Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er orðið um alla nágrannana?

Hvað er orðið um alla nágrannana?

Hvað er orðið um alla nágrannana?

„Nútímasamfélag lætur sér nágranna engu varða.“ — Benjamin Disraeli, enskur stjórnmálamaður á 19. öld.

ALDRAÐIR Kúbverjar fara nýstárlega leið til að stuðla að aukinni velferð: þeir hafa komið á fót hverfisneti eða círculos de abuelos (afa- og ömmuhópum) eins og þeir kalla þá. Samkvæmt frétt frá 1997 er 1 af hverjum 5 öldruðum Kúbverjum í slíkum hópi en þar fá þeir félagsskap, aðhlynningu og aðstoð við hæfi til að halda áfram að lifa heilbrigðu lífi. „Hvenær sem heimilislæknarnir í hverfinu þurfa á hjálp að halda þegar bólusetningar fara fram,“ segir í tímaritinu World-Health, „þá finna þeir fúsar og hæfar hendur hjá afa- og ömmuhópunum.“

En því miður er því svo farið víða í heiminum að í hverfunum er ekki lengur að finna þetta umhyggjusama samfélag. Sjáum til dæmis hve sorglega fór fyrir Wolfgang Dircks sem átti heima í fjölbýlishúsi í Vestur-Evrópu. Fyrir nokkrum árum skýrði dagblaðið The Canberra Times frá því að þrátt fyrir að 17 fjölskyldur, sem bjuggu í fjölbýlishúsinu ásamt Wolfgang, hefðu veitt fjarveru hans athygli hefði „engum dottið í hug að hringja dyrabjöllunni.“ Þegar húseigandinn fór loksins inn í íbúðina „kom hann að beinagrind sitjandi fyrir framan sjónvarpið.“ Í kjöltunni lá opin sjónvarpsdagsskrá frá 5. desember 1993. Wolfgang hafði verið látinn í fimm ár. Þetta er dapurlegur vitnisburður um þann skort á áhuga og umhyggjusemi sem sæmir góðum granna! Það kemur ekki á óvart að greinarhöfundur skyldi segja í The New York Times Magazine að hverfið hans, eins og svo mörg önnur, væri orðið „samfélag ókunnugra.“ Er því eins háttað í hverfinu þínu?

Að vísu ríkja einlæg vináttubönd í sumum fámennum bæjarfélögum og sum hverfasamtök eru farin að láta sig íbúasamskipti meiru varða. En mörgum borgarbúum finnst þeir samt vera einir og varnarlausir í hverfinu sínu, einangraðir í skjóli nafnleysis. Hvers vegna er þetta svona?

Í skjóli nafnleysis

Auðvitað eiga flest okkar nágranna. Flöktandi skin frá sjónvarpstæki, skuggar á hreyfingu við glugga, ljós kveikt og slökkt, bílahljóð koma og fara, fótatak á göngum, hringl í lyklum þegar opnað er og læst bendir allt til þess að nágrennið sé „lifandi.“ Samt hverfur raunveruleg nágrannatilfinning þegar fólk sem býr nálægt hvert öðru er falið nafnlaust á bak við veggi eða sniðgengur hvert annað í amstri dagsins. Kannski finnst fólki engin þörf á að eiga samskipti við nágranna eða skuldbinda sig þeim á einhvern hátt. Í ástralska dagblaðinu Herald Sun segir: „Fólk er ókunnugt í nánasta umhverfi sínu og er þess vegna síður þvingað til félagslegra skuldbindinga. Núna er auðveldara að líta fram hjá fólki eða útiloka fólk sem er ekki aðlaðandi frá félagslegu sjónarmiði.“

Þessi þróun kemur ekki á óvart. Í heimi þar sem menn eru upp til hópa „sérgóðir“ hefur hverfisandinn orðið fyrir áhrifum af eigingjörnum lífsmáta margra. (2. Tímóteusarbréf 3:2) Afleiðingin er víðtækur einmanaleiki og firring. Í kjölfar firringar kemur vantraust, sérstaklega þegar hverfinu er stöðugt ógnað með ofbeldi og glæpum og vantraustið lamar síðan mannleg samskipti.

Hvernig sem málum er háttað í hverfinu þínu tekurðu vafalaust undir það að góðir nágrannar eru mikils virði fyrir samfélag. Það er mikill ávinningur að því er fólk vinnur að sameiginlegu markmiði. Góðir nágrannar geta einnig orðið til blessunar. Í næstu grein er sýnt fram á það.