Láttu meginreglur Guðs stýra skrefum þínum
Láttu meginreglur Guðs stýra skrefum þínum
„Ég, [Jehóva] . . . kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt.“ — JESAJA 48:17.
1. Hvernig leiðir skaparinn mennina?
ER VÍSINDAMENN strita við að ljúka upp leyndardómum alheimsins undrast þeir hið gífurlega afl sem í honum býr. Sólin okkar er meðalstór stjarna en framleiðir orku sem samsvarar því að „sprengdir séu 100 milljarðar vetnissprengna á sekúndu.“ Skaparinn býr yfir ótakmörkuðu afli til að stjórna og stýra þessum miklu himintunglum. (Jobsbók 38:32; Jesaja 40:26) En hvað um okkur mennina sem höfum frjálsan vilja, siðferðisvitund og rökhyggju og erum færir um að skilja andleg málefni? Hvernig hefur skaparinn kosið að leiða okkur? Hann gerir það á kærleiksríkan hátt með fullkomnum lögum sínum og háleitum meginreglum, auk vel þjálfaðrar samvisku okkar. — 2. Samúelsbók 22:31; Rómverjabréfið 2:14, 15.
2, 3. Af hvers konar hlýðni hefur Guð yndi?
2 Guð hefur yndi af viti bornum sköpunarverum sem velja að þjóna honum. (Orðskviðirnir 27:11) Hann gerði okkur ekki þannig úr garði að við hlýddum honum í blindni eins og heilalaus vélmenni heldur gaf hann okkur frjálsan vilja þannig að við gætum ákveðið vitandi vits að gera það sem rétt er. — Hebreabréfið 5:14.
3 Jesús, sem var fullkomin spegilmynd föður síns, sagði lærisveinunum: „Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna.“ (Jóhannes 15:14, 15) Þjónn eða þræll í heimi fornaldar átti um lítið annað að velja en að hlýða skipunum herra síns. Vinátta er hins vegar byggð á eiginleikum sem höfða til hjartans. Við getum verið vinir Jehóva. (Jakobsbréfið 2:23) Þessi vinátta styrkist af gagnkvæmum kærleika. Jesús setti hlýðni við Guð í samband við kærleika er hann sagði: „Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann.“ (Jóhannes 14:23) Jehóva býður okkur að lifa eftir meginreglum sínum af því að hann elskar okkur og vill leiðbeina okkur.
Meginreglur Guðs
4. Hvað er meginregla?
4 Hvað er meginregla? Meginregla er grundvallarsannindi eða almennt viðurkennd sannindi, almenn grundvallarregla, kennisetning eða forsenda sem aðrar reglur eða forsendur eru byggðar á. Nákvæm athugun á Biblíunni leiðir í ljós að faðirinn á himnum lætur okkur í té meginreglur sem ná yfir margs konar aðstæður og svið í lífinu. Þetta gerir hann með eilífa velferð okkar í huga, og það er í samræmi við orð hins vitra Salómons konungs: „Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum, þá munu æviár þín mörg verða. Ég vísa þér veg spekinnar, leiði þig á brautir ráðvendninnar.“ (Orðskviðirnir 4:10, 11) Helstu meginreglurnar, sem Jehóva lætur í té, lúta að sambandi okkar við hann og við aðra menn, tilbeiðslu okkar og daglegu lífi. (Sálmur 1:1) Við skulum líta á nokkrar af þessum aðalfrumreglum.
5. Nefndu dæmdi um nokkrar mikilvægar meginreglur.
5 Jesús sagði um samband okkar við Jehóva: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:37) Auk þess lætur Guð okkur í té meginreglur um samskipti við aðra menn, svo sem gullnu regluna: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12; Galatabréfið 6:10; Títusarbréfið 3:2) Um tilbeiðslu er okkur gefin þessi hvatning: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Páll postuli segir um daglega lífið: „Hvort sem þér . . . etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ (1. Korintubréf 10:31) Orð Guðs hefur að geyma margar fleiri meginreglur.
6. Hver er munurinn á meginreglum og lögum?
6 Meginreglur eru virk frumsannindi og það er viturlegt af kristnum mönnum að læra að elska þær. Jehóva innblés Salómon að skrifa: „Gef gaum að ræðu minni, hneig eyra þitt að orðum mínum. Lát þau eigi víkja frá augum þínum, varðveit þau innst í hjarta þínu. Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra.“ (Orðskviðirnir 4:20-22) Munurinn á meginreglum og lögum er sá að lögin eru byggð á meginreglunum. Reglur eru oft sértækar eða bundnar ákveðnum tíma eða aðstæðum en meginreglur eru eilífar. (Sálmur 119:111) Meginreglur Guðs úreldast ekki eða falla úr gildi. Hin innblásnu orð spámannsins Jesaja eru dagsönn: „Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega.“ — Jesaja 40:8.
Hugsaðu og breyttu miðað við meginreglur
7. Hvernig hvetur orð Guðs okkur til að hugsa og breyta miðað við meginreglur?
7 „Orð Guðs vors“ hvetur okkur æ ofan í æ til þess að hugsa og breyta miðað við meginreglur. Þegar Jesús var beðinn að benda á kjarna lögmálsins kom hann með tvær gagnorðar staðhæfingar. Önnur lagði áherslu á að elska Jehóva, hin á að elska náungann. (Matteus 22:37-40) Jesús vitnaði þarna að hluta til í eldri samantekt á meginákvæðum Móselaganna sem er að finna í 5. Mósebók 6:4, 5: „[Jehóva] er vor Guð; hann einn er [Jehóva]! Þú skalt elska [Jehóva] Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ Jesús virðist einnig hafa haft í huga fyrirmæli Guðs í 3. Mósebók 19:18. Salómon konungur dregur saman mörg af lögum Guðs í skýrum, gagnorðum og kröftugum niðurlagsorðum Prédikarans: „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra. Því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.“ — Prédikarinn 12:13, 14; Míka 6:8.
8. Hvers vegna er það vernd að hafa góðan skilning á mikilvægustu meginreglum Biblíunnar?
8 Góður skilningur á slíkum meginreglum getur auðveldað okkur að skilja sértækari fyrirmæli. Og ef við skiljum meginreglurnar ekki fullkomlega eða viðurkennum þær ekki er hætta á að við getum ekki tekið skynsamlegar ákvarðanir og það gæti hrikt í stoðum trúarinnar. (Efesusbréfið 4:14) Ef við festum slíkar meginreglur í huga og hjarta erum við hins vegar tilbúin til að beita þeim þegar við tökum ákvarðanir. Þær stuðla að farsæld ef við beitum þeim af skilningi. — Jósúabók 1:8; Orðskviðirnir 4:1-9.
9. Af hverju getur verið erfitt að koma auga á meginreglur Biblíunnar og beita þeim?
9 Það er ívið erfiðara að koma auga á meginreglur og beita þeim en að fylgja lögum. Ófullkomnir menn veigra sér kannski við þeirri áreynslu sem það kostar að rökhugsa út frá meginreglum. Kannski þykir okkur þægilegra að hafa reglu til að fara eftir þegar við þurfum að taka ákvörðun eða eigum í valþröng. Við leitum kannski ráða hjá þroskuðum trúbróður — til dæmis safnaðaröldungi — og vonumst til að hann gefi okkur ákveðna reglu um málið. En nú er það kannski svo að hvorki Biblían né biblíutengd rit setja ákveðna reglu, og jafnvel þótt við fengjum hana myndi hún ekki alltaf eiga við eða gilda undir öllum kringumstæðum. Þú manst kannski að maður nokkur bað Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“ En í stað þess að fella snarlega úrskurð í bræðradeilunni gaf Jesús honum almennari meginreglu: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd.“ Þannig gaf hann meginreglu sem kom að gagni þá og gerir enn. — Lúkas 12:13-15.
10. Hvernig leiða meginreglur í ljós hvaða hvatir búa í hjarta okkar?
10 Sennilega kannast þú við fólk sem hlýðir lögum aðeins af því að það óttast refsingu. Að virða meginreglur fyrirbyggir slíka afstöðu. Meginreglur eru í eðli sínu þannig að þær hreyfa við hjartanu hjá þeim sem hafa þær að leiðarljósi. Þær eru reyndar sjaldan þess eðlis að það sé refsað tafarlaust fyrir að fylgja þeim ekki. Þetta gefur okkur tækifæri til að sýna hvers vegna við hlýðum Jehóva, að sýna hvaða hvatir búa í hjartanu. Jósef er athyglisvert dæmi um það en hann stóð gegn siðlausum umleitunum eiginkonu Pótífars. Þó að Jehóva hefði enn ekki bannað hjúskaparbrot með skriflegum lögum, og þó svo að 1. Mósebók 2:24; 12:18-20) Það má sjá af svari hans að slíkar meginreglur höfðu sterk áhrif á hann: „Hvernig skyldi ég . . . aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ — 1. Mósebók 39:9.
hann hefði ekki fyrirskipað neina refsingu fyrir að eiga mök við konu annars manns, var Jósef sér meðvita um meginreglur Guðs varðandi tryggð í hjónabandi. (11. Á hvaða sviðum vilja kristnir menn hafa meginreglur Jehóva að leiðarljósi?
11 Kristnir menn vilja hafa meginreglur Jehóva að leiðarljósi í einkamálum sínum, svo sem við val á vinum, skemmtiefni, tónlist og lesefni. (1. Korintubréf 15:33; Filippíbréfið 4:8) Þegar við vöxum í þekkingu og skilningi og förum að elska Jehóva og meginreglur hans hjálpar samviskan, það er siðferðisvitundin, okkur að beita þeim undir öllum kringumstæðum, einnig í mjög persónulegum málum. Þegar við höfum meginreglur Biblíunnar að leiðarljósi leitum við ekki að smugum í lögum Guðs. Við líkjum ekki eftir þeim sem reyna að fara út á ystu nöf án þess að brjóta bókstaflega ákveðin lagaákvæði. Við gerum okkur grein fyrir því að slíkur hugsunarháttur er bæði skaðlegur og vinnur á móti okkur. — Jakobsbréfið 1:22-25.
12. Hver er lykillinn að því að lifa samkvæmt meginreglum?
12 Þroskaðir kristnir menn vita að löngunin til að þekkja afstöðu Jehóva er mikilvæg hjálp til að fylgja meginreglum hans. „[Jehóva] elskar þá er hata hið illa,“ segir sálmaritarinn. (Sálmur 97:10) Orðskviðirnir 6:16-19 tíunda sumt af því sem Guð kallar illt: „Sex hluti hatar [Jehóva] og sjö eru sálu hans andstyggð: drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði, hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka, ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra.“ Þegar löngunin til að lifa í samræmi við sjónarmið Jehóva til þessara grundvallaratriða ræður ferðinni, þá verður okkur tamt að lifa samkvæmt meginreglum. — Jeremía 22:16.
Góðar hvatir eru nauðsynlegar
13. Á hvers konar hugsunarhátt lagði Jesús áherslu í fjallræðunni?
13 Að þekkja meginreglur og fylgja þeim er einnig vernd gegn innantómri sýndartilbeiðslu. Það er munur á því að fylgja meginreglum og hlýða lagabókstaf í blindni. Það kom skýrt fram í fjallræðu Jesú. (Matteus 5:17-48) Við munum að áheyrendur Jesú voru Gyðingar, þannig að þeir hefðu átt að hegða sér í samræmi við Móselögin. Hins vegar höfðu þeir stórbrenglaða mynd af lögmálinu og lögðu áherslu á bókstafinn en ekki andann í því. Og þeir höfðu erfðavenjur sínar í slíkum hávegum að þeir létu þær ganga fyrir kenningu Guðs. (Matteus 12:9-12; 15:1-9) Þetta hafði þær afleiðingar að almenningi var ekki kennt að hugsa út frá meginreglum.
14. Hvernig hjálpaði Jesús áheyrendum sínum að hugsa út frá meginreglum?
14 Í fjallræðunni benti Jesús hins vegar á Matteus 5:28.
meginreglur sem tóku til fimm þátta í siðferðismálum: reiði, hjónabands og skilnaðar, loforða, hefndar, og kærleika og haturs. Í öllum tilfellum benti hann á kosti þess að fylgja meginreglu. Þannig lyfti hann siðferðisstöðlum fylgjenda sinna á æðra plan. Hann setti til dæmis meginreglu varðandi hórdóm sem nær ekki aðeins til sjálfs verknaðarins heldur einnig til hugsana og langana: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ —15. Hvernig getum við forðast sérhverja tilhneigingu til blindrar hlýðni við lagabókstaf?
15 Þetta dæmi sýnir vel að við megum aldrei missa sjónar á anda og markmiði meginreglna Jehóva. Við ættum alls ekki að reyna að ávinna okkur velvild Guðs með því að leggja áherslu á ytra formið í siðferðismálum. Jesús sýndi fram á rökvilluna í slíkri afstöðu með því að benda á miskunn Guðs og kærleika. (Matteus 12:7; Lúkas 6:1-11) Ef við fylgjum meginreglum Biblíunnar reynum við ekki að lifa eftir víðtækum og ósveigjanlegum boðum og bönnum sem ganga lengra en Biblían krefst, og heimtum það ekki af öðrum. Þá látum við okkur annara um meginreglur kærleikans og hlýðni við Guð en ytra útlit tilbeiðslunnar. — Lúkas 11:42.
Ánægjulegur árangur
16. Nefndu dæmi um meginreglur sem sum af lögum Biblíunnar eru byggð á.
16 Er við leggjum okkur fram um að hlýða Jehóva er mikilvægt að átta sig á því að lög hans eru byggð á meginreglum. Kristnir menn eiga til dæmis að forðast skurðgoðadýrkun, kynferðislegt siðleysi og misnotkun blóðs. (Postulasagan 15:28, 29) Hvað liggur að baki hinni kristnu afstöðu í þessum málum? Guð verðskuldar óskipta hollustu, við eigum að vera maka okkar trú og Jehóva er lífgjafinn. (1. Mósebók 2:24; 2. Mósebók 20:5; Sálmur 36:10) Með því að skilja þessar meginreglur, sem að baki búa, auðveldum við okkur að viðurkenna tengd lög og fylgja þeim.
17. Hvaða góður árangur fylgir því að koma auga á meginreglur Biblíunnar og fara eftir þeim?
17 Þegar við komum auga á meginreglurnar að baki lögunum og förum eftir þeim gerum við okkur ljóst að þær eru okkur til góðs. Hin andlega blessun, sem fólk Guðs nýtur, er oft samfara áþreifanlegri blessun. Þeir sem reykja ekki, lifa siðsamlega og virða heilagleika blóðsins umflýja ákveðna sjúkdóma, svo dæmi sé tekið. Eins getum við notið góðs af því fjárhagslega, félagslega og í fjölskyldulífinu að lifa í samræmi við þann sannleika sem við lærum af Biblíunni. Þessi áþreifanlega hagsbót sannar hagnýtt gildi þeirra lífsreglna sem Jehóva setur. En þessi hagsbót er ekki í sjálfri sér meginástæðan fyrir því að fara eftir meginreglum Guðs. Sannkristnir menn hlýða Jehóva af því að þeir elska hann, af því að hann verðskuldar tilbeiðslu þeirra og af því að það er rétt. — Opinberunarbókin 4:11.
18. Hvað ættum við að hafa að leiðarljósi til að vera farsæl sem kristnir menn?
18 Að hafa meginreglur Biblíunnar að leiðarljósi göfgar líf okkar til muna sem getur laðað aðra að þeim lífsvegi sem Guð markar. Mest er þó um vert að líferni okkar heiðri Jehóva. Við gerum okkur grein fyrir því að Jehóva er raunverulega kærleiksríkur Guð og vill okkur allt hið besta. Þegar við tökum ákvarðanir í samræmi við meginreglur Biblíunnar og sjáum hvernig Jehóva blessar okkur, þá styrkist samband okkar við hann. Já, við höldum áfram að byggja upp kærleiksríkt samband við himneskan föður okkar.
Manstu?
• Hvað er meginregla?
• Hver er munurinn á meginreglum og lögum?
• Hvers vegna er gagnlegt fyrir okkur að hugsa og breyta miðað við meginreglur?
[Spurningar]
[Rammi á blaðsíðu 16]
Wilson er kristinn maður búsettur í Ghana. Honum var sagt upp störfum með nokkurra daga fyrirvara. Síðasta daginn, sem hann var við störf hjá fyrirtækinu, var hann beðinn að þvo bíl framkvæmdastjórans. Þegar Wilson fann peninga í bílnum sagði yfirmaður hans honum að Guð hefði sent honum peningana úr því að hann væri í þann mund að missa vinnuna. En Wilson fylgdi meginreglum Biblíunnar um heiðarleika og afhenti framkvæmdastjóranum peningana. Framkvæmdastjórinn varð hissa en jafnframt hrifinn og bauð Wilson fast starf þegar í stað og veitti honum stöðuhækkun að auki. — Efesusbréfið 4:28.
[Rammi á blaðsíðu 17]
Rukia er albönsk kona á sjötugsaldri. Misklíð í fjölskyldunni varð til þess að hún talaði ekki við bróður sinn í meira en 17 ár. Hún fór að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva og komst að raun um að sannkristnir menn verða að eiga frið við aðra og mega ekki ala með sér óvild. Hún baðst fyrir alla nóttina. Hjartað hamaðist í brjósti hennar þegar hún gekk að húsi bróður síns. Bróðurdóttir hennar opnaði dyrnar. Er hún sá Rukiu spurði hún undrandi: „Hver er dáinn? Hvað ertu að gera hér?“ Rukia spurði eftir bróður sínum. Hún útskýrði stillilega að hún hefði kynnt sér meginreglur Biblíunnar og fræðst um Jehóva og það hefði hvatt sig til að sættast við bróður sinn. Þau táruðust og föðmuðust og héldu síðan upp á endurfundina. — Rómverjabréfið 12:17, 18.
[Mynd á blaðsíðu 19]
[Mynd á blaðsíðu 19]
[Mynd á blaðsíðu 19]
[Mynd á blaðsíðu 19]
‚Þegar hann sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá lauk hann upp munni sínum og kenndi þeim.‘ — MATTEUS 5:1, 2.