Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vandamál mannkyns verða bráðum leyst!

Vandamál mannkyns verða bráðum leyst!

Vandamál mannkyns verða bráðum leyst!

„HJÁLPARSTARF kemur að takmörkuðu gagni ef það er ekki þáttur í viðameiri áætlun og hefur ekki pólitískan stuðning sem miðar að því að komast fyrir rætur stríðsátaka. Reynslan hefur hvað eftir annað sýnt að hjálparstarfið eitt og sér getur ekki leyst vandamál sem eru meira eða minna af pólitískum toga.“ — The State of the World’s Refugees 2000.

Vandamál mannkyns vaxa jafnt og þétt þrátt fyrir mikið og gott hjálparstarf. Hvaða von er til þess að hægt sé að finna varanlega pólitíska lausn? Ekki mikil, í sannleika sagt. En getum við leitað eitthvert annað? Í inngangsorðum sínum í bréfi til kristinna manna í Efesus útskýrir Páll postuli hvernig Guð bindi enda á öll vandamál mannkyns. Í þessum áhugaverðu versum tekur Páll meira að segja fram hvaða fyrirkomulag Guð noti til að koma þessu til leiðar — fyrirkomulag sem kemst fyrir rætur allra þeirra vandamála sem við er að glíma núna. Af hverju ekki að skoða það sem Páll hefur að segja? Versin er að finna í Efesusbréfinu 1:3-10.

‚Að safna öllu undir eitt höfuð í Kristi‘

Postulinn talar hér um að Guð hefði „ákveðið . . . er fylling tímans kæmi . . . að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.“ (Efesusbréfið 1:10) Já, Guð hefur hrint í framkvæmd fyrirætlun um að færa allt á himnum og á jörð aftur í lag undir sinni stjórn. Það er athyglisvert að biblíufræðingurinn J. H. Thayer segir um orðasambandið ‚að safna öllu‘: „Safna aftur saman til sín . . . öllum hlutum og verum (sem hafa verið sundraðar vegna syndarinnar) í eitt samfélag í Kristi.“

Eins og hér kemur fram þurfti Guð að gera ákveðnar ráðstafanir í ljósi þess hvernig sundrungin hófst í byrjun. Adam og Eva, foreldrar mannkyns, fylgdu Satan djöflinum í uppreisn gegn Guði. Þau vildu vera sjálfstæð í þeim skilningi að fá sjálf að ákveða hvað væri gott og hvað illt. (1. Mósebók 3:1-5) Í samræmi við réttlæti Guðs voru þau rekin úr fjölskyldu hans og fyrirgerðu sambandinu við hann. Þau steyptu mannkyninu niður í ófullkomleika með öllum þeim hræðilegu afleiðingum sem við sjáum núna. — Rómverjabréfið 5:12.

Illskan umborin um tíma

‚En af hverju leyfði Guð þeim að gera þetta?‘ gæti einhver spurt. ‚Af hverju notaði hann ekki bara hið mikla vald sitt til að knýja fram vilja sinn og koma í veg fyrir allar þær þjáningar og erfiðleika sem við erum að kljást við núna?‘ Það er kannski freistandi að hugsa svona. En hvað segði það um Guð ef hann notaði vald sitt á þennan hátt? Líkar þér vel við fólk sem þaggar niður alla andstöðu um leið og ágreiningur virðist vera að koma upp, bara af því að það hefur valdið til þess? Örugglega ekki.

Uppreisnarseggirnir véfengdu í rauninni ekki alvald Guðs heldur það hvort stjórn hans væri góð og réttmæt. Til að leysa þetta grundvallardeilumál í eitt skipti fyrir öll hefur Jehóva leyft sköpunarverum sínum að stjórna sér sjálfar án beinnar íhlutunar hans í ákveðinn tíma. (Prédikarinn 3:1; Lúkas 21:24) Þegar sá tími er liðinn tekur hann fulla stjórn yfir jörðinni á ný. Þá verður orðið fyllilega ljóst að stjórnarfar hans er eina stjórnarfarið sem tryggir íbúum jarðar varanlegan frið, hamingju og hagsæld. Þá verða allir kúgarar heims fjarlægðir að eilífu. — Sálmur 72:12-14; Daníel 2:44.

„Áður en heimurinn var grundvallaður“

Jehóva ákvað þetta allt fyrir langa löngu. Páll segir að hann hafi gert það „áður en heimurinn var grundvallaður.“ (Efesusbréfið 1:4) Þetta var ekki áður en hann skapaði jörðina eða Adam og Evu. Heimur þess tíma var ‚harla góður‘ og þá hafði uppreisnin ekki brotist út. (1. Mósebók 1:31) Hvaða ‚heim‘ var Páll postuli þá að tala um? Heiminn sem afkomendur Adams og Evu mynduðu — syndugan, ófullkominn heim manna sem áttu von um að vera endurleystir. Jehóva var búinn að ákveða hvernig hann myndi leysa afkomendur Adams undan syndinni áður en fyrstu börnin fæddust. — Rómverjabréfið 8:20.

Þetta merkir auðvitað ekki að alvaldur alheimsins verði að taka á málum eins og mennirnir gera. Þegar þeir sjá fram á erfiðleika gera þeir ýtarlegar áætlanir um viðbrögð við vandanum. En alvaldur Guð gerir ásetning sinn einfaldlega kunnan og kemur honum síðan til leiðar. Páll útskýrir samt sem áður hvernig Jehóva ákvað að hjálpa mannkyninu og leysa vandann til frambúðar. Hvaða ráðstafanir voru þetta?

Hver mun leysa vandann?

Páll útskýrir að andasmurðir lærisveinar Krists gegni sérstöku hlutverki í að gera að engu þann skaða sem synd Adams olli. Páll sagði að Jehóva ‚hefði útvalið þá í Kristi‘ til að stjórna með honum í himnesku ríki hans. Hann útskýrir þetta frekar og segir að Jehóva hafi ‚ákveðið fyrir fram að veita þeim sonarrétt í Jesú Kristi.‘ (Efesusbréfið 1:4, 5) Jehóva valdi þá auðvitað ekki sem einstaklinga heldur ákvað hann að velja hóp trúfastra og vígðra manna sem myndu taka þátt í því með Kristi að gera að engu þann skaða sem Satan djöfullinn og Adam og Eva ollu mannkyninu. — Lúkas 12:32; Hebreabréfið 2:14-18.

Þetta er stórkostleg ráðstöfun. Í upprunalega deilumálinu um drottinvald Guðs gaf Satan í skyn að mennirnir, sem Guð skapaði, væru gallaðir — að ef þeir væru beittir nógu miklum þrýstingi eða fengju nógu sterka hvatningu myndu þeir allir gera uppreisn gegn stjórn Guðs. (Jobsbók 1:7-12; 2:2-5) Þegar fram liðu stundir sýndi Jehóva jarðneskum sköpunarverum sínum mikla gæsku og traust með því að leyfa einstaklingum úr syndugri fjölskyldu Adams að verða andleg börn sín. Þeir sem tilheyra þessum litla hópi verða teknir til himna og munu þjóna þar. En til hvers? — Efesusbréfið 1:3-6; Jóhannes 14:2, 3; 1. Þessaloníkubréf 4:15-17; 1. Pétursbréf 1:3, 4.

Páll postuli segir að þessir kjörsynir Guðs verði „samarfar Krists“ í himnesku ríki hans. (Rómverjabréfið 8:14-17) Þeir verða konungar og prestar og munu eiga þátt í því að leysa mannkynið undan þeim erfiðleikum og þjáningum sem það lifir við núna. (Opinberunarbókin 5:10) ‚Öll sköpunin stynur og hefur fæðingarhríðir allt til þessa‘ en bráðlega grípa Jesús Kristur og þessir útvöldu synir Guðs í taumana. Og þá verða allir hlýðnir menn ‚leystir úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.‘ — Rómverjabréfið 8:18-22.

‚Endurlausn‘

Allt þetta er mögulegt vegna lausnarfórnar Jesú Krists en með henni birtist óverskulduð góðvild Guðs gagnvart endurleysanlegum mannheimi í sinni æðstu mynd. Páll skrifar: „Í [Jesú Kristi], fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. Svo auðug er náð hans.“ — Efesusbréfið 1:7.

Jesús Kristur fer með lykilhlutverkið í tilgangi Jehóva. (Hebreabréfið 2:10) Lausnarfórn hans gefur Jehóva lagalegan grunn til að ættleiða nokkra afkomendur Adams inn í himneska fjölskyldu sína og til að leysa mannkynið undan afleiðingum Adamssyndarinnar án þess þó að grafa undan trausti til laga sinna og meginreglna. (Matteus 20:28; 1. Tímóteusarbréf 2:6) Jehóva hefur gert þetta í samræmi við réttvísi sína og kröfu um fullkomið réttlæti. — Rómverjabréfið 3:22-26.

‚Leyndardómur‘ Guðs

Í þúsundir ára sagði Guð ekki nákvæmlega fyrir hvernig hann myndi koma vilja sínum til leiðar hér á jörðinni. Á fyrstu öldinni ‚kunngjörði hann kristnum mönnum leyndardóm vilja síns.‘ (Efesusbréfið 1:9) Páll og aðrir smurðir kristnir menn skildu greinilega hið mikilsverða hlutverk sem Jesús Kristur gegndi í tilgangi Guðs. Þeir skildu líka sérstakt hlutverk sitt sem samarfar Krists í himnesku ríki hans. (Efesusbréfið 3:5, 6, 8-11) Já, þetta ríki í höndum Jesú Krists og meðstjórnenda hans er það fyrirkomulag sem Guð notar til að koma á varanlegum friði bæði á himni og jörð. (Matteus 6:9, 10) Fyrir milligöngu þessa ríkis mun Jehóva koma jörðinni aftur í það ástand sem hann ætlaði í upphafi. — Jesaja 45:18; 65:21-23; Postulasagan 3:21.

Fljótlega rennur upp sá tími er hann tekur í taumana og losar jörðina við alla kúgun og óréttlæti. En í rauninni byrjaði Jehóva endurreisnarstarfið á hvítasunnu árið 33. Hvernig? Með því að byrja að safna saman „því, sem er á himnum,“ eða þeim sem stjórna með Kristi á himnum. Kristnir menn í Efesus voru þar á meðal. (Efesusbréfið 2:4-7) Núna á okkar tímum hefur hann verið að safna saman „því, sem er á jörðu.“ (Efesusbréfið 1:10) Hann hefur látið gera alþjóðlegt prédikunarátak til að kynna fagnaðarerindið um stjórn sína í höndum Jesú Krists fyrir öllum þjóðum. Þeim sem taka við fagnaðarerindinu er safnað saman og þeir hljóta andlega vernd og lækningu. (Jóhannes 10:16) Bráðum fá þeir að lifa á hreinsaðri paradísarjörð þar sem þeir verða algerlega lausir við allt óréttlæti og þjáningar. — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 11:18.

Stigin hafa verið „mörg stór skref í rétta átt“ til að hjálpa þjökuðu mannkyni. (The State of the World’s Children 2000) Ekkert af því jafnast þó á við væntanlega íhlutun Jesú Krists og meðstjórnenda hans í himneska ríkinu. Þeir komast algerlega fyrir rætur stríðsátaka og losa okkur við allt hið illa sem hrjáir okkur. Þeir munu leysa vandamál mannkyns fyrir fullt og allt. — Opinberunarbókin 21:1-4.

[Myndir á blaðsíðu 4]

Hjálparstarf hefur ekki leyst vandamál mannkyns.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Lausnarfórn Krists leysti mannkynið undan Adamssyndinni.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Það er hægt að finna andlega vernd og lækningu nú á dögum.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Bráðlega losar messíasarríkið okkur við öll vandamál.