Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fylgdu fordæmi konunganna

Fylgdu fordæmi konunganna

Fylgdu fordæmi konunganna

„Skal hann fá lögmál þetta . . . og rita eftirrit af því handa sér í bók. Og hann skal hafa hana hjá sér og lesa í henni alla ævidaga sína.“ — 5. MÓSEBÓK 17:18, 19.

1. Hverjum gæti kristinn maður viljað líkjast?

ÞAÐ er harla ósennilegt að þú líkir sjálfum þér við konung eða drottningu. Dyggur kristinn maður og biblíunemandi getur tæplega séð sjálfan sig fyrir sér með konungsvald á borð við þá Davíð, Jósía, Hiskía eða Jósafat sem voru trúir konungar. Engu að síður geturðu og ættirðu að líkjast þeim að minnsta kosti að einu leyti. Að hvaða leyti? Og hvers vegna ættirðu að vilja líkjast þeim á þessu sviði?

2, 3. Hvað sá Jehóva fyrir varðandi mennskan konung og hvað átti konungurinn að gera?

2 Á dögum Móse, löngu áður en Guð féllst á að Ísraelsmenn fengju mennskan konung, sá hann fyrir að þeir myndu vilja það þegar fram liðu stundir. Hann innblés því Móse að skrá fyrirmæli þar að lútandi í lagasáttmálann. Þetta voru fyrirmæli handa konungi.

3 Guð sagði: „Þegar þú ert kominn inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, . . . og segir: ‚Ég vil taka mér konung, eins og allar þjóðirnar, sem í kringum mig eru,‘ þá skalt þú taka þann til konungs yfir þig, sem Drottinn Guð þinn útvelur. . . . Og þegar hann nú er setstur í hásæti konungdóms síns, þá skal hann fá lögmál þetta . . . og rita eftirrit af því handa sér í bók. Og hann skal hafa hana hjá sér og lesa í henni alla ævidaga sína, til þess að hann læri að óttast Drottin Guð sinn og gæti þess að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls og þessi ákvæði.“ — 5. Mósebók 17:14-19.

4. Hvað var fólgið í fyrirmælum Guðs til konunga?

4 Já, konungurinn, sem Jehóva myndi velja handa dýrkendum sínum, átti að gera sér sitt eigið afrit af bókum sem er að finna í biblíunni þinni. Síðan átti hann að lesa daglega í þessu afriti, aftur og aftur. Tilgangurinn var ekki sá að þjálfa minnið heldur að læra og hafa gagn af. Til að varðveita velþóknun Jehóva þurfti konungurinn að stunda slíkt nám til að tileinka sér rétt hjartaþel og viðhalda því. Hann þurfti jafnframt að gerþekkja þessi innblásnu rit til að vera farsæll og hygginn konungur. — 2. Konungabók 22:8-13; Orðskviðirnir 1:1-4.

Lærðu eins og konungur

5. Hvaða hluta Biblíunnar hafði Davíð konungur til að afrita og lesa og hvernig leit hann á þessar biblíubækur?

5 Hvað heldurðu að þetta hafi þýtt fyrir Davíð þegar hann varð konungur Ísraels? Hann þurfti að gera sér afrit af Mósebókunum fimm. Reyndu að gera þér í hugarlund hvílík áhrif það hlýtur að hafa haft á huga og hjarta Davíðs að nota eigin augu og hendur til að gera sér afrit af lögmálinu. Líklegt er að Móse hafi einnig skrifað Jobsbók og Sálm 90 og 91. Ætli Davíð hafi líka afritað þessi rit? Ef til vill. Og sennilega hefur hann haft aðgang að Jósúabók, Dómarabókinni og Rutarbók. Davíð konungur hefur því haft allstóran hluta Biblíunnar til að lesa og tileinka sér. Og það er ástæða til að ætla að hann hafi gert það, samanber umsögn hans um lögmál Guðs sem er að finna í Sálmi 19:8-12.

6. Hvernig vitum við að Jesús hafði áhuga á Ritningunni, svipað og Davíð forfaðir hans?

6 Hinn meiri Davíð — Jesús, sonur Davíðs — hafði svipaðan hátt á. Jesús var vanur að sækja samkunduhúsið í heimabæ sínum vikulega. Þar heyrði hann ritningargreinar lesnar og skýrðar. Auk þess las hann stundum sjálfur upp úr orði Guðs og útskýrði merkingu þess. (Lúkas 4:16-21) Auðséð er að hann var gagnkunnugur Ritningunni. Þú þarft ekki annað en að lesa guðspjöllin og taka eftir hve oft hann sagði „ritað er“ eða vísaði með öðrum hætti í ákveðnar ritningargreinar. Sem dæmi má nefna að í fjallræðunni vitnaði Jesús 21 sinni í Hebresku ritningarnar samkvæmt frásögn Matteusar. — Matteus 4:4-10; 7:29; 11:10; 21:13; 26:24, 31; Jóhannes 6:31, 45; 8:17.

7. Að hvaða leyti var Jesús ólíkur trúarleiðtogunum?

7 Jesús fylgdi ráðleggingunum í Sálmi 1:1-3: „Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra . . . heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt. . . . Allt er hann gjörir lánast honum.“ Hann var harla ólíkur trúarleiðtogum samtíðarinnar sem ‚sátu á stóli Móse‘ en hunsuðu ‚lögmál Drottins.‘ — Matteus 23:2-4.

8. Hvers vegna var það gagnslaust að lesa og rannsaka Biblíuna á sama hátt og trúarleiðtogarnir?

8 Sumum kann að vera spurn hvað Jesús hafi átt við á einum stað þar sem virðist mega túlka orð hans þannig að hann sé að ráða fólki frá biblíunámi. Við lesum í Jóhannesi 5:39, 40 að Jesús hafi sagt við vissa menn: „Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig, en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.“ En Jesús var ekki að letja Gyðingana, sem á hann hlýddu, frá því að rannsaka Ritninguna heldur vekja athygli á að þeir væru óeinlægir eða sjálfum sér ósamkvæmir. Þeim var ljóst að Ritningin gat vísað þeim veginn til eilífs lífs en þessi sama Ritning, sem þeir rannsökuðu, hefði einnig átt að leiða þá til Messíasar, Jesú. En þeir viðurkenndu hann ekki þrátt fyrir það. Ritningarrannsóknirnar voru því gagnslausar fyrir þá vegna þess að þeir voru óeinlægir og vildu ekki læra. — 5. Mósebók 18:15; Lúkas 11:52; Jóhannes 7:47, 48.

9. Hvaða gott fordæmi gáfu postularnir og spámenn fyrri tíma?

9 Allt annað var uppi á teningnum hjá lærisveinum Jesú og postulum. Þeir rannsökuðu ‚heilagar ritningar sem gátu veitt þeim speki til sáluhjálpar.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Að þessu leyti líktust þeir spámönnum fyrri tíma sem ‚rannsökuðu og könnuðu málin vandlega.‘ Þessir spámenn hugsuðu ekki sem svo að ein námsskorpa í nokkra mánuði eða svo sem eitt ár væri fullnægjandi rannsókn. Pétur postuli segir að þeir hafi ‚rannsakað áfram,‘ einkum það sem snerti Krist og þá dýrð sem fylgir hjálpræði mannkyns er hann kemur til leiðar. Pétur vitnar 34 sinnum í tíu biblíubækur í fyrra bréfi sínu. — 1. Pétursbréf 1:10, 11, NW.

10. Hvers vegna ættum við öll að vera áhugasöm um biblíunám?

10 Ljóst er því að það var verkefni konunga Ísraels að fornu að rannsaka orð Guðs vandlega. Jesús fylgdi fordæmi þeirra. Og þeir sem áttu að ríkja með Kristi á himnum áttu einnig að leggja sig fram við nám í Ritningunni. (Lúkas 22:28-30; Rómverjabréfið 8:17; 2. Tímóteusarbréf 2:12; Opinberunarbókin 5:10; 20:6) Það er ekki síður mikilvægt fyrir alla, sem hlakka til blessunar á jörð undir stjórn Guðsríkis, að fylgja þessu fordæmi konunganna. — Matteus 25:34, 46.

Verkefni konunga og verkefni þitt

11. (a) Hvað gæti gerst í sambandi við nám hjá kristnum mönnum? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

11 Við getum sagt með miklum áhersluþunga og í fullri einlægni að hver einasti kristinn maður ætti að kynna sér Biblíuna vel og vandlega. Hið upphaflega biblíunám þitt með hjálp Votta Jehóva nægir ekki eitt og sér. Við ættum öll að vera ákveðin í að líkjast ekki þeim sem tóku að vanrækja einkabiblíunám á dögum Páls postula. Þeir lærðu „undirstöðuatriði Guðs orða“ svo sem ‚byrjunarkenningarnar um Krist.‘ En þeir héldu ekki náminu áfram og ‚sóttu því ekki fram til fullkomleikans.‘ (Hebreabréfið 5:12–6:3) Við getum þar af leiðandi spurt okkur: ‚Hvernig hugsa ég um einkanám í orði Guðs, óháð því hvort ég hef tilheyrt kristna söfnuðinum stutt eða í áratugi? Páll bað þess að kristnir menn í sinni tíð myndu „vaxa í þekkingu á Guði.“ Langar mig til þess líka?‘ — Kólossubréfið 1:9, 10.

12. Hvers vegna er mikilvægt að hafa stöðugt yndi af orði Guðs?

12 Góðar námsvenjur eru meðal annars háðar því að maður hafi yndi af orði Guðs. Sálmur 119:14-16 bendir á að við getum lært að meta orð Guðs með því að íhuga það markvisst að staðaldri. Og sem fyrr skiptir ekki máli hve lengi þú hefur verið kristinn. Tímóteus er ágætt dæmi því til sönnunar. Hann var kristinn öldungur og „góður hermaður Krists Jesú.“ Engu að síður hvatti Páll hann til að leggja kapp á að ‚fara rétt með orð sannleikans.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:3, 15; 1. Tímóteusarbréf 4:15) Ljóst er að góðar námsvenjur eru nauðsynlegar til að ‚leggja kapp á‘ þetta.

13. (a) Hvernig er hugsanlega hægt að skapa sér meiri tíma til biblíunáms? (b) Hvernig gætirðu skapað þér meiri tíma til náms?

13 Fastur tími til biblíunáms er mikilvægur þáttur í góðum námsvenjum. Hvernig hefur þér gengið að vera með fastan námstíma? Og hvernig sem þú svarar — heldurðu að þú gætir haft gott af því að nota meiri tíma til einkanáms? ‚Hvernig á ég að finna mér tíma til þess?‘ spyrðu kannski. Sumir hafa fundið sér góðan aukatíma til náms með því að fara aðeins fyrr á fætur á morgnana. Þeir lesa kannski í Biblíunni í stundarfjórðung eða nota tímann í eitthvert námsverkefni. Annar möguleiki væri að breyta hinum vikulega vanagangi eilítið. Setjum sem svo að þú sért vanur að lesa dagblaðið flesta daga eða horfa á kvöldfréttirnar í sjónvarpinu. Gætirðu sleppt því einn dag í viku og notað tímann til að auka við biblíunám þitt? Ef þú slepptir fréttunum einn dag og notaðir á að giska hálftíma til einkanáms í staðinn myndi það samsvara meira en 25 klukkustundum á ári. Hugsaðu þér gagnið af því að nota 25 stundir til viðbótar í biblíulestur eða einkanám! Og hvað um þessa hugmynd: Skoðaðu að kvöldi hvers dags í næstu viku hvernig þú notaðir daginn og athugaðu hvort þú gætir sleppt eða dregið úr einhverju og notað tímann til biblíulestrar eða náms. — Efesusbréfið 5:15, 16.

14, 15. (a) Hvers vegna eru markmið mikilvæg í einkanámi? (b) Hvaða markmið væri hægt að setja sér í sambandi við biblíulestur?

14 Ákveðin markmið eru kjörin leið til að gera námið auðveldara og skemmtilegra. Hvaða raunhæf námsmarkmið gætirðu sett þér? Í byrjun væri það lofsvert markmið að lesa alla Biblíuna. Kannski hefurðu fram til þessa lesið kafla og kafla í Biblíunni og notið góðs af. Gætirðu einsett þér núna að lesa Biblíuna í heild? Fyrsti áfangi gæti verið að lesa guðspjöllin fjögur og sá næsti að lesa allar kristnu Grísku ritningarnar. Þegar þú hefur lokið því þér til gagns og gleði gætirðu einsett þér að lesa Mósebækurnar og söguritin allt til Esterarbókar. Nú ættirðu að sjá það sem raunhæft markmið að lesa það sem eftir er af Biblíunni. Kona nokkur, sem var 65 ára þegar hún gerðist kristin, skrifaði innan á kápusíðu Biblíunnar hvenær hún byrjaði lesturinn og hvenær hún lauk honum. Nú er hún komin með fimm dagsetningapör! (5. Mósebók 32:45-47) Og hún las ekki Biblíuna af tölvuskjá eða af útprentun úr tölvu heldur las hún í bókinni sjálfri.

15 Sumir gera nám sitt frjórra og meira auðgandi með því að bæta við sig markmiðum eftir að hafa lesið Biblíuna alla. Það er meðal annars hægt að gera með því að fara yfir valið námsefni áður en hver biblíubók er lesin. Í bókunum „All Scripture Is Inspired of God and Beneficial“ („Öll ritning er innblásin“) og Insight on the Scriptures (Innsýnarbókinni) er að finna afbragðsupplýsingar um sögusvið, ritstíl og það gagn sem hafa má af hverri biblíubók. *

16. Hvernig ættum við ekki að nálgast biblíunám?

16 En þú ættir ekki að nálgast biblíutexta á sama hátt og sumir svokallaðir biblíufræðingar sem rannsaka þá nær eingöngu frá þeim sjónarhóli að þeir séu mannaverk. Sumir þeirra reyna að fastsetja ákveðinn markhóp fyrir hverja biblíubók eða ímynda sér ákveðið markmið og sjónarmið sem hinn mennski höfundur bókarinnar á að hafa haft í huga. Þessi mannlegi hugsunarháttur getur haft þau áhrif að menn líti einungis á bækur Biblíunnar sem söguheimild eða telji þær endurspegla vissa þætti trúarbragðaþróunar. Aðrir fræðimenn sökkva sér niður í orðarannsóknir og textafræði biblíuritanna. Þeir verða svo uppteknir af rannsóknum á uppruna og merkingu grískra og hebreskra orða að þýðing boðskapar Guðs verður út undan. Heldurðu að slíkar námsaðferðir séu til þess fallnar að gefa manni sterka og örvandi trú? — 1. Þessaloníkubréf 2:13.

17. Af hverju ættum við að líta svo á að Biblían eigi erindi til allra?

17 Og er ályktunum fræðimanna treystandi? Inniheldur hver biblíubók aðeins eitt aðalatriði eða er hún ætluð aðeins einum, ákveðnum markhópi? (1. Korintubréf 1:19-21) Sannleikurinn er sá að bækurnar í orði Guðs hafa varanlegt gildi fyrir fólk á öllum aldri og af alls konar uppruna. Jafnvel þótt biblíubók hafi upphaflega verið stíluð á einn mann, svo sem Tímóteus eða Títus, eða ákveðinn hóp, svo sem Galata eða Filippímenn, þá getum við öll og ættum öll að kynna okkur þessar bækur vel. Þær eru mikilvægar fyrir okkur öll, auk þess sem ákveðin bók getur fjallað um margs konar efni og átt erindi til alls konar hópa. Boðskapur Biblíunnar á erindi til allra manna og þess vegna hefur hún verið þýdd á þjóðtungur fólks um heim allan. — Rómverjabréfið 15:4.

Gagnlegt fyrir sjálfan þig og aðra

18. Hvað ættirðu að hugleiða þegar þú lest í orði Guðs?

18 Þegar þú nemur Biblíuna kemstu að raun um að það er mjög gagnlegt að leitast við að skilja hana og koma auga á innbyrðis tengsl hinna ýmsu þátta í henni. (Orðskviðirnir 2:3-5; 4:7) Það sem Jehóva hefur opinberað í orði sínu er nátengt ásetningi hans. Þegar þú lest skaltu glöggva þig á því hvernig vissar staðreyndir og leiðbeiningar tengjast þessum ásetningi. Þú gætir ígrundað hvernig atburður, hugmynd eða spádómur tengist ásetningi Jehóva. Spyrðu þig: ‚Hvað segir þetta mér um Jehóva? Hvernig tengist það ásetningi hans sem ríki hans kemur til leiðar?‘ Þú gætir einnig hugleitt: ‚Hvernig get ég notað þetta efni? Get ég nýtt mér það til að kenna öðrum eða gefa biblíuleg ráð?‘ — Jósúabók 1:8.

19. Hverjir njóta góðs af ef þú segir frá því sem þú lærir? Skýrðu svarið.

19 Það er gagnlegt á fleiri vegu að hugsa um aðra. Þú lærir margt nýtt af biblíulestri og -námi og sérð nýja fleti á málum. Reyndu að flétta þeim inn í samræður við ættingja og aðra. Það er tvímælalaust uppbyggilegt ef þú gerir það hæversklega og á viðeigandi stundum. Ef þú segir með einlægni og ákefð frá því sem þú lærðir eða þér þótti athyglisvert hefur það að öllum líkindum meiri áhrif á aðra. Og þú nýtur sjálfur góðs af því. Hvernig? Sérfræðingar hafa bent á að maður muni lengur það sem maður lærir eða fer yfir ef maður notar það eða endurtekur meðan það er enn í fersku minni, til dæmis með því að segja öðrum frá því. *

20. Af hverju er gagnlegt að lesa Biblíuna aftur og aftur?

20 Þú lærir alltaf eitthvað nýtt í hvert sinn sem þú lest yfir biblíubók. Vers, sem sögðu þér ekki mikið áður, öðlast nýja merkingu og gildi. Það ætti að undirstrika að bækur Biblíunnar eru ekki verk manna heldur fjársjóður sem hægt er að sækja ótakmarkað í til náms og gagns. Mundu að konungar eins og Davíð áttu að „lesa í henni alla ævidaga sína.“

21. Hvaða umbun fylgir auknu námi í orði Guðs?

21 Þeir sem gefa sér tíma fyrir djúptækt biblíunám hafa ómælt gagn af því. Þeir öðlast skilning og finna andlega gimsteina. Þeir styrkja og auðga samband sitt við Guð. Og þeir eru fjölskyldu sinni, safnaðarsystkinum og þeim sem eru ekki enn farnir að tilbiðja Jehóva til mikillar blessunar. — Rómverjabréfið 10:9-14; 1. Tímóteusarbréf 4:16.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Þessi námsrit eru gefin út af Vottum Jehóva og eru fáanleg á mörgum tungumálum.

^ gr. 19 Sjá Varðturninn, 1. febrúar 1994, bls. 20-21.

Manstu?

• Hvað áttu Ísraelskonungar að gera?

• Hvaða fordæmi gáfu Jesús og postularnir varðandi biblíunám?

• Hvernig gætirðu skapað þér meiri tíma til einkanáms?

• Með hvaða hugarfari ættirðu að nálgast nám í orði Guðs?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 22]

„Í höndunum“

„Ef við erum að leita að . . . orðstöðulykli að Biblíunni er Netið besta verkfærið. En ef við viljum lesa Biblíuna, rannsaka hana, gaumgæfa og hugleiða, þá ættum við að vera með hana í höndunum því að það er eina leiðin til að koma henni inn í hugann og hjartað.“ — Gertrude Himmelfarb, virtur prófessor á eftirlaunum við City-háskólann í New York.