Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlýðum þeim sem Guð hefur falið forystu

Hlýðum þeim sem Guð hefur falið forystu

Hlýðum þeim sem Guð hefur falið forystu

„Drottinn er vor dómari, Drottinn er vor löggjafi, Drottinn er vor konungur.“ — JESAJA 33:22.

1. Hvað gerði Ísraelsþjóðina til forna einstaka í samanburði við aðrar þjóðir?

ÞEGAR Ísraelsþjóðin varð til árið 1513 f.o.t. átti hún sér enga höfuðborg, enga ættjörð og engan sýnilegan konung. Þegnar hennar voru fyrrverandi þrælar. En þessi nýja þjóð naut hins vegar sérstöðu. Jehóva Guð var ósýnilegur dómari hennar, löggjafi og konungur. (2. Mósebók 19:5, 6; Jesaja 33:22) Engin önnur þjóð gat hrósað sér af öðru eins.

2. Hvaða spurning vaknar í sambandi við það hvernig Ísrael var stjórnað og hvers vegna er svarið mikilvægt fyrir okkur?

2 Jehóva er Guð reglusemi og friðar og því mætti ætla að þeirri þjóð sem hann stjórnaði yrði stjórnað skipulega. (1. Korintubréf 14:33) Það átti svo sannarlega við um Ísrael. En hvernig gat ósýnilegur Guð stjórnað jarðnesku og sýnilegu skipulagi? Það er gott fyrir okkur að skoða hvernig Jehóva stjórnaði þessari fornu þjóð og við skulum sérsaklega taka eftir því hvernig stjórnarhættir hans undirstrika nauðsyn þess að hlýða þeim sem hann hefur falið forystu.

Hvernig Ísraelsþjóðinni til forna var stjórnað

3. Hvaða gagnlegar ráðstafanir gerði Jehóva til að leiða fólk sitt?

3 Þó að Jehóva hafi verið ósýnilegur konungur Ísraels útnefndi hann trúfasta menn til að vera sýnilegir fulltrúar sínir. Hann skipaði foringja, ætthöfðingja og öldunga sem ráðgjafa og dómara fólksins. (2. Mósebók 18:25, 26; 5. Mósebók 1:15) En við megum þó ekki ætla að þessir ábyrgu menn hafi með einhverju móti getað dæmt af fullkominni dómgreind og skilningi án leiðsagnar Guðs. Þeir voru ekki fullkomnir og gátu ekki lesið hjörtu trúbræðra sinna. En guðhræddir dómarar gátu samt gefið þjóðinni gagnlegar ráðleggingar því að þær voru byggðar á lögmáli Jehóva. — 5. Mósebók 19:15; Sálmur 119:97-100.

4. Hvaða tilhneigingar þurftu trúfastir dómarar Ísraels nauðsynlega að forðast og hvers vegna?

4 En það var ekki nóg fyrir dómarana að þekkja aðeins lögmálið. Öldungarnir voru ófullkomnir og þurftu að gæta þess að hafa hemil á röngum tilhneigingum, eins og eigingirni, hlutdrægni og græðgi sem hefðu getað spillt dómum þeirra. Móse sagði þeim: „Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs.“ Já, dómarar Ísraels voru að dæma fyrir Guð. Það voru stórkostleg sérréttindi. — 5. Mósebók 1:16, 17.

5. Hvaða ráðstafanir gerði Jehóva til að annast fólk sitt auk þess að skipa dómara?

5 Jehóva gerði líka aðrar ráðstafanir til að sjá fyrir andlegum þörfum þjóna sinna. Jafnvel áður en þeir komu til fyrirheitna landsins sagði hann þeim að gera tjaldbúðina, miðstöð sannrar tilbeiðslu. Hann gaf þeim líka prestastétt til að kenna lögmálið, færa dýrafórnir og brenna reykelsi kvölds og morgna. Guð skipaði Aron, eldri bróður Móse, fyrsta æðstaprest Ísraels og setti syni hans sem aðstoðarmenn föður síns. — 2. Mósebók 28:1; 4. Mósebók 3:10; 2. Kroníkubók 13:10, 11.

6, 7. (a) Hvert var samband prestanna og þeirra levíta sem ekki gegndu prestþjónustu? (b) Hvað getum við lært af því að levítarnir sinntu ýmiss konar störfum? (Kólossubréfið 3:23)

6 Það var gríðarlegt verk að sinna andlegum þörfum margra milljóna manna og prestarnir voru tiltölulega fáir. Því var séð til þess að þeir fengju aðstoð frá öðrum mönnum af Levíættkvísl. Jehóva sagði Móse: „Þú skalt gefa levítana Aroni og sonum hans. Þeir eru honum gefnir af Ísraelsmönnum til fullkominnar eignar.“ — 4. Mósebók 3:9, 39.

7 Levítarnir voru mjög vel skipulagðir. Þeim var skipt eftir þremur ættum — Gersonítum, Kahatítum og Merarítum — og hver ætt fékk sérstakt verkefni. (4. Mósebók 3:14-17, 23-37) Sum verkefnin virtust kannski mikilvægari en önnur en öll voru þau nauðsynleg. Verkefni Kahatítanna varð til þess að þeir voru í návist við hina heilögu sáttmálsörk og áhöldin í tjaldbúðinni. En allir levítarnir, hvort sem þeir voru Kahatítar eða ekki, nutu mikilla sérréttinda. (4. Mósebók 1:51, 53) Því miður kunnu sumir ekki að meta sérréttindi sín og í stað þess að hlýða þeim sem Guð hafði falið forystu urðu þeir óánægðir og létu stolt, metorðagirnd og öfund ná tökum á sér. Einn þessara manna var levíti sem hét Kóra.

„Nú viljið þér einnig ná í prestsembættið!“

8. (a) Hver var Kóra? (b) Hvers vegna kann Kóra að hafa farið að líta á prestana frá mannlegum sjónarhóli?

8 Kóra var hvorki ætthöfðingi levítanna né Kahatítanna. (4. Mósebók 3:30, 32) Samt sem áður var hann virtur höfðingi í Ísrael. Vel má vera að hann hafi unnið náið með Aroni og sonum hans. (4. Mósebók 4:18, 19) Þar sem Kóra sá ófullkomleika þessara manna með eigin augum gæti hann hafa hugsað sem svo: ‚Þessir prestar eru greinilega ófullkomnir, en samt á ég að vera þeim undirgefinn! Fyrir ekki svo löngu gerði Aron gullkálf. Fólkið tilbað þennan kálf og leiddist þess vegna út í skurðgoðadýrkun. Núna er Aron, bróðir Móse, æðsti prestur. Hvílík hlutdrægni! Og hvað með Nadab og Abíhú, syni Arons? Þeir lítilsvirtu svo sérréttindi sín að Jehóva varð að taka þá af lífi!‘ * (2. Mósebók 32:1-5; 3. Mósebók 10:1, 2) Hvernig svo sem Kóra kann að hafa hugsað er greinilegt að hann fór að líta á prestsembættið frá mannlegum sjónarhóli. Það fékk hann til að gera uppreisn gegn Móse og Aroni og að síðustu gegn Jehóva. — 1. Samúelsbók 15:23; Jakobsbréfið 1:14, 15.

9, 10. Um hvað sökuðu Kóra og hinir uppreisnarmennirnir Móse og af hverju hefðu þeir átt að vita betur?

9 Kóra var áhrifamaður og átti því auðvelt með að safna að sér skoðanabræðrum. Kóra, Datan og Abíram fundu 250 stuðningsmenn sem allir voru höfuðsmenn safnaðarins. Þeir komu allir saman að máli við Móse og Aron og sögðu: „Allur söfnuðurinn er heilagur, og Drottinn er meðal þeirra. Hví hefjið þið ykkur þá upp yfir söfnuð Drottins?“ — 4. Mósebók 16:1-3.

10 Uppreisnarmennirnir hefðu átt að vita betur en að véfengja yfirvald Móse. Það var ekki svo langt síðan Aron og Mirjam höfðu gert nákvæmlega það sama. Þau höfðu meira að segja notar svipuð rök og Kóra. Samkvæmt 4. Mósebók 12:1, 2 spurðu þau: „Hefir Drottinn aðeins talað við Móse? Hefir hann ekki talað við okkur líka?“ Jehóva heyrði það. Hann sagði Móse, Aroni og Mirjam að koma saman við dyr samfundatjaldsins svo að hann gæti látið í ljós hvern hann hefði valið sem leiðtoga. Síðan sagði hann skýrum orðum: „Þegar spámaður er meðal yðar, þá birtist ég honum í sýn, eða tala við hann í draumi. Ekki er því þannig farið um þjón minn Móse. Honum er trúað fyrir öllu húsi mínu.“ Síðan sló Jehóva Mirjam með tímabundinni holdsveiki. — 4. Mósebók 12:4-7, 10.

11. Hvernig brást Móse við uppreisn Kóra?

11 Kóra og þeir, sem tóku máli hans, hljóta að hafa vitað af þessu atviki. Uppreisn þeirra var óafsakanleg. Samt sem áður var Móse þolinmóður og reyndi að tala þá til. Hann hvatti þá til að vera þakklátari fyrir þau sérréttindi sem þeir höfðu og sagði: „Sýnist yður það lítils vert, að Ísraels Guð greindi yður frá söfnuði Ísraels til þess að láta yður nálgast sig?“ Nei, það var svo sannarlega ekki „lítils vert“! Levítarnir höfðu þá þegar mikil sérréttindi. Gátu þeir beðið um eitthvað meira? Það sem Móse sagði í framhaldinu leiddi í ljós hvað bjó í hjarta þeirra: „Nú viljið þér einnig ná í prestsembættið!“ * (4. Mósebók 12:3; 16:9, 10) En hvernig brást Jehóva við þessari uppreisn gegn því yfirvaldi sem hann hafði skipað?

Dómari Ísraels skerst í leikinn

12. Hverju var gott samband Ísraelsþjóðarinnar við Guð háð?

12 Þegar Jehóva gaf Ísraelsþjóðinni lögmálið sagði hann fólkinu að það yrði „heilagur lýður“ svo framarlega sem það héldi áfram að hlýða Jehóva og viðurkenna fyrirkomulag hans. (2. Mósebók 19:5, 6) En núna var uppreisn í uppsiglingu og kominn tími til að dómari og löggjafi þjóðarinnar skærist í leikinn. Móse sagði við Kóra: „Þú og allur flokkur þinn skuluð á morgun koma fram fyrir Drottin, þú og þeir og Aron. Og takið hver sína eldpönnu og leggið á reykelsi og færið því næst hver sína eldpönnu fram fyrir Drottin — tvö hundruð og fimmtíu eldpönnur. Þú og Aron skuluð og hafa hver sína eldpönnu.“ — 4. Mósebók 16:16, 17.

13. (a) Af hverju var það hrokafullt af uppreisnarmönnunum að færa Jehóva reykelsisfórn? (b) Hvað gerði Jehóva við uppreisnarmennina?

13 Samkvæmt lögmáli Guðs máttu aðeins prestar færa reykelsisfórnir. Tilhugsunin um að levíti, sem ekki var prestur, færði Jehóva reykelsisfórn hefði átt að fá þessa uppreisnarmenn til að hugsa. (2. Mósebók 30:7; 4. Mósebók 4:16) En Kóra og stuðningsmenn hans létu engan bilbug á sér finna. Daginn eftir ‚safnaði Kóra í móti Móse og Aron öllum flokki sínum fyrir dyrum samfundatjaldsins.‘ Frásagan segir: „Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði: ‚Skiljið ykkur frá þessum hóp, og mun ég á augabragði eyða þeim.‘“ En Móse og Aron sárbændu Jehóva um að þyrma lífi fólksins. Jehóva féllst á bæn þeirra. En hvað varð um Kóra og menn hans? „Eldur gekk út frá Drottni og eyddi þeim tvö hundruð og fimmtíu mönnum, er báru fram reykelsið.“ — 4. Mósebók 16:19-22, 35. *

14. Af hverju tók Jehóva hart á söfnuði Ísraels?

14 Það kemur nokkuð á óvart að Ísraelsmennirnir, sem sáu hvað Jehóva gerði við uppreisnarmennina, drógu samt engan lærdóm af því. „Daginn eftir möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna í gegn þeim Móse og Aroni og sagði: ‚Þið hafið myrt lýð Drottins!‘“ Ísraelsmenn tóku málstað uppreisnarmannanna! Að lokum var þolinmæði Jehóva á þrotum. Enginn — ekki einu sinni Móse eða Aron — gat beðið fólkinu griða. Jehóva sendi plágu yfir hina óhlýðnu „en þeir sem fórust í plágunni, voru fjórtán þúsundir og sjö hundruð, auk þeirra er fórust sökum Kóra.“ — 4. Mósebók 16:41-49.

15. (a) Hvers vegna hefðu Ísraelsmenn átt að viðurkenna forystu Móse og Arons án þess að hika? (b) Hvað hefur þessi frásaga kennt þér um Jehóva?

15 Þetta fólk þurfti ekki að láta lífið. Það hefði getað hugleitt málin til hlítar og spurt sjálft sig spurninga eins og: ‚Hverjir hættu lífi sínu með því að ganga fram fyrir Faraó? Hverjir kröfðust þess að Ísraelsmenn yrðu látnir lausir? Hverjum einum var boðið að fara upp á Hórebfjall til að tala augliti til auglitis við engil Guðs eftir frelsun Ísraels?‘ Ferill Móse og Arons sannaði greinilega hollustu þeirra við Jehóva og kærleika til fólksins. (2. Mósebók 10:28; 19:24; 24:12-15) Jehóva hafði enga ánægju af því að taka líf þessara uppreisnarmanna. En þegar ljóst var orðið að fólkið ætlaði ekki að hætta við uppreisnina lét hann til skarar skríða. (Esekíel 33:11) Allt þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur nú á dögum. Hvers vegna?

Boðleið Guðs nú á dögum

16. (a) Hvað hefði átt að sannfæra Gyðinga á fyrstu öldinni um að Jesús væri fulltrúi Jehóva? (b) Af hverju setti Jehóva nýtt prestafélag í stað levítanna og hvaða prestafélag var það?

16 Núna er Jehóva ósýnilegur dómari, löggjafi og konungur nýrrar ‚þjóðar‘ sem varð til á fyrstu öldinni. (Matteus 21:43) Á þeim tíma var komið fallegt musteri í Jerúsalem í staðinn fyrir tjaldbúðina á dögum Móse og þar sinntu levítarnir enn þá skyldum sínum. (Lúkas 1:5, 8, 9) Árið 29 varð hins vegar til annað musteri, sem var andlegt, og Jesús Kristur var æðsti prestur þar. (Hebreabréfið 9:9, 11) Þá vaknaði enn á ný spurningin um guðræðislegt yfirvald. Hvern ætlaði Jehóva að nota til að leiða þessa nýju „þjóð“? Jesús sannaði að hann væri Guði trúr án skilyrða. Hann elskaði fólkið og gerði líka mörg stórkostleg tákn. En flestir levítar voru eins og þrjóskir forfeður sínir og neituðu að viðurkenna Jesú. (Matteus 26:63-68; Postulasagan 4:5, 6, 18; 5:17) Að lokum setti Jehóva nýtt prestafélag í stað levítanna, konunglegt prestafélag. Þetta konunglega prestafélag er enn við lýði nú á dögum.

17. (a) Hvaða hópur myndar hið konunglega prestafélag nú á dögum? (b) Hvernig notar Jehóva þetta konunglega prestafélag?

17 Hverjir mynda þetta konunglega prestafélag nú á dögum? Pétur postuli svarar þessari spurningu í fyrra innblásna bréfi sínu. Hann skrifar til smurðra manna sem tilheyra líkama Krists: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pétursbréf 2:9) Af þessum orðum er ljóst að þessi hópur smurðra manna, sem fetar í fótspor Jesú, myndar hið ‚konunglega prestafélag‘ sem Pétur kallaði líka ‚heilaga þjóð.‘ Þeir eru sú boðleið sem Jehóva notar til að gefa fólki sínu leiðbeiningar og andlega leiðsögn. — Matteus 24:45-47.

18. Hvaða samband er á milli útnefndra öldunga og hins konunglega prestafélags?

18 Útnefndir öldungar eru fulltrúar hins konunglega prestafélags og þeir þjóna í ábyrgðarstöðum í söfnuðum þjóna Jehóva um alla jörðina. Þessir menn eiga skilið að fá virðingu okkar og heilshugar stuðning, hvort sem þeir eru smurðir eða ekki. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva hefur útnefnt öldungana fyrir milligöngu heilags anda. (Hebreabréfið 13:7, 17) Hvernig má það vera?

19. Hvernig má segja að öldungar séu útnefndir af heilögum anda?

19 Þessir öldungar uppfylla kröfurnar sem gerðar eru í orði Guðs og það er skrifað fyrir milligöngu heilags anda. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:5-9) Þannig má segja að þeir séu útnefndir af heilögum anda. (Postulasagan 20:28) Öldungarnir verða að vera þaulkunnugir orði Guðs. Þeir verða líka að vera eins og hinn æðsti dómari sem skipaði þá og hata allt sem ber keim af hlutdrægni í dómum. — 5. Mósebók 10:17, 18.

20. Hvað kannt þú að meta í fari hinna ötulu öldunga?

20 Frekar en að véfengja yfirvald þessara ötulu öldunga kunnum við einlæglega að meta þá. Þeir hafa þjónað trúfastlega, oft í áratugi, og það vekur traust okkar. Þeir undirbúa sig dyggilega fyrir safnaðarsamkomur og stjórna þeim, vinna með okkur að því að boða ‚fagnaðarerindið um ríkið‘ og gefa okkur biblíulegar ráðleggingar þegar við þurfum á því að halda. (Matteus 24:14; Hebreabréfið 10:23, 25; 1. Pétursbréf 5:2) Þeir heimsækja okkur þegar við erum veik og hugga okkur þegar við syrgjum. Þeir sinna hagsmunum Guðsríkis af trúfesti og óeigingirni. Þeir hafa anda Jehóva og velþóknun hans. — Galatabréfið 5:22, 23.

21. Um hvað verða öldungar að vera meðvitaðir og hvers vegna?

21 Öldungarnir eru auðvitað ekki fullkomnir. Þeir vita að þeir hafa sínar takmarkanir og reyna því ekki að drottna yfir hjörðinni eða ‚söfnuðinum‘ heldur líta á sig sem ‚samverkamenn að gleði bræðra sinna.‘ (1. Pétursbréf 5:3; 2. Korintubréf 1:24) Auðmjúkir og ötulir öldungar elska Jehóva og vita að því betur sem þeir líkja eftir honum þeim mun meira gagn geta þeir gert í söfnuðinum. Með þetta í huga keppa þeir stöðugt að því að rækta með sér eiginleika, sem eru Guði að skapi, eins og kærleika, samúð og þolinmæði.

22. Hvernig hefur upprifjun á frásögunni um Kóra styrkt trú þína á sýnilegu skipulag Jehóva?

22 Við erum sannarlega ánægð að hafa Jehóva sem ósýnilegan stjórnanda, Jesú Krist sem æðsta prest, meðlimi hins smurða konunglega prestafélags sem kennara og trúfasta kristna öldunga sem ráðgjafa. Þó að ekkert skipulag, sem menn stjórna, geti verið fullkomið erum við ánægð að fá að þjóna Jehóva með dyggum trúsystkinum okkar sem hlýða fúslega þeim sem Guð hefur falið forystu.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Hinir tveir synir Arons, Eleasar og Ítamar, voru til fyrirmyndar í þjónustu sinni við Jehóva. — 3. Mósebók 10:6.

^ gr. 11 Datan og Abíram, sem tóku þátt í uppreisninni með Kóra, voru Rúbenítar og því greinilega ekki að seilast eftir prestsembættinu. Þeir voru hins vegar ósáttir við forystu Móse og gramdist að þeir skyldu ekki enn vera komnir inn í fyrirheitna landið eins og þeir höfðu vonast eftir. — 4. Mósebók 16:12-14.

^ gr. 13 Á ættfeðratímanum kom hvert fjölskylduhöfuð fram fyrir Guð fyrir hönd konu sinnar og barna og færði meira að segja fórnir í þeirra þágu. (1. Mósebók 8:20; 46:1; Jobsbók 1:5) En þegar lögmálið tók gildi skipaði Jehóva karlmenn úr fjölskyldu Arons sem presta og þeir áttu að færa fórnirnar fyrir fólkið. Þessir 250 uppreisnarmenn voru greinilega ekki tilbúnir að fylgja þessari nýju ráðstöfun.

Hvað hefur þú lært?

• Hvaða kærleiksríku ráðstafanir gerði Jehóva til að annast Ísraelsmenn?

• Af hverju var uppreisn Kóra gegn Móse og Aroni óafsakanleg?

• Hvað getum við lært af því hvernig Jehóva brást við uppreisninni?

• Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta fyrirkomulag Jehóva nú á dögum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Lítur þú á öll verkefni í þjónustu Jehóva sem sérréttindi?

[Mynd á blaðsíðu 24]

„Hví hefjið þið ykkur þá upp yfir söfnuð Drottins?“

[Mynd á blaðsíðu 27]

Útnefndir öldungar eru fulltrúar konunglega prestafélagsins.