Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góðir nágrannar eru mikils virði

Góðir nágrannar eru mikils virði

Góðir nágrannar eru mikils virði

„Betri er nábúi í nánd en bróðir í fjarlægð.“ — Orðskviðirnir 27:10.

LÖGVITRINGUR á fyrstu öldinni spurði Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Í svari Jesú fólst ekki hver væri náungi hans heldur hvað sæmir góðum náunga að gera. Þú þekkir sennilega dæmisögu Jesú. Margir þekkja hana sem dæmisöguna af miskunnsama Samverjanum sem skráð er í Lúkasarguðspjallinu. Jesús sagði söguna á þessa leið:

„Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ‚Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.‘ Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?“ — Lúkas 10:29-36.

Lögvitringurinn skildi greinilega kjarna málsins. Án þess að hika sagði hann réttilega hver væri náungi særða mannsins. Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.“ Jesús sagði þá við hann: „Far þú og gjör hið sama.“ (Lúkas 10:37) Já, þetta er kröftug dæmisaga um hvað það þýðir að vera sannur náungi. Dæmisaga Jesú hvetur okkur kannski til að spyrja: ‚Hvers konar náungi er ég? Læt ég kynþátt minn eða þjóðerni hafa áhrif á hverja ég tel vera náunga mína? Takmarkar það þá skyldu mína að hjálpa meðbróður í neyð? Legg ég lykkju á leið mína til að koma fram sem góðum náunga sæmir?‘

Hvar á að byrja?

Ef okkur finnst við þurfa að bæta okkur að þessu leyti verðum við að byrja á eigin hugarfari. Við ættum að láta okkur annt um að vera sjálf góðir grannar. Það getur einnig orðið til þess að við eignumst góða nágranna. Fyrir næstum tvö þúsund árum lagði Jesús áherslu á þessa mikilvægu reglu mannlegra samskipta í hinni frægu fjallræðu sinni. Hann sagði: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) Með því að sýna öðrum tillitssemi, virðingu og góðvild ertu jafnframt að hvetja þá til að koma fram við þig á sama hátt.

Í greininni „Láttu þér þykja vænt um hverfið þitt,“ sem birtist í tímaritinu The Nation Since 1865, minntist blaðakonan og rithöfundurinn Lise Funderburg á nokkur einföld atriði sem stuðla að góðum nágrannaanda. Hún skrifaði: „Mig langar til þess . . . að samskiptin komi fram í ótal smáviðvikum nágranna á milli — eins og að kippa dagblöðum inn fyrir, líta eftir börnum og ná í eitthvað út í búð. Mig langar til að sjá samskiptin verða þannig í heimi þar sem firringin fer vaxandi og samfélögin eru að liðast í sundur vegna ótta og glæpa.“ Síðan bætir hún við: „Einhvers staðar verðurðu að byrja. Því ekki að byrja á þeim sem býr við hliðina á þér?“

Í tímaritinu Canadian Geographic var einnig bent á hvernig nágrannar gætu tileinkað sér heilbrigða afstöðu hver til annars. Rithöfundurinn Marni Jackson sagði: „Nábúar eru eins og fjölskyldan að því leyti að maður ræður ekki alltaf hverjir þeir eru. Samskiptin krefjast nærgætni, sérstakrar háttvísi og umburðarlyndis.“

Góðir nágrannar — fúsir gefendur

Sjálfsagt er það svo að mörgum okkar líður vandræðalega þegar við komum að máli við nágranna. Það virðist miklu auðveldara að forðast samskipti og einangra sig. Í Biblíunni er samt sagt að ‚sælla sé að gefa en þiggja.‘ (Postulasagan 20:35) Þess vegna reynir góður nágranni að gera sér far um að kynnast fólki í kringum sig. Þótt hann langi kannski ekkert sérstaklega til að tengjast nánum vináttuböndum leggur hann það á sig að láta nokkur orð falla við og við, byrjar kannski á því að brosa vingjarnlega, kinka kolli eða vinka.

Eins og fyrr var minnst á eru það hin „ótalmörgu smáviðvik“ sem nágrannar gera hver fyrir annan sem mestu skiptir þegar stofnað er til varanlegra nágrannatengsla. Gott væri því að hafa í huga eitthvert vinarbragð sem þú getur sýnt nágranna því að það ýtir oft undir samstarfsanda og gagnkvæma virðingu. Og með því að gera það fylgjum við enn fremur áminningu Biblíunnar: „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.“ — Orðskviðirnir 3:27; Jakobsbréfið 2:14-17.

Góðir nágrannar — þakklátir þiggjendur

Það væri frábært ef við gætum sagt að allir tækju á móti hjálp og gjöfum með þakklæti. Því miður er það ekki alltaf svo. Þegar fólk hefur boðið fram hjálp sína og gefið af einlægum huga hefur oft verið tekið á móti því með slíku vanþakklæti að gjafarinn hugsaði jafnvel: ‚Þetta er í síðasta sinn sem ég geri þetta!‘ Það kemur fyrir að nágrannarnir svari öllum tilraunum okkar til að heilsa vingjarnlega og vinka aðeins með því að kinka treglega kolli.

Samt er viðtakandinn oft á tíðum ekki raunverulega vanþakklátur þó að svo gæti virst á yfirborðinu. Ef til vill kemur hann frá öðru menningarumhverfi sem gerir hann hikandi eða óöruggan svo að hann virðist vera fálátur og óvingjarnlegur. Á hinn bóginn gæti sumum þótt þú óeðlilega vingjarnlegur í þessum vanþakkláta heimi og þeir gætu jafnvel grunað þig um græsku. Þeir gætu þurft einhverja frekari staðfestingu. Þannig gæti það tekið tíma og reynt á þolinmæðina að stofna til vináttutengsla. Nágrannar, sem læra þá list að vera fúsir gefendur og þakklátir þiggjendur, leggja sitt af mörkum til að stuðla að friðsömum og ánægjulegum nágrannaanda.

Þegar erfiðleikar steðja að

Góður nágranni er sérstaklega mikils virði þegar ógæfa dynur yfir. Á erfiðleikatímum kemur hið sanna nágrannaþel í ljós. Margar frásagnir eru til af óeigingjörnum viðbrögðum nágranna á slíkum stundum. Hinn sameiginlegi harmleikur virðist leiða til þess að nágrannar vinni ósjálfrátt saman og leggi sig fram hver öðrum til handa. Jafnvel þeir sem hafa andstæðar skoðanir vinna oft saman.

Til dæmis var skýrt frá því í dagblaðinu The New York Times að rótgrónir fjandmenn sýndu nágrannasamstöðu þegar skæður jarðskjálfti reið yfir Tyrkland árið 1999. „Okkur hefur árum saman verið kennt að hata Tyrki,“ skrifaði grískur dálkahöfundur, Anna Stergiou í dagblað í Aþenu. „En hin ótrúlega þjáning þeirra veitir okkur enga gleði. Við komumst í mikla geðshræringu, við grétum eins og hið aldalanga hatur hyrfi við það að sjá andvana börn.“ Þegar björgunaraðgerðum var opinberlega lokið neituðu grískir björgunarflokkar að gefast upp við að leita þeirra sem enn var saknað.

Það er vissulega göfugt miskunnarverk og hetjulegt að taka þátt í björgunarstarfi eftir að hörmungar skella á. En vissulega er það enn göfugra að bjarga lífi náungans með því að vara hann við áður en hörmungarnar eiga sér stað. Því miður leiðir mannkynssagan í ljós að þeim sem vara nágranna við komandi hörmungum er ekki alltaf tekið opnum örmum því að þegar viðvörun berst er ekki hægt að greina nein merki um yfirvofandi hættu. Þeim sem vara við er oft ekki trúað. Það þarf mikla seiglu og fórnfýsi til að hjálpa fólki sem hefur ekki hugmynd um hið ótrygga ástand sitt.

Mesta kærleiksverkið gagnvart náunganum

Nú á tímum eiga eftir að henda mannkynið miklu örlagaríkari atburðir en náttúruhamfarir. Því er spáð fyrir að Guð hinn alvaldi ætli að losa jörðina við glæpi, illsku og vandamál sem tengjast þeim. (Opinberunarbókin 16:16; 21:3, 4) Þessi örlagaríki atburður er ekki bara fjarlægur möguleiki heldur veruleiki! Vottar Jehóva hafa mikinn áhuga á að miðla til sem flestra þeirri þekkingu sem er nauðsynleg til að lifa af þessa yfirvofandi heimsatburði. Þess vegna prédika þeir um allan heim af mikilli einbeitni eins og kunnugt er. (Matteus 24:14) Þeir gera það fúslega vegna kærleika til Guðs og náungans.

Láttu því ekki fordóma eða gremju aftra þér frá því að hlusta á vottana þegar þeir heimsækja þig eða gefa sig á tal við þig annars staðar. Þeir eru að reyna að vera eins og góðum náungum sæmir. Þiggðu því boð þeirra um aðstoð við að kynna þér Biblíuna. Lærðu hvernig orð Guðs fullvissar okkur um að ánægjuleg og friðsamleg sambúð allra manna er innan seilingar. Þá fær misrétti vegna kynþáttar, trúar eða þjóðfélagsstéttar ekki að eyðileggja hin hjartanlegu samskipti sem flest okkar þrá í raun og veru.

[Myndir á blaðsíðu 6, 7]

Það er gott að sýna nágrönnum sínum vinarþel.

[Credit line]

Hnöttur: Mountain High Maps® Copyright © 1997 Digital Wisdom, Inc.