Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýndu ástúðlega umhyggju þeim sem eru hjálparþurfi

Sýndu ástúðlega umhyggju þeim sem eru hjálparþurfi

Sýndu ástúðlega umhyggju þeim sem eru hjálparþurfi

„Sýnið hver öðrum ástúðlega umhyggju.“ — SAKARÍA 7:9, NW.

1, 2. (a) Af hverju ættum við að sýna ástúðlega umhyggju? (b) Hvaða spurningar ætlum við að skoða?

ORÐ JEHÓVA GUÐS hvetur okkur til að „ástunda kærleika [ástúðlega umhyggju]“ og tiltekur ýmsar ástæður fyrir því. (Míka 6:8) Til dæmis segir Biblían að ‚kærleiksríkur maður [maður ástúðlegrar umhyggju] geri sálu sinni gott.‘ (Orðskviðirnir 11:17) Þetta eru orð að sönnu. Ástúðleg umhyggja og tryggur kærleikur í verki tengir fólk sterkum og hlýlegum böndum. Þannig eignumst við trygga vini sem er dýrmæt umbun. — Orðskviðirnir 18:24.

2 Biblían segir okkur enn fremur: „Sá sem ástundar réttlæti og kærleika [ástúðlega umhyggju], hann öðlast líf.“ (Orðskviðirnir 21:21) Já, með því að ástunda ástúðlega umhyggju verðum við Guði kær og eigum blessun í vændum, þar á meðal eilíft líf. En hvernig getum við sýnt ástúðlega umhyggju? Hverjum ættum við að sýna hana? Og hvaða munur er á ástúðlegri umhyggju og góðmennsku eða venjulegri gæsku?

Góðmennska og ástúðleg umhyggja

3. Hvaða munur er á góðmennsku og ástúðlegri umhyggju?

3 Það er margs konar munur á ástúðlegri umhyggju og venjulegri góðmennsku. Til dæmis má nefna að góðmennska birtist oft án sterkrar og persónulegrar væntumþykju eða sérstaks sambands við þann sem nýtur hennar. En ef við sýnum einhverri manneskju ástúðlega umhyggju tengjumst við henni ástúðarböndum. Í Biblíunni er ástúðleg umhyggja milli manna oft byggð á fyrri tengslum. (1. Mósebók 20:13; 2. Samúelsbók 3:8; 16:17) Hún getur líka byggst á sambandi sem rekja má til fyrri góðverka og umhyggju. (Jósúabók 2:1, 12-14; 1. Samúelsbók 15:6; 2. Samúelsbók 10:1, 2) Til að lýsa muninum skulum við bera saman tvö dæmi úr Biblíunni, annað um góðmennsku en hitt um ástúðlega umhyggju milli manna.

4, 5. Hvernig sýna tvö biblíudæmi muninn á góðmennsku og ástúðlegri umhyggju?

4 Annað dæmið um góðmennsku snýr að hópi skipbrotsmanna, þeirra á meðal Páli postula. Þá bar á land á eynni Möltu. (Postulasagan 27:37–28:1) Möltubúar höfðu hvorki átt skyldum að gegna við hina skipreika menn né átt neitt samband við þá áður, en sýndu þeim engu að síður gestrisni og „einstaka góðmennsku.“ (Postulasagan 28:2, 7) Gestrisnin bar vissulega vott um gæsku en hún var tilfallandi og sýnd ókunnugum. Því var um venjulega góðmennsku að ræða.

5 Lítum til samanburðar á gestrisni Davíðs konungs við Mefíbóset, son Jónatans vinar hans. Davíð sagði Mefíbóset: „Þú skalt jafnan eta við mitt borð.“ Davíð skýrði hvers vegna hann bauð þetta og sagði honum: „Ég vil auðsýna þér miskunn [ástúðlega umhyggju] fyrir sakir Jónatans, föður þíns.“ (2. Samúelsbók 9:6, 7, 13) Hin langvinna gestrisni Davíðs er réttilega kölluð ástúðleg umhyggja, ekki aðeins góðmennska, því að hún var merki um hollustu hans gagnvart sambandi sem stofnað var til áður. (1. Samúelsbók 18:3; 20:15, 42) Eins er það núna að þjónar Guðs sýna fólki almennt góðmennsku. Hins vegar sýna þeir fólki, sem þeir eiga Guði þóknanlegt samband við, ástúðlega umhyggju eða tryggan kærleika. — Matteus 5:45; Galatabréfið 6:10.

6. Hvaða einkenni ástúðlegrar umhyggju, sem menn sýna, skera sig úr í orði Guðs?

6 Við komum auga á ýmis fleiri einkenni ástúðlegrar umhyggju í þrem biblíusögum þar sem þessi eiginleiki kemur við sögu. Þar sjáum við að ástúðleg umhyggja manna (1) birtist í sérstökum verkum, (2) er sýnd fúslega og (3) er einkum sýnd þeim sem eru hjálparþurfi. Og þessar frásagnir lýsa því jafnframt hvernig við getum sýnt ástúðlega umhyggju núna.

Faðir sýnir ástúðlega umhyggju

7. Hvað sagði þjónninn þeim Betúel og Laban og hverju vakti hann máls á?

7 Fyrsta Mósebók 24:28-67 segir frá framhaldi sögunnar af þjóni Abrahams sem rætt var um í greininni á undan. Eftir að hafa hitt Rebekku var honum boðið heim til Betúels, föður hennar. (Vers 28-32) Þar gerði þjónninn ítarlega grein fyrir leit sinni að eiginkonu handa syni Abrahams. (Vers 33-47) Hann lagði áherslu á að hann liti á góðan árangur sinn fram til þessa sem bendingu frá Jehóva er hefði ‚leitt sig hinn rétta veg til að taka bróðurdóttur húsbónda síns syni hans til handa.‘ (Vers 48) Eflaust vonaðist þjónninn til þess að einlæg frásaga sín af þessum atburðum sannfærði Betúel og Laban, son hans, um að Jehóva stæði á bak við þessa sendiför. Þjónninn sagði að lokum: „Ef þér viljið sýna vináttu [ástúðlega umhyggju] og tryggð húsbónda mínum, þá segið mér það. En viljið þér það ekki þá segið mér og það, svo að ég geti snúið mér hvort heldur væri til hægri eða vinstri.“ — Vers 49.

8. Hvernig brást Betúel við þeim atvikum sem orðið höfðu í tengslum við Rebekku?

8 Jehóva var þegar búinn að sýna Abraham ástúðlega umhyggju. (1. Mósebók 24:12, 14, 27) Var Betúel nú fús til að gera slíkt hið sama og leyfa Rebekku að fara með þjóni Abrahams? Myndi ástúðleg umhyggja manna nú bætast við ástúðlega umhyggju Guðs til að markmið hennar næði fram að ganga? Eða yrði hin langa ferð þjónsins til einskis? Það hlýtur að hafa verið einkar hughreystandi fyrir þjón Abrahams að heyra Laban og Betúel segja: „Þetta er frá [Jehóva] komið.“ (Vers 50) Þeir sáu hönd Jehóva að verki og viðurkenndu ákvörðun hans án þess að hika. Síðan lýsti Betúel yfir ástúðlegri umhyggju sinni: „Sjá, Rebekka er á þínu valdi, tak þú hana og far þína leið, að hún verði kona sonar húsbónda þíns, eins og [Jehóva] hefir sagt.“ (Vers 51) Rebekka fylgdi þjóni Abrahams fúslega og varð síðan ástfólgin eiginkona Ísaks. — Vers 49, 52-58, 67.

Sonur sýnir ástúðlega umhyggju

9, 10. (a) Hvað bað Jakob Jósef son sinn að gera fyrir sig? (b) Hvernig sýndi Jósef föður sínum ástúðlega umhyggju?

9 Jakob, sonarsonur Abrahams, naut einnig ástúðlegrar umhyggju annarra. Jakob bjó þá í Egyptalandi, eins og sagt er frá í 47. kafla 1. Mósebókar, og ‚dró að dauða hans.‘ (Vers 27-29) Hann var áhyggjufullur vegna þess að það blasti við að hann myndi deyja fjarri landinu sem Guð hafði heitið Abraham. (1. Mósebók 15:18; 35:10, 12; 49:29-32) En hann vildi ekki láta greftra sig í Egyptalandi þannig að hann gerði ráðstafanir til að láta flytja lík sitt til Kanaanlands. Enginn var í betri aðstöðu til að tryggja að ósk hans yrði uppfyllt en hinn valdamikli sonur hans, Jósef.

10 Frásagan segir: „Lét [Jakob] kalla Jósef son sinn og sagði við hann: ‚Hafi ég fundið náð [ástúðlega umhyggju] í augum þínum, þá . . . auðsýn mér elsku [ástúðlega umhyggju] og trúfesti: Jarða mig ekki í Egyptalandi. Ég vil hvíla hjá feðrum mínum, og skalt þú flytja mig burt úr Egyptalandi og jarða mig í gröf þeirra.‘“ (1. Mósebók 47:29, 30) Jósef lofaði að verða við ósk Jakobs sem dó skömmu síðar. Jósef og hinir synir Jakobs fluttu lík hans „til Kanaanlands og jörðuðu hann í helli Makpelalands, sem Abraham hafði keypt ásamt akrinum.“ (1. Mósebók 50:5-8, 12-14) Þannig sýndi Jósef föður sínum ástúðlega umhyggju.

Tengdadóttir sýnir ástúðlega umhyggju

11, 12. (a) Hvernig sýndi Rut Naomí ástúðlega umhyggju? (b) Að hvaða leyti var síðara dæmið um ástúðlega umhyggju Rutar betra en hið fyrra?

11 Rutarbók segir frá ástúðlegri umhyggju sem ekkjan Naomí naut af hendi Rutar, móabískrar tengdadóttur sinnar sem einnig var ekkja. Þegar Naomí ákvað að snúa heim til Betlehem í Júda sýndi Rut ástúðlega umhyggju og einbeitni er hún sagði: „Hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ (Rutarbók 1:16) Seinna sýndi Rut ástúðlega umhyggju sína er hún kvaðst fús til að giftast Bóasi sem var roskinn ættingi Naomí. * (5. Mósebók 25:5, 6; Rutarbók 3:6-9) Hann sagði Rut: „Þú hefir nú síðast sýnt elsku [ástúðlega umhyggju] þína enn betur en áður, með því að elta ekki ungu mennina, hvorki fátækan né ríkan.“ — Rutarbók 3:10.

12 Rut hafði sýnt ástúðlega umhyggju sína „áður“ er hún yfirgaf þjóð sína og fylgdi Naomí. (Rutarbók 1:14; 2:11) En ‚síðara‘ dæmið um ástúðlega umhyggju Rutar — það að vilja giftast Bóasi — var enn sterkara. Naomí var komin úr barneign en nú gat Rut gefið henni erfingja. Bóas gekk að eiga Rut og þegar hún ól son hrópuðu konurnar í Betlehem: „Naomí er fæddur sonur!“ (Rutarbók 4:14, 17) Rut var sannarlega „væn kona“ og Jehóva umbunaði henni með því að leyfa henni að verða formóðir Jesú Krists. — Rutarbók 2:12; 3:11; 4:18-22; Matteus 1:1, 5, 6.

Birtist í verkum

13. Hvernig sýndu Betúel, Jósef og Rut ástúðlega umhyggju?

13 Tókstu eftir hvernig Betúel, Jósef og Rut sýndu ástúðlega umhyggju? Þau gerðu það ekki aðeins með hlýlegum orðum heldur einnig með ákveðnum verkum. Betúel sagði ekki bara: „Hér er Rebekka,“ heldur ‚lét hana fara.‘ (1. Mósebók 24:51, 59) Jósef sagði ekki einungis: „Ég vil gjöra svo sem þú hefir fyrir mælt,“ heldur gerðu hann og bræður hans nákvæmlega „svo við hann [Jakob] sem hann hafði boðið þeim.“ (1. Mósebók 47:30; 50:12, 13) Rut sagði ekki bara: „Hvert sem þú fer, þangað fer ég,“ heldur yfirgaf þjóð sína og fylgdi Naomí þannig að ‚þær héldu báðar áfram uns þær komu til Betlehem.‘ (Rutarbók 1:16, 19) Þegar til Júda var komið gerði Rut „allt svo sem tengdamóðir hennar hafði fyrir hana lagt.“ (Rutarbók 3:6) Ástúðleg umhyggja Rutar birtist í verkum líkt og hjá öðrum.

14. (a) Hvernig sýna þjónar Guðs nú á tímum ástúðlega umhyggju í verki? (b) Hvernig birtist ástúðleg umhyggja kristinna manna í verki þar sem þú býrð?

14 Það er uppörvandi að sjá hvernig þjónar Guðs nú á tímum sýna ástúðlega umhyggju í verki. Tökum sem dæmi þá er styðja sjúk, niðurdregin eða harmþrungin trúsystkini sín eða það hvernig margir vottar Jehóva sjá um að sækja aldraða og taka þá með sér í ríkissalinn á hinar vikulegu samkomur safnaðarins. (Orðskviðirnir 12:25) Anna er 82 ára og illa haldin af liðagigt. Hún talar fyrir munn margra er hún segir: „Það er blessun frá Jehóva að fá akstur á allar samkomur. Ég þakka honum innilega fyrir að gefa mér svona kærleiksríka bræður og systur.“ Ert þú einn þeirra sem vinnur slík verk í söfnuðinum þínum? (1. Jóhannesarbréf 3:17, 18) Ef svo er máttu vera viss um að ástúðleg umhyggja þín er mikils metin.

Sýnd fúslega

15. Hvaða einkenni ástúðlegrar umhyggju birtist vel í biblíusögunum þrem sem við höfum skoðað?

15 Þær frásagnir Biblíunnar, sem við höfum skoðað, bera einnig vott um að ástúðleg umhyggja er sýnd greiðlega, fúslega og þvingunarlaust. Betúel gerði fúslega eins og þjónn Abrahams fór fram á, og Rebekka sömuleiðis. (1. Mósebók 24:51, 58) Jósef sýndi ástúðlega umhyggju ótilkvaddur. (1. Mósebók 50:4, 5) Rut „var fastráðin í því að fara með [Naomí].“ (Rutarbók 1:18) Þegar Naomí lagði til að Rut leitaði til Bóasar sagði Rut: „Ég vil gjöra allt, sem þú segir.“ Hvötin hjá Rut var ástúðleg umhyggja. — Rutarbók 3:1-5.

16, 17. Hvað gerir ástúðlega umhyggju Betúels, Jósefs og Rutar sérstaklega innihaldsríka og hvað var þeim hvöt til að sýna hana?

16 Ástúðleg umhyggja Betúels, Jósefs og Rutar er sérlega þýðingarmikil vegna þess að Abraham, Jakob og Naomí höfðu engin tök á að beita þau þrýstingi. Betúel bar engin lagaleg skylda til að senda dóttur sína frá sér. Hann hefði hæglega getað sagt þjóni Abrahams: ‚Nei, ég vil ekki senda duglegu stúlkuna mína langt í burtu.‘ (1. Mósebók 24:18-20) Eins réð Jósef því sjálfur hvort hann fór að beiðni föður síns eða ekki því að ekki gat Jakob knúið hann til að standa við loforð sitt eftir að hann var látinn. Naomí sagði sjálf að Rut væri frjálst að vera eftir í Móab. (Rutarbók 1:8) Rut var líka fullkomlega heimilt að giftast einhverjum af ‚ungu mönnunum‘ í stað hins roskna Bóasar.

17 Betúel, Jósef og Rut sýndu ástúðlega umhyggju af fúsu geði — hvötin kom innan frá. Þeim fannst sér siðferðilega skylt að sýna hana gagnvart þeim sem þau áttu samband við, líkt og Davíð fannst sér skylt að sýna Mefíbóset síðar meir.

18. (a) Með hvaða hugarfari gæta safnaðaröldungar hjarðarinnar? (b) Hvernig hugsar safnaðaröldungur nokkur um það að hjálpa trúsystkinum sínum?

18 Fólk Guðs einkennist enn af ástúðlegri umhyggju, þar á meðal þeir sem gæta hjarðar Guðs. (Sálmur 110:3; 1. Þessaloníkubréf 5:12) Þessir umsjónarmenn eða öldungar hafa verið útnefndir til starfa og finnst sér skylt að rísa undir ábyrgðinni sem er samfara því. (Postulasagan 20:28) En hirðastarf þeirra og önnur verk í þágu safnaðarins, sem vitna um ástúðlega umhyggju þeirra, eru ekki unnin „af nauðung, heldur af fúsu geði.“ (1. Pétursbréf 5:2) Öldungarnir gæta hjarðarinnar bæði vegna þess að þeim er það skylt og einnig vegna þess að þá langar til þess. Þeir sýna sauðum Krists ástúðlega umhyggju af því að þeim ber að gera það og þeir vilja það. (Jóhannes 21:15-17) „Ég nýt þess að heimsækja bræðurna eða hringja í þá bara til að sýna að ég hugsa til þeirra,“ segir safnaðaröldungur. „Mér finnst einstaklega ánægjulegt að hjálpa bræðrunum.“ Umhyggjusamir öldungar alls staðar taka heilshugar undir þetta.

Sýndu þeim ástúðlega umhyggju sem eru hjálparþurfi

19. Hvað er undirstrikað varðandi ástúðlega umhyggju af þeim frásögum sem fjallað er um í þessari grein?

19 Þær frásögur Biblíunnar, sem við höfum skoðað, leggja einnig áherslu á að það ber að sýna þeim ástúðlega umhyggju sem þarfnast einhvers en geta ekki ráðið bót á því sjálfir. Abraham þurfti samvinnu Betúels til að viðhalda ætt sinni. Jakob þarfnaðist hjálpar Jósefs til að fá jarðneskar leifar sínar fluttar til Kanaanlands. Og Naomí þurfti á Rut að halda til að eignast erfingja. Hvorki Abraham, Jakob né Naomí gátu uppfyllt þessar þarfir hjálparlaust. Eins er það núna að það ber sérstaklega að sýna þeim ástúðlega umhyggju sem eru hjálparþurfi. (Orðskviðirnir 19:17) Við ættum að líkja eftir ættföðurnum Job sem „bjargaði bágstöddum, sem hrópuðu á hjálp, og munaðarleysingjum, sem enga aðstoð áttu,“ svo og ‚þeim sem hætt voru komnir.‘ Jafnframt ‚fyllti hann hjarta ekkjunnar gleði‘ og „var auga hins blinda og fótur hins halta.“ — Jobsbók 29:12-15, Biblíurit, ný þýðing 2001.

20, 21. Hverjir þarfnast ástúðlegrar umhyggju okkar og hvað ættum við öll að vera staðráðin í að gera?

20 Reyndar eru til ‚bágstaddir sem hrópa á hjálp‘ í öllum kristnum söfnuðum. Þetta getur stafað af einsemd, kjarkleysi, vanmetakennd, vonbrigðum með aðra, alvarlegum veikindum eða ástvinamissi. Hver sem ástæðan er hafa allir þessir kæru vinir ákveðnar þarfir sem við getum sinnt og ættum að sinna með því að halda fúslega áfram að sýna þeim ástúðlega umhyggju. — 1. Þessaloníkubréf 5:14.

21 Höldum því áfram að líkja eftir Jehóva Guði sem er „ríkur að ástúðlegri umhyggju.“ (2. Mósebók 34:6, NW; Efesusbréfið 5:1) Við getum gert það með því að aðstoða aðra fúslega og markvisst, einkum þá sem eru hjálparþurfi. Og vissulega heiðrum við Jehóva og höfum mikla ánægju af þegar við sýnum „hver öðrum kærleika [ástúðlega umhyggju].“ — Sakaría 7:9.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Nánari upplýsingar um þá hjónabandsgerð, sem hér var um að ræða, er að finna í bókinni Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 370, gefin út af Vottum Jehóva.

Hvert er svarið?

• Hver er munurinn á ástúðlegri umhyggju og góðmennsku?

• Hvernig sýndu Betúel, Jósef og Rut ástúðlega umhyggju?

• Með hvaða hugarfari ættum við að sýna ástúðlega umhyggju?

• Hverjir þarfnast ástúðlegrar umhyggju okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Hvernig sýndi Betúel ástúðlega umhyggju?

[Mynd á blaðsíðu 29]

Tryggur kærleikur Rutar var Naomí til blessunar.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Ástúðleg umhyggja manna birtist fúslega, í ákveðnum verkum og gagnvart þeim sem eru hjálparþurfi.