Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu ekki blekkja þig

Láttu ekki blekkja þig

Láttu ekki blekkja þig

BLEKKINGAR eru næstum jafngamlar mannkyninu. Eitt af því fyrsta, sem sögur fara af, er blekking. Hún átti sér stað þegar Satan blekkti Evu í Edengarðinum. — 1. Mósebók 3:13; 1. Tímóteusarbréf 2:14.

Blekkingar hafa verið útbreiddar allar götur síðan en þó aldrei sem nú. Biblían sagði í varnaðartón um okkar daga: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:13.

Fólk er blekkt af ýmsum ástæðum. Bragðarefir og svindlarar reyna með blekkingum að hafa fé af fórnarlömbum sínum. Sumir stjórnmálamenn eru ákveðnir í að halda völdum hvað sem það kostar og beita kjósendur sína blekkingum. Fólk blekkir jafnvel sjálft sig. Það vill ekki horfast í augu við óþægilegar staðreyndir og sannfærir sig því um að enginn hætta fylgi því að reykja, neyta eiturlyfja eða stunda kynferðislegt siðleysi.

Og ekki má gleyma trúarlegu blekkingunum. Trúarleiðtogarnir á dögum Jesú blekktu fólkið. Jesús sagði um þessa afvegaleiðendur: „Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju.“ (Matteus 15:14) Fólk blekkir sjálft sig líka í trúmálum. Orðskviðirnir 14:12 segja: „Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum.“

Það er ekki að undra að margir skuli láta blekkjast í trúmálum nú á tímum rétt eins og á dögum Jesú. Páll postuli segir að Satan hafi „blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ — 2. Korintubréf 4:4.

Ef svindlari blekkir okkur töpum við peningum. Ef stjórnmálamaður blekkir okkur glötum við ef til vill einhverju af frelsi okkar. En ef Satan blekkir okkur þannig að við höfnum sannleikanum um Jesú Krist, missum við af eilífu lífi! Láttu því ekki blekkja þig. Opnaðu hugann og hjartað fyrir hinni ótvíræðu uppsprettu trúarsanninda, Biblíunni. Það er einum of mikið í húfi til þess að gera það ekki. — Jóhannes 17:3.