Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í hvaða tilvikum er viðeigandi að kristin kona beri höfuðfat af biblíulegum ástæðum?

„Sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt,“ skrifaði Páll postuli. Hvers vegna? Það er vegna hinnar biblíulegu frumreglu um forystu: „Maðurinn er höfuð konunnar.“ Alla jafna er það hlutverk karlmannsins að kenna og fara með bæn á safnaðarsamkomum. Þegar kristin kona tekur að sér verkefni í tengslum við tilbeiðsluna, sem eiginmaður hennar eða skírður karlmaður myndi venjulega sjá um, þá ætti hún að bera höfuðfat. — 1. Korintubréf 11:3-10.

Sú staða getur komið upp í hjónabandinu að kristin kona þurfi að bera höfuðfat. Þegar fjölskyldan er samankomin til biblíunáms eða máltíðar tekur eiginmaðurinn venjulega forystuna í að kenna og fer með bænir til Guðs fyrir hönd fjölskyldunnar, svo dæmi sé tekið. En ef hann er ekki í trúnni gæti eiginkonan þurft að taka að sér þetta hlutverk. Þegar kristin systir ber upphátt fram bæn fyrir sína hönd og annarra eða þegar hún fræðir börn sín formlega um Biblíuna í viðurvist eiginmannsins, þá er rétt af henni að bera höfuðfat. Sé eiginmaðurinn ekki viðstaddur þarf hún ekki að bera höfuðfat, því að það er biblíuleg skylda hennar að kenna börnunum. — Orðskviðirnir 1:8; 6:20.

En ef ungur sonur á heimilinu er vígður, skírður þjónn Jehóva Guðs, hvað þá? Þar sem sonurinn tilheyrir kristna söfnuðinum ætti hann að fá kennslu hjá karlmönnum í söfnuðinum. (1. Tímóteusarbréf 2:12) Ef faðir hans er í trúnni á hann að kenna syni sínum. En sé faðirinn ekki til staðar á móðirin að bera höfuðfat þegar hún stjórnar biblíunámsstund með börnum sínum ef ungi, skírði sonurinn er viðstaddur. Það er henni í sjálfsvald sett hvort hún biður skírða soninn um að fara með bæn í slíkri námsstund eða á matmálstímum. Hún gæti álitið að hann væri ekki enn fyllilega fær um það og þess vegna kosið að flytja bænina sjálf. Ef hún ákveður að flytja bænina sjálf ætti hún við slíkt tækifæri að bera höfuðfat.

Kristnar konur geta þurft að bera höfuðfat þegar þær taka að sér viss safnaðarstörf. Til dæmis gæti sú staða komið upp að eingöngu systur mæti í samansöfnun fyrir boðunarstarfið í miðri viku en engir skírðir karlmenn. Það gæti líka gerst á öðrum safnaðarsamkomum að engir skírðir karlmenn væru viðstaddir. Ef systir verður að taka að sér störf sem bræður sjá venjulega um á safnaðarsamkomum eða í samansöfnun fyrir boðunarstarfið, þá verður hún að bera höfuðfat.

Verður kristin kona að bera höfuðfat þegar hún þýðir biblíuræður munnlega eða á táknmáli eða les opinberlega greinar úr biblíunámsriti sem notað er á safnaðarsamkomu? Nei. Systur sem taka slíkt að sér eru ekki að stjórna eða kenna. Þær þurfa heldur ekki að bera höfuðfat þegar þær taka þátt í sýnikennslu, segja frásögur eða flytja nemendaræður í Guðveldisskólanum.

Skírðir karlmenn eiga að kenna í söfnuðinum, en sú skylda að prédika og kenna utan safnaðarins hvílir bæði á körlum og konum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Þess vegna þarf kristin kona ekki að bera höfuðfat þegar hún talar við fólk utan safnaðarins um orð Guðs í viðurvist karlmanns sem er vottur Jehóva.

Málin horfa hins vegar öðruvísi við þegar um skipulagt biblíunámskeið er að ræða í heimahúsi og vígður, skírður karlmaður er viðstaddur. Þetta er fyrir fram skipulögð kennslustund í umsjá ákveðins stjórnanda. Í slíkum tilvikum er námstundin þáttur í starfi safnaðarins. Ef skírð kona, sem er vottur Jehóva, sér um slíkt námskeið og skírður karlmaður, sem er vottur Jehóva, er viðstaddur, þá er rétt af henni að bera höfuðfat. Vígði bróðirinn ætti hins vegar að fara með bæn. Systir ætti ekki að fara með bæn í viðurvist vígðs bróður nema í undantekningartilvikum, svo sem ef bróðirinn hefur misst málið.

Kristin systir gæti af og til tekið óskírðan, karlkyns boðbera með sér í biblíunámsstund. Hún gæti beðið hann um að stjórna ef hún vill. En þar sem hann getur ekki réttilega komið fram fyrir hönd skírðrar systur í bæn til Jehóva, ber henni að fara með bænina í námsstundinni. Þegar hún stjórnar og fer með bæn við þessar aðstæður ætti hún að bera höfuðfat. Enda þótt karlkyns boðberinn sé ekki enn skírður álítur fólk utan safnaðarins hann tilheyra söfnuðinum vegna þess að hann tekur þátt í boðunarstarfinu.

„Þess vegna á konan vegna englanna að bera tákn um yfirráð mannsins á höfði sér,“ skrifaði Páll postuli. Já, kristnar systur hafa þau sérréttindi að vera góðar fyrirmyndir fyrir milljónir engla sem halda trúfastlega áfram að lúta Jehóva. Því er viðeigandi að guðræknar konur hugsi til þess að bera höfuðfat þegar þörf krefur.

[Myndir á blaðsíðu 30]

Það er merki um virðingu fyrir forystu að bera höfuðfat.