Við miklum Jehóva með því að uppfylla kröfur hans
Við miklum Jehóva með því að uppfylla kröfur hans
‚Ég vil mikla Guð í lofsöng.‘ — SÁLMUR 69:31.
1. (a) Hvers vegna verðskuldar Jehóva að við miklum hann? (b) Hvernig miklum við hann í lofsöng?
JEHÓVA er hinn almáttugi Guð, alheimsdrottinn og skapari og verðskuldar því að við miklum nafn hans og fyrirætlanir. Að mikla Jehóva merkir að virða hann mikils, að lofa hann og vegsama í orði og æði. Að mikla hann „í lofsöng“ gefur til kynna að við séum þakklát fyrir það sem hann er að gera fyrir okkur núna og fyrir það sem hann ætlar að gera í framtíðinni. Við þurfum að tileinka okkur sama viðhorf og hinar trúföstu andaverur í Opinberunarbókinni 4:11: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Hvernig miklum við Jehóva? Með því að læra um hann og gera síðan það sem hann krefst af okkur. Okkur ætti að vera innanbrjósts eins og sálmaritaranum sem sagði: „Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð.“ — Sálmur 143:10.
2. Hvað gerir Jehóva við þá sem mikla hann og þá sem gera það ekki?
2 Jehóva metur þá mikils sem mikla hann. Þess vegna ‚umbunar hann þeim er hans leita.‘ (Hebreabréfið 11:6) Hver er umbunin? Jesús sagði í bæn til föður síns á himnum: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Þeir sem „mikla [Jehóva] í lofsöng“ fá „landið til eignar og búa í því um aldur.“ (Sálmur 37:29) En „vondur maður á enga framtíð fyrir höndum.“ (Orðskviðirnir 24:20) Það ríður á að mikla Jehóva núna á síðustu dögum því að bráðlega útrýmir hann óguðlegum og varðveitir hina réttlátu. „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17; Orðskviðirnir 2:21, 22.
3. Hvers vegna ættum við að gefa gaum að orðum Malakís?
3 Biblían greinir frá vilja Jehóva því að hún er „innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Orð hans geymir margar frásagnir af því hvernig hann blessar þá sem mikla hann og af örlögum þeirra sem gera það ekki. Ein þeirra snertir atburði í Ísrael á tímum Malakís spámanns en hann skrifaði samnefnda bók um árið 443 f.o.t., á landstjóraárum Nehemía í Júda. Þessi áhrifamikla og hrífandi bók hefur að geyma upplýsingar og spádóma sem eru ritaðir „til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.“ (1. Korintubréf 10:11) Við getum búið okkur undir hinn ‚mikla og ógurlega dag Jehóva‘ er hann eyðir þessu illa heimskerfi með því að gefa gaum að orðum Malakís. — Malakí 4:5.
4. Á hvaða sex atriðum er athygli okkar vakin í 1. kafla í bók Malakís?
4 Hvernig getur bók Malakís, sem er meira en 2400 ára gömul, hjálpað okkur núna á 21. öld að búa okkur undir hinn mikla og ógurlega dag Jehóva? Fyrsti kaflinn beinir athygli að minnst sex atriðum sem skipta sköpum til að mikla Jehóva í lofsöng og öðlast velþóknun hans og eilíft líf: (1) Jehóva elskar fólk sitt. (2) Við verðum að sýna að við metum mikils það sem heilagt er. (3) Jehóva væntir þess að við gefum honum það besta. (4) Sönn tilbeiðsla er sprottin af óeigingjörnum kærleika en ekki ágirnd. (5) Guði þóknanleg þjónusta er ekki byrði eða formsatriði. (6) Sérhvert okkar þarf að standa Guði reikning. Við skulum því, í þessari fyrstu grein af þrem um bók Malakís, fara yfir 1. kaflann og athuga hvert atriði um sig.
Jehóva elskar fólk sitt
5, 6. (a) Hvers vegna elskaði Jehóva Jakob? (b) Hvers getum við vænst ef við líkjum eftir trúfesti Jakobs?
5 Kærleikur Jehóva kemur glöggt fram í fyrstu versum Malakís. Bókin hefst á orðunum: „Spádómur. Orð Drottins til Ísraels.“ Í 2. versi segir Jehóva: „Ég elska yður,“ og nefnir dæmi í sama versi er hann segist hafa ‚elskað Jakob.‘ Jakob trúði á Jehóva. Er tímar liðu breytti Jehóva nafni hans í Ísrael og hann varð forfaðir Ísraelsþjóðarinnar. Jehóva elskaði Jakob fyrir trú hans og sömuleiðis samlanda hans sem höfðu sömu afstöðu og hann.
6 Ef við elskum Jehóva og stöndum dyggilega með fólki hans getum við leitað uppörvunar í orðum 1. Samúelsbókar 12:22: „Drottinn mun eigi útskúfa lýð sínum vegna síns mikla nafns.“ Jehóva elskar fólk sitt og umbunar því að lokum með eilífu lífi. Við lesum því: „Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni, þá munt þú gleðjast yfir Drottni og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.“ (Sálmur 37:3, 4) Að elska Jehóva beinir athyglinni að öðrum þætti í 1. kafla hjá Malakí.
Metum mikils það sem heilagt er
7. Hvers vegna hataði Jehóva Esaú?
7 Eins og við lesum í Malakí 1:2, 3 segist Jehóva hafa ‚elskað Jakob‘ en ‚haft óbeit á Esaú.‘ Af hverju stafaði þessi munur? Jakob miklaði Jehóva en Esaú, tvíburabróðir hans, gerði það ekki. Esaú var einnig kallaður Edóm. Í Malakí 1:4 er Edómland kallað „Glæpaland“ og íbúarnir fordæmdir. Esaú fékk nafnið Edóm (sem merkir „rauður“) eftir að hann seldi Jakobi dýrmætan frumburðarrétt sinn fyrir rauðan baunarétt. „Þannig lítilsvirti Esaú frumburðarrétt sinn,“ segir 1. Mósebók 25:34. Páll postuli hvetur trúbræður sína til að gæta þess „að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn.“ — Hebreabréfið 12:14-16.
8. Hvers vegna líkir Páll Esaú við hórkarl?
8 Hvers vegna setti Páll hórdóm í samband við atferli Esaús? Vegna þess að sá sem hefur hugarfar Esaús gæti átt til að lítilsvirða það sem heilagt er. Það getur síðan leitt til alvarlegra synda, svo sem hórdóms. Við ættum því að spyrja okkur hvort okkur finnist stundum freistandi að skipta á hinni kristnu arfleifð — eilífa lífinu — og einhverju jafnhverfulu og baunarétti. Lítilsvirðum við kannski óafvitandi það sem heilagt er? Esaú var óþolinmóður og honum var mikið í mun að seðja hungur sitt. Hann sagði við Jakob: „Gef mér fljótt að eta hið rauða.“ (1. Mósebók. 25:30) Því
miður hafa sumir þjónar Guðs í reyndinni sagt: „Fljót! Hvers vegna að bíða eftir heiðvirðu hjónabandi?“ Löngunin til að fullnægja kynhvötinni hvað sem það kostar er baunarétturinn þeirra.9. Hvernig varðveitum við lotningu og guðsótta?
9 Lítilsvirðum aldrei það sem heilagt er með því að fyrirlíta skírlífi, ráðvendni og andlega arfleifð okkar. Verum ekki eins og Esaú heldur líkjum eftir hinum trúfasta Jakobi og varðveitum lotningu og guðsótta með því að sýna að við kunnum að meta það sem heilagt er. Hvernig gerum við það? Með því að gæta þess að uppfylla kröfur Jehóva. Þar erum við komin að þriðja atriðinu í 1. kafla hjá Malakí. Hvert er það?
Gefum Jehóva okkar besta
10. Hvernig óvirtu prestarnir borð Jehóva?
10 Prestar Júda, sem þjónuðu í musterinu í Jerúsalem á tímum Malakís, færðu Jehóva ekki bestu fórnirnar. Malakí 1:6-8 segir: „Sonurinn skal heiðra föður sinn og þrællinn húsbónda sinn. En sé ég nú faðir, hvar er þá heiðurinn sem mér ber, og sé ég húsbóndi, hvar er þá lotningin sem mér ber? — segir Drottinn allsherjar við yður, þér prestar, sem óvirðið nafn mitt.“ „Með hverju óvirðum vér nafn þitt?“ spyrja prestarnir. „Þér berið fram óhreina fæðu á altari mitt,“ svarar Jehóva. „Með hverju ósæmum vér þig?“ spyrja þeir. Jehóva svarar: „Þér . . . segið: ‚Borð Drottins er lítils metandi!‘“ Þessir syndugu prestar óvirtu borð Jehóva í hvert sinn sem þeir færðu fram gallaða skepnu til fórnar og kölluðu „það ekki saka.“
11. (a) Hvað sagði Jehóva um vanþóknanlegar fórnir? (b) Á hvaða hátt var fólkið upp til hópa sekt?
11 Jehóva rökræðir síðan við þá um þessar vanþóknanlegu fórnir: „Fær landstjóra þínum það, vit hvort honum geðjast þá vel að þér eða hvort hann tekur þér vel!“ Landstjóranum myndi ekki geðjast að slíkri gjöf. Þaðan af síður þiggur alheimsdrottinn gallaðar fórnir! Og það voru ekki aðeins prestarnir sem voru ámælisverðir. Vissulega óvirtu þeir Jehóva með því að færa sjálfar fórnirnar. En voru landsmenn upp til hópa saklausir? Sannarlega ekki. Það voru þeir sem völdu blindar, haltar og sjúkar skepnur og færðu prestunum til að fórna. Hvílík synd!
12. Hvaða hjálp fáum við til að gefa Jehóva okkar besta?
12 Við sýnum að við elskum Jehóva í alvöru með því að gefa honum okkar besta. (Matteus ) Skipulag hans veitir úrvals biblíufræðslu til að hjálpa okkur að uppfylla kröfur hans og mikla hann í lofsöng, gagnstætt því sem spilltir prestar gerðu á tímum Malakís. Fjórða lexían í 1. kafla hjá Malakí tengist þessu. 22:37, 38
Sönn tilbeiðsla er sprottin af kærleika en ekki ágirnd
13. Hvað gerðu prestarnir sem sýnir að þeir voru ágjarnir?
13 Prestarnir á dögum Malakís voru eigingjarnir, kærleikslausir og fégráðugir. Hvernig vitum við það? Malakí 1:10 segir: „‚Hver ykkar vill loka musterisdyrunum? Og ekki kveikið þið eld á altari mínu fyrir ekkert. Ég hef enga velþóknun á ykkur,‘ segir Jehóva hersveitanna, ‚og ég hef enga velþóknun á fórnargjöf úr hendi ykkar.‘“ (NW) Þessir ágjörnu prestar heimtuðu þóknun fyrir einföldustu musterisstörf og vildu fá greitt fyrir að loka dyrum og kveikja eld á altarinu! Það er engin furða að Jehóva skyldi ekki hafa velþóknun á fórnum úr hendi þeirra!
14. Hvers vegna getum við sagt að vottar Jehóva séu knúnir af kærleika?
14 Ágirnd og eigingirni hinna syndugu presta í Jerúsalem fortíðar minnir okkur trúlega á að ágjarnir erfa ekki Guðsríki eins og fram kemur í orði Guðs. (1. Korintubréf 6:9, 10) Þegar við íhugum eiginhagsmunahyggju þessara presta kunnum við betur að meta boðunarstarf votta Jehóva um heim allan. Þetta er sjálfboðastarf; við tökum aldrei þóknun fyrir nokkurn þátt þjónustunnar. Við ‚pröngum ekki með Guðs orð.‘ (2. Korintubréf 2:17) Við getum hvert og eitt sagt með sanni eins og Páll: „[Ég] boðaði yður ókeypis [„og fúslega,“ NW] fagnaðarerindi Guðs.“ (2. Korintubréf 11:7) Þú tekur eftir að Páll ‚boðaði fagnaðarerindið fúslega.‘ Þar erum við komin að fimmta þættinum í 1. kafla hjá Malakí.
Þjónustan við Guð er ekki íþyngjandi formsatriði
15, 16. (a) Hver var afstaða prestanna til fórnfæringar? (b) Hvernig færa vottar Jehóva fórnir sínar?
15 Hinir trúlausu prestar í Jerúsalem að fornu litu á fórnfæringar sem þreytandi formsatriði. Þeim fannst þær íþyngjandi. Guð segir við þá í Malakí 1:13: „Þér segið: ‚Sjá, hvílík fyrirhöfn!‘ og fyrirlítið það.“ Prestarnir fyrirlitu það sem heilagt er í augum Guðs. Biðjum þess að við verðum aldrei eins og þeir heldur sýnum alltaf sama hugarfar og fram kemur í 1. Jóhannesarbréfi 5:3: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“
16 Njótum þess að geta fært Guði andlegar fórnir og lítum aldrei á það sem þreytandi byrði. Tökum til okkar spádómsorðin í Hósea 14:3: „Segið við [Jehóva]: ‚Fyrirgef með öllu misgjörð vora og ver góður, og vér skulum greiða þér ávöxt vara vorra.‘“ Orðin ‚ávöxtur varanna‘ eiga við andlegar fórnir, lofgerð okkar um Jehóva og fyrirætlanir hans. Hebreabréfið 13:15 segir: „Fyrir [Jesú Krist] skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ Við getum glaðst yfir því að andlegar fórnir okkar eru ekki tómt formsatriði heldur heilshugar tjáning kærleikans til Guðs. Við erum nú komin að sjötta lærdómsatriðinu í 1. kafla hjá Malakí.
Allir þurfa að standa Guði reikning
17, 18. (a) Af hverju formælti Jehóva ‚svikurum‘? (b) Hvað höfðu svikararnir ekki tekið með í reikninginn?
17 Fólk á dögum Malakís bar persónulega ábyrgð á gerðum sínum og hið sama gildir um okkur. (Rómverjabréfið 14:12; Galatabréfið 6:5) Þess vegna segir Malakí 1:14: „Bölvaðir veri þeir svikarar, er eiga [gallalausan] hvatan fénað í hjörð sinni og gjöra heit, en fórna síðan Drottni gölluðu berfé!“ Hjarðeigandi átti ekki aðeins eina skepnu heldur margar og gat því valið skepnu úr hjörðinni til að fórna. Hann þurfti ekki að velja blinda, halta eða sjúka skepnu. Ef hann valdi gallaða skepnu var það vísbending um að hann fyrirliti fórnarfyrirkomulag Jehóva. Hann hlaut að geta fundið gallalausa skepnu í heilli hjörð!
18 Jehóva hafði því ærna ástæðu til að formæla svikurunum sem áttu heilbrigð karldýr en færðu eða þurftu jafnvel að draga blind, hölt eða sjúk fórnardýr til prestanna. Hvergi er hins vegar gefið til kynna að nokkur prestanna hafi vitnað í lögmál Guðs þar sem segir að gölluð fórnardýr væru vanþóknanleg. (3. Mósebók 22:17-20) Skynsamir menn hljóta að hafa gert sér grein fyrir að illa færi fyrir þeim ef þeir reyndu að pranga slíkri gjöf inn á landstjórann. En hér var um að ræða alheimsdrottin Jehóva sem er margfalt æðri en nokkur mennskur landstjóri. Malakí 1:14 kemst svo að orði: „Ég er mikill konungur, — segir Drottinn allsherjar —, og menn óttast nafn mitt meðal heiðingjanna.“
19. Hvað þráum við og hvað ættum við að vera að gera?
19 Trúir þjónar Jehóva Guðs, hins mikla konungs, þrá heitt þann dag er allt mannkyn dýrkar hann. Þá verður „jörðin . . . full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) Uns sá tími rennur upp skulum við leitast við að uppfylla kröfur Jehóva og líkja eftir sálmaritaranum sem sagði: ‚Ég vil mikla nafn Guðs í lofsöng.‘ (Sálmur 69:31) Malakí hefur fleiri ráðleggingar þar að lútandi sem geta komið okkur að góðum notum. Í næstu tveim greinum skoðum við vandlega hina kaflana í bók Malakís.
Manstu?
• Hvers vegna ættum við að mikla Jehóva?
• Hvers vegna hafði Jehóva ekki velþóknun á fórnum prestanna á dögum Malakís?
• Hvernig færum við Jehóva lofgerðarfórn?
• Hvaða hvatir ættu að liggja að baki sannri tilbeiðslu?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 8]
Spádómur Malakís vísar til okkar tíma.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Esaú kunni ekki að meta það sem heilagt er.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Prestarnir og þjóðin færðu vanþóknanlegar fórnir.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Vottar Jehóva færa lofgerðarfórnir um heim allan endurgjaldslaust.