Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lög Guðs eru okkur til góðs

Lög Guðs eru okkur til góðs

Lög Guðs eru okkur til góðs

„Hve mjög elska ég lögmál þitt.“ — SÁLMUR 119:97.

1. Hvaða afstaða er algeng gagnvart því að hlýða lögum Guðs?

ÞAÐ er ekki vinsælt nú á dögum að hlýða lögum Guðs. Mörgum finnst fráleitt að lúta vilja æðri máttarvalda. Við lifum á tímum þar sem siðferðismat er afstætt, munurinn á réttu og röngu óljós og fullt er af gráum svæðum. (Orðskviðirnir 17:15; Jesaja 5:20) Í skoðanakönnun, sem gerð var vestanhafs fyrir skömmu, kom í ljós að „flestir Bandaríkjamenn vilja ákveða sjálfir hvað sé rétt, gott og mikilvægt.“ Þeir kjósa „vægan Guð, vægar reglur og væga yfirborðara í siðferðismálum og öðru.“ Þessi afstaða er algeng í þeim þjóðfélögum þar sem veraldarhyggja er sterk. Þjóðfélagskönnuður bendir á að „þess sé vænst nú á dögum að fólk ákveði sjálft hvað það merki að vera heiðarlegur og dyggðugur.“ Hann heldur áfram: „Sérhver máttarvöld eiga að laga boðorð sín að þörfum venjulegs fólks.“

2. Hvernig er fyrsta vísan Biblíunnar í lög nátengd blessun Guðs og velþóknun?

2 Þar eð svo margir véfengja gildi laga Jehóva þurfum við að styrkja þá sannfæringu að þær lífsreglur, sem hann setur, séu okkur fyrir bestu. Athyglisvert er að skoða frásöguna þar sem lög eru fyrst nefnd í Biblíunni. Við lesum orð Guðs í 1. Mósebók 26:5: „Abraham . . . varðveitti boðorð mín, skipanir mínar, ákvæði og lög.“ Jehóva mælti þessi orð öldum áður en hann gaf afkomendum Abrahams ítarlegt lagasafn. Hvernig umbunaði hann Abraham hlýðni hans, þar á meðal hlýðni við lögin? Hann hét honum: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:18) Hlýðni við lög Guðs er því nátengd blessun hans og velþóknun.

3. (a) Hvernig leit einn af sálmariturunum á lög Jehóva? (b) Hvaða spurningar ættum við að hugleiða?

3 Einn af sálmariturunum, líklega prins í Júda og verðandi konungur, lét í ljós tilfinningu sem er yfirleitt ekki sett í samband við lög. Hann ávarpaði Guð: „Hve mjög elska ég lögmál þitt.“ (Sálmur 119:97) Þetta var ekki sagt í neinum tilfinningahita heldur var sálmaritarinn að lýsa ást sinni á vilja Guðs eins og hann birtist í lögum hans. Jesú Kristi, fullkomnum syni Guðs, var eins innanbrjósts. Honum er lýst svo í spádómi að hann segi: „Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér.“ (Sálmur 40:9; Hebreabréfið 10:9) Hvað um okkur? Höfum við yndi af því að gera vilja Guðs? Erum við sannfærð um að lög hans séu gagnleg og til góðs fyrir okkur? Hversu stór þáttur er hlýðni við lög Guðs í tilbeiðslu okkar, daglegu lífi, ákvörðunum og samskiptum við aðra? Til að elska lög Guðs þurfum við að skilja hvers vegna hann hefur rétt til að setja lög og framfylgja þeim.

Jehóva — réttmætur löggjafi

4. Af hverju er Jehóva réttmætur æðsti löggjafi alheims?

4 Jehóva er skapari allra hluta og er því réttmætur löggjafi alheims og sá æðsti. (Opinberunarbókin 4:11) Spámaðurinn Jesaja kallaði hann ‚löggjafa okkar.‘ (Jesaja 33:22) Jehóva setti náttúrulögmálin sem stjórna hinu lifandi og lífvana sköpunarverki. (Jobsbók 38:4-38; 39:1-12; Sálmur 104:5-19) Maðurinn er sköpunarverk Guðs og háður náttúrulögmálum hans. Og þó svo að maðurinn hafi frjálsan vilja og sé fær um að rökhugsa sjálfstætt er hann því aðeins hamingjusamur að hann virði lög Guðs um siðferði og tilbeiðslu. — Rómverjabréfið 12:1; 1. Korintubréf 2:14-16.

5. Hvernig sannast meginreglan í Galatabréfinu 6:7 varðandi lög Guðs?

5 Eins og við vitum er ekki hægt að brjóta náttúrulögmál Jehóva. (Jeremía 33:20, 21) Sá sem gengur í berhögg við eitthvert af náttúrulögmálunum, til dæmis þyngdarlögmálið, þarf að taka afleiðingunum. Siðferðislög Guðs eru sömuleiðis órjúfanleg þannig að það er ekki hægt að sniðganga þau eða brjóta þau sér að meinalausu. Þeim er framfylgt ekki síður en náttúrulögmálunum, þó svo að það gerist ef til vill ekki á stundinni. „Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ — Galatabréfið 6:7; 1. Tímóteusarbréf 5:24.

Umfang laga Jehóva

6. Hve víðtæk eru lög Guðs?

6 Móselögin voru framúrskarandi dæmi um lög Guðs. (Rómverjabréfið 7:12) Þegar fram liðu stundir setti Jehóva Guð „lögmál Krists“ í stað Móselaganna. * (Galatabréfið 6:2; 1. Korintubréf 9:21) Við kristnir menn, sem erum bundnir af hinu ‚fullkomna lögmáli frelsisins,‘ gerum okkur ljóst að Guð takmarkar ekki reglur sínar við ákveðna þætti í lífi okkar, svo sem vissar kenningar eða ákveðna helgisiði. Reglur hans ná yfir öll svið lífsins, þar á meðal fjölskyldumál, viðskipti, framkomu við hitt kynið, viðhorf til trúsystkina og þátttöku í sannri tilbeiðslu. — Jakobsbréfið 1:25, 27.

7. Nefndu dæmi um mikilvæg lög Guðs.

7 Biblían segir til dæmis: „Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Já, hjúskaparbrot og saurlifnaður er ekki bara „ástarævintýri.“ Háttalag samkynhneigðra er ekki bara „annars konar lífsstíll.“ Þetta eru brot á lögum Jehóva. Og hið sama er að segja um þjófnað, lygar og rógburð. (Sálmur 101:5; Kólossubréfið 3:9; 1. Pétursbréf 4:15) Jakob fordæmir oflæti og Páll ráðleggur okkur að forðast svívirðilegt tal og ósæmandi spé. (Efesusbréfið 5:4; Jakobsbréfið 4:16) Í augum kristinna manna eru allar þessar hegðunarreglur hluti af fullkomnum lögum Guðs. — Sálmur 19:8.

8. (a) Lýstu eðli laga Jehóva. (b) Hver er grunnmerking hebreska orðsins sem þýtt er „lögmál“?

8 Slíkar grundvallarreglur í orði Jehóva bera vitni um að lög hans eru annað og meira en kaldur lagabókstafur. Þau eru grundvöllur að hófsömu lífi og skapandi tilveru og hafa góð áhrif á hegðun manna á öllum sviðum. Lög Guðs göfga, siðbæta og fræða. (Sálmur 119:72) Orðið „lögmál,“ eins og sálmaritarinn notar það, er þýðing hebreska orðsins tohrahʹ. Biblíufræðingur segir: „Orðið er myndað af sögn sem merkir að stýra, leiðbeina, miða, skjóta fram. Merkingin . . . er því hegðunarregla.“ Sálmaritarinn leit á lögmálið sem gjöf frá Guði. Ættum við ekki sömuleiðis að meta lög Guðs mikils og láta þau hafa sterk áhrif á líf okkar?

9, 10. (a) Af hverju þurfum við áreiðanlega forystu? (b) Hver er eina leiðin til farsældar og hamingju?

9 Allar sköpunarverur þurfa að hafa áreiðanlega forystu og örugga leiðsögn. Þetta gildir um Jesú og aðra engla sem eru mönnum æðri. (Sálmur 8:6, Biblían 1859; Jóhannes 5:30; 6:38; Hebreabréfið 2:7; Opinberunarbókin 22:8, 9) Fyrst þessar fullkomnu sköpunarverur geta notið góðs af handleiðslu Guðs, hvað þá um okkur ófullkomna menn! Mannkynssagan og okkar eigin reynsla hafa sýnt og sannað að spámaðurinn Jeremía fór með rétt mál er hann sagði: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23.

10 Við verðum að leita leiðsagnar Guðs ef við þráum farsæld og lífshamingju. Salómon konungur gerði sér grein fyrir því hve hættulegt það væri að setja sér eigin lífsreglur, og lifa óháð leiðsögn Guðs. Hann sagði: „Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum.“ — Orðskviðirnir 14:12.

Tilefni til að elska lög Jehóva

11. Hvers vegna ætti okkur að langa til að skilja lög Guðs?

11 Við ættum að byggja upp sterka löngun til að skilja lög Jehóva. Sálmaritarinn lýsti þessari löngun sinni er hann sagði: „Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.“ (Sálmur 119:18) Því meir sem við kynnumst Guði og vegum hans, þeim mun betur skiljum við sannleikann í orðunum sem Jesaja skráði: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum.“ (Jesaja 48:17, 18) Jehóva vill umfram allt að þjónar sínir umflýi erfiðleika og vill að þeir njóti þess að lifa. Til þess þurfa þeir að gefa gaum að boðorðum hans. Skoðum nokkrar helstu ástæðurnar fyrir því að láta sér þykja afar vænt um lög Guðs.

12. Hvaða þekkingu býr Jehóva yfir og hvernig gerir hún hann að besta löggjafanum?

12 Guð þekkir okkur betur en nokkur annar. Jehóva er skapari okkar þannig að það er rökrétt að álykta að hann þekki mennina út og inn. (Sálmur 139:1, 2; Postulasagan 17:24-28) Hann þekkir okkur betur en nánir vinir, ættingjar og jafnvel foreldrar. Hann þekkir okkur meira að segja betur en við sjálf! Skapari okkar skilur andlegar, tilfinningalegar, hugarfarslegar og líkamlegar þarfir okkar fullkomlega. Og þegar hann beinir athygli sinni að okkur sýnir hann nákvæman skilning á gerð okkar, löngunum og þrám. Hann skilur takmörk okkar en þekkir jafnframt þá möguleika sem við höfum á að gera gott. Sálmaritarinn segir: „Hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:14) Þess vegna finnst okkur við vera andlega örugg þegar við leitumst við að fylgja lögum hans og lútum handleiðslu hans fúslega. — Orðskviðirnir 3:19-26.

13. Hvers vegna getum við treyst að Jehóva beri hag okkar fyrir brjósti?

13 Guð elskar okkur. Honum er ákaflega annt um varanlega velferð okkar. Færði hann ekki þá miklu fórn að gefa son sinn „til lausnargjalds fyrir marga“? (Matteus 20:28) Hefur hann ekki lofað að ‚láta ekki freista okkar um megn fram‘? (1. Korintubréf 10:13) Fullvissar ekki Biblían okkur um að hann ‚beri umhyggju fyrir okkur‘? (1. Pétursbréf 5:7) Enginn lætur sér jafn-annt um að gefa mönnunum gagnlegar viðmiðunarreglur til að lifa eftir og hann. Hann veit hvað er okkur fyrir bestu og hvar mörkin liggja milli hamingju og sorgar. Þó að við séum ófullkomin og gerum mistök sýnir hann okkur kærleika með þeim hætti að við hljótum líf og blessun, ef við ástundum réttlæti. — Esekíel 33:11.

14. Hvaða mikilvægur munur er á lögum Guðs og hugmyndum manna?

14 Lög Guðs eru óbreytanleg. Það er einkar traustvekjandi. Jehóva er frá eilífð til eilífðar. Hann er eins og klettur í þeirri ólgu sem við búum við. (Sálmur 90:2) Hann sagði um sjálfan sig: „Ég, [Jehóva], hefi ekki breytt mér.“ (Malakí 3:6) Reglur Guðs, sem er að finna í Biblíunni, eru fullkomlega áreiðanlegar — ólíkt hugmyndum manna sem eru síbreytilegar og ótryggar eins og kviksandur. (Jakobsbréfið 1:17) Tökum dæmi: Um langt árabil hvöttu sálfræðingar til eftirlætis í barnauppeldi en síðar skiptu sumir um skoðun og viðurkenndu að þeir hefðu ráðið fólki óheilt. Lífsreglur og viðmið heimsins í þessu máli sveiflast fram og aftur eftir því hvernig vindurinn blæs. En orð Jehóva haggast ekki. Biblían hefur um aldaraðir gefið ráð um kærleiksríkt barnauppeldi. Páll postuli skrifaði: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Það er einkar traustvekjandi til að vita að við getum reitt okkur á lífsreglur Jehóva. Þær breytast ekki!

Blessunin samfara því að hlýða lögum Guðs

15, 16. (a) Hvaða afleiðingar hefur það að fylgja reglum Jehóva? (b) Hvernig geta lög Guðs verið öruggur leiðarvísir í hjónabandinu?

15 Guð sagði fyrir munn spámannsins Jesaja: ‚Mitt orð, það er útgengur af mínum munni kemur því til vegar er ég fól því að framkvæma.‘ (Jesaja 55:11) Og það er jafnöruggt að okkur vegnar vel, við látum gott af okkur leiða og við finnum hamingjuna ef við leggjum okkur einlæglega fram um að fylgja þeim lífsreglum sem er að finna í orði hans.

16 Tökum sem dæmi hve örugga leiðsögn við höfum í lögum Guðs um farsælt hjónaband. „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum,“ skrifaði Páll, „og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) Hjón eiga að virða og elska hvort annað: „Þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ (Efesusbréfið 5:33) Í 1. Korintubréfi 13:4-8 er því lýst hvernig kærleikurinn milli hjóna á að vera: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ Hjónaband, sem einkennist af þess konar kærleika, fer aldrei út um þúfur.

17. Hvaða gagn er að því að fara eftir reglum Jehóva um notkun áfengis?

17 Jehóva fordæmir drykkjuskap sem er annað dæmi um að lög hans eru gagnleg. Hann lýsir jafnvel yfir vanþóknun á því að vera ‚sólginn í vín.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:3, 8; Rómverjabréfið 13:13) Margir, sem hunsa lífsreglur Guðs á þessu sviði, fá sjúkdóma sem stafa beinlínis af óhóflegri drykkju eða magnast við hana. Sumir hafa hunsað ráð Biblíunnar um hófsemi og vanið sig á stífa drykkju til að „slaka á.“ Ofdrykkja hefur mörg vandamál í för með sér. Þar á meðal má nefna litla sjálfsvirðingu, spennu eða upplausn í fjölskyldunni, tapað fé og atvinnumissi. (Orðskviðirnir 23:19-21, 29-35) Eru ekki reglur Jehóva um notkun áfengis til verndar?

18. Er það gagnlegt í fjármálum að fylgja lögum Guðs? Gefðu skýringu.

18 Reglur Guðs hafa jafnvel reynst gagnlegar í fjármálum. Biblían hvetur kristna menn til að vera heiðarlegir og iðjusamir. (Lúkas 16:10; Efesusbréfið 4:28; Kólossubréfið 3:23) Fyrir vikið hafa kristnir menn oft fengið stöðuhækkun eða haldið vinnunni þegar öðrum hefur verið sagt upp. Það er einnig fjárhagslegur ávinningur að því að forðast óbiblíulegar fíknir eins og fjárhættuspil, reykingar og fíkniefnaneyslu. Eflaust geturðu tíundað fleiri dæmi um fjárhagslegan ávinning að því að fara eftir lífsreglum Guðs.

19, 20. Af hverju er viturlegt að viðurkenna lög Guðs og halda þau?

19 Það er auðvelt fyrir ófullkomna menn að villast frá lögum Guðs og lífsreglum. Mundu eftir Ísraelsmönnum við Sínaífjall. Guð sagði þeim: „Ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir.“ Þjóðin svaraði: „Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] býður.“ Því miður tók þjóðin allt aðra stefnu en hún hafði lýst yfir. (2. Mósebók 19:5, 8; Sálmur 106:12-43) Við skulum hins vegar viðurkenna lífsreglur Guðs og halda okkur við þær.

20 Það er viturlegt og til farsældar að halda sig nákvæmlega við hin óviðjafnanlegu lög sem Jehóva hefur sett okkur til leiðsagnar. (Sálmur 19:8-12) Til að takast það vel þurfum við einnig að skilja og viðurkenna gildi þeirra meginreglna sem Guð hefur sett. Það er efni greinarinnar á eftir.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Ítarlega umfjöllun um „lögmál Krists“ er að finna í Varðturninum, 1. október 1996, bls. 24-32.

Manstu?

• Hvers vegna getum við treyst að lög Guðs séu okkur til góðs?

• Hvers vegna ætti okkur að þykja vænt um lög Jehóva?

• Á hvaða hátt eru lög Guðs gagnleg?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Abraham hlaut mikla blessun fyrir að hlýða lögum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Margir missa sjónar á lögum Guðs út af áhyggjum og asa lífsins.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Lög Guðs eru traust og óhagganleg líkt og viti sem stendur á bjargi.