Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva hatar sviksemi

Jehóva hatar sviksemi

Jehóva hatar sviksemi

‚Breytum ekki sviksamlega hver við annan.‘ — MALAKÍ 2:10.

1. Hvað þurfum við að gera til að hljóta eilíft líf?

LANGAR þig til að lifa að eilífu? ‚Auðvitað,‘ svarar þú ef þú trúir á þá von sem Biblían heldur á loft. En ef þú þráir að Guð veiti þér eilíft líf í nýjum heimi sínum þarftu að uppfylla þær kröfur sem hann gerir. (Prédikarinn 12:13; Jóhannes 17:3) Er ósanngjarnt að krefjast þess af ófullkomnum mönnum? Nei, því að Jehóva er einkar uppörvandi og segir: „Á miskunnsemi hefi ég þóknun, en ekki á sláturfórn, og á guðsþekking fremur en á brennifórnum.“ (Hósea 6:6) Jafnvel skeikulir menn geta því uppfyllt kröfur Guðs.

2. Hvernig sýndu margir Ísraelsmenn Jehóva sviksemi?

2 En það vilja ekki allir gera vilja Jehóva. Hósea bendir á að margir Ísraelsmenn hafi ekki einu sinni viljað það. Sem þjóð höfðu þeir gengist undir sáttmála um að hlýða lögum Guðs. (2. Mósebók 24:1-8) En áður en langt um leið höfðu þeir „rofið sáttmálann“ með því að brjóta lög hans. Þess vegna sagði Jehóva að þessir Ísraelsmenn væru sér „ótrúir.“ (Hósea 6:7) Og margir fleiri hafa verið það síðan. En Jehóva hatar ótrúmennsku og sviksemi, hvort sem hún er gagnvart honum sjálfum eða þeim sem elska hann og þjóna honum.

3. Hvað brjótum við til mergjar í þessari námsgrein?

3 Hósea er ekki eini spámaðurinn sem vekur athygli á afstöðu Guðs til sviksemi, en við þurfum að tileinka okkur hana til að eiga farsæla ævi. Í greininni á undan byrjuðum við að brjóta spádóm Malakís til mergjar og fórum yfir fyrsta kaflann. Nú snúum við okkur að öðrum kafla bókarinnar og sjáum hvernig athyglinni er beint enn og aftur að afstöðu Guðs til sviksemi. Enda þótt Malakí sé að fjalla um stöðu mála hjá fólki Guðs áratugum eftir heimkomuna frá Babýlon hefur annar kafli bókarinnar verulega þýðingu fyrir okkur.

Ámælisverðir prestar

4. Við hverju varar Jehóva prestana?

4 Annar kaflinn hefst á því að Jehóva átelur prestana fyrir að víkja út af réttlátum vegum sínum. Taki þeir ekki ráðleggingar hans til sín og bæti sig hefur það alvarlegar afleiðingar. Taktu eftir fyrstu tveim versunum: „Nú út gengur þessi viðvörun til yðar, þér prestar: Ef þér hlýðið ekki og látið yður ekki um það hugað að gefa nafni mínu dýrðina — segir Drottinn allsherjar —, þá sendi ég yfir yður bölvunina og sný blessunum yðar í bölvun.“ Ef prestarnir hefðu kennt þjóðinni lög Guðs og haldið þau hefði hann blessað þá. En úr því að þeir hafa virt vilja hans að vettugi kalla þeir yfir sig bölvun en ekki blessun. Meira að segja snýst blessunin, sem prestarnir mæla fram, upp í bölvun.

5, 6. (a) Hvers vegna voru prestarnir sérstaklega ámælisverðir? (b) Hvernig lýsti Jehóva fyrirlitningu sinni á prestunum?

5 Hvers vegna voru prestarnir sérstaklega ámælisverðir? Sjöunda versið gefur skýra vísbendingu um það: „Varir prestsins eiga að varðveita þekking, og fræðslu leita menn af munni hans, því að hann er sendiboði Drottins allsherjar.“ Meira en tvö þúsund árum áður hafði Ísrael verið gefið lögmálið fyrir milligöngu Móse, og þar stóð að prestarnir ættu að ‚kenna Ísraelsmönnum öll þau lög er Drottinn hafði gefið þeim.‘ (3. Mósebók 10:11) Síðar þurfti ritari 2. Kroníkubókar 15:3 því miður að skrifa: „Langan tíma hefir Ísrael verið án hins sanna Guðs, án presta, er fræddu hann, og án lögmáls.“

6 Ástand prestastéttarinnar var eins á dögum Malakís, á fimmtu öld f.o.t. Þeir kenndu ekki þjóðinni lögmál Guðs og þurftu að svara fyrir það. Taktu eftir kröftugri ofanígjöf Jehóva. Malakí 2:3 segir: „Ég . . . strái saur framan í yður, saurnum frá hátíðafórnunum.“ Hvílík ádrepa! Það átti að fara með saur fórnardýranna út fyrir herbúðirnar og brenna hann þar. (3. Mósebók 16:27) En þegar Jehóva segir þeim að saurnum verði stráð framan í þá er ljóst að hann fyrirleit fórnir þeirra og hafnaði þeim og fórnfærendunum.

7. Hvers vegna var Jehóva reiður þeim sem kenndu lögmálið?

7 Öldum fyrir daga Malakís hafði Jehóva falið levítunum að annast tjaldbúðina og síðar musterið og helgiþjónustuna. Þeir voru kennarar þjóðarinnar. Með því að vinna störf sín vel hefðu þeir stuðlað að lífi og friði handa sér og þjóðinni. (4. Mósebók 3:5-8) En levítarnir hættu að óttast Guð og þess vegna sagði hann þeim: „Þér hafið vikið af veginum og leitt marga í hrösun með fræðslu yðar, þér hafið spillt sáttmála Leví . . . þér gætið ekki minna vega.“ (Malakí 2:8, 9) Með því að kenna ekki sannleikann og með slæmu fordæmi sínu leiddu þeir marga Ísraelsmenn afvega, þannig að Jehóva hafði ærna ástæðu til að vera þeim reiður.

Að halda kröfur Guðs

8. Er það til of mikils ætlast að menn haldi kröfur Guðs? Skýrðu svarið.

8 Við skulum ekki halda að prestarnir hafi verðskuldað samúð og fyrirgefningu á þeirri forsendu að þeir hafi ekki getað risið undir kröfum Guðs vegna ófullkomleika síns. Staðreyndin er sú að menn geta haldið boðorð Guðs því að hann ætlast ekki til að þeir geri meira en þeir geta. Líklega hafa einstaka prestar gert það forðum daga, og ljóst er að einn gerði það síðar. Það var Jesús, ‚æðsti presturinn‘ mikli. (Hebreabréfið 3:1) Um hann var hægt að segja með sanni: „Sönn fræðsla var í munni hans og rangindi fundust ekki á vörum hans. Í friði og ráðvendni gekk hann með mér, og mörgum aftraði hann frá misgjörðum.“ — Malakí 2:6.

9. Hverjir hafa miðlað sannleikanum dyggilega á okkar tímum?

9 Í meira en öld hafa smurðir bræður Krists, þeir sem hafa himneska von, þjónað sem ‚heilagt prestafélag til að bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar.‘ (1. Pétursbréf 2:5) Þeir hafa haft forgöngu um að dreifa biblíusannindum til annarra. Hefur ekki biblíufræðslan, sem þú hefur hlotið, sannfært þig um að sönn fræðsla sé í munni þeirra? Þeir hafa hjálpað mörgum að snúa frá trúarlegri villu, svo mörgum að núna hafa milljónir manna um heim allan lært sannleika Biblíunnar og eiga von um eilíft líf. Þessar milljónir fá svo að veita milljónum manna til viðbótar sanna fræðslu. — Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9.

Varúð er nauðsynleg

10. Af hverju höfum við ástæðu til að vera varkár?

10 En það er ástæða til að gæta varúðar. Okkur gæti yfirsést sá lærdómur sem er fólginn í Malakí 2:1-9. Erum við sjálf vakandi fyrir því að engin rangindi finnist á vörum okkar? Geta aðrir í fjölskyldunni virkilega treyst því sem við segjum? Geta trúsystkini okkar í söfnuðinum gert það líka? Það er ósköp auðvelt að venja sig á að orða hlutina strangt til tekið rétt en samt villandi. Við gætum átt til að ýkja eða leyna upplýsingum í viðskiptum. Myndi Jehóva ekki sjá það? Og myndi hann þiggja lofgerðarfórnir vara okkar ef við stunduðum slíkt?

11. Hverjir þurfa sérstaklega að vera varkárir?

11 Malakí 2:7 felur í sér viðvörun til þeirra sem hafa það verkefni að kenna orð Guðs í söfnuðunum nú á dögum. Þar segir að ‚varir þeirra eigi að varðveita þekkingu og fræðslu leiti menn af munni þeirra.‘ Það er alvarleg ábyrgð að vera kennari því að Jakobsbréfið 3:1 bendir á að kennarar ‚fái þyngri dóm.‘ Þeir ættu að kenna af krafti og eldmóði en kennslan verður að vera tryggilega byggð á rituðu orði Guðs og þeirri fræðslu sem kemur frá skipulagi hans. Þá eru þeir „færir um að kenna öðrum.“ Þeim er því ráðlagt: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:2, 15.

12. Hvers þurfa kennarar í söfnuðinum að gæta?

12 Ef við erum ekki varkár gætum við freistast til að flétta eigin skoðunum eða smekk inn í kennsluna. Þeim er sérstaklega hætta búin sem hafa tilhneigingu til að standa mjög fast á eigin skoðunum, jafnvel þegar þær stangast á við það sem skipulag Jehóva kennir. En 2. kafli hjá Malakí bendir á að við eigum að vænta þess að kennarar safnaðarins miðli þekkingu frá Guði en ekki eigin skoðunum sem gætu orðið sauðunum að falli. Jesús sagði: „Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.“ — Matteus 18:6.

Að giftast vantrúuðum

13, 14. Hvers konar sviksemi bendir Malakí á?

13 Frá og með 10. versi vekur 2. kaflinn hjá Malakí athygli á sviksemi með enn beinskeyttari hætti. Malakí bendir á tvær skyldar stefnur sem hann kallar mörgum sinnum ‚sviksemi‘ og ‚trúnaðarbrot.‘ Hann hefur máls á þessu með því að varpa fram eftirfarandi spurningum: „Eigum vér ekki allir hinn sama föður? Hefir ekki einn Guð skapað oss? Hvers vegna breytum vér þá sviksamlega hver við annan og vanhelgum sáttmála feðra vorra?“ Í 11. versinu bætir hann við að sviksemi Ísraelsmanna samsvari því að vanhelga ‚helgidóm Jehóva.‘ Hvað gerðu þeir sem var svona alvarlegt? Versið bendir á eitt sem þeir gerðu rangt: Þeir höfðu „gengið að eiga þær konur, sem trúa á útlenda guði.“

14 Með öðrum orðum höfðu sumir Ísraelsmenn, sem tilheyrðu vígðri þjóð Jehóva, gifst konum sem tilbáðu hann ekki. Samhengið varpar ljósi á alvöru málsins. Tíunda versið segir að Ísraelsmenn eigi einn og sama föður. Hér er ekki átt við Jakob (öðru nafni Ísrael) eða Abraham eða jafnvel Adam. Malakí 1:6 bendir á að Jehóva sé þessi ‚sami faðir.‘ Ísraelsmenn áttu samband við hann og voru meðaðilar að sáttmálanum sem gerður var við feður þeirra. Eitt af ákvæðum sáttmálans hljóðaði svo: „Eigi skalt þú mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa sonum þeirra dætur þínar né heldur taka dætur þeirra til handa sonum þínum.“ — 5. Mósebók 7:3.

15. (a) Hvernig gætu sumir reynt að réttlæta það að giftast vantrúuðum? (b) Hvað segir Jehóva um hjónaband?

15 Nú á tímum hugsa sumir kannski svona: ‚Manneskjan, sem ég er hrifin(n) af, er alveg einstök. Hún tekur ábyggilega við sannleikanum með tímanum.‘ Slíkur hugsunarháttur staðfestir hina innblásnu viðvörun: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það.“ (Jeremía 17:9) Afstaða Guðs til þess að giftast vantrúuðum kemur fram í Malakí 2:12: „Jehóva mun afmá hvern þann sem gerir það.“ (NW) Kristnir menn eru því hvattir til að giftast ‚aðeins í Drottni.‘ (1. Korintubréf 7:39) Trúaður maður er ekki ‚afmáður‘ undir hinni kristnu skipan fyrir að giftast vantrúuðum. En hvað verður um hinn vantrúaða ef hann er enn vantrúaður þegar Guð bindur enda á þetta heimskerfi í náinni framtíð? — Sálmur 37:37, 38.

Að fara illa með maka sinn

16, 17. Hvaða sviksemi sýndu sumir af sér?

16 Malakí minnist þessu næst á aðra sviksemi — að fara illa með maka sinn, einkum með því að skilja við hann á röngum forsendum. Fjórtánda vers í 2. kafla segir: „Drottinn var vottur að sáttmálsgjörðinni milli þín og konu æsku þinnar, er þú hefir nú brugðið trúnaði við, enda þótt hún væri förunautur þinn og eiginkona þín eftir gjörðu sáttmáli.“ Altari Jehóva var ‚hulið tárum‘ vegna þess að Gyðingar brugðu trúnaði við eiginkonur sínar. (Malakí 2:13) Þessir karlar fengu skilnað á ýmsum röngum forsendum og yfirgáfu eiginkonur æsku sinnar, sennilega til að kvænast yngri konum eða heiðnum. Og prestarnir voru svo spilltir að þeir leyfðu þetta. En Malakí 2:16 segir skýrt: „Ég hata hjónaskilnað — segir Drottinn, Ísraels Guð.“ Jesús benti á það síðar að siðleysi væri eina skilnaðarástæðan sem veitti saklausa makanum frelsi til að giftast á ný. — Matteus 19:9.

17 Hugleiddu orð Malakís og vittu hvort þau höfða ekki til hjartans og góðvildarinnar. Hann talar um ‚förunaut þinn og eiginkonu þína eftir gjörðu sáttmáli.‘ Hver sem átti í hlut hafði kvænst trúsystur sinni, ísraelskri konu, og valið hana sem félaga og lífsförunaut, trúlega þegar þau voru bæði ung. Tíminn, sem liðinn var, og aldurinn, sem færst hafði yfir, ógilti ekki sáttmálann sem þau höfðu gert, það er að segja hjúskaparsáttmálann.

18. Hvernig eiga ráðleggingar Malakís um sviksemi við nú á dögum?

18 Þessar ráðleggingar eiga ekkert síður við núna. Það er sorglegt að sumir skuli virða að vettugi leiðbeiningar Guðs um að giftast aðeins í Drottni. Og það er líka dapurlegt að sumir skuli ekki leggja sig fram um að halda hjónabandinu sterku heldur finna sér tylliástæður fyrir breytni sem Guð hatar með því að skilja á óbiblíulegum forsendum til að giftast öðrum. Þannig ‚mæða‘ þeir Jehóva. Þeir sem hunsuðu lög hans á dögum Malakís voru jafnvel svo ósvífnir að telja afstöðu Jehóva óréttmæta. Þeir sögðu í reynd: „Hvar er sá Guð, sem dæmir?“ Þetta er rangsnúinn hugsunarháttur! Föllum ekki í þessa gildru. — Malakí 2:17.

19. Hvernig geta eiginmenn og eiginkonur fengið anda Guðs?

19 Það er þó hrósvert að ekki höfðu allir eiginmenn brugðið trúnaði við konur sínar eins og Malakí bendir á. Þeir ‚höfðu það sem eftir var af heilögum anda Guðs.‘ (15. vers, NW) Sem betur fer státar skipulag Guðs nú á tímum af miklum fjölda eiginmanna sem ‚veita eiginkonum sínum virðingu.‘ (1. Pétursbréf 3:7) Þeir hvorki misþyrma þeim, úthúða né ætlast til þess að þær taki þátt í niðurlægjandi kynlífsathöfnum, og þeir smána þær ekki með því að daðra við aðrar konur eða horfa á klám. Það er líka blessun fyrir skipulag Jehóva að hafa innan vébanda sinna mikinn fjölda trúfastra eiginkvenna sem eru trúar Guði og lögum hans. Þessir karlar og konur vita hvað Guð hatar, og hugsa og breyta samkvæmt því. Haltu áfram að líkjast þeim, ‚hlýða Guði‘ og hljóta ríkulegan skerf af heilögum anda hans. — Postulasagan 5:29.

20. Hvaða tími er í nánd fyrir allt mannkyn?

20 Innan skamms dæmir Jehóva allan heiminn. Hver og einn þarf að standa honum reikningsskap trúar sinnar og verka. „Sérhver af oss [skal] lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.“ (Rómverjabréfið 14:12) Það er því áhugavert að velta fyrir sér á þessu stigi hver lifi dag Jehóva af. Þriðja og síðasta greinin í þessari syrpu fjallar um það.

Geturðu svarað?

• Af hvaða meginástæðu vítti Jehóva prestana í Ísrael?

• Hvers vegna eru kröfur Guðs ekki utan seilingar manna?

• Hvers vegna þurfum við að sýna aðgát í kennslu okkar?

• Hvað tvennt fordæmdi Jehóva sérstaklega?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Prestar á dögum Malakís voru víttir fyrir að ganga ekki á vegum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Við verðum að gæta þess að kenna vegu Jehóva en halda ekki á loft uppáhaldshugmyndum sjálfra okkar.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Jehóva fordæmdi Ísraelsmenn sem skildu við eiginkonur sínar af litlu tilefni og gengu að eiga heiðnar konur.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Kristnir menn heiðra hjónabandssáttmálann.