Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Snortin af ‚stórmerkjum Guðs‘

Snortin af ‚stórmerkjum Guðs‘

Snortin af ‚stórmerkjum Guðs‘

„Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs.“ — POSTULASAGAN 2:11.

1, 2. Hvaða stórmerki átti sér stað í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33?

UNDRAVERT atvik átti sér stað einn morgun síðla vors árið 33 þegar hópur karla og kvenna, sem voru lærisveinar Jesú Krists, var saman kominn á einkaheimili í Jerúsalem. „Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru. . . . Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum.“ — Postulasagan 2:2-4, 15.

2 Mikill mannfjöldi safnaðist saman fyrir utan húsið. Meðal þeirra voru erlendir Gyðingar, „guðræknir menn,“ sem komnir voru til Jerúsalem til að halda hvítasunnu. Þeir urðu furðu lostnir því að hver og einn heyrði lærisveinana tala „um stómerki Guðs“ á sínu eigin móðurmáli. Hvernig gat það verið þegar allir þeir sem töluðu voru Galíleumenn? — Postulasagan 2:5-8, 11.

3. Hvað sagði Pétur postuli mannfjöldanum á hvítasunnunni?

3 Einn þessara Galíleumanna var Pétur postuli. Hann sagði frá því að nokkrum vikum áður hefði Jesús Kristur verið myrtur af ranglátum mönnum. Guð hefði hins vegar reist son sinn upp frá dauðum. Síðan hefði Jesús birst mörgum lærisveinum sínum, þeirra á meðal Pétri og öðrum sem þarna voru viðstaddir. Nú væru liðnir aðeins tíu dagar síðan hann steig upp til himna og það hefði verið hann sem úthellti heilögum anda yfir lærisveinana. Hafði þetta einhverja þýðingu fyrir þá sem voru að halda hvítasunnu? Já, svo sannarlega. Ef þeir iðkuðu trú á Jesú gerði dauði hans þeim kleift að fá fyrirgefningu synda sinna og „öðlast að gjöf heilagan anda.“ (Postulasagan 2:22-24, 32, 33, 38) Hvernig brást mannfjöldinn við þegar hann heyrði um þessi „stórmerki Guðs“? Og hvernig getur frásagan hjálpað okkur að leggja mat á okkar eigin þjónustu við Jehóva?

Knúin til verka

4. Hvaða spádómur Jóels uppfylltist á hvítasunnu árið 33?

4 Eftir að lærisveinarnir í Jerúsalem höfðu fengið heilagan anda fóru þeir strax að segja öðrum frá fagnaðarerindinu um hjálpræðið og byrjuðu á að tala við mannfjöldann sem safnast hafði saman þennan morgun. Þetta var uppfylling á eftirtektarverðum spádómi sem Jóel Petúelsson hafði skrifað átta öldum áður: „Mun ég úthella anda mínum yfir allt hold. Synir yðar og dætur yðar munu spá, gamalmenni yðar mun drauma dreyma, ungmenni yðar munu sjá sjónir. Já, einnig yfir þræla og ambáttir mun ég á þeim dögum úthella anda mínum . . . áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.“ — Jóel 1:1; 3:1, 2, 4; Postulasagan 2:17, 18, 20.

5. Í hvað skilningi má segja að kristnir menn á fyrstu öld hafi spáð? (Sjá neðanmáls.)

5 Þýddi þetta að Guð ætlaði að vekja upp heila kynslóð spámanna og spákvenna, í líkingu við Davíð, Jóel, og Debóru, og nota þau til að segja fyrir um ókomna atburði? Nei. Kristnir ‚synir og dætur, þrælar og ambáttir‘ myndu spá í þeim skilningi að þau yrðu knúin af anda Jehóva til að segja öðrum frá þeim ‚stórmerkjum‘ sem hann hafði gert og ætlar að gera í framtíðinni. Þau myndu því þjóna sem talsmenn hins hæsta. * En hvernig brást mannfjöldinn við? — Hebreabréfið 1:1, 2.

6. Hvað fundu margir úr hópnum sig knúna til að gera eftir að hafa heyrt ræðu Péturs?

6 Eftir að mannfjöldinn hafði heyrt útskýringar Péturs fundu margir úr hópnum sig knúna til verka. Þeir „veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.“ (Postulasagan 2:41) Þar sem þeir voru Gyðingar að holdinu og trúskiptingar höfðu þeir nú þegar undirstöðuþekkingu á Ritningunni. Þessi þekking, auk trúar á það sem þeir lærðu hjá Pétri, skapaði grundvöll til þess að þeir gætu látið skírast „í nafni föður, sonar og heilags anda.“ (Matteus 28:19) Eftir skírnina ‚ræktu þeir dyggilega uppfræðslu postulanna.‘ Þeir fóru líka að segja öðrum frá hinni nýju trú sinni. „Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum . . . lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum.“ Þetta prédikunarstarf hafði í för með sér að Jehóva ‚bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.‘ (Postulasagan 2:42, 46, 47) Kristnir söfnuðir spruttu upp í heimalöndum margra þessara nýju lærisveina. Þessa aukningu mátti eflaust rekja að einhverju leyti til þess hve duglegir þeir voru að prédika ‚fagnaðarerindið‘ þegar þeir komu heim. — Kólossubréfið 1:23.

Orð Guðs er kröftugt

7. (a) Hvað laðar fólk af öllum þjóðum að skipulagi Jehóva nú á dögum? (b) Hvaða vaxtarmöguleika sérð þú á alheimsakrinum og á þínu svæði? (Sjá neðanmáls.)

7 En hvað með þá sem vilja gerast þjónar Guðs nú á dögum? Þeir verða líka að rannsaka orð Guðs vandlega. Þegar þeir gera það kynnast þeir Jehóva og sjá að hann er „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (2. Mósebók 34:6; Postulasagan 13:48) Þeir læra að Jehóva hefur í kærleika sínum gert lausnarráðstöfun fyrir milligöngu Jesú Krists og að úthellt blóð hans getur hreinsað þá af allri synd. (1. Jóhannesarbréf 1:7) Þeir læra líka að Guð ætlar ‚að reisa upp bæði réttláta og rangláta‘ og eru þakklátir fyrir. (Postulasagan 24:15) Hjarta þeirra fyllist kærleika til skapara þessara ‚stórmerkja‘ og þeir finna fyrir sterkri löngun til að segja öðrum frá þessum dýrmætu sannindum. Síðan verða þeir vígðir og skírðir þjónar Guðs og halda áfram að ‚vaxa að þekkingu á honum.‘ * — Kólossubréfið 1:10b; 2. Korintubréf 5:14.

8-10. (a) Hvernig sýnir frásaga um kristna konu fram á að orð Guðs er „kröftugt“? (b) Hvað kennir frásagan þér um Jehóva og afskipti hans af þjónum sínum?

8 Þekkingin sem þjónar Guðs afla sér með biblíunámi er ekki yfirborðskennd. Hún snertir hjarta þeirra, breytir hugsunarhætti þeirra og verður hluti af þeim. (Hebreabréfið 4:12) Kona, sem heitir Camille, vann við umönnun aldraðra. Einn skjólstæðingur hennar var Martha sem er vottur Jehóva. Martha var með vitglöp á alvarlegu stigi og þurfti því stöðugt eftirlit. Það þurfti að minna hana á að borða og jafnvel kyngja matnum. En það var eitt sem Martha gleymdi aldrei eins og við munum sjá.

9 Einn daginn sá Martha að Camille var að gráta vegna einhverra persónulegra vandamála. Martha tók utan um hana og bauðst til að fræða hana um Biblíuna. En gat hún stýrt biblíunámskeiði eins og hún var á sig komin? Já, það gat hún! Þó að hún hefði tapað minni að miklu leyti hafði hún hvorki gleymt stórfenglegum Guði sínum né hinum verðmætu sannindum sem hún hafði lært í Biblíunni. Í biblíunámsstundunum sagði hún Camille að lesa hverja grein, fletta upp ritningarstöðunum sem vísað var í, lesa spurninguna neðst á blaðsíðunni og svara henni síðan. Þetta gekk svona í þó nokkurn tíma og Camille fékk sífellt meiri biblíuþekkingu þrátt fyrir takmarkanir Mörthu. Martha gerði sér grein fyrir því að Camille þurfti að eiga félagsskap við aðra sem hefðu áhuga á að þjóna Guði. Þess vegna gaf hún Camille kjól og skó svo að hún hefði viðeigandi föt að vera í þegar hún færi á fyrstu samkomuna í ríkissalnum.

10 Camille var djúpt snortin af kærleiksríkum áhuga Mörthu, fordæmi hennar og sannfæringu. Hún sá að það sem Martha var að reyna að kenna henni frá Biblíunni hlaut að vera mjög mikilvægt þar sem Martha var nánast búin að gleyma öllu nema því sem hún hafði lært í Biblíunni. Seinna, þegar Camille var flutt á annað hjúkrunarheimili, gerði hún sér grein fyrir því að nú væri kominn tími til að gera eitthvað í sínum málum. Hún greip fyrsta tækifærið til að fara á samkomu, í kjólnum og skónum sem Martha hafði gefið henni, og bað um biblíunámskeið. Camille tók góðum framförum og lét skírast.

Knúin til að endurspegla staðla Jehóva

11. Hvernig getum við sýnt að við eru snortin af boðskapnum um ríkið auk þess að vera kostgæfir boðberar?

11 Núna eru rúmlega sex milljónir votta Jehóva út um allan heim sem prédika ‚fagnaðarerindið um ríkið‘ líkt og Martha og nú líka Camille. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Þetta fólk er snortið af ‚stórmerkjum Guðs‘ líkt og kristnir menn á fyrstu öld. Það kann að meta þau sérréttindi að bera nafn Jehóva og að hann skuli hafa úthellt anda sínum yfir það. Þess vegna reynir það eftir fremsta megni að ‚hegða sér eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt‘ og fylgja meginreglum hans á öllum sviðum lífsins. Það felur meðal annars í sér að virða meginreglur Guðs um klæðaburð og snyrtingu. — Kólossubréfið 1:10a; Títusarbréfið 2:10.

12. Hvaða ráðleggingar finnum við í 1. Tímóteusarbréfi 2:9, 10 um klæðaburð og snyrtingu?

12 Já, Jehóva hefur sett ákveðna staðla í sambandi við persónulegt útlit okkar. Páll postuli tilgreindi nokkrar kröfur sem Guð setur í þessum málum. „Vil ég, að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum, heldur með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka.“ * Hvað lærum við af þessum orðum? — 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.

13. (a) Hvað er átt við þegar talað er um ‚sæmandi búning‘? (b) Hvers vegna er hægt að segja að mælikvarði Jehóva sé sanngjarn?

13 Orð Páls segja okkur að kristnir menn eigi að ‚skrýða sig sæmandi búningi.‘ Þeir eiga ekki að vera druslulegir, óþrifalegir eða ósnyrtilegir í útliti. Með því að sjá til þess að föt okkar séu snyrtileg, hrein og sómasamleg getum við öll mætt þessum sanngjörnu kröfum, líka þeir sem hafa takmörkuð fjárráð. Við skulum skoða dæmi um votta í einu landi í Suður-Ameríku. Á hverju ári þurfa þeir að ganga marga kílómetra í gegnum skóg og sigla síðan svo klukkustundum skiptir með kanó til að komast á umdæmismót. Oftar en ekki dettur einhver í ána á leiðinni eða rífur föt sín á runna. Þegar mótsgestirnir mæta á mótsstaðinn eru þeir því oft frekar úfnir og ósnyrtilegir. Þess vegna taka þeir sér tíma til að gera við rennilása, þvo og strauja og sauma tölur á fötin sem þeir ætla að vera í á mótinu. Þeir meta mikils að fá að nærast við borð Jehóva og vilja vera viðeigandi klæddir.

14. (a) Hvað þýðir það að klæða sig með „blygð og hóglæti“? (b) Hvað felst í því að klæða sig ‚eins og sómir fólki sem vill dýrka Guð‘?

14 Páll sagði líka að við ættum að klæða okkur með „blygð og hóglæti.“ Þetta þýðir að við ættum ekki að reyna að vekja á okkur athygli með útlitinu, eltast við tískufyrirbrigði eða vera í fötum sem eru furðuleg, ögrandi eða efnislítil. Við ættum að sýna með klæðaburði okkar að við ‚viljum dýrka Guð.‘ Er það ekki umhugsunarvert? Og við ættum ekki bara að vera viðeigandi til fara þegar við erum á safnaðarsamkomum en gefa því engan gaum þar á milli. Við erum kristin allan sólarhringinn og útlit okkar ætti því alltaf að endurspegla auðmýkt og virðingu. Auðvitað verða vinnu- og skólaföt okkar að hæfa því sem við erum að fara að gera. En við ættum samt að vera sómasamlega og virðulega klædd. Ef klæðaburður okkar ber alltaf vitni um að við trúum á Guð þurfum við aldrei að skammast okkar svo fyrir útlitið að við veigrum okkur við að prédika óformlega. — 1. Pétursbréf 3:15.

„Elskið ekki heiminn“

15, 16. (a) Af hverju er mikilvægt að við líkjum ekki eftir heiminum í sambandi við klæðnað og snyrtingu? (1. Jóhannesarbréf 5:19) (b) Af hverju er skynsamlegt að forðast ýktar tískusveiflur.

15 Ráðleggingarnar í 1. Jóhannesarbréfi 2:15, 16 gefa okkur líka vísbendingu um það hvaða klæðnað og snyrtingu við ættum að velja. Við lesum „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.“

16 Þetta eru mjög tímabærar ráðleggingar. Hópþrýstingur hefur aldrei verið meiri en nú en við megum samt ekki láta heiminn stjórna því hverju við klæðumst. Klæðaburði og snyrtingu fólks hefur hrakað á síðustu árum. Klæðaburður kaupsýslu- og fagfólks virðist ekki einu sinni alltaf vera áreiðanlegur mælikvarði á það hvað er viðeigandi fyrir kristna menn. Ef við viljum lifa í samræmi við staðla Guðs og ‚prýða kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum‘ ættum við alltaf að vera meðvituð um að ‚hegða okkur ekki eftir öld þessari.‘ — Rómverjabréfið 12:2; Títusarbréfið 2:10.

17. (a) Hvaða spurningar ættum við að hugleiða þegar við erum að kaupa föt eða velja ákveðna tísku? (b) Af hverju ætti höfuð fjölskyldunnar að fylgjast með því hvernig aðrir í fjölskyldunni eru til fara?

17 Áður en maður ákveður að kaupa ákveðna flík væri skynsamlegt að spyrja sjálfan sig: ‚Af hverju höfðar þessi tíska til mín? Tengir fólk þessa tísku við einhverja fræga manneskju — einhvern sem ég lít upp til? Tengist þessi tíska einhverri götuklíku eða gengi sem ýtir undir sjálfstæðis- eða uppreisnaranda?‘ Við ættum líka að skoða flíkina vandlega. Ef þetta er kjóll eða pils er það þá nógu sítt? Hvað með sniðið? Er flíkin látlaus, viðeigandi og virðuleg eða er hún þröng, ögrandi eða ósnyrtileg? Spyrðu sjálfan þig: ‚Á ég eftir að hneyksla aðra ef ég klæðist þessum fötum?‘ (2. Korintubréf 6:3, 4) Af hverju ættum við að hugleiða það? Af því að Biblían segir að jafnvel ‚Kristur hafi ekki hugsað um sjálfan sig.‘ (Rómverjabréfið 15:3) Kristinn maður, sem veitir fjölskyldu forstöðu, ætti að fylgjast með því hvernig aðrir í fjölskyldunni eru til fara. Vegna virðingar fyrir hinum mikilfenglega Guði sem hann tilbiður ætti hann ekki að hika við að veita ákveðnar og kærleiksríkar ráðleggingar þegar þess þarf. — Jakobsbréfið 3:13.

18. Hvað fær þig til að hugsa vandlega um klæðaburð þinn og snyrtingu?

18 Boðskapurinn, sem við flytjum, kemur frá Jehóva og hann er ímynd alls þess sem er göfugt og heilagt. (Jesaja 6:3) Biblían hvetur okkur til að líkja eftir honum „svo sem elskuð börn hans.“ (Efesusbréfið 5:1) Klæðnaður okkar og snyrting getur gefið annaðhvort góðan eða slæman vitnisburð um föður okkar á himnum. Og auðvitað viljum við gleðja hjarta hans. — Orðskviðirnir 27:11.

19. Hvaða blessun hljótum við þegar við segjum öðrum frá ‚stórmerkjum Guðs‘?

19 Hvað finnst þér um „stórmerki Guðs“ sem þú hefur lært um? Við ættum að vera virkilega þakklát fyrir að hafa kynnst sannleikanum! Við fáum fyrirgefningu synda okkar vegna þess að við iðkum trú á úthellt blóð Jesú Krists. (Postulasagan 2:38) Þar af leiðandi getum við haft djörfung til Guðs. Við óttumst ekki dauðann eins og þeir sem hafa enga von heldur treystum við loforði Jesú um að sú stund komi að ‚allir þeir, sem í gröfunum eru, heyri raust hans og gangi fram.‘ (Jóhannes 5:28, 29) Jehóva hefur sýnt okkur mikla góðvild með því að birta okkur alla þessa hluti. Þar að auki hefur hann úthellt anda sínum yfir okkur. Þakklæti fyrir allar þessar góðu gjafir ætti að fá okkur til að virða upphafna staðla hans og lofa hann af kostgæfni með því að segja öðrum frá þessum ‚stórmerkjum.‘

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Þegar Jehóva gaf Móse og Aroni það verkefni að tala við faraó fyrir hönd Ísraelsmanna sagði hann Móse: „Sjá, ég gjöri þig sem Guð fyrir Faraó, en Aron bróðir þinn skal vera spámaður þinn.“ (2. Mósebók 7:1) Aron þjónaði ekki sem spámaður í þeim skilningi að hann hafi sagt fyrir um ókomna atburði heldur var hann talsmaður Móse.

^ gr. 7 Milljónir manna úr þeim gríðarstóra hópi, sem viðstaddur var hina árlegu kvöldmáltíð Drottins 28. mars 2002, eru enn ekki virkir þjónar Jehóva. Það er bæn okkar að þetta áhugasama fólk finni bráðum fyrir sterkri löngun til að sækjast eftir þeim heiðri að verða boðberar fagnaðarerindisins.

^ gr. 12 Þó að Páll beini orðum sínum til kristinna kvenna eiga sömu meginreglur við kristna karla og ungt fólk.

Hvert er svarið?

• Um hvaða „stórmerki“ heyrði fólk á hvítasunnu árið 33 og hvernig brást það við?

• Hvernig verður maður lærisveinn Jesú Krists og hvað felur það í sér?

• Hvers vegna er mikilvægt að gefa gaum að klæðaburði sínum og snyrtingu?

• Um hvað þurfum við að hugsa þegar við ákveðum hvort ákveðinn fatnaður eða tíska sé viðeigandi eða ekki?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Pétur sagði frá því að Jesús væri risinn upp frá dauðum.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Gefur útlit þitt góðan vitnisburð um þann Guð sem þú tilbiður?

[Myndir á blaðsíðu 32]

Kristnir foreldrar verða að fylgjast með því hvernig börnin eru til fara.