Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva prýðir fólk sitt ljósi

Jehóva prýðir fólk sitt ljósi

Jehóva prýðir fólk sitt ljósi

„Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér!“ — JESAJA 60:1.

1, 2. (a) Hvert er ástand mannkynsins? (b) Hverjir eru ábyrgir fyrir myrkri heimsins?

„AÐEINS að við hefðum Jesaja eða heilagan Pál!“ sagði Harry Truman Bandaríkjaforseti mæðulega. Af hverju sagði hann þetta? Af því að hann fann fyrir því að heiminn vantaði dugmikla siðferðisleiðtoga. Þetta var á fimmta áratugnum og heimurinn var nýbúinn að ganga gegnum síðari heimsstyrjöldina, myrkasta skeið tuttugustu aldar. En þó að stríðið væri afstaðið var ekki friður í heiminum. Myrkrinu linnti ekki. Og núna, 57 árum síðar, er heimurinn enn þá í myrkri. Ef Truman Bandaríkjaforseti væri á lífi núna myndi hann vafalaust enn sjá þörf á siðferðisleiðtogum á borð við Jesaja eða Pál postula.

2 Hvort sem Truman vissi það eða ekki fjallaði Páll postuli um myrkrið sem grúfir yfir mannkyni og varaði við því í bréfum sínum. Til dæmis sagði hann trúbræðrum sínum: „Baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbréfið 6:12) Með þessum orðum benti Páll á að hann var ekki aðeins meðvitaður um hið andlega myrkur sem umlykur heiminn heldur vissi hann líka hverjir stóðu á bak við það — voldugar sveitir illra anda sem kallaðir eru ‚heimsdrottnarar.‘ En þar sem voldugar andaverur eru ábyrgar fyrir myrkri heimsins hvað geta þá lítilmótlegir menn gert til að hrekja það í burtu?

3. Hvað boðaði Jesaja trúföstum mönnum þrátt fyrir myrkur heimsins?

3 Jesaja talaði líka um myrkrið sem grúfir yfir mannkyni. (Jesaja 8:22; 59:9) En þegar Jesaja leit fram til okkar daga boðaði hann, undir innblæstri, að jafnvel á þessum myrku tímum myndi Jehóva vekja bjartsýni með þeim sem elskuðu ljósið. Hvorki Páll né Jesaja eru hér hjá okkur í eigin persónu en hins vegar höfum við innblásin rit þeirra til leiðsagnar. Við skulum rýna aðeins í spádómsorðin í 60. kafla Jesajabókar til að kanna hvílík blessun þau eru fyrir þá sem elska Jehóva.

Spádómleg kona skín

4, 5. (a) Hvað segir Jehóva konu að gera og hverju lofar hann henni? (b) Hvaða áhugaverðu upplýsingar er að finna í 60. kafla Jesaja?

4 Sextugasti kafli Jesaja hefst á því að kona er ávörpuð. Hún er illa á vegi stödd og liggur kylliflöt á jörðinni í niðamyrkri. Skyndilega brýst ljósgeisli gegnum myrkrið og Jehóva kallar: „Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér!“ * (Jesaja 60:1) Konan á nú að rísa á fætur og endurkasta ljósi Guðs, dýrð hans. Af hverju? Svarið er að finna í næsta versi: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur Drottinn, og dýrð hans birtist yfir þér.“ (Jesaja 60:2) Konan hlýðir fyrirmælum Jehóva og er fullvissuð um að árangurinn verði stórkostlegur. Jehóva segir: „Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.“ — Jesaja 60:3.

5 Hin áhugaverðu orð í þessum þrem versum eru bæði kynning og samantekt á því sem útskýrt er í framhaldi 60. kaflans hjá Jesaja. Þar er sögð fyrir reynsla spádómlegrar konu og útskýrt hvernig við getum búið í ljósi Jehóva þrátt fyrir myrkrið sem grúfir yfir mannkyni. En hvað merkja spádómlegu táknin í þessum þrem fyrstu versum?

6. Hver er konan í 60. kafla Jesaja og hverjir eru fulltrúar hennar á jörð?

6 Konan í Jesaja 60:1-3 er Síon, andaveruskipulag Jehóva á himnum. Leifar ‚Ísraels Guðs,‘ það er að segja alþjóðasöfnuður andasmurðra kristinna manna, eiga þá von að ríkja með Kristi á himnum, og þeir eru fulltrúar Síonar á jörð. (Galatabréfið 6:16) Þessi andlega þjóð er 144.000 manns og í nútímanum rætist 60. kafli Jesajabókar á þeim sem eru á lífi á jörðinni á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1; Opinberunarbókin 14:1) Spádómurinn hefur einnig margt að segja um félaga þessara smurðu kristnu manna, hinn ‚mikla múg‘ af ‚öðrum sauðum.‘ — Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16.

7. Hvert var ástand Síonar árið 1918 og hvernig hafði þessu verið spáð fyrir?

7 Lá „Ísrael Guðs“ einhvern tíma í myrkri eins og þessi spádómlega kona fyrirmyndaði? Já, það gerðist fyrir rúmlega 80 árum. Á árum fyrri heimsstyrjaldar lögðu smurðir kristnir menn sig í líma við að halda boðunarstarfinu gangandi. En árið 1918, ári áður en stríðinu lauk, stöðvaðist skipulagt boðunarstarf næstum alveg. Joseph F. Rutherford hafði yfirumsjón með hinu alþjóðlega prédikunarstarfi og var dæmdur til langrar fangavistar fyrir rangar sakir ásamt öðrum kristnum forystumönnum. Í Opinberunarbókinni var smurðum kristnum mönnum á þeim tíma lýst spádómlega eins og væru þeir lík liggjandi „á strætum borgarinnar miklu, sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland.“ (Opinberunarbókin 11:8) Þetta voru myrkir dagar hjá Síon, það er að segja smurðum börnum hennar sem voru fulltrúar hennar á jörðinni.

8. Hvaða áhrifamiklu breytingar áttu sér stað árið 1919 og með hvaða árangri?

8 Árið 1919 varð hins vegar áhrifamikil breyting á. Jehóva lét ljós skína á Síon. Þeir sem eftir voru af Ísrael Guðs risu á fætur og endurspegluðu ljós hans með því að boða fagnaðarerindið um ríkið óttalaust á nýjan leik. (Matteus 5:14-16) Kostgæfni þessara kristnu manna hafði verið vakin á ný og laðaði aðra að ljósi Jehóva. Í upphafi voru það nýir meðlimir Ísraels Guðs sem löðuðust að ljósinu, en í Jesaja 60:3 eru þeir kallaðir konungar af því að þeir erfa himnaríki Guðs ásamt Kristi. (Opinberunarbókin 20:6) Síðar laðaðist mikill múgur annarra sauða að ljósi Jehóva. Þeir eru ‚þjóðirnar‘ sem nefndar eru í spádóminum.

Börn konunnar snúa heim!

9, 10. (a) Hvaða stórkostleg sjón blasti við konunni og hvað fyrirmyndaði það? (b) Hvaða ástæðu hefur Síon haft til að gleðjast?

9 Jehóva byrjar nú að vinna úr þeim upplýsingum sem hann gefur í Jesaja 60:1-3 og gefur konunni ný fyrirmæli. Hlustaðu á það sem hann segir: „Hef upp augu þín og litast um.“ Konan hlýðir og kærkomin sjón blasir við — börn hennar eru á heimleið! Versið heldur áfram: „Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni.“ (Jesaja 60:4) Hin alþjóðlega boðun Guðsríkis, sem hófst árið 1919, varð til þess að þúsundir ‚sona‘ og ‚dætra‘ Síonar bættust við Ísrael Guðs. Jehóva fegraði Síon er hann leiddi hina síðustu af hinum 144.000 inn í ljósið.

10 Geturðu ímyndað þér gleði Síonar yfir að hafa börn sín hjá sér? En Jehóva gefur Síon aðra ástæðu til að gleðjast. Við lesum: „Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig.“ (Jesaja 60:5) Í samræmi við þessi spádómlegu orð hefur mikill fjöldi kristinna manna, sem vonast til að lifa að eilífu á jörðinni, hópast til Síonar síðan á fjórða áratugnum. Þeir tákna fjárafla þjóðanna en tilheyrðu áður þeim ‚ólgusjó‘ mannkyns sem er fjarlægur Guði. Þeir eru „gersemar allra þjóða.“ (Haggaí 2:7; Jesaja 57:20) Taktu líka eftir að þessar „gersemar“ þjóna ekki Jehóva eftir eigin geðþótta heldur fegra þær Síon með því að koma og tilbiðja hann ásamt smurðum bræðrum sínum og verða „ein hjörð“ undir stjórn ‚eins hirðis.‘ — Jóhannes 10:16.

Kaupmenn og hirðar koma til Síonar

11, 12. Lýstu múginum sem er á leið til Síonar.

11 Árangurinn af þessari boðuðu samansöfnun er ótrúleg fjölgun þeirra sem lofa Jehóva. Þessu er spáð fyrir í framhaldi spádómsins. Ímyndaðu þér að þú standir á Síonfjalli ásamt hinni spádómlegu konu og skimir til austurs. Hvað sérðu? „Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins.“ (Jesaja 60:6) Mergð kaupmanna með úlfaldalestir hlykkjast eftir vegunum sem liggja til Jerúsalem. Úlfaldarnir eru eins og flóð sem hylur landið. Kaupmennirnir flytja með sér verðmætar gjafir, „gull og reykelsi“ og koma til ljóss Guðs í þeim tilgangi að lofa hann opinberlega, til að „kunngjöra lof Drottins.“

12 Kaupmennirnir eru ekki einir á ferð. Hirðar eru einnig á leið til Síonar. Spádómurinn heldur áfram: „Allar hjarðir Kedars safnast til þín, hrútar Nebajóts þjóna þér.“ (Jesaja 60:7a) Hirðingjaættkvíslir eru á leið til borgarinnar helgu til að færa Jehóva það besta úr hjörðum sínum. Þær bjóða jafnvel sjálfar sig fram til þjónustu við Síon. Hvernig tekur Jehóva þessum útlendingum? Hann svarar sjálfur: „Þeir stíga upp á altari mitt mér til þóknunar, og hús dýrðar minnar gjöri ég dýrlegt.“ (Jesaja 60:7b) Jehóva þiggur fórnirnar og þá þjónustu sem útlendingarnir veita. Nærvera þeirra prýðir musteri hans.

13, 14. Hvað sést í vestri?

13 Þú snýrð þér nú við og horfir til vesturs. Hvað sérðu? Í fjarska er eitthvað sem líkist hvítu skýi sem breiðir sig yfir hafið. Jehóva spyr spurningarinnar sem er þér efst í huga: „Hverjir eru þessir, sem koma fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna?“ (Jesaja 60:8) Hann svarar spurningunni sjálfur: „Mín bíða eylöndin, og Tarsis-knerrir fara fremstir til þess að flytja sonu þína heim af fjarlægum löndum, og þeir hafa með sér silfur sitt og gull sitt — vegna nafns Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlega.“ — Jesaja 60:9.

14 Geturðu séð þetta fyrir þér? Hvíta skýið nálgast og lítur núna út eins og mergð hvítra depla langt í vestri. Þetta er eins og hópur fugla sem flýgur rétt yfir sjávarborðinu. En þegar þeir nálgast enn meir sérðu að þetta eru skip fyrir fullum seglum. Svo mörg eru skipin, sem stefna til Jerúsalem, að þau líkjast dúfnahjörð. Þau flytja trúaða þjóna Jehóva með hraði frá fjarlægum höfnum til Jerúsalem til að tilbiðja hann.

Skipulag Jehóva vex

15. (a) Hvaða aukningu er spáð fyrir um í Jesaja 60:4-9? (b) Hvaða hugarfar sýna sannkristnir menn?

15 Fjórða til níunda vers draga upp ákaflega lifandi mynd af þeim vexti sem hefur átt sér stað um heim allan frá 1919. Af hverju veitti Jehóva Síon þessa aukningu? Af því að frá 1919 hefur Ísrael Guðs hlýtt og endurkastað ljósi hans stöðuglega. En tókstu eftir því að samkvæmt 7. versinu stíga þessir nýkomnu menn ‚upp á altari Guðs‘? Altari er staður þar sem fórnir eru færðar og þessi hluti spádómsins minnir okkur á að hin kristna þjónusta er fórnarstarf. Páll postuli skrifaði: ‚Ég brýni yður að þér bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.‘ (Rómverjabréfið 12:1) Í samræmi við orð Páls láta sannkristnir menn sér ekki nægja að sækja trúarsamkomur einu sinni í viku heldur gefa þeir af tíma sínum, kröftum og fjármunum til þess að efla hreina tilbeiðslu. Eru þessir dyggu guðsdýrkendur ekki til prýði fyrir hús Jehóva? Spádómur Jesaja sagði að svo myndi vera. Og við getum verið fullviss um að þessir kostgæfu tilbiðjendur Jehóva eru fögur sjón í augum hans.

16. Hverjir tóku þátt í endurbyggingarstarfinu til forna og hverjir hafa gert það nú á dögum?

16 Aðkomumennirnir vilja vinna. Spádómurinn heldur áfram: „Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér.“ (Jesaja 60:10) Í fyrri uppfyllingu þessara orða, þegar Ísraelsmenn sneru heim úr útlegðinni í Babýlon, hjálpuðu útlendir konungar og fleiri til við endurbyggingu musterisins og Jerúsalemborgar. (Esrabók 3:7; Nehemíabók 3:26) Í nútímauppfyllingunni hefur múgurinn mikli stutt hinar smurðu leifar við uppbyggingu sannrar tilbeiðslu. Þeir hafa hjálpað til við að byggja upp kristna söfnuði og styrkja ‚borgarmúra‘ skipulags Jehóva. Og þeir vinna einnig bókstafleg byggingarstörf er þeir taka þátt í að reisa ríkissali, mótshallir og Betelbyggingar. Þannig styðja þeir smurða bræður sína í því að annast vaxandi skipulag Jehóva.

17. Með hvaða hætti prýðir Jehóva fólk sitt?

17 Síðustu orðin í Jesaja 60:10 eru mjög uppörvandi. Jehóva segir „í reiði minni sló ég þig, en af náð minni miskunna ég þér.“ Já, á árunum 1918-19 agaði Jehóva fólk sitt. En það er liðið. Núna er tími Jehóva kominn til að miskunna smurðum þjónum sínum og félögum þeirra, hinum öðrum sauðum. Það sést af hinni gífurlegu aukningu sem Jehóva hefur veitt þeim og ‚gert þá vegsamlega með‘ ef svo má að orði komast.

18, 19. (a) Hverju lofar Jehóva í sambandi við hina nýju sem koma inn til skipulagsins? (b) Hvað leiða versin sem eftir eru í 60. kafla Jesaja í ljós?

18 „Útlendir menn“ bætast við skipulag Jehóva hundruð þúsundum saman á hverju ári og leiðin er opin fyrir fleiri. Jehóva segir Síon: „Hlið þín munu ávallt opin standa, þeim er hvorki lokað dag né nótt, til þess að menn geti fært þér fjárafla þjóðanna og konunga þeirra sem bandingja.“ (Jesaja 60:11) Sumir andstæðingar reyna að loka þessum ‚hliðum‘ en eins og við vitum tekst þeim það ekki. Jehóva segir sjálfur að hliðin skuli ávallt standa opin með einum eða öðrum hætti. Aukningin mun halda áfram.

19 En Jehóva hefur líka blessað fólk sitt með öðru móti og prýtt það núna á hinum síðustu dögum. Versin sem eftir eru í 60. kafla Jesaja leiða í ljós hvernig hann hefur gert það.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Fornafnið „þú“ og sagnorðin standa í kvenkyni eintölu í hebreska textanum þannig að verið er að ávarpa konu.

Geturðu svarað?

• Hver er kona Guðs og hverjir eru fulltrúar hennar á jörð?

• Hvenær lágu börn Síonar kylliföt og hvenær og hvernig ‚stóðu þau upp‘?

• Hvernig spáði Jehóva með ýmiss konar myndmáli að boðberum Guðsríkis myndi fjölga?

• Hvernig hefur Jehóva látið ljós skína á fólk sitt?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Konu Jehóva er sagt að standa á fætur.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Skipaflotinn lítur út eins og dúfur við sjóndeildarhringinn.