Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Orð Guðs er kröftugt‘

,Orð Guðs er kröftugt‘

Fréttir Úr Boðunarstarfinu

,Orð Guðs er kröftugt‘

Á HINNI sólríku Jamaíka í Karíbahafi eru flestir kunnugir Biblíunni. Raunar er biblíuþýðinguna King James Version að finna á nálega hverju heimili á eyjunni og sumir hafa fengið að kynnast því að „orð Guðs er lifandi og kröftugt.“ (Hebreabréfið 4:12) Þessi kraftur getur breytt lífi fólks eins og eftirfarandi frásaga sýnir.

Maður að nafni Cleveland var nýkominn heim frá vinnu þegar vottur Jehóva bankaði upp á hjá honum. Votturinn útskýrði nokkra ritningarstaði og lét hann svo fá biblíunámsritið Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Cleveland hafði enga hugmynd um það hve kröftugt orð Guðs átti eftir að vera í lífi hans.

Cleveland var vanur að biðja Guð þrisvar á dag um að hjálpa sér að finna réttu leiðina til að tilbiðja hann. Hann var sannfærður um að foreldrar hans tilbæðu Guð á rangan hátt. Hann kynnti sér önnur trúarbrögð en varð vonsvikinn. Hann hafði heyrt um Votta Jehóva en efaðist um að þeir hefðu sannleikann. Cleveland var efablandinn en þáði samt biblíunámskeið hjá vottinum sem heimsótti hann. Hvers vegna? Hann ætlaði að sanna að þeir hefðu rangt fyrir sér!

Cleveland gerði sér fljótlega ljóst að Guð hafði ekki velþóknun á siðlausu sambandi hans við tvær konur. (1. Korintubréf 6:9, 10) Það liðu ekki nema tvær námstundir áður en hann tók í sig kjark til að slíta sambandinu við þær. Hann fór einnig að sækja kristnar samkomur í ríkissalnum. En það reyndist þrautin þyngri.

Cleveland var í fótboltaliði staðarins og það var líf hans og yndi. En leikirnir trufluðu samkomusókn hans. Hvað ætlaði hann að gera? Hann ákvað að hætta í liðinu þrátt fyrir gífurlegan þrýsting frá liðsfélögum, þjálfara og vinum. Já, orð Guðs var farið að hafa kröftug áhrif á hann, honum til góðs.

Krafturinn í orði Guðs varð aftur augljós þegar Cleveland fór að tala við aðra um biblíuþekkingu sína. (Postulasagan 1:8) Í kjölfarið fóru tveir af fyrrverandi liðsfélögum hans að sækja samkomur hjá Vottum Jehóva. Cleveland varð hæfur til að verða boðberi fagnaðarerindisins og naut þess mjög að hjálpa öðrum með orði Guðs.

Cleveland hélt áfram að leyfa kraftinum í orði Guðs að hafa áhrif á sig og lét loks skírast niðurdýfingarskírn til tákns um vígslu sína. Hann nýtur þeirra sérréttinda að þjóna í fullu starfi og sem safnaðarþjónn í söfnuðinum.

Á Jamaíka og víða um heim hafa þúsundir manna lært að orð Guðs er sannarlega „lifandi og kröftugt.“

[Kort/mynd á blaðsíðu 8]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Jamaíka

[Credit line]

Kort og hnöttur: Mountain High Maps® Copyright © 1997 Digital Wisdom, Inc.