Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er Guð?

Hver er Guð?

Hver er Guð?

„GUÐ er almennt heiti gefið æðstu uppsprettu og afli alheimsins sem átrúnaður manna beinist að,“ segir alfræðibókin The Encyclopedia Americana. Orðabók skýrir hugtakið „Guð“ sem ‚æðri veru sem menn trúa að til sé og tilbiðja, skapara alls sem er, drottin.‘ Hvert er eðli þessarar mikilfenglegu veru?

Er Guð ópersónulegt afl eða raunveruleg persóna? Heitir hann eitthvað? Er hann þríeinn eða þrenning eins og margir trúa? Hvernig getum við kynnst Guði? Biblían veitir sönn og fullnægjandi svör við þessum spurningum. Hún hvetur okkur meira að segja til að leita Guðs og segir að ‚eigi sé hann langt frá neinum af okkur.‘ — Postulasagan 17:27.

Ópersónulegt afl eða raunveruleg persóna?

Margir, sem trúa á Guð, líta á hann sem afl en ekki persónu. Í sumum menningarsamfélögum eru guðir til dæmis tengdir náttúruöflunum. Sumir, sem hafa rannsakað vísindaleg gögn um gerð alheimsins og eðli lífsins á jörðinni, hafa dregið þá ályktun að allt hljóti að eiga sér eina frumorsök. En þeir hika við að eigna þessari frumorsök persónuleika.

En nú er sköpunarverkið ákaflega flókið. Bendir það ekki til þess að frumorsökin hljóti að vera framúrskarandi gáfuð? Og gáfur geta ekki verið óháðar huga. Hinn mikli hugur að baki sköpunarverkinu tilheyrir persónunni sem við nefnum Guð. Já, Guð hefur líkama, þó ekki efnislegan eins og við heldur andlegan. „Ef jarðneskur líkami er til,“ segir Biblían, „þá er og til andlegur líkami.“ (1. Korintubréf 15:44) Hún segir skýrum orðum að ‚Guð sé andi.‘ (Jóhannes 4:24) Andi er allt öðruvísi lífsform en við og við getum ekki séð hann. (Jóhannes 1:18) Til eru margar andaverur auk Guðs. Þær eru nefndar englar og kallaðar „synir Guðs.“ — Jobsbók 1:6; 2:1.

Guð á sér engan skapara og hlýtur að eiga sér bústað fyrst hann hefur andlegan líkama. Biblían minnist á andlegt tilverusvið er hún segir að himinninn sé ‚aðseturstaður‘ Guðs. (1. Konungabók 8:43) Biblíuritarinn Páll lætur þess einnig getið að ‚Kristur hafi gengið inn í sjálfan himininn til þess að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.‘ — Hebreabréfið 9:24.

Orðið „andi“ er einnig notað í annarri merkingu í Biblíunni. Sálmaritarinn sagði í bæn til Guðs: „Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til.“ (Sálmur 104:30) Þessi andi er ekki Guð sjálfur heldur kraftur sem hann sendir eða notar til að framkvæma það sem hann ætlar sér. Hann notaði þennan anda til að skapa hinn efnislega himin, jörðina og allar lifandi verur. (1. Mósebók 1:2; Sálmur 33:6) Þessi andi er nefndur heilagur andi, og Guð beitti honum til að stýra ritun Biblíunnar. (2. Pétursbréf 1:20, 21) Heilagur andi er sem sagt ósýnilegur starfskraftur sem Guð notar til að hrinda vilja sínum í framkvæmd.

Hið einstæða nafn Guðs

Biblíuritarinn Agúr spurði: „Hver hefir safnað vindinum í greipar sínar? Hver hefir bundið vatnið í skikkju sína? Hver hefir reist öll endimörk jarðar? Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans?“ (Orðskviðirnir 30:4) Í rauninni var Agúr að spyrja: ‚Þekkirðu nafn eða ætt nokkurs manns sem hefur gert þetta?‘ Guð einn getur stjórnað náttúruöflunum. Þó að sköpunarverkið sé sterk sönnun fyrir tilvist Guðs veitir það engar vísbendingar um það hvað hann heitir. Reyndar gætum við aldrei vitað nafn Guðs nema hann opinberaði okkur það sjálfur. Og það hefur hann gert. „Ég er Drottinn [„Jehóva,“ NW], það er nafn mitt,“ segir skaparinn. — Jesaja 42:8.

Jehóva, hið einstæða nafn Guðs, stendur næstum 7000 sinnum í frumtexta Hebresku ritninganna. Jesús Kristur kunngerði öðrum þetta nafn og lofaði það. (Jóhannes 17:6, 26) Í síðustu bók Biblíunnar kemur það fyrir í orðinu „Hallelúja“ sem merkir „lofið Jah,“ en „Jah“ er styttri mynd nafnsins „Jehóva.“ * (Opinberunarbókin 19:1-6) Fáar nútímabiblíur nota hins vegar nafnið. Oftast er því breytt í „Drottinn“ eða „Guð.“ Á sumum tungumálum eru orðin þá skrifuð með upphafsstöfum til aðgreiningar frá hinum almennu titlum „Drottinn“ og „Guð.“ Sumir fræðimenn telja að nafnið hafi hugsanlega verið borið fram Jahve.

Hvers vegna hafa menn ólíkar skoðanir á því það hvað mesta tignarpersóna alheims heitir? Upphaf þessa vanda má rekja aldir aftur í tímann er Gyðingar hættu sökum hjátrúar að segja nafn Guðs. Þegar þeir komu að stað þar sem nafn Guðs stóð í Ritningunni „lásu“ þeir hebreska orðið, sem þýðir „alvaldur Drottinn,“ í staðinn. Þar eð ekki voru skrifaðir sérhljóðar í hebreskum texta Biblíunnar er engin leið til að vita með vissu hvernig Móse, Davíð og aðrir fortíðarmenn báru fram samstöfuna sem nafn Guðs er skrifaði með. Framburðarmyndin Jehóva hefur hins vegar verið þekkt um aldir og á sér viðurkennda hliðstæðu í fjölmörgum tungumálum heims nú á tímum. — 2. Mósebók 6:3; 17:15, neðanmáls.

Enda þótt óvíst sé hvernig nafn Guðs var borið fram á hebresku er merkingin ekki á huldu. Það merkir „hann lætur verða.“ Þannig lýsir Jehóva því að hann hafi ákveðinn ásetning og standi við allt sem hann lofar. Einungis sannur Guð, sem hefur mátt til að gera þetta, getur borið þetta nafn með réttu. — Jesaja 55:11.

Nafnið Jehóva aðgreinir alvaldan Guð ótvírætt frá öllum öðrum guðum. Þess vegna stendur það svona oft í Biblíunni. Margar biblíuþýðingar fella nafnið að vísu niður. Engu að síður stendur skýrum stöfum í Sálmi 83:19: „Þú einn heitir Drottinn [„Jehóva,“ NW], Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ Meðan Jesús var hér á jörð kenndi hann fylgjendum sínum: „Þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Við ættum því að nota nafn Guðs þegar við biðjum til hans, tölum um hann og lofum hann í áheyrn annarra.

Er Jesús Guð?

Jehóva Guð lætur okkur ekki velkjast í vafa um það hver sonur sinn sé. Í guðspjalli Matteusar segir frá því að eftir skírn Jesú hafi ‚rödd komið af himnum og sagt: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“‘ (Matteus 3:16, 17) Jesús Kristur er sem sagt sonur Guðs.

Sumir halda því reyndar fram að Jesús sé Guð og aðrir segja að Guð sé þríeinn. Samkvæmt þeirri kenningu „er faðirinn Guð, sonurinn Guð, heilagur andi Guð og samt eru ekki þrír guðir, heldur einn Guð.“ Sagt er að ‚allar persónurnar þrjár séu jafneilífar og hver annarri jafnar.‘ (Kirkjan játar, játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar) Eru þessar skoðanir réttar?

Hin innblásna ritning segir um Jehóva: „Frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.“ (Sálmur 90:2) Hann er ‚konungur eilífðar,‘ án upphafs og endis. (1. Tímóteusarbréf 1:17) Jesús er hins vegar „frumburður allrar sköpunar“ og „upphaf sköpunar Guðs.“ (Kólossubréfið 1:13-15; Opinberunarbókin 3:14) Jesús kallaði Guð föður sinn og sagði að ‚faðirinn væri sér meiri.‘ (Jóhannes 14:28) Hann tók einnig fram að sumt vissu hvorki hann né englarnir heldur Guð einn. (Markús 13:32) Og Jesús bað til föður síns og sagði: „Verði . . . ekki minn heldur þinn vilji.“ (Lúkas 22:42) Hvers var hann að biðja til ef ekki til tignarpersónu sem var honum æðri? Og ekki reisti Jesús sjálfan sig upp frá dauðum heldur var það Guð sem gerði það. — Postulasagan 2:32.

Biblían sýnir þannig fram á að Jehóva sé alvaldur Guð og að Jesús sé sonur hans. Þeir voru ekki jafnir áður en Jesús kom til jarðar og ekki meðan jarðvist hans stóð yfir, og ekki varð Jesús heldur jafn föður sínum eftir að hann var reistur upp til himna. (1. Korintubréf 11:3; 15:28) Eins og við höfum séð er heilagur andi — hin svonefnda þriðja persóna þrenningarinnar — ekki persóna heldur kraftur sem Guð notar til að framkvæma það sem hann vill. Biblían kennir því ekki að Guð sé þríeinn. * „Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn!“ segir Biblían. — 5. Mósebók 6:4.

Kynnstu Guði betur

Til að elska Guð og veita honum óskipta hollustu sem honum ber þurfum við að þekkja hann eins og hann raunverulega er. Hvernig getum við kynnst Guði betur? „Hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans,“ segir Biblían. (Rómverjabréfið 1:20) Ein leið til að kynnast Guði betur er sem sagt sú að virða sköpunarverkið fyrir sér með þakklátum huga.

En sköpunarverkið segir okkur ekki allt sem við þurfum að vita um Guð. Til dæmis þurfum við að skyggnast í Biblíuna til að gera okkur grein fyrir því að hann er raunveruleg persóna og ber sérstætt nafn. Biblíunám er reyndar besta leiðin til að kynnast Guði. Í Biblíunni segir Jehóva okkur ótalmargt um það hvers konar Guð hann er. Og hann fræðir okkur um vegu sína og opinberar ásetning sinn. (Amos 3:7; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Við getum fagnað því að Guð skuli vilja að við ‚komumst til þekkingar á sannleikanum‘ þannig að við getum notið góðs af því sem hann hefur gert í okkar þágu. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Við skulum því gera allt sem við getum til að fræðast um Jehóva.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Sjá orðaskýringar í viðauka íslensku biblíunnar frá 1981 undir flettunni „Hallelúja.“

^ gr. 19 Ítarlega umfjöllun um þetta efni er að finna í bæklingnum Ættum við að trúa á þrenninguna?, gefinn út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Guð notaði heilagan anda sinn til að skapa jörðina og innblása mönnum að skrifa Biblíuna.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Rödd af himni sagði: „Þessi er minn elskaði sonur.“

[Mynd á blaðsíðu 7]

Jesús bað til Guðs sem er honum æðri.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Jesús kunngerði öðrum nafn Guðs.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Við getum kynnst Guði betur.