilega svo grimmur og tilfinningalaus að hann leggi þetta á okkur þegar hann veit hvað það veldur okkur mikilli sorg? Nei, ekki Guð Biblíunnar. Fyrsta Jóhannesarbréf 4:8 segir: „Guð er kærleikur.“ Taktu eftir því að það segir ekki að Guð sýni kærleika eða að hann sé kærleiksríkur, heldur að hann kærleikur. Kærleikur Guðs er svo mikill, svo tær og svo fullkominn og gagntekur persónuleika hans og verk svo algerlega að það er réttilega talað um Guð sem persónugerving kærleikans. Þetta er ekki Guð sem lætur fólk deyja svo að hann geti tekið það til sín.

Falstrúarbrögð hafa valdið miklum ruglingi um það hvað verði um fólk við dauðann. Staðir eins og himnaríki, helvíti, hreinsunareldur, forgarður vítis og ýmsir aðrir eru ýmist óskiljanlegir eða hreint út sagt skelfilegir. Á hinn bóginn segir Biblían að hinir dánu séu meðvitundarlausir; að ástandi þeirra mætti helst líkja við svefn. (Prédikarinn 9:5, 10; Jóhannes 11:11-14) Því þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því hvað verður um okkur þegar við deyjum, ekki frekar en það veldur okkur áhyggjum að sjá einhvern sofa værum svefni. Jesús talaði um þann tíma þegar „allir þeir, sem í gröfunum eru“ munu „ganga fram“ og lifna á ný í paradís á jörð. — Jóhannes 5:28, 29; Lúkas 23:43.

3. hugmynd: Guð tekur lítil börn og gerir þau að englum.

Elisabeth Kübler-Ross kynnti sér hegðun fólks með banvæna sjúkdóma og talaði um aðra algenga hugmynd sem trúað fólk hefur. Hún vitnaði í raunverulegt atvik og sagði að það væri „óskynsamlegt að segja lítilli stúlku, sem hefði misst bróður sinn, að Guð elskaði litla stráka svo mikið að hann hefði tekið Nonna litla til himna.“ Slíkar fullyrðingar varpa slæmu ljósi á Guð og gefa ranga mynd af persónuleika hans og hegðun. Kübler-Ross hélt áfram og sagði: „Þessi litla stúlka náði aldrei að vinna úr reiði sinni við Guð og það leiddi til þess að hún varð sjúklega þunglynd þegar hún missti ungan son sinn þrem áratugum síðar.“

Af hverju í ósköpunum ætti Guð að hrifsa til sín barn til að fá nýjan engil? Er líklegt að hann þurfi meira á barni að halda en foreldrar þess? Ef það væri satt að Guð tæki börnin, væri hann þá ekki kærleikslaus og sjálfselskur? Biblían segir þvert á móti að ‚kærleikurinn sé frá Guði kominn.‘ (1. Jóhannesarbréf 4:7) Myndi kærleiksríkur Guð valda missi sem fólk með minnstu sómatilfinningu myndi aldrei una?

En af hverju deyja þá börn? Hluta af svari Biblíunnar er að finna í Prédikaranum 9:11: „Tími og tilviljun mætir þeim öllum.“ Og Sálmur 51:7 segir okkur að við séum öll ófullkomin eða syndug frá fæðingu og að núna séu endalok allra manna dauði, hvernig sem hann ber að höndum. Stundum fæðast börn andvana og stundum lenda þau í slysum eða verða fyrir einhverjum hörmungum og deyja. Guð er ekki ábyrgur fyrir öllu því sem hugsanlega getur komið fyrir.

4. hugmynd: Sumir eru kvaldir eftir dauðann.

Mörg trúarbrögð kenna að hinir vondu fari í logandi víti og séu kvaldir að eilífu. Er þessi kenning rökrétt og biblíuleg? Æviskeið manna er takmarkað við 70 eða 80 ár. Jafnvel þótt einhver væri sekur um gríðarlega grimmd alla sína ævi er ekki hægt að segja að eilíf kvöl sé réttlát refsing. Það væri fullkomlega óréttlátt að kvelja mann að eilífu fyrir þær syndir sem hann framdi á stuttri ævi sinni.

Aðeins Guð getur upplýst okkur um það hvað gerist eftir að fólk deyr og hann hefur gert það í orði sínu Biblíunni. Biblían segir: „Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann . . . Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.“ (Prédikarinn 3:19, 20) Hér er hvergi minnst á logandi víti. Þegar menn deyja verða þeir aftur að moldu — þeir hætta að vera til.

Til að hægt sé að kvelja manneskju verður hún að hafa meðvitund. Hafa hinir dánu meðvitund? Enn á ný svarar Biblían: „Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist.“ (Prédikarinn 9:5) Hinir dánu geta ekki kvalist nokkurs staðar því að þeir „vita ekki neitt.“

5. hugmynd: Dauðinn er alger endir á tilveru okkar.

Við hættum að vera til þegar við deyjum en það þýðir ekki endilega að dauðinn sé endir alls. Hinn trúfasti Job vissi að hann færi í gröfina eða dánarheima þegar hann myndi deyja. En hlustaðu á bæn hans til Guðs: „Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum, fela mig, uns reiði þinni linnir, setja mér tímatakmark og síðan minnast mín! Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? . . . Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér.“ — Jobsbók 14:13-15.

Job trúði því að ef hann yrði trúfastur til dauða myndi Guð minnast hans og reisa hann síðan upp í fyllingu tímans. Þetta var trú allra þjóna Guðs til forna. Jesús sjálfur staðfesti þessa von og benti á að Guð myndi nota sig til að reisa hina dánu upp. Orð hans veita okkur þessa fullvissu: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [Jesú] og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ — Jóhannes 5:28, 29.

Innan tíðar fjarlægir Guð alla illsku og kemur á fót nýjum heimi sem lýtur himneskri stjórn. (Sálmur 37:10, 11; Daníel 2:44; Opinberunarbókin 16:14, 16) Þetta leiðir til þess að öll jörðin verður paradís, byggð fólki sem þjónar Guði. Í Biblíunni lesum við: „Ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: ‚Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

Frjáls undan ótta

Þekking á upprisuvoninni og þekking á þeim sem hefur gefið okkur þessa von getur verið huggun. Jesús lofaði: ‚Þið munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera ykkur frjáls,‘ þar á meðal frjáls undan ótta við dauðann. (Jóhannes 8:31, 32) Jehóva Guð er sá eini sem getur breytt ferli öldrunar og dauða og veitt okkur eilíft líf. Er hægt að trúa loforðum Guðs? Já, það er hægt því að orð Guðs rætist alltaf. (Jesaja 55:11) Við hvetjum þig til að læra meira um tilgang Guðs með mannkynið. Vottar Jehóva munu glaðir hjálpa þér.

[Innskot á blaðsíðu 6]

Vandamálið er að ótti við dauðann getur komið í veg fyrir að við njótum lífsins.

[Rammi á blaðsíðu 7]

NOKKRAR ALGENGAR HUGMYNDIR UM DAUÐANN HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Dauðinn er eðlilegur endir lífsins. 1. Mósebók 1:28; 2:17;

Rómverjabréfið 5:12

Fólk deyr af því að Guð tekur Jobsbók 34:15; Sálmur

það til sín. 37:11, 29;

115:16

Guð tekur lítil börn og Sálmur 51:7;

gerir þau að englum. Hebreabréfið 1:7, 14

Sumir eru kvaldir eftir Sálmur 146:4;

daudann. Prédikarinn 9:5, 10

Rómverjabréfið 6:23

Dauðinn er alger endir á Jobsbók 14:14, 15;

tilveru okkar. Jóhannes 3:16; 17:3;

Postulasagan 24:15

[Mynd á blaðsíðu 8]

Sannleikurinn um dauðann frelsar okkur undan ótta.

[Mynd credit line á blaðsíðu 5]

Barrators — Giampolo/The Doré Illustrations For Dante’s Divine Comedy/Dover Publications Inc.