Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Njótum góðs af ástúðlegri umhyggju Jehóva

Njótum góðs af ástúðlegri umhyggju Jehóva

Njótum góðs af ástúðlegri umhyggju Jehóva

‚Hver er vitur? Hann mun gefa gaum að ástúðlegri umhyggju Jehóva.‘ — SÁLMUR 107:43, NW.

1. Hvar stendur hebreska orðið, sem oft er þýtt „miskunn,“ fyrst í Biblíunni og hvaða spurningar varðandi þennan eiginleika ætlum við að skoða?

„ÞÚ HEFIR sýnt á mér mikla miskunn,“ sagði Lot, bróðursonur Abrahams, fyrir nærfellt 4000 árum og átti þar við Jehóva. (1. Mósebók 19:19) Þetta er fyrsti staðurinn þar sem hebreska orðið, hér þýtt „miskunn,“ kemur fyrir í Biblíunni. Þetta orð stendur um 250 sinnum í frumtexta Hebresku ritninganna en er þýtt með ýmsum hætti í íslensku biblíunni frá 1981, oftast sem „miskunn,“ „miskunnsemi,“ „kærleiki“ og „náð“ eða „náðar-.“ * Í biblíuþýðingunni New World Translation of the Holy Scriptures er orðið alltaf þýtt sem „ástúðleg umhyggja.“ Jakob, Naomí, Davíð og fleiri þjónar Guðs töluðu einnig um þennan eiginleika Jehóva. (1. Mósebók 32:10; Rutarbók 1:8; 2. Samúelsbók 2:6) En hvað er ástúðleg umhyggja Jehóva? Hverjir nutu hennar forðum daga? Og hvernig njótum við góðs af henni núna?

2. Hvers vegna er erfitt að skilgreina merkingu hebreska orðsins sem hér er til umræðu og hvernig má einnig þýða það?

2 Hebreska orðið, sem hér um ræðir, er svo innihaldsríkt að fá tungumál eiga til eitt orð sem nær merkingunni til fulls. Orðin „kærleikur,“ „miskunn“ og „trúfesti“ hafa öll þrengri merkingu en þetta hebreska orð. Þýðingin „ástúðleg umhyggja“ er yfirgripsmeiri og nær merkingunni að mestu leyti. Biblíuþýðingin New World Translation of the Holy Scriptures — With References bendir á að einnig megi þýða hebreska orðið sem „tryggur kærleikur.“ — 2. Mósebók 15:13; Sálmur 5:8, NW, neðanmáls.

Annað en kærleikur og tryggð

3. Hver er munurinn á ástúðlegri umhyggju og kærleika?

3 Ástúðleg umhyggja eða tryggur kærleikur er náskylt kærleika og tryggð en þó er mikilvægur munur á. Lítum fyrst á muninn á kærleika og ástúðlegri umhyggju. Maður getur elskað hluti og huglæg fyrirbæri. Biblían talar til dæmis um að ‚elska visku‘ og ‚elska peninga.‘ (Orðskviðirnir 29:3; Prédikarinn 5:9) Hins vegar beinist ástúðleg umhyggja að fólki en ekki lífvana hlutum eða huglægum fyrirbærum. Til dæmis er átt við fólk þegar 2. Mósebók 20:6 segir að Jehóva „auðsýni miskunn [ástúðlega umhyggju] þúsundum.“

4. Hvernig er ástúðleg umhyggja ólík tryggð?

4 Hebreska orðið, sem hér um ræðir, hefur líka breiðari merkingu en orðið „tryggð.“ Í sumum tungumálum eru orð eins og „tryggð“ eða „hollusta“ notuð til að lýsa afstöðu þegns til yfirboðara. En í biblíulegu samhengi er ástúðleg umhyggja „oftar notuð um gagnstætt samband; hinn voldugi er tryggur hinum veikburða, þurfandi eða ósjálfbjarga,“ eins og fræðimaður bendir á. Davíð konungur gat því beðið Jehóva: „Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku [ástúðlegrar umhyggju] þinnar.“ (Sálmur 31:17) Jehóva, hinn voldugi, er beðinn að sýna Davíð, hinum þurfandi, ástúðlega umhyggju eða tryggan kærleika. Þar eð hinn þurfandi hefur ekkert vald yfir hinum volduga er ástúðleg umhyggja í slíku tilfelli sýnd fúslega, án nauðungar.

5. (a) Hvað einkennir ástúðlega umhyggju Guðs eins og sést af orði hans? (b) Hvernig birtist ástúðleg umhyggja Jehóva?

5 ‚Hver er vitur? Hann mun gefa gaum að ástúðlegri umhyggju Jehóva,‘ sagði sálmaritarinn. (Sálmur 107:43, NW) Ástúðleg umhyggja Jehóva getur orðið til bjargar og lífs. (Sálmur 6:5; 119:88, 159) Hún verndar og styður að því að leysa mann frá erfiðleikum. (Sálmur 31:17, 22; 40:12; 143:12) Hennar vegna er hægt að ná bata eftir synd. (Sálmur 25:7) Með því að skoða vissar frásagnir Biblíunnar og hafa hliðsjón af öðrum textum í henni sjáum við að ástúðleg umhyggja Jehóva (1) birtist í tilteknum verkum og (2) sýnir sig gagnvart trúum þjónum hans.

Björgun — merki um ástúðlega umhyggju

6, 7. (a) Hvernig sýndi Jehóva Lot mikla, ástúðlega umhyggju? (b) Hvenær minntist Lot á ástúðlega umhyggju Jehóva?

6 Besta leiðin til að kanna hve umfangsmikil ástúðleg umhyggja Jehóva er er trúlega sú að skoða frásagnir Biblíunnar þar sem hún kemur við sögu. Í 1. Mósebók 14:1-16 segir frá því er óvinasveitir höfðu Lot, bróðurson Abrahams, á brott með sér. En Abraham bjargaði honum. Lot var aftur í lífshættu þegar Jehóva ákvað að eyða hinni illu Sódómuborg þar sem Lot bjó með fjölskyldu sinni. — 1. Mósebók 18:20-22; 19:12, 13.

7 Englar Jehóva fylgdu Lot og fjölskyldu hans út úr Sódómu rétt áður en borginni var eytt. Þá sagði Lot: „Sjá, þjónn þinn hefir fundið náð í augum þínum, og þú hefir sýnt á mér mikla miskunn [ástúðlega umhyggju] að láta mig halda lífi.“ (1. Mósebók 19:16, 19) Með þessum orðum viðurkenndi Lot að Jehóva hefði sýnt sér einstaka og ástúðlega umhyggju með því að bjarga sér. Í þessu tilviki birtist ástúðleg umhyggja Guðs í björgun og vernd. — 2. Pétursbréf 2:7.

Ástúðleg umhyggja Jehóva og leiðsögn hans

8, 9. (a) Hvaða verkefni fékk þjónn Abrahams? (b) Hvers vegna bað þjónninn Guð að sýna ástúðlega umhyggju og hvað gerðist meðan hann var að biðja?

8 Í 24. kafla 1. Mósebókar segir frá öðru dæmi um ástúðlega umhyggju Guðs eða tryggan kærleika hans. Frásagan segir frá því er Abraham fól þjóni sínum að fara til landsins þar sem ættingjar hans bjuggu og finna konu handa Ísak syni sínum. (Vers 2-4) Þetta var vandasamt verkefni en þjónninn fékk fyrirheit um að engill Jehóva myndi leiða hann. (Vers 7) Að lokum kom þjónninn að brunni utan ‚borgar Nahors‘ (annaðhvort Harran eða grannborg hennar) í þann mund er konur voru vanar að sækja vatn. (Vers 10, 11) Er hann sá konurnar nálgast vissi hann að úrslitastund fararinnar væri runnin upp. En hvernig átti hann að geta valið réttu konuna?

9 Þjónn Abrahams vissi að hann þyrfti á hjálp Guðs að halda og baðst fyrir: „[Jehóva], Guð húsbónda míns Abrahams. Lát mér heppnast erindi mitt í dag og auðsýn miskunn [ástúðlega umhyggju] húsbónda mínum Abraham.“ (Vers 12) Hvernig myndi ástúðleg umhyggja Jehóva birtast? Þjónninn bað um sérstakt tákn til að finna ungu konuna sem Guð hefði valið. (Vers 13, 14) Ein þeirra gerði nákvæmlega það sem hann hafði beðið Jehóva um. Það var engu líkara en hún hefði heyrt bæn hans! (Vers 15-20) Þjónninn „starði á hana“ agndofa. En hann átti eftir að ganga úr skugga um nokkur mikilvæg atriði. Var þessi fríða kona ættingi Abrahams? Og var hún ógift? Þjónninn þagði því „til þess að komast að raun um, hvort [Jehóva] hefði látið ferð hans heppnast eða ekki.“ — Vers 16, 21.

10. Hvers vegna ályktaði þjónn Abrahams að Jehóva hefði sýnt húsbónda sínum ástúðlega umhyggju?

10 Stundu seinna kvaðst unga konan vera „dóttir Betúels, sonar Milku, sem hún ól Nahor,“ bróður Abrahams. (1. Mósebók 11:26; 24:24) Þá vissi þjónninn að Jehóva hafði svarað bæn hans. Frá sér numinn laut hann höfði og sagði: „Lofaður sé [Jehóva], Guð Abrahams húsbónda míns, sem hefir ekki dregið í hlé miskunn [ástúðlega umhyggju] sína og trúfesti við húsbónda minn. Mig hefir [Jehóva] leitt veginn til húss frænda húsbónda míns.“ (Vers 27) Með leiðsögn sinni sýndi Guð Abraham, húsbónda þjónsins, ástúðlega umhyggju.

Ástúðleg umhyggja Guðs frelsar og verndar

11, 12. (a) Í hvaða prófraunum naut Jósef ástúðlegrar umhyggju Jehóva? (b) Hvernig birtist ástúðleg umhyggja Guðs gagnvart Jósef?

11 Lítum þessu næst á 39. kafla 1. Mósebókar. Þar segir frá Jósef, sonarsonarsyni Abrahams, sem seldur var í þrælkun til Egyptalands. En ‚Jehóva var með Jósef.‘ (Vers 1, 2) Meira að segja Pótífar, hinn egypski húsbóndi hans, ályktaði sem svo að Jehóva væri með honum. (Vers 3) En Jósef lenti í afar erfiðri prófraun. Hann var ranglega sakaður um tilraun til að nauðga eiginkonu Pótífars og var varpað í fangelsi. (Vers 7-20) Hann var ‚settur í dýflissu‘ þar sem ‚fætur hans voru þjáðir með fjötrum og hann var lagður í járn.‘ — 1. Mósebók 40:15; Sálmur 105:18.

12 Hvað gerðist á þessu afar erfiða tímabili? „[Jehóva] var með Jósef og veitti honum mannahylli [ástúðlega umhyggju].“ (Vers 21a) Sérstakt ástúðarverk hleypti af stað atburðarás sem leiddi síðar til þess að raunum Jósefs linnti. Jehóva lét hann „finna náð í augum forstjóra myrkvastofunnar“ sem fól honum umsjónarstarf. (Vers 21b, 22) Eftir það hitti Jósef manninn sem vakti loks athygli faraós, stjórnanda Egyptalands, á honum. (1. Mósebók 40:1-4, 9-15; 41:9-14) Faraó gerði hann síðan að næstæðsta stjórnanda Egyptalands þar sem hann varð fólki til bjargar er hungursneyð herjaði á landið. (1. Mósebók 41:37-55) Jósef var 17 ára þegar þjáningar hans byrjuðu og þær stóðu í meira en áratug. (1. Mósebók 37:2, 4; 41:46) En öll árin, sem þrengingarnar og þjáningarnar stóðu yfir, sýndi Jehóva Jósef ástúðlega umhyggju með því að vernda hann fyrir takmarkalausri ógæfu og varðveita hann svo að hann gæti gegnt hinu sérstaka hlutverki sem hann átti að fara með í tilgangi Guðs.

Ástúðleg umhyggja Guðs bregst aldrei

13. (a) Hvað er sagt um ástúðlega umhyggju Jehóva í Sálmi 136? (b) Hvers eðlis er ástúðleg umhyggja?

13 Jehóva sýndi Ísraelsmönnum ástúðlega umhyggju hvað eftir annað. Sálmur 136 segir frá því að hann hafi sýnt þeim þá ástúðlegu umhyggju að frelsa þá (vers 10-15), leiða (vers 16) og vernda. (Vers 17-20) Guð hefur einnig sýnt einstaklingum ástúðlega umhyggju. Sá sem sýnir öðrum manni ástúðlega umhyggju sýnir það með því að bæta sjálfviljugur úr brýnni þörf hans. Biblíuhandbók segir um ástúðlega umhyggju: „Hún er verknaður sem stuðlar að eða viðheldur lífi. Hún er íhlutun í þágu einhvers sem verður fyrir ógæfu eða óláni.“ Fræðimaður kallar hana „kærleika sem birtist í verki.“

14, 15. Af hverju getum við verið viss um að Guð hafi viðurkennt Lot sem þjón sinn?

14 Þær frásagnir 1. Mósebókar, sem við höfum skoðað, bera vitni um að Jehóva sýnir alltaf ástúðlega umhyggju þeim sem elska hann. Lot, Abraham og Jósef bjuggu við ólíkar aðstæður og lentu í ólíkum prófraunum. Þeir voru ófullkomnir menn en þeir voru þjónar Jehóva sem hann hafði velþóknun á og þörfnuðust hjálpar hans. Það er traustvekjandi til að vita að kærleiksríkur faðir okkar á himnum sýnir slíku fólki ástúðlega umhyggju.

15 Lot tók nokkrar óskynsamlegar ákvarðanir og þær ollu honum erfiðleikum. (1. Mósebók 13:12, 13; 14:11, 12) En hann sýndi einnig hrósunarverða eiginleika. Hann var gestrisinn við tvo engla Guðs er þeir komu til Sódómu. (1. Mósebók 19:1-3) Í trú varaði hann tengdasyni sína við yfirvofandi eyðingu borgarinnar. (1. Mósebók 19:14) Síðara Pétursbréf 2:7-9 lýsir áliti Guðs á Lot. Þar lesum við: „[Jehóva] frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu. Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði. Þannig veit [Jehóva], hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu.“ Já, Lot var réttlátur maður og orðalagið hér gefur til kynna að hann hafi verið guðrækinn. Líkt og hann njótum við ástúðlegrar umhyggju Guðs ef við göngum fram í „heilagri breytni og guðrækni.“ — 2. Pétursbréf 3:11, 12.

16. Hvernig fer Biblían jákvæðum orðum um Abraham og Jósef?

16 Frásagan í 24. kafla 1. Mósebókar lýsir mjög greinilega hvernig samband Abraham átti við Jehóva. Fyrsta versið segir að ‚Jehóva hafi blessað Abraham í öllu.‘ Þjónn Abrahams kallaði Jehóva ‚Guð húsbónda síns Abrahams.‘ (Vers 12, 27) Og lærisveinninn Jakob segir að Abraham hafi ‚réttlæst‘ og verið ‚kallaður vinur Jehóva.‘ (Jakobsbréfið 2:21-23) Hið sama er að segja um Jósef. Hið nána samband hans við Jehóva kemur glögglega fram í 39. kafla 1. Mósebókar. (Vers 2, 3, 21, 23) Og lærisveinninn Stefán sagði að ‚Guð hefði verið með‘ Jósef. — Postulasagan 7:9.

17. Hvaða lærdóm má draga af reynslu Lots, Abrahams og Jósefs?

17 Þeir sem nutu ástúðlegrar umhyggju Jehóva Guðs og við höfum fjallað um áttu gott samband við hann og þjónuðu tilgangi hans með ýmsum hætti. Þeir yfirstigu hindranir sem þeir hefðu ekki getað af eigin rammleik. Líf Lots, ættleggur Abrahams og hlutverk Jósefs voru í húfi. Enginn nema Jehóva gat fullnægt þörfum þessara guðhræddu manna og hann gerði það með því að sýna þeim ástúðlega umhyggju. Ef við viljum njóta ástúðlegrar umhyggju Jehóva Guðs að eilífu verðum við einnig að eiga náið einkasamband við hann og halda áfram að gera vilja hans. — Esrabók 7:28; Sálmur 18:51.

Þjónar Guðs njóta góðvildar hans

18. Hvað segja ýmsar ritningargreinar um ástúðlega umhyggju Jehóva?

18 „Jörðin er full“ af ástúðlegri umhyggju Jehóva og við erum innilega þakklát fyrir það. (Sálmur 119:64) Við tökum heilshugar undir viðkvæði sálmaritarans: „Þeir skulu þakka [Jehóva] miskunn [ástúðlega umhyggju] hans og dásemdarverk hans við mannanna börn.“ (Sálmur 107:8, 15, 21, 31) Við fögnum því að Jehóva skuli sýna viðurkenndum þjónum sínum ástúðlega umhyggju — bæði sem einstaklingum og sem heild. Spámaðurinn Daníel sagði í bænarávarpi til Jehóva: „Þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina [ástúðlega umhyggju] við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.“ (Daníel 9:4) Davíð konungur bað: „Lát miskunn [ástúðlega umhyggju] þína haldast við þá er þekkja þig.“ (Sálmur 36:11) Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að sýna þjónum sínum ástúðlega umhyggju! — 1. Konungabók 8:23; 1. Kroníkubók 17:13.

19. Hvaða spurningar er fjallað um í greininni á eftir?

19 Það er ómetanleg blessun fyrir okkur að vera þjónar Jehóva. Auk þess að njóta góðs af kærleika hans til mannkyns almennt njótum við sérstakrar blessunar sem stafar af ástúðlegri umhyggju eða tryggum kærleika föðurins á himnum. (Jóhannes 3:16) Við njótum sérstaklega góðs af þessum dýrmæta eiginleika Jehóva á neyðarstund. (Sálmur 36:8) En hvernig getum við líkt eftir ástúðlegri umhyggju Jehóva Guðs? Sýnum við, hvert og eitt, þennan einstæða eiginleika? Fjallað er um þessar spurningar og fleiri í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Til skýrleika er orðunum „ástúðleg umhyggja“ skotið inn í útskrifaða biblíutexta þar sem umrætt orð stendur í frumtexta Hebresku ritninganna. Rétt er að hafa í huga að í þeim ritningargreinum, sem einungis er vísað til en ekki vitnað beint í, er orðið ýmist þýtt „elska,“ „góðverk,“ „gæska,“ „hylli,“ „kærleiki,“ „miskunn,“ „miskunnsemi,“ „náð,“ „náðarverk“ og „trúfesti.“

Manstu?

• Hvernig má einnig þýða hið biblíulega hugtak „ástúðleg umhyggja“?

• Hvernig er ástúðleg umhyggja ólík kærleika og tryggð?

• Hvernig sýndi Jehóva þeim Lot, Abraham og Jósef ástúðlega umhyggju?

• Hvaða traust getum við haft í ljósi þess hvernig Jehóva sýndi ástúðlega umhyggju forðum daga?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Veistu hvernig Guð sýndi Lot ástúðlega umhyggju?

[Myndir á blaðsíðu 23]

Jehóva sýndi þjóni Abrahams ástúðlega umhyggju og leiðbeindi honum.

[Myndir á blaðsíðu 24]

Jehóva sýndi ástúðlega umhyggju með því að vernda Jósef.