„Án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra“
„Án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra“
„Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins, og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra.“ — MATTEUS 13:34.
1, 2. (a) Hvers vegna gleymir fólk sjaldan góðum líkingum? (b) Hvers konar líkingar notaði Jesús og hvaða spurningar vekur þessi kennsluaðferð hans? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)
MANSTU eftir dæmisögu eða líkingu sem þú heyrðir einhvern tíma, kannski í opinberum fyrirlestri fyrir mörgum árum? Áhrifaríkar líkingar gleymast seint. Rithöfundur bendir á að líkingar og dæmisögur „breyti eyrunum í augu og leyfi áheyrendum að hugsa í myndum.“ Oft hugsum við best í myndum þannig að líkingar og dæmisögur geta auðveldað okkur að meðtaka hugmyndir. Líkingar geta blásið lífi í orðin þannig að lærdómurinn verði okkur minnisstæður.
* Hvers vegna notaði Jesús þessa sérstöku kennsluaðferð svona mikið? Og hvers vegna voru líkingar hans jafnáhrifaríkar og raun ber vitni?
2 Enginn jarðneskur kennari hefur notað líkingar af slíkri snilld sem Jesús Kristur. Hinar mörgu dæmisögur hans eru ljóslifandi í hugum okkar nærri tvö þúsund árum eftir að þær voru sagðar.Hvers vegna Jesús kenndi með líkingum og dæmisögum
3. (a) Hvers vegna kenndi Jesús með dæmisögum samkvæmt Matteusi 13:34, 35? (b) Af hverju má ráða að Jehóva telji þetta mikilvæga kennsluaðferð?
3 Biblían tiltekur tvær eftirtektarverðar ástæður fyrir því að Jesús notaði líkingar og dæmisögur. Í fyrsta lagi var það til að uppfylla spádóm. Matteus postuli segir: „Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins, og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra. Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn spámannsins: Ég mun opna munn minn í dæmisögum.“ (Matteus 13:34, 35) ‚Spámaðurinn,‘ sem Matteus nefnir, var sálmaskáldið sem orti Sálm 78:2. Þetta sálmaskáld var innblásið af anda Guðs öldum áður en Jesús fæddist. Er ekki athyglisvert að Jehóva skyldi ákveða mörgum öldum fyrir fram að sonur sinn skyldi kenna með dæmisögum? Jehóva hlýtur að telja þetta mikilvæga kennsluaðferð.
4. Hvers vegna sagðist Jesús kenna með dæmisögum?
4 Í öðru lagi sagðist Jesús kenna með dæmisögum til að skilja frá þá sem væru ekki móttækilegir í hjörtum sér. Eftir að hafa sagt ‚miklum mannfjölda‘ dæmisöguna um sáðmanninn spurðu lærisveinarnir: „Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?“ Jesús svaraði: „Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið. Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá. Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið.“ — Matteus 13:2, 10, 11, 13-15; Jesaja 6:9, 10.
5. Hvernig aðgreindi Jesús auðmjúka áheyrendur og stæriláta með dæmisögum sínum og líkingum?
5 Hvað var það við líkingar og dæmisögur Jesú sem aðgreindi fólk? Stundum þurftu áheyrendur að kynna sér málið betur til að skilja fullkomlega hvað hann átti við. Auðmjúkir menn fundu hjá sér hvöt til að biðja um nánari upplýsingar. (Matteus 13:36; Markús 4:34) Dæmisögur Jesú opinberuðu sem sagt sannleikann þeim sem hungraði eftir honum í hjarta sér en þær héldu honum leyndum fyrir þeim sem voru stærilátir í hjarta. Jesús var sannarlega einstakur kennari! Við skulum nú kynna okkur nánar hvað gerði líkingar hans og dæmisögur jafnáhrifaríkar og raun bar vitni.
Valdar upplýsingar
6-8. (a) Hvað gátu áheyrendur Jesú á fyrstu öld ekki gert? (b) Hvaða dæmi sýna að Jesús valdi vandlega þær upplýsingar sem hann gaf?
6 Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvernig það hlýtur að hafa verið fyrir lærisveina Jesú á fyrstu öld að heyra hann kenna? Vissulega var það einstakt tækifæri að fá að heyra rödd Jesú. Hins vegar áttu þeir þess ekki kost að fletta upp í ritaðri heimild til að rifja upp það sem hann sagði heldur urðu þeir að geyma orð hans í huga sér og hjarta. Jesús beitti líkingum og dæmisögum snilldarlega til að auðvelda þeim að muna það sem hann kenndi. Hvernig þá?
7 Jesús valdi vandlega hvaða smáatriðum hann sagði frá. Þegar smáatriðin skiptu máli í sögunni eða voru nauðsynleg til áherslu gætti hann þess vandlega að hafa þau með. Til dæmis tiltók hann nákvæmlega hve marga sauði fjáreigandinn skildi eftir meðan hann leitaði að týndum sauði, hann tíundaði hve margar stundir verkamenn unnu í víngarðinum og hve margar talentur maður nokkur fól þjónum sínum til varðveislu. — Matteus 18:12-14; 20:1-16; 25:14-30.
8 Hins vegar sleppti Jesús óþörfum atriðum sem gátu þvælst fyrir því að áheyrendur skildu inntak sögunnar. Til dæmis er ósagt látið í dæmisögunni um miskunnarlausa þjóninn hvernig honum tókst að safna skuldum upp á 60.000.000 denara. Jesús var að leggja áherslu á nauðsyn þess að fyrirgefa. Það skipti ekki máli hvernig þjónninn safnaði skuldinni heldur hvernig hann fékk hana gefna upp og hvernig hann fór síðan með samþjón sinn sem skuldaði honum fremur lága fjárhæð. (Matteus 18:23-35) Og Jesús gaf enga skýringu á því í dæmisögunni um glataða soninn hvers vegna yngri sonurinn heimtaði allt í einu að fá arfinn og hvers vegna hann sólundaði honum. Hins vegar lýsti hann ítarlega hvernig föðurnum var innanbrjósts og hvernig hann brást við þegar sonurinn kom til sjálfs sín og sneri heim. Þessar upplýsingar um viðbrögð föðurins voru nauðsynlegar til að koma því á framfæri sem Jesús var að kenna, það er að segja að Jehóva „fyrirgefur ríkulega.“ — Jesaja 55:7; Lúkas 15:11-32.
9, 10. (a) Að hverju einbeitti Jesús sér þegar hann lýsti fólki í dæmisögum sínum? (b) Hvernig auðveldaði Jesús áheyrendum og öðrum að muna dæmisögurnar?
9 Jesús var líka vandvirkur í mannlýsingum. Hann var spar á að lýsa útliti sögupersónanna en beindi athyglinni oft að því sem þær gerðu eða hvernig þær brugðust við þeim atburðum sem hann sagði frá. Til dæmis sagði hann ekkert um útlit miskunnsama Samverjans heldur sagði frá því sem skipti meira máli — hvernig Samverjinn hjálpaði Gyðingi sem lá særður á veginum. Jesús Lúkas 10:29, 33-37.
gaf þær upplýsingar sem þurfti til að kenna að náungakærleikurinn ætti ekki aðeins að ná til fólks af okkar eigin þjóðerni eða kynþætti. —10 Dæmisögur Jesú voru skýrar og hnitmiðaðar af því að hann lét hæfilegar upplýsingar í té hverju sinni. Þannig auðveldaði hann áheyrendum sínum á fyrstu öld — og ótal öðrum sem myndu lesa hin innblásnu guðspjöll síðar — að muna þær og þann dýrmæta lærdóm sem fólst í þeim.
Sóttar í daglega lífið
11. Nefndu dæmi sem sýna hvernig dæmisögur Jesú endurspegluðu það sem fyrir augu hans bar á uppvaxtarárunum í Galíleu.
11 Jesús var snillingur í því að bregða upp líkingum úr daglega lífinu. Margar af dæmisögum hans voru eflaust byggðar á ýmsu sem hann hafði séð meðan hann var að alast upp í Galíleu. Tökum bernskuár hans sem dæmi. Hversu oft ætli hann hafi ekki horft á móður sína sýra nýtt deig með örlitlu súrdeigi frá síðasta bakstri? (Matteus 13:33) Ætli hann hafi ekki margsinnis séð fiskimenn leggja net sín í blátt og tært Galíleuvatnið? (Matteus 13:47) Hafði hann ekki margoft séð börn að leik á markaðstorginu? (Matteus 11:16) Jesús gaf líklega gaum að mörgu öðru úr daglega lífinu sem rataði síðan inn í líkingar hans og dæmisögur — sáningu, gleðilegum brúðkaupsveislum og korni að þroskast á ökrum í sólinni. — Matteus 13:3-8; 25:1-12; Markús 4:26-29.
12, 13. Hvernig sýnir dæmisaga Jesú um hveitið og illgresið að hann þekkti vel til aðstæðna á svæðinu?
12 Það er því eðlilegt að margar af líkingum og dæmisögum Jesú skuli hafa tekið mið af atburðum og aðstæðum úr daglega lífinu. Til að skilja betur hve fagmannlega Jesús beitti þessari kennsluaðferð er gott að athuga hvernig Gyðingarnir, sem á hann hlýddu, skildu orð hans. Lítum á tvö dæmi.
13 Í dæmisögunni um hveitið og illgresið sagði Jesús frá manni sem sáði góðu hveiti í akur sinn en „óvinur“ laumaðist til að sá illgresi meðal hveitisins. Af hverju tók Jesús þennan mjög svo fjandsamlega verknað sem dæmi? Höfum í huga að hann sagði dæmisöguna í grennd við Galíleuvatn og Galíleumenn stunduðu akuryrkju öðru fremur. Fátt gat verið skaðlegra fyrir bónda en að óvinur sáði illgresi með leynd meðal hveitisins. Veraldleg lög frá þeim tíma sýna að slíkar árásir áttu sér stað. Er ekki ljóst að Jesús notaði aðstæður sem áheyrendur hans þekktu? — Matteus 13:1, 2, 24-30.
14. Hvers vegna skiptir það máli að Jesús skyldi tala um veginn „frá Jerúsalem ofan til Jeríkó“ í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann?
14 Dæmisagan um miskunnsama Samverjann hefst þannig: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona.“ (Lúkas 10:30) Það er athyglisvert að Jesús notaði veginn „frá Jerúsalem ofan til Jeríkó“ sem dæmi. Jesús var í Júdeu, skammt frá Jerúsalem, er hann sagði söguna, þannig að áheyrendur þekktu líklega veginn sem um var að ræða. Vegurinn bugðaðist um óbyggðir, þar sem ræningjar áttu hægt með að felast, og var álitinn sérlega hættulegur, einkum ef maður var einn á ferð.
15. Hvers vegna var ekki hægt að réttlæta skeytingarleysi prestsins og levítans í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann?
15 Annað vekur athygli í lýsingu Jesú á veginum „frá Jerúsalem ofan til Jeríkó.“ Í sögunni segir frá því að prestur og levíti hafi einnig verið þar á ferð en hvorugur nam staðar til að hjálpa hinum særða. (Lúkas 10:31, 32) Prestarnir þjónuðu í musterinu í Jerúsalem og levítarnir voru þeim til aðstoðar. Fjöldi presta og levíta bjó í Jeríkó þegar þeir voru ekki við þjónustu í musterinu, enda voru ekki nema 23 kílómetrar þangað frá Jerúsalem. Þar af leiðandi fóru þeir eflaust þessa leið stundum. Við tökum líka eftir að presturinn og levítinn voru á leið „frá Jerúsalem,“ það er að segja frá musterinu. * Það var því ekki hægt að réttlæta skeytingarleysi þeirra með því að segja að hinn særði hafi virst vera látinn og þeir hafi forðast hann af því að þeir vildu ekki snerta lík en það hefði gert þá óhæfa til að þjóna í musterinu um tíma. (3. Mósebók 21:1; 4. Mósebók 19:11, 16) Er ekki ljóst að dæmisaga Jesú tók mið af aðstæðum sem áheyrendur hans þekktu?
Sóttar í sköpunarverkið
16. Hvers vegna var Jesús gagnkunnugur sköpunarverkinu?
16 Margar af líkingum Jesú bera vitni um góða þekkingu á jurtum, dýrum og náttúruöflunum. (Matteus 6:26, 28-30; 16:2, 3) Hvernig öðlaðist hann þessa þekkingu? Eflaust hafði hann kappnóg tækifæri til að virða sköpunarverk Jehóva fyrir sér þegar hann var að alast upp í Galíleu. Jesús er líka „frumburður allrar sköpunar“ og Jehóva notaði hann sem ‚verkstjóra‘ er hann skapaði alla hluti. (Kólossubréfið 1:15, 16; Orðskviðirnir 8:30, 31) Er þá nokkur furða að Jesús skuli hafa verið gagnkunnugur sköpunarverkinu? Sjáum hve fagmannlega hann fléttaði þessari þekkingu inn í kennslu sína.
17, 18. (a) Hvernig endurspegla orð Jesú í Jóhannesi 10. kafla að hann hafi haft góða þekkingu á sauðfé? (b) Hvað segja aðkomumenn í biblíulöndunum um tengsl hirðis við sauðina?
17 Einhver hlýlegasta líking Jesú er skráð í 10. kafla Jóhannesarguðspjalls en þar líkir hann innilegu sambandi sínu og lærisveinanna við samband fjárhirðis og sauða. Orð hans bera með sér góða þekkingu á einkennum sauðfjár. Hann bendir á að sauðir láti gjarnan leiða sig og fylgi fjárhirðinum dyggilega. (Jóhannes 10:2-4) Aðkomumenn í biblíulöndunum hafa veitt því athygli hve sérstakt samband er milli hirðis og sauða. Náttúrufræðingurinn H. B. Tristram sagði á 19. öld: „Einu sinni horfði ég á fjárhirði leika sér við hjörðina. Hann þóttist hlaupa burt en sauðirnir eltu hann og umkringdu. . . . Að lokum myndaði hjörðin hring og hoppaði og skoppaði í kringum hann.“
18 Af hverju elta sauðirnir hirðinn? „Af því að þeir þekkja raust hans,“ sagði Jesús. (Jóhannes 10:4) Þekkja sauðir virkilega rödd hirðisins? George A. Smith lýsir eigin reynslu í bók sinni, The Historical Geography of the Holy Land: „Stundum tókum við okkur síðdegishvíld við einn af brunnunum í Júdeu þangað sem þrír eða fjórir fjárhirðar komu með hjarðir sínar. Hjarðirnar blönduðust og okkur var spurn hvernig hirðunum myndi ganga að finna sína eigin sauði aftur. En þegar búið var að brynna fénu og það hafði leikið sér um stund gengu hirðarnir hver í sína áttina og kölluðu hver sitt sérkennandi kall, og féð dró sig út úr kösinni og elti þá jafnskipulega og það hafði komið.“ Jesús gat tæplega fundið heppilegri samlíkingu. Ef við þekkjum kenningar hans, hlýðum þeim og fylgjum forystu hans njótum við umhyggju og gæslu ‚góða hirðisins.‘ — Jóhannes 10:11.
Sóttar í atburði sem áheyrendur þekktu
19. Hvernig notaði Jesús slys, sem orðið hafði, til að hrekja ranga hugmynd?
19 Hægt er að byggja áhrifaríkar líkingar á lærdómsríkum atburðum eða dæmum. Einu sinni notaði Jesús nýafstaðinn atburð til að hrekja þá ranghugmynd að þeir sem verðskulda ógæfu verði fyrir henni. Hann sagði: „Eða þeir átján, sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, Lúkas 13:4) Þannig færði Jesús áhrifamikil rök gegn forlagatrú. Þessir 18 dóu ekki vegna þess að þeir hefðu syndgað og kallað yfir sig vanþóknun Guðs heldur var það tími og tilviljun sem olli þessu hörmulega slysi. (Prédikarinn 9:11) Hann hrakti ranga kenningu með því að vitna til atburðar sem áheyrendur þekktu mætavel.
haldið þér, að þeir hafi verið sekari en allir þeir menn, sem í Jerúsalem búa?“ (20, 21. (a) Hvers vegna fordæmdu farísearnir lærisveina Jesú? (b) Hvaða biblíusögu notaði Jesús til að sýna fram á að Jehóva ætlaðist aldrei til að hvíldardagslögin yrðu túlkuð svona strangt? (c) Um hvað er fjallað í næstu grein?
20 Jesús notaði líka dæmi úr Biblíunni til að kenna. Einhverju sinni fordæmdu farísearnir lærisveina hans fyrir að tína og borða korn á hvíldardegi. Í raun réttri voru lærisveinarnir ekki að brjóta lög Guðs heldur hina ströngu túlkun faríseanna á því hvað teldist óleyfileg vinna á hvíldardegi. Til að sýna fram á að Guð hefði aldrei ætlast til að hvíldardagslögunum yrði beitt svona strangt vísaði Jesús í atburð sem greint er frá í 1. Samúelsbók 21:3-6. Þar segir frá því að Davíð og menn hans komu hungraðir til tjaldbúðarinnar og átu skoðunarbrauðin sem búið var að taka úr helgidóminum. Að jafnaði voru það prestarnir sem átu gömlu brauðin en við þessar aðstæður voru Davíð og menn hans ekki fordæmdir fyrir að borða þau. Reyndar er þetta eina skráða dæmið í Biblíunni um að aðrir en prestar hafi notað gömlu brauðin. Jesús þekkti nákvæmlega réttu frásöguna til að nota í þessu tilfelli og Gyðingarnir, sem á hlýddu, þekktu hana eflaust líka. — Matteus 12:1-8.
21 Jesús var sannarlega mikill kennari! Við getum ekki annað en dáðst að því hve frábærlega honum tókst að sýna áheyrendum sínum fram á mikilvæg sannindi. En hvernig getum við líkt eftir honum þegar við kennum? Það er efni næstu greinar.
[Neðanmáls]
^ gr. 2 Líkingar Jesú voru margs konar, þar á meðal dæmi, samanburður, samlíkingar og myndhvörf. Hann er þekktur fyrir dæmisögur sínar en dæmisaga er skilgreind sem „stutt saga, yfirleitt skálduð, sem flytur siðrænan eða andlegan sannleika.“
^ gr. 15 Jerúsalem stóð hærra en Jeríkó. Þess vegna var farið „frá Jerúsalem ofan til Jeríkó“ eins og nefnt er í dæmisögunni.
Manstu?
• Hvers vegna kenndi Jesús með dæmisögum og líkingum?
• Hvaða dæmi sýna að Jesús notaði líkingar sem áheyrendur hans höfðu skilning á?
• Hvernig notaði Jesús þekkingu sína á sköpunarverkinu til að koma með snjallar líkingar?
• Hvernig notaði Jesús atburði sem áheyrendur hans þekktu?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 23]
Jesús sagði frá þjóni sem neitaði að gefa upp lága skuld og föður sem fyrirgaf syni er hafði sólundað öllum arfi sínum.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Hvaða kennsla fólst í dæmisögu Jesú um miskunnsama Samverjann?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Þekkja sauðir raunverulega rödd hirðisins?