Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ég hef gefið yður eftirdæmi“

„Ég hef gefið yður eftirdæmi“

„Ég hef gefið yður eftirdæmi“

‚Tímans vegna ættuð þið að vera kennarar.‘ — HEBREABRÉFIÐ 5:12.

1. Af hverju gætu kristnir menn eðlilega orðið áhyggjufullir þegar þeir lesa orðin í Hebreabréfinu 5:12?

HEFURÐU áhyggjur af sjálfum þér þegar þú lest innblásnu orðin í steftexta greinarinnar? Ef svo er ertu ekki einn á báti. Við erum fylgjendur Krists og vitum að við verðum að vera kennarar. (Matteus 28:19, 20) Við vitum að núna á þessum tímum sem við lifum er nauðsynlegt að við kennum eins vel og við getum. Og við vitum líka að kennsla okkar getur skipt sköpum um það hvort þeir sem við kennum lifa eða deyja! (1. Tímóteusarbréf 4:16) Það er því eðlilegt að við spyrjum okkur: ‚Er ég virkilega nógu góður kennari? Hvernig get ég tekið framförum?‘

2, 3. (a) Hvað sagði kennari um undirstöðu góðrar kennslu? (b) Hvaða fordæmi gaf Jesús í sambandi við kennslu?

2 Áhyggjur sem þessar þurfa ekki að draga úr okkur kjarkinn. Tilhugsunin um að taka framförum gæti orðið yfirþyrmandi ef við einblínum aðallega á að læra vissa kennslutækni. Undirstaða góðrar kennslu er hins vegar ekki tækni heldur eitthvað mun mikilvægara. Reyndur kennari skrifar í bók um þessi mál: „Góð kennsla byggist ekki á ákveðinni tækni eða aðferðum, áætlunum eða verkum. . . . Kennsla byggist aðallega á kærleika.“ Þessi athugasemd var auðvitað skrifuð frá sjónarhóli skólakennara, en samt sem áður mætti segja að hún höfði enn frekar til kennslu okkar sem kristinna manna. Að hvaða leyti?

3 Kennarinn, sem við tökum okkur til fyrirmyndar, er enginn annar en Jesús Kristur sem sagði við fylgjendur sína: „Ég hef gefið yður eftirdæmi.“ (Jóhannes 13:15) Hann var að tala um það eftirdæmi í auðmýkt sem hann gaf þeim, en vissulega gildir þetta líka um helsta starfið sem hann vann hér á jörðinni — að segja fólki frá fagnaðarerindinu um ríki Guðs. (Lúkas 4:43) Ef þú ættir að velja eitt orð til að lýsa þjónustu Jesú væri þá ekki líklegt að þú myndir velja orðið „kærleikur“? (Kólossubréfið 1:15; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Mestur var kærleikur Jesú til föður síns á himnum. (Jóhannes 14:31) En sem kennari sýndi Jesús kærleika á tvo aðra vegu. Hann elskaði bæði sannleikann sem hann kenndi og fólkið sem hann kenndi. Við skulum skoða nánar það fordæmi sem hann gaf á þessum tveimur sviðum.

Langvarandi kærleikur til sannleika Guðs

4. Hvernig lærði Jesús að elska kennslu Jehóva?

4 Viðhorf kennara til námsefnisins hefur töluverð áhrif á gæði kennslunnar. Ef kennarinn er áhugalaus á það sennilega eftir að sjást í fari hans og hafa áhrif á nemendurna. Jesús var aldrei áhugalaus gagnvart hinum verðmæta sannleika sem hann kenndi um Jehóva og ríki hans. Honum þótti innilega vænt um hann. Hann hafði byggt upp þennan kærleika þegar hann var nemandi. Eingetinn sonur Guðs var iðinn nemandi um aldir áður en hann varð maður. Í Jesaja 50:4, 5 finnum við þessi viðeigandi orð: „Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum. Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra. Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan.“

5, 6. (a) Hvað upplifði Jesús greinilega þegar hann skírðist og hvaða áhrif hafði það á hann? (b) Hvaða andstæður sjáum við þegar við skoðum hvernig Jesús og Satan notuðu orð Guðs?

5 Jesús hélt áfram að elska visku Guðs þegar hann ólst upp sem maður á jörðinni. (Lúkas 2:52) Síðan, þegar hann skírðist, upplifði hann eitthvað alveg einstakt. „Himinninn opnaðist,“ segir í Lúkasi 3:21. Greinilega gat hann þá minnst fortilveru sinnar á himni. Eftir það fastaði hann í 40 daga í óbyggðunum. Hann hlýtur að hafa haft yndi af því að hugleiða alla þá kennslu sem hann fékk frá Jehóva þegar hann var á himnum. En áður en langt um leið reyndi á kærleika hans til sannleika Guðs.

6 Þegar Jesús var þreyttur og svangur reyndi Satan að freista hans. Við sjáum að þessir tveir synir Guðs voru algerar andstæður. Báðir vitnuðu þeir í hebresku ritningarnar, en þeir gerðu það með gerrólíku hugarfari. Satan afbakaði orð Guðs, sýndi því enga virðingu og notaði það til að þjóna eigingjörnum markmiðum sínum. Í rauninni fyrirleit þessi uppreisnarseggur sannleika Guðs. Þegar Jesús vitnaði í Ritninguna var hins vegar greinilegt að honum þótti vænt um hana og hann notaði orð Guðs vandvirknislega í hvert sinn sem hann svaraði. Jesús hafði verið til löngu áður en þessi innblásnu orð voru skrifuð niður en samt sem áður bar hann djúpa virðingu fyrir þeim. Þau voru dýrmætur sannleikur frá himneskum föður hans. Hann sagði Satan að slík orð frá Jehóva væru mikilvægari en matur. (Matteus 4:1-11) Jesús elskaði öll sannindin sem Jehóva hafði kennt honum. En hvernig sýndi hann það þegar hann kenndi?

Kærleikur til sannleikans sem hann kenndi

7. Hvers vegna forðaðist Jesús að setja fram sínar eigin kenningar?

7 Kærleikur Jesú til sannleikans sem hann kenndi var alltaf augljós. Hann hefði auðveldlega getað myndað sér sínar eigin skoðanir þar sem hann bjó yfir gríðarmikilli þekkingu og visku. (Kólossubréfið 2:3) Þrátt fyrir það minnti hann áheyrendur sína sífellt á að það sem hann kenndi kæmi ekki frá honum sjálfum heldur frá föðurnum á himnum. (Jóhannes 7:16; 8:28; 12:49; 14:10) Hann elskaði sannleikann frá Jehóva svo mikið að hann hefði aldrei farið að kenna sínar eigin hugmyndir í staðinn.

8. Hvernig gaf Jesús okkur fordæmi í að reiða sig á orð Guðs fljótlega eftir að hann hóf þjónustu sína?

8 Fljótlega eftir að Jesús hóf þjónustu sína meðal almennings gaf hann gott fordæmi til eftirbreytni. Við skulum skoða hvernig hann fór að í fyrsta skipti sem hann sagði fólki Guðs að hann væri hinn fyrirheitni Messías. Kom hann einfaldlega fram fyrir fjöldann, lýsti því yfir að hann væri Kristur og gerði síðan tilkomumikil kraftaverk til að sanna mál sitt? Nei, hann fór í samkunduhúsið þar sem fólk Guðs var vant að lesa úr Ritningunni. Þar las hann upphátt spádóminn í Jesaja 61:1, 2 og útskýrði að þessi spádómlegu sannindi ættu við sig. (Lúkas 4:16-22) Þau mörgu kraftaverk, sem hann gerði, undirstrikuðu að hann hefði stuðning Jehóva. Samt sem áður reiddi hann sig alltaf á orð Guðs þegar hann kenndi.

9. Hvernig sýndi Jesús tryggan kærleika gagnvart orði Guðs í samskiptum sínum við faríseana?

9 Þegar trúarlegir andstæðingar Jesú veittust að honum reyndi hann ekki sjálfur að kveða þá í kútinn þó að hann hefði auðveldlega getað gert það heldur lét hann orð Guðs afsanna staðhæfingar þeirra. Rifjaðu til dæmis upp frásöguna af því þegar farísearnir ásökuðu lærisveina Jesú um að brjóta hvíldardagslögin. Lærisveinarnir höfðu tínt nokkur kornöx á akri og borðað þegar þeir áttu leið hjá. Jesús svaraði faríseunum: „Hafið þér eigi lesið, hvað Davíð gjörði, þegar hann hungraði og menn hans?“ (Matteus 12:1-5) Auðvitað má vel vera að þessir sjálfumglöðu menn hafi lesið hina innblásnu frásögu sem er að finna í 1. Samúelsbók 21:1-6. En ef svo var höfðu þeir ekki komið auga á þann mikilvæga lærdóm sem frásagan innihélt. Jesús hafði hins vegar gert meira en að lesa frásöguna. Hann hafði hugsað um hana og tekið boðskap hennar til sín. Hann elskaði meginreglurnar sem Jehóva kenndi í þessum ritningarstað. Því notaði hann þessa frásögu og dæmi úr Móselögunum til að benda á hversu sanngjarnt og skynsamlegt lögmálið var. Tryggur kærleikur Jesú fékk hann á svipaðan hátt til að verja orð Guðs fyrir trúarleiðtogunum sem reyndu að kæfa það undir alls konar mannasetningum eða breyta merkingunni sér í hag.

10. Hvernig uppfyllti Jesús spádómana um eðli kennslu sinnar?

10 Kærleikur Jesú til sannleikans kom í veg fyrir að kennsla hans væri staglsöm, leiðigjörn eða vélræn. Innblásnir spádómar sögðu fyrir að Messías myndi tala af „yndisleik“ og nota „fegurðarorð.“ (Sálmur 45:3; 1. Mósebók 49:21) Jesús uppfyllti þessa spádóma með því að hafa boðskapinn ferskan og lifandi og nota ‚hugnæm orð‘ til að kenna sannindin sem honum þótti svo vænt um. (Lúkas 4:22) Eldmóður hefur örugglega skinið af andliti hans og augun geislað af brennandi áhuga á efninu. Það hlýtur að hafa verið einstaklega ánægjulegt að hlusta á hann, og þegar við segjum öðrum frá því sem við höfum lært ættum við að fylgja þessu góða fordæmi.

11. Af hverju ofmetnaðist Jesús aldrei þótt hann væri fær kennari?

11 Ofmetnaðist Jesús af því að hann skildi sannleika Guðs svona vel og var svo mælskur? Það kemur oft fyrir ófullkomna kennara. Mundu samt að viska Jesú endurspeglaðist af guðsótta. Slík viska gefur ekki tilefni til hroka því að „hjá lítillátum er viska.“ (Orðskviðirnir 11:2) En það var líka annað sem kom í veg fyrir að Jesús yrði stoltur eða hrokafullur.

Jesús elskaði fólkið sem hann kenndi

12. Hvernig sýndi Jesús að hann vildi ekki að fylgjendur sínir væru hræddir við sig?

12 Kennsla Jesú bar alltaf vitni um djúpan kærleika hans til fólks. Ólíkt stoltum mönnum kenndi hann aldrei þannig að fólk fyndi til smæðar eða vanmáttar. (Prédikarinn 8:9) Einu sinni varð Pétur gagntekinn af hrifningu og féll til fóta Jesú eftir að hafa séð hann vinna kraftaverk. En Jesús vildi ekki að fylgjendum sínum stæði stuggur af sér. Hann sagði vingjarnlega: „Óttast þú ekki,“ og benti honum síðan á að hann fengi að taka þátt í því spennandi verkefni að gera menn að lærisveinum. (Lúkas 5:8-10) Jesús vildi ekki að lærisveinarnir væru knúnir af hræðslu við kennara sinn heldur af kærleika til hinna dýrmætu sanninda um Guð.

13, 14. Hvernig sýndi Jesús fólki hluttekningu?

13 Hluttekningin, sem Jesús sýndi fólkinu, bar líka merki um kærleika hans til þess. „Er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Hann fann til með þeim og vildi hjálpa þeim vegna þess að þeir voru svo illa á sig komnir.

14 Taktu eftir hluttekningu Jesú við annað tilefni. Kona með blóðlát kom að honum í mannþröng, snerti klæðafald hans og læknaðist fyrir kraftaverk. Jesús fann að kraftur fór út frá honum en sá ekki hver hafði læknast. Hann vildi finna konuna. Af hverju? Ekki til að skamma hana fyrir að hafa brotið lögmálið eða reglur fræðimanna og farísea eins og hún óttaðist kannski, heldur sagði hann við hana: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna.“ (Markús 5:25-34) Taktu eftir hluttekningunni í þessum orðum. Hann sagði ekki aðeins, „læknast þú“ heldur „ver heil meina þinna.“ Markús notar hér orð sem getur bókstaflega þýtt „hýðing,“ eins konar húðstrýking sem var oft notuð til að pynda fólk. Með þessu viðurkenndi Jesús að veikindi hennar hefðu valdið henni miklum þjáningum, kannski alvarlegri kvöl, bæði líkamlegri og andlegri. Hann fann til með henni.

15, 16. Hvaða atvik á þjónustuferli Jesú sýna að hann leitaðist við að sjá það góða í fari fólks?

15 Jesús sýndi líka kærleika til fólksins með því að einblína á það góða í fari þess. Skoðum frásöguna af því þegar hann hitti Natanael sem seinna varð postuli. „Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: ‚Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í.‘“ Jesús hafði á undraverðan hátt séð inn í hjarta Natanaels og þannig komist að mörgu um hann. Natanael var auðvitað langt frá því að vera fullkominn. Hann hafði sína galla eins og allir aðrir. Þegar hann heyrði um Jesú var hann meira að segja frekar hispurslaus í tali og sagði: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“ (Jóhannes 1:45-51) En af öllu því sem hægt var að segja um Natanael valdi Jesús að einblína á hið jákvæða í fari hans, heiðarleikann.

16 Það var eins þegar hundraðshöfðingi, sem ef til vill var heiðinn Rómverji, kom að máli við Jesú og bað hann að lækna veikan þræl. Jesús vissi að hermaðurinn hafði sína galla. Hundraðshöfðingi á þessum tíma átti sennilega að baki fortíð sem einkenndist af ofbeldisverkum, blóðsúthellingum og falskri tilbeiðslu. En Jesús einblíndi á eitthvað gott í fari hans — einstæða trú hans. (Matteus 8:5-13) Seinna, þegar Jesús talaði við illvirkjann á kvalastaurnum við hliðina, ávítaði hann manninn ekki fyrir glæpi hans, heldur uppörvaði hann með bjartri framtíðarvon. (Lúkas 23:43, NW ) Jesús vissi vel að ef hann væri neikvæður og gagnrýninn í garð annarra myndi það aðeins draga úr þeim kjarkinn. Viðleitni hans til að sjá það góða í fari annarra hefur eflaust hvatt marga til að bæta sig.

Fúsleiki til að þjóna fólki

17, 18. Hvernig sýndi Jesús fúsleika sinn til að þjóna öðrum þegar hann þáði það verkefni að koma til jarðarinnar?

17 Annar sterkur vitnisburður um kærleika Jesú til fólksins sem hann kenndi var fúsleiki hans til að þjóna því. Áður en sonur Guðs kom til jarðar sem maður hafði hann alltaf haft yndi af mönnunum. (Orðskviðirnir 8:30, 31) Jesús var ‚Orð‘ Jehóva eða talsmaður og má því vera að hann hafi oft átt samskipti við mennina. (Jóhannes 1:1) En ein ástæðan fyrir því að hann „svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd“ og yfirgaf háleita stöðu sína á himnum var sú að þannig gat hann kennt mannkyninu beint. (Filippíbréfið 2:7; 2. Korintubréf 8:9) Þegar hann var á jörðinni ætlaðist hann ekki til þess að aðrir þjónuðu sér. Þvert á móti sagði hann: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Jesús lifði í fullu samræmi við þessi orð.

18 Jesús var auðmjúkur, sinnti þörfum þeirra sem hann kenndi og hikaði ekki við að leggja á sig mikið erfiði fyrir þá. Hann fór fótgangandi hundruð kílómetra í boðunarferðum sínum um fyrirheitna landið til að ná til eins margra og hann gat. Hann var auðmjúkur og þægilegur í viðmóti ólíkt hinum stoltu fræðimönnum og faríseum. Allir vildu gjarnan nálgast hann og voru óhræddir, hvort sem þeir voru tignarmenn, hermenn, lögmenn, konur, börn, fátækir, sjúkir eða jafnvel þeir sem voru útskúfaðir úr samfélaginu. Þótt Jesús væri fullkominn var hann mannlegur og fann til þreytu og hungurs. En jafnvel þegar hann var þreyttur, þurfti að hvíla sig eða fá ró og næði til að biðja, þá tók hann þarfir annarra alltaf fram yfir sínar eigin. — Markús 1:35-39.

19. Hvernig gaf Jesús gott fordæmi þegar hann var auðmjúkur, þolinmóður og vingjarnlegur við lærisveinana?

19 Jesús var jafnfús til að þjóna lærisveinunum. Hann gerði það með því að kenna þeim vingjarnlega og með þolinmæði. Þegar þeir voru lengi að skilja mikilvæg atriði gafst hann ekki upp, missti ekki stjórn á skapi sínu eða skammaði þá. Hann hélt áfram að finna nýjar leiðir til að hjálpa þeim að skilja. Hugsaðu til dæmis um það hve oft lærisveinarnir rifust um það hver þeirra væri mestur. Jesús reyndi aftur og aftur að finna nýjar leiðir til að kenna þeim að vera auðmjúkir í framkomu hver við annan, alveg fram að nóttinni fyrir aftöku sína. Jesús gat réttilega sagt að hann hafði ‚gefið okkur eftirdæmi‘ í auðmýkt eins og í öllu öðru. — Jóhannes 13:5-15; Matteus 20:25; Markús 9:34-37.

20. Hvaða kennsluaðferð aðgreindi Jesú frá faríseunum og hvers vegna var þessi aðferð áhrifarík?

20 Taktu líka eftir því að Jesús sagði lærisveinunum ekki aðeins hvernig þeir ættu að hegða sér heldur ‚gaf hann þeim eftirdæmi.‘ Hann kenndi þeim með fordæmi sínu. Hann talaði ekki niður til þeirra, rétt eins og hann teldi sjálfan sig vera yfir það hafinn að fylgja því sem hann var að segja þeim að gera. Það var háttur faríseanna. „Þeir breyta ekki sem þeir bjóða,“ sagði Jesús. (Matteus 23:3) Jesús var auðmjúkur og sýndi nemendum sínum þýðingu kennslunnar með því að lifa eftir henni sjálfur. Þegar hann hvatti fylgjendur sína til að lifa einföldu lífi og forðast efnishyggju þurftu þeir ekki að giska á hvað hann átti við. Þeir sáu það sjálfir enda sagði hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ (Matteus 8:20) Jesús þjónaði lærisveinunum með því að vera auðmjúkur og gefa þeim gott fordæmi til eftirbreytni.

21. Um hvað verður fjallað í næstu grein?

21 Jesús var án efa besti kennari sem hefur nokkurn tíma verið á jörðinni. Kærleikur hans til þess sem hann kenndi og fólksins sem hann kenndi var augljós öllum hjartahreinum mönnum sem sáu hann og heyrðu. Þetta er jafnaugljóst þeim sem skoða fordæmi hans núna. En hvernig getum við fylgt fullkomnu fordæmi Krists? Næsta grein fjallar um það.

Hvert er svar þitt?

• Hver er undirstaða góðrar kennslu og hver gaf gott dæmi um það?

• Hvernig sýndi Jesús að hann elskaði sannleikann sem hann kenndi?

• Hvernig sýndi Jesús fólkinu, sem hann kenndi, kærleika?

• Hvaða dæmi sýna að Jesús var auðmjúkur og fús til að þjóna þeim sem hann kenndi?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Hvernig sýndi Jesús að hann elskaði meginreglurnar í orði Guðs?