Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver lifir dag Jehóva af?

Hver lifir dag Jehóva af?

Hver lifir dag Jehóva af?

„Dagurinn kemur, brennandi sem ofn.“ — MALAKÍ 4:1.

1. Hvernig lýsir Malakí endalokum þessa illa heimskerfis?

MALAKÍ spámanni var innblásið að skrásetja spádóma frá Guði um ógnvænlega atburði sem munu eiga sér stað í náinni framtíð og snerta alla jarðarbúa. Malakí 4:1 segir: „Sjá, dagurinn kemur, brennandi sem ofn, og allir hrokafullir og allir þeir er guðleysi fremja, munu þá vera sem hálmleggir, og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim — segir Drottinn allsherjar — svo að hvorki verði eftir af þeim rót né kvistur.“ Þessu illa heimskerfi verður eytt svo algerlega að það er eins og tré sem er rifið upp með rótum svo að það getur aldrei vaxið upp aftur.

2. Hvernig lýsa nokkrir ritningarstaðir degi Drottins Jehóva?

2 Þér er kannski spurn hvaða ‚dag‘ Malakí spámaður sé að tala um. Þetta er sami dagur og um er rætt í Jesaja 13:9 þar sem segir: „Sjá, dagur Drottins kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni.“ Sefanía 1:15 lýsir honum svo: „Sá dagur er dagur reiði, dagur neyðar og þrengingar, dagur eyðingar og umturnunar, dagur myrkurs og niðdimmu, dagur skýþykknis og skýsorta.“

„Sú mikla þrenging“

3. Hvað er „dagur Drottins“?

3 Í aðaluppfyllingu Malakíspádómsins er „dagur Drottins“ sama tímabil og kallað er ‚þrengingin mikla.‘ Jesús sagði: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.“ (Matteus 24:21) Hugsaðu þér allar þær þrengingar sem heimurinn hefur mátt þola, einkum frá og með 1914. (Matteus 24:7-12) Meira en 50 milljónir manna týndu lífi í seinni heimsstyrjöldinni, svo dæmi sé tekið. Það mun þó hverfa í skuggann af ‚þrengingunni miklu.‘ Þessari þrengingu, sem er hið sama og dagur Drottins Jehóva, lýkur með Harmagedónstríðinu, og bindur enda á síðustu daga þessa illa heimskerfis. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; Opinberunarbókin 7:14; 16:14, 16.

4. Hvað gerist áður en degi Jehóva lýkur?

4 Þegar þessum degi Jehóva lýkur verður búið að útrýma heimi Satans og þeim sem styðja hann. Fyrst verður falstrúarbrögðunum rutt úr vegi og síðan verður dómi Jehóva fullnægt á stjórnmála- og efnahagskerfi Satans. (Opinberunarbókin 17:12-14; 19:17, 18) Esekíel spáir: „Silfri sínu munu þeir varpa út á strætin, og gull þeirra mun vera þeim sem saur. Silfur þeirra og gull fær eigi frelsað þá á reiðidegi Drottins.“ (Esekíel 7:19) Sefanía 1:14 segir um þennan dag: „Hinn mikli dagur Drottins er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög.“ Í ljósi þess sem Biblían segir um dag Jehóva ættum við að vera staðráðin í að lifa í samræmi við réttlátar kröfur hans.

5. Hvað gerist hjá þeim sem óttast nafn Jehóva?

5 Eftir að hafa lýst því hvað verður um heim Satans á degi Jehóva hefur Malakí 4:2 eftir Jehóva: „Yfir yður, sem óttist nafn mitt, mun réttlætissólin upp renna með græðslu undir vængjum sínum, og þér munuð út koma og leika yður eins og kálfar, sem út er hleypt úr stíu.“ Jesús Kristur er „réttlætissólin“ og hið andlega „ljós heimsins.“ (Jóhannes 8:12) Hann rennur upp með græðslu, fyrst með andlegu lækningunni sem við hljótum núna og síðan með fullkominni líkamlegri lækningu í nýja heiminum. Eins og Jehóva segir munu hinir læknuðu hlaupa um fagnandi „eins og kálfar, sem út er hleypt úr stíu,“ frelsinu fegnir.

6. Hvaða sigurfögnuð munu þjónar Jehóva halda?

6 Hvað um þá sem skeyta ekki um kröfur Jehóva? Malakí 4:3 segir: „Þér [þjónar Guðs] munuð sundur troða hina óguðlegu, því að þeir munu verða aska undir iljum yðar, — á þeim degi er ég hefst handa — segir Drottinn allsherjar.“ Mennskir tilbiðjendur Guðs taka ekki þátt í að eyða heimi Satans. Það er í óeiginlegri merkingu sem þeir „sundur troða hina óguðlegu“ með því að taka þátt í sigurhátíðinni sem fylgir degi Jehóva. Mikil hátíð var til dæmis haldin eftir að her faraós var eytt í Rauðahafinu. (2. Mósebók 15:1-21) Og sigurhátíð verður líka haldin í kjölfar þess að Satan og heimur hans hverfa af sjónarsviðinu í þrengingunni miklu. Trúfastir menn, sem lifa dag Jehóva af, munu syngja: „Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!“ (Jesaja 25:9) Það verður mikill fögnuður þegar drottinvald Jehóva er upphafið og jörðin hreinsuð fyrir friðsamlega búsetu manna!

Kristni heimurinn líkir eftir Ísrael

7, 8. Lýstu andlegu ástandi Ísraels á dögum Malakís.

7 Þeir sem þjóna Jehóva hljóta velvild hans, ólíkt þeim sem þjóna honum ekki. Eins var það á þeim tíma er Malakí skrifaði bókina sem við hann er kennd. Leifar Ísraelsmanna sneru heim árið 537 f.o.t. eftir 70 ára útlegð í Babýlon. En á næstu hundrað árum tók þjóðin aftur að síga út í fráhvarf og illsku. Flestir vanvirtu nafn Jehóva, hunsuðu réttlát lög hans og spilltu musteri hans með því að færa blindar, haltar og sjúkar skepnur að fórn, og með því að skilja við eiginkonur æsku sinnar.

8 Jehóva sagði þeim þar af leiðandi: „Ég mun nálægja mig yður til að halda dóm og mun skyndilega fram ganga sem vitni í gegn töframönnum, hórdómsmönnum og meinsærismönnum og í gegn þeim, sem hafa af daglaunamönnum, ekkjum og munaðarleysingjum og halla rétti útlendinga, en óttast mig ekki . . . Ég, Drottinn, hefi ekki breytt mér.“ (Malakí 3:5, 6) Samt sem áður lét Jehóva boð út ganga til allra sem vildu snúa frá villu síns vegar: „Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar.“ — Malakí 3:7.

9. Hvernig rættust spádómar Malakís í byrjun?

9 Þessi orð uppfylltust einnig á fyrstu öld okkar tímatals. Leifar Gyðinga þjónuðu Jehóva og mynduðu nýja „þjóð“ andagetinna kristinna manna. Með tímanum bættist fólk af heiðnum uppruna við. En mikill meirihluti Ísraels að holdinu hafnaði Jesú. Þess vegna sagði hann Ísraelsmönnum: „Hús yðar verður í eyði látið.“ (Matteus 23:38; 1. Korintubréf 16:22) Árið 70 kom „dagurinn, . . . brennandi sem ofn,“ yfir Ísrael að holdinu eins og spáð var í Malakí 4:1. Jerúsalem og musterið voru lögð í eyði og að sögn lést meira en milljón manns vegna hungurs, innbyrðis átaka og árása rómverskra hersveita. En þeir sem þjónuðu Jehóva sluppu við þrenginguna. — Markús 13:14-20.

10. Hvernig líkja almenningur og klerkastéttin eftir Ísrael fyrstu aldar?

10 Mannkynið, einkum þó kristni heimurinn, hefur líkt eftir Ísraelsþjóð fyrstu aldar. Leiðtogar kristna heimsins og almenningur taka sínar eigin trúarsetningar fram yfir þau guðssannindi sem Jesús kenndi. Sökin liggur sérstaklega hjá klerkastéttinni. Hún neitar að nota nafn Jehóva og afmáir það jafnvel úr biblíuþýðingum sínum. Hún vanvirðir Jehóva með óbiblíulegum kennisetningum svo sem hinum heiðnu kenningum um helvíti, þrenningu og ódauðleika sálarinnar, og um þróun lífsins. Þannig rænir hún Jehóva því lofi sem honum ber, líkt og prestarnir gerðu á dögum Malakís.

11. Hvernig sýna trúarbrögð heims hverjum þau þjóna í raun og veru?

11 Hinir síðustu dagar hófust árið 1914 og trúarbrögð heims, undir forystu þeirra sem kölluðu sig kristin, sýndu þá hverjum þau þjónuðu í raun og veru. Í heimsstyrjöldunum báðum hvöttu þau áhangendur sína út í stríð vegna þjóðerniságreinings, jafnvel þótt það hefði í för með sér að þeir dræpu trúbræður sína. Orð Guðs sýnir skýrt og greinilega hverjir hlýða Jehóva og hverjir ekki: „Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til. Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan. Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.

Að uppfylla spádómana

12, 13. Hvaða spádóma hafa þjónar Guðs uppfyllt á okkar tímum?

12 Í lok fyrri heimstyrjaldar árið 1918 sáu þjónar Jehóva að hann hafði dæmt kristna heiminn ásamt öllum öðrum falstrúarbrögðum. Þaðan í frá gekk út boð til réttsinnaðra manna: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar. Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.“ (Opinberunarbókin 18:4, 5) Byrjað var að hreinsa burt menjar falstrúar hjá þeim sem þráðu að þjóna Jehóva og þeir tóku að prédika fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs út um allan heim. Verkinu skyldi lokið áður en þetta illa heimskerfi liði undir lok. — Matteus 24:14.

13 Þannig rættist spádómurinn í Malakí 4:5 þar sem Jehóva segir: „Sjá, ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.“ Þessi spádómur uppfylltist fyrst með starfi Jóhannesar skírara sem Elía fyrirmyndaði. Jóhannes vann líkt starf og Elía er hann skírði Gyðinga sem iðruðust synda sinna gegn lagasáttmálanum. Og það sem meira er, Jóhannes var fyrirrennari Messíasar. En starf Jóhannesar var aðeins minni háttar uppfylling á spádómi Malakís. Jesús talaði að vísu um Jóhannes sem annan Elía en gaf til kynna að unnið yrði ‚Elíastarf‘ í framtíðinni. — Matteus 17:11, 12.

14. Hvaða mikilvægt verk þarf að vinna áður en þetta heimskerfi líður undir lok?

14 Spádómur Malakís benti á að þetta þýðingarmikla Elíastarf yrði unnið áður en „hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins“ rynni upp. Honum lýkur með stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda við Harmagedón sem nálgast óðfluga. Það merkir að áður en þetta illa heimskerfi líður undir lok og þúsund ára stjórn Guðsríkis á himnum í höndum Jesú Krists tekur við verður unnið verk sem samsvarar starfi Elía. Og áður en Jehóva eyðir þessu illa heimskerfi vinnur Elíahópur nútímans að því að endurreisa hreina tilbeiðslu, upphefja nafn Jehóva og kenna sauðumlíkum mönnum sannleika Biblíunnar, eins og spádómurinn gefur til kynna. Milljónir kristinna manna með jarðneska von vinna af miklum áhuga að þessu verki ásamt Elíahópnum.

Jehóva blessar þjóna sína

15. Hvernig minnist Jehóva þjóna sinna?

15 Jehóva blessar þá sem þjóna honum. Malakí 3:16 segir: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast Drottin, og Drottinn gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast Drottin og virða hans nafn.“ Það má orða það svo að allt frá dögum Abels hafi Guð ritað í bók sína nöfn þeirra manna sem hann ætlar að minnast og veita eilíft líf. Hann segir við þá: „Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu, og reynið mig einu sinni á þennan hátt . . . hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.“ — Malakí 3:10.

16, 17. Hvernig hefur Jehóva blessað fólk sitt og starf þess?

16 Jehóva hefur sannarlega blessað þá sem þjóna honum. Hvernig? Meðal annars hefur hann veitt þeim aukinn skilning á ásetningi sínum. (Orðskviðirnir 4:18; Daníel 12:10) Hann hefur einnig veitt þeim ótrúlega uppskeru í boðunarstarfinu. Margir hjartahreinir menn hafa sameinast okkur í sannri tilbeiðslu svo að til er orðinn „mikill múgur . . . af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. . . . Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 10) Þessi mikli múgur hefur komið fram með undraverðum hætti og tilbiðjendur Jehóva eru nú orðnir rösklega sex milljónir í meira en 93.000 söfnuðum um heim allan!

17 Blessun Jehóva birtist einnig í því að vottar hans gefa út útbreiddustu biblíufræðslurit mannkynssögunnar. Sem stendur eru prentaðar mánaðarlega 90 milljónir eintaka af Varðturninum og Vaknið!, hið fyrrnefnda á 144 tungumálum og hið síðarnefnda á 87. Biblíunámsbókin Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs kom út árið 1968 og var prentuð í meira en 107 milljónum eintaka á 117 tungumálum. Bókin Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð kom út árið 1982, og upplag hennar varð 81 milljón eintaka á 131 tungumáli. Og árið 1995 kom út bókin Þekking sem leiðir til eilífs lífs og hún hefur verið prentuð í meira en 85 milljónum eintaka á 154 tungumálum. Bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur?, gefinn út árið 1996, er kominn upp í 150 milljónir eintaka á 244 tungumálum.

18. Af hverju njótum við andlegrar velsældar þrátt fyrir andstöðu?

18 Þjónar Guðs hafa notið þessarar andlegu velmegunar þrátt fyrir megna og langvinna andstöðu frá heimi Satans. Þetta undirstrikar sannleikann í Jesaja 54:17: „Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður. Þetta er hlutskipti þjóna Drottins og það réttlæti, er þeir fá hjá mér— segir Drottinn.“ Það er hughreystandi fyrir þjóna Jehóva að vita að Malakí 3:17 á sér aðaluppfyllingu á þeim: „Þeir skulu vera mín eign — segir Drottinn allsherjar — á þeim degi, sem ég hefst handa.“

Að þjóna Jehóva með gleði

19. Hvernig eru þeir sem þjóna Jehóva ólíkir hinum sem gera það ekki?

19 Munurinn á trúum þjónum Jehóva og óguðlegum mönnum í heimi Satans verður æ ljósari með degi hverjum. Spáð er í Malakí 3:18: „Þér [munuð] aftur sjá þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum.“ Munurinn er meðal annars fólginn í því að þeir sem þjóna Jehóva gera það með mikilli gleði. Ein ástæðan er hin stórfenglega von sem þeir eiga. Þeir treysta Jehóva fullkomlega er hann segir: „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa.“ — Jesaja 65:17, 18; Sálmur 37:10, 11, 29; Opinberunarbókin 21:4, 5.

20. Af hverju erum við glöð?

20 Við trúum því loforði Jehóva að dyggir þjónar hans um heim allan lifi af hinn mikla dag hans og fái að ganga inn í nýja heiminn. (Sefanía 2:3; Opinberunarbókin 7:13, 14) Og jafnvel þótt sumir deyi vegna aldurs, sjúkdóma eða slysfara fyrir þann tíma heitir Jehóva að minnast þeirra og reisa þá upp með eilíft líf í vændum. (Jóhannes 5:28, 29; Títusarbréfið 1:2) Við eigum öll við einhver vandamál og erfiðleika að glíma meðan við bíðum eftir degi Jehóva en við höfum samt sem áður fulla ástæðu til að vera glaðastir allra manna á jarðarkringlunni.

Hvert er svarið?

• Hvað er „dagur Drottins“?

• Hvernig líkja trúarbrögð heims eftir Ísrael fortíðar?

• Hvaða spádóma uppfylla þjónar Jehóva?

• Hvernig hefur Jehóva blessað fólk sitt?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Jerúsalem fyrstu aldar ‚brann sem ofn.‘

[Mynd á blaðsíðu 21]

Jehóva sér fyrir þeim sem þjóna honum.

[Myndir á blaðsíðu 22]

Þjónar Jehóva eru glaðir vegna þess að þeir eiga unaðslega von.