Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verða vandamál mannkyns nokkurn tíma leyst?

Verða vandamál mannkyns nokkurn tíma leyst?

Verða vandamál mannkyns nokkurn tíma leyst?

„FJÓRÐUNGUR jarðarbúa býr við fátækt, 1,3 milljarðar lifa á innan við 1 bandaríkjadollara á dag, 1 milljarður er ólæs, 1,3 milljarðar hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og 1 milljarður líður hungur.“ Svo segir í írskri skýrslu um ástandið í heiminum.

Þetta er sorglegur áfellisdómur um vanhæfni mannsins til að finna varanlegar lausnir á vandamálum mannkyns. Þessi vandamál virðast enn þá átakanlegri þegar tekið er mið af því að mikill meirihluti þeirra sem verið er að lýsa í skýrslunni eru varnarlausar konur og börn. Það er hræðilegt til þess að hugsa að jafnvel núna á 21. öldinni skuli „réttindi ótal manna vera brotin á hverjum degi.“ —The State of the World’s Children 2000.

‚Nýr heimur innan einnar kynslóðar‘

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur látið í ljós þá von að „hægt sé að fjarlægja þann dimma skugga sem þessar misþyrmingar . . . hafa varpað á lífið á jörðinni.“ Stofnunin segir að þær hræðilegu aðstæður, sem þessir ólánsömu milljarðar þurfa nú að þola, séu „hvorki óhjákvæmilegar né óumbreytanlegar.“ Hún hefur meira að segja hvatt til þess að „allir menn láti nýjan heim verða að veruleika innan einnar kynslóðar.“ Stofnunin vonast til þess að þetta verði heimur þar sem allir menn verði „lausir við fátækt og mismunun, lausir við ofbeldi og sjúkdóma.“

Þeir sem tjá slík viðhorf vita að nú þegar leggur velviljað fólk mikið á sig til að lina sorglegar afleiðingar þessara „átaka og hörmunga sem virðast engan enda ætla að taka.“ Síðastliðin 15 ár hefur Chernobyl Children’s Project til dæmis „linað þjáningar hundruða barna sem fengu krabbamein í kjölfar kjarnorkuslyssins.“ (The Irish Examiner, 4. apríl, 2000) Hjálparstofnanir, bæði smáar og stórar, gera gríðarlega mikið fyrir hin óteljandi fórnarlömb stríða og hörmunga.

Þeir sem taka þátt í slíku hjálparstarfi eru samt sem áður raunsæir. Þeir vita að vandamálin, sem við stöndum frammi fyrir, „eru mun útbreiddari og rótgrónari en þau voru fyrir einum áratug.“ David Begg, framkvæmdarstjóri írsku hjálparstofnunarinnar Concern, segir að „starfsfólk, stuðningsmenn og styrktaraðilar hafi brugðist frábærlega við“ þegar mikil flóð urðu í Mósambík. „En við ráðum ekki ein við hið gríðarlega umfang slíkra hörmunga,“ bætir hann við. Hann talar um hjálparstarfið í Afríku og viðurkennir hreinskilningslega að „sá vonarneisti, sem enn er til staðar, sé orðinn mjög daufur.“ Margir telja orð hans lýsa ástandinu í heiminum mjög vel.

Getum við í alvöru gert ráð fyrir að sjá ‚nýjan heim innan einnar kynslóðar‘ eins og vonast er eftir? Það hjálparstarf, sem unnið er, er vissulega hrósunarvert, en er ekki skynsamlegt að skoða annan möguleika á réttlátum og friðsömum nýjum heimi? Biblían talar um þennan möguleika eins og fram kemur í næstu grein.

[Mynd credit line á blaðsíðu 2]

Bls. 3, börn: UN/DPI Ljósmynd: James Bu.