Við þurfum að vita hver Guð er
Við þurfum að vita hver Guð er
HRÍFST þú ekki af tindrandi stjörnum á heiðskírri nóttu? Finnst þér ekki unaðslegt að teyga í þig angan blómanna? Nýturðu þess ekki að hlusta á söng fuglanna og skrjáfið í laufi trjánna? Og er ekki tilkomumikið að horfa upp á stórhveli hafsins og önnur sjávardýr? Ekki má svo gleyma manninum sem er gæddur samvisku og ótrúlega margslungnum heila. Hvernig er hægt að skýra tilveru allra þeirra undra sem við okkur blasa?
Sumir trúa að allt þetta hafi orðið til af hreinni tilviljun. En ef það væri rétt, hvernig væri þá hægt að skýra vitund mannsins um Guð? Hvernig ætti tilviljanakenndur samruni ýmissa efnasambanda að hafa myndað lifandi verur gæddar andlegri vitund og þörfum?
„Trúin á sér djúpar rætur í mannlegu eðli og hana er að finna á öllum efnahags- og menntastigum.“ Þetta var í hnotskurn niðurstaða rannsókna sem Alister Hardy, prófessor, setti fram í bókinni The Spiritual Nature of Man. Sumir taugasérfræðingar hafa sett fram þá tilgátu á grunni nýlegra tilrauna með mannsheilann að trúargetan kunni að vera „innbyggð“ í manninn. Bókin Is God the Only Reality? segir: „Leit mannsins að tilgangi með hjálp trúarinnar . . . er sameiginleg öllum menningarsamfélögum og öllum tímaskeiðum frá því að mannkynið hóf göngu sína.“
Lærður maður komst að þessari niðurstöðu fyrir 2000 árum: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ (Hebreabréfið 3:4) Reyndar segir fyrsta vers Biblíunnar: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ — 1. Mósebók 1:1.
En hver er Guð? Skoðanir manna eru ákaflega skiptar. Japanskur piltur, sem heitir Yoshi, var spurður þessarar spurningar og svaraði: „Ég er ekki viss. Ég er búddhatrúar og það hefur ekki skipt mig miklu máli að vita hver Guð er.“ Yoshi viðurkennir þó að margir dýrki Búddha sem guð. Nick er kaupsýslumaður á sjötugsaldri. Hann trúir á Guð og lítur á hann sem almáttugt afl. Hann þagði um stund er hann var beðinn að skýra hvað hann vissi um Guð. Síðan sagði hann: „Þetta er mjög erfið spurning, vinur minn. Það eina sem ég get sagt er að Guð er til.“
Sumir ‚göfga og dýrka hið skapaða í stað skaparans.‘ (Rómverjabréfið 1:25) Milljónir manna dýrka látna forfeður og ímynda sér að Guð sé svo fjarlægur að þeir nái aldrei til hans. Margir guðir og gyðjur eru tilbeðin í hindúatrú. Ýmsir guðir voru tilbeðnir á þeim tíma þegar postular Jesú Krists voru uppi, þeirra á meðal Seifur og Hermes. (Postulasagan 14:11, 12) Margar kirkjudeildir kristna heimsins kenna að Guð sé þríeinn, samsettur úr Guði föðurnum, Guði syninum og Guði heilögum anda.
Vissulega eru til „margir guðir og margir herrar“ líkt og Biblían bendir á, en eins og hún segir „höfum vér ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá.“ (1. Korintubréf 8:5, 6) Já, það er aðeins til einn sannur Guð. En hver er hann? Hvernig er hann? Það er mikilvægt fyrir okkur að vita svörin við þessum spurningum því að Jesús sagði einu sinni í bæn til hans: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Það er ástæða til að ætla að eilíf velferð okkar sé undir því komin að við þekkjum sannleikann um Guð.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Hvers vegna eru þeir til?
[Credit line]
Hvalur: Með góðfúslegu leyfi Tourism Queensland.
[Mynd credit line á blaðsíðu 2]
FORSÍÐA: Index Stock Photography © 2002