Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Aldrei hefur nokkur maður talað þannig“

„Aldrei hefur nokkur maður talað þannig“

„Aldrei hefur nokkur maður talað þannig“

„Allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans.“ — LÚKAS 4:22.

1, 2. (a) Af hverju sneru þjónarnir tómhentir til baka er þeir voru sendir til að handtaka Jesú? (b) Hvað sýnir að þjónarnir voru ekki þeir einu sem hrifust af kennslu Jesú?

ÞJÓNUNUM mistókst ætlunarverk sitt. Þeir höfðu verið sendir til að handtaka Jesú Krist en sneru tómhentir aftur. Æðstu prestarnir og farísearnir kröfðu þá skýringar: „Hvers vegna komuð þér ekki með hann?“ Já, hvers vegna handtóku þjónarnir ekki mann sem hefði ekki veitt viðnám hvort eð er? „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig,“ sögðu þeir til skýringar. Þeir hrifust svo af kennslu Jesú að þeir gátu ekki fengið af sér að hneppa þennan friðsama mann í varðhald. * — Jóhannes 7:32, 45, 46.

2 Þessir þjónar voru ekki þeir einu sem hrifust af kennslu Jesú. Biblían segir að fólk hafi þyrpst að hópum saman aðeins til að heyra hann tala. Íbúar heimabæjar hans „undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans.“ (Lúkas 4:22) Oftar en einu sinni talaði hann af báti til mannfjölda sem safnast hafði saman á strönd Galíleuvatns. (Markús 3:9; 4:1; Lúkas 5:1-3) Einu sinni var „mikill mannfjöldi“ með honum dögum saman án þess að hafa nokkuð til matar. — Markús 8:1, 2.

3. Hvað gerði Jesú öðru fremur að framúrskarandi kennara?

3 Hvað gerði Jesú að framúrskarandi kennara? Kærleikur hans var meginástæðan. * Hann elskaði sannleikann sem hann flutti, og hann elskaði fólkið sem hann kenndi. En hann hafði líka einstaklega góð tök á kennslutækni. Í þessari námsgrein og næstu tveim er fjallað um sumar af þeim áhrifaríku aðferðum sem hann beitti og hvernig við getum líkt eftir þeim.

Kennsla hans var einföld og skýr

4, 5. (a) Hvers vegna kenndi Jesús á einföldu máli og hvað er sérstakt við það? (b) Hvernig er fjallræðan gott dæmi um einfalda kennslu Jesú?

4 Það er algengt að vel menntað fólk tali svo háfleygt mál að áheyrendur eigi erfitt með að skilja það. En hvernig geta aðrir notið góðs af þekkingu okkar ef við gerum okkur ekki skiljanleg? Jesús var aldrei svo háfleygur þegar hann kenndi að fólk skildi hann ekki. Hugsaðu þér orðaforðann sem hann hefur eflaust ráðið yfir. En þó að hann réði yfir óhemjumikilli þekkingu hugsaði hann ekki um sjálfan sig heldur áheyrendurna. Hann vissi að margir þeirra voru „ólærðir leikmenn.“ (Postulasagan 4:13) Til að ná til þeirra talaði hann mál sem þetta fólk skildi. En þó að orðin hafi kannski verið einföld fólst í þeim djúpstæður sannleikur.

5 Tökum fjallræðuna sem dæmi en hana er að finna í Matteusi 5:3–7:27. Kannski tók það Jesú ekki nema 20 mínútur að flytja ræðuna en kennslan sem felst í henni er djúptæk og ræðst beint að rótum hórdóms, hjónaskilnaða og efnishyggju, svo að dæmi séu tekin. (Matteus 5:27-32; 6:19-34) Jesús notaði þó ekki flókin eða háfleyg orð. Það er varla orð í fjallræðunni sem barn á ekki auðvelt með að skilja! Það er ofur skiljanlegt að mannfjöldinn — sennilega bændur, fjárhirðar og fiskimenn ásamt fleirum — skuli hafa ‚undrast mjög kenningu hans.‘ — Matteus 7:28.

6. Nefndu dæmi um einföld en innihaldsrík orð Jesú.

6 Jesús var yfirleitt gagnorður þannig að mál hans var einfalt en innihaldsríkt. Prentlistin var ekki komin til sögunnar en Jesús innprentaði áheyrendum sínum boðskapinn með ógleymanlegum hætti. Lítum á nokkur dæmi: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. . . . Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ „Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir.“ „Af ávöxtum þeirra skuluð þér . . . þekkja þá.“ „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.“ „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ „Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ „Sælla er að gefa en þiggja.“ * (Matteus 6:24; 7:1, 20; 9:12; 26:52; Markús 12:17; Postulasagan 20:35) Enn þann dag í dag er leikur einn að muna þessi kröftugu orð, næstum 2000 árum eftir að Jesús mælti þau.

Spurningar

7. Hvers vegna spurði Jesús spurninga?

7 Jesús beitti spurningum af mikilli kunnáttu. Oft hefði jafnvel verið fljótlegra fyrir hann að segja áheyrendum beint hvað um var að ræða. Af hverju notaði hann þá þessa aðferð? Stundum spurði hann skarplegra spurninga til að afhjúpa hvatir andstæðinga sinna og þagga niður í þeim. (Matteus 12:24-30; 21:23-27; 22:41-46) Oft tók hann sér hins vegar tíma til að spyrja spurninga í þeim tilgangi að miðla sannindum, fá áheyrendur til að tjá hug sinn og til að örva og æfa hugsun lærisveinanna. Við skulum líta á tvö dæmi þar sem Pétur postuli átti í hlut.

8, 9. Hvernig beitti Jesús spurningum til að hjálpa Pétri að komast að réttri niðurstöðu varðandi musterisgjaldið?

8 Fyrra dæmið átti sér stað er innheimtumenn spurðu Pétur hvort Jesús greiddi musterisgjaldið. * Pétur, sem var stundum fljótfær, svaraði játandi. Skömmu síðar rökræddi Jesús við hann og spurði: „‚Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?‘ ‚Af vandalausum,‘ sagði Pétur. Jesús mælti: ‚Þá eru börnin frjáls.‘“ (Matteus 17:24-27) Pétur hefði átt að skilja þegar í stað hvað Jesús var að fara með spurningum sínum. Hvers vegna?

9 Þekkt var á dögum Jesú að fjölskyldur þjóðhöfðingja væru undanþegnar skatti. Jesús var eingetinn sonur hins himneska konungs, sem var tilbeðinn í musterinu, og hefði því ekki átt að vera skylt að greiða skattinn. Við tökum eftir að Jesús sagði Pétri það ekki umbúðalaust heldur spurði nærgætnislegra spurninga til að hjálpa honum að komast að réttri niðurstöðu — og kannski líka til að sýna honum fram á að hann þyrfti að hugsa sig eilítið betur um áður en hann talaði.

10, 11. Hvernig brást Jesús við þegar Pétur hjó eyrað af manni á páskanótt árið 33, og hvernig sýnir það að Jesús gerði sér grein fyrir gildi spurninga?

10 Í síðara dæminu er um að ræða atvik sem átti sér stað á páskanótt árið 33 þegar mannfjöldi kom til að handtaka Jesú. Lærisveinarnir spurðu hann hvort þeir ættu að berjast honum til varnar. (Lúkas 22:49) Pétur beið ekki svars heldur dró upp sverð og hjó eyrað af manni (en ætlaði kannski að vinna honum meira tjón). Pétur gekk þarna í berhögg við vilja meistara síns því að Jesús var reiðubúinn að gefa sig fram. Hvernig brást Jesús við? Hann var þolinmóður eins og ævinlega og spurði Pétur þriggja spurninga: „Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?“ „Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla? Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?“ — Jóhannes 18:11; Matteus 26:52-54.

11 Veltu þessari frásögu aðeins fyrir þér. Jesús var umkringdur reiðum mannfjölda. Hann vissi að hann átti að deyja innan skamms og að það hvíldi á herðum hans að hreinsa nafn föður síns og koma því til leiðar að mannkynið öðlaðist hjálpræði. Samt sem áður gaf hann sér tíma á þessari stundu til að innprenta Pétri mikilvæg sannindi með spurningum. Er ekki augljóst að Jesús gerði sér grein fyrir gildi spurninga?

Ofhvörf

12, 13. (a) Hvað eru ofhvörf? (b) Hvernig notaði Jesús ofhvörf til að sýna fram á að það sé heimskulegt að finna að smágöllum bræðra okkar?

12 Jesús notaði oft aðra áhrifaríka kennsluaðferð — ofhvörf sem er áherslustílbragð þar sem notaðar eru ýkjur eða sterkari orð en efni standa til. Þannig dró hann upp ógleymanlegar myndir. Lítum á fáein dæmi.

13 Í fjallræðunni hvatti Jesús áheyrendur til að ‚dæma ekki‘ aðra og spurði svo: „Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“ (Matteus 7:1-3) Sérðu þetta fyrir þér? Aðfinnslusamur maður býðst til að draga litla flís úr „auga“ bróður síns. Hann lætur sem bróðir hans sjái ekki nógu skýrt til að dæma rétt um hlutina. En sjálfur getur aðfinnslumaðurinn ekki dæmt rétt um hlutina vegna þess að hann er með „bjálka“ í auganu — heilan trédrumb eða þaksperru. Með þessu ógleymanlega dæmi bendir Jesús á hve heimskulegt það sé að gagnrýna smágalla bróður síns en gleyma stórum göllum sjálfs sín!

14. Hvers vegna voru það sérstaklega sterk ofhvörf er Jesús talaði um að sía mýfluguna en svelgja úlfaldann?

14 Öðru sinni fordæmdi Jesús faríseana og sagði að þeir væru ‚blindir leiðtogar sem síuðu mýfluguna en svelgdu úlfaldann.‘ (Matteus 23:24) Þetta voru sérstaklega sterk ofhvörf. Hvers vegna? Andstæðurnar milli örsmárrar mýflugu og úlfaldans voru sterkar, enda úlfaldinn eitt stærsta dýr sem áheyrendur Jesú þekktu. Áætlað er að meðalstór úlfaldi sé álíka þungur og 70 milljónir mýflugna! Og Jesús vissi að farísearnir síuðu vínið gegnum tausíu til að gleypa ekki mýflugu óafvitandi og verða trúarlega óhreinir fyrir vikið. En táknrænt séð svelgdu þeir úlfaldann sem var líka óhreint dýr. (3. Mósebók 11:4, 21-24) Það var augljóst hvað Jesús átti við. Farísearnir fylgdu smæstu kröfum lögmálsins smásmugulega en hunsuðu það sem þýðingarmeira var — „réttlæti, miskunn og trúfesti.“ (Matteus 23:23) Þannig afhjúpaði Jesús skýrt og greinilega hvaða mann þeir höfðu að geyma.

15. Nefndu dæmi um það sem Jesús kenndi með ofhvörfum.

15 Jesús notaði ofhvörf margsinnis í kennslu sinni. Lítum á nokkur dæmi. „Trú eins og [örsmátt] mustarðskorn“ gat flutt fjöll. Jesús gat tæplega fundið áhrifameiri leið til að leggja áherslu á hve miklu væri hægt að áorka með svolítilli trú. (Matteus 17:20) Stór úlfaldi reynir að þrengja sér gegnum nálarauga. Þetta lýsir ákaflega vel erfiðleikum ríks manns sem reynir að þjóna Guði en vill jafnframt lifa í efnishyggju. (Matteus 19:24) Það er aðdáunarvert hvernig Jesús notaði litríkt myndmál og náði hámarksáhrifum með örfáum orðum.

Óhrekjandi rökfesta

16. Hvernig notaði Jesús alltaf skarpar gáfur sínar?

16 Jesús var snillingur í að rökræða við fólk, enda var hugur hans fullkominn. En hann misbeitti aldrei þessum hæfileika. Alltaf notaði hann skarpar gáfur sínar sannleikanum til framdráttar þegar hann kenndi. Stundum beitti hann sterkri rökfærslu til að hrekja rangar ásakanir trúarlegra andstæðinga sinna. Oft á tíðum beitti hann rökleiðslu til að kenna lærisveinunum mikilvæg mál. Lítum nánar á snilldarlega rökfestu hans.

17, 18. Hvaða sterk rök notaði Jesús til að hrekja falskæru faríseanna?

17 Einhverju sinni læknaði Jesús mann sem var haldinn illum anda og var bæði blindur og mállaus. Er farísearnir fréttu það sögðu þeir: „Þessi rekur ekki út illa anda nema með fulltingi Beelsebúls [Satans], höfðingja illra anda.“ Við tökum eftir að farísearnir viðurkenndu að það þyrfti yfirnáttúrlegt afl til að reka út illu anda Satans. En þar sem þeir vildu koma í veg fyrir að fólk tryði á Jesú sögðu þeir kraftinn vera fenginn frá Satan. Jesús sýndi fram á að þeir hefðu ekki hugsað rökfærslu sína til enda og svaraði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hver sú borg eða heimili, sem er sjálfu sér sundurþykkt, fær ekki staðist. Ef Satan rekur Satan út, er hann sjálfum sér sundurþykkur. Hvernig fær ríki hans þá staðist?“ (Matteus 12:22-26) Jesús var í rauninni að segja: ‚Ef ég væri handbendi Satans, eins og þið segið, og væri að ónýta verk hans, þá væri Satan að vinna gegn sínum eigin hagsmunum og myndi bráðlega falla.‘ Þetta voru sterk rök.

18 Jesús hélt áfram að rökræða þetta mál. Hann vissi að sumir úr hópi farísea höfðu rekið út illa anda, þannig að hann spurði einfaldrar spurningar sem sló þá alveg út af laginu: „Ef ég rek illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn [lærisveinar] þá út?“ (Matteus 12:27) Jesús var eiginlega að segja þetta: ‚Ef ég rek nú illu andana út í krafti Satans hljóta lærisveinar ykkar að starfa í sama krafti.‘ Hvað gátu farísearnir sagt? Aldrei hefðu þeir viðurkennt að lærisveinar sínir störfuðu í krafti Satans. Með þessum óhrekjandi rökum gerði Jesús ásökun þeirra fáránlega.

19, 20. (a) Hvernig rökræddi Jesús á uppbyggjandi hátt? (b) Hvernig notaði Jesús ‚hve miklu fremur‘ rökfærslu þegar lærisveinarnir báðu hann að kenna sér að biðja?

19 Jesús beitti ekki rökfærslu aðeins til að þagga niður í andstæðingum sínum heldur notaði hann einnig sannfærandi rök til að kenna uppörvandi og hlýleg sannindi um Jehóva. Mörgum sinnum beitti hann því sem kalla mætti ‚hve miklu fremur‘ rökfærslu þar sem hann notaði almenn sannindi til að styrkja sannfæringu áheyrenda sinna. Skoðum tvö dæmi.

20 Þegar lærisveinar Jesú báðu hann að kenna sér að biðja sagði hann þeim dæmisögu um mann sem bað vin sinn bónar. Vinurinn var tregur til í fyrstu en varð að lokum við bóninni vegna „áleitni“ hins. Jesús lýsti því einnig hve fúsir foreldrar væru til að ‚gefa börnum sínum góðar gjafir.‘ Síðan sagði hann: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:1-13) Hér byggir Jesús á andstæðum en ekki samlíkingu. Fyrst hægt var að telja ófúsan vin á að verða við óskum nágranna síns, og fyrst ófullkomnir foreldrar sinna þörfum barna sinna, hve miklu fremur mun þá ástríkur faðir okkar á himnum gefa dyggum þjónum sínum, sem nálgast hann í auðmjúkri bæn, heilagan anda sinn.

21, 22. (a) Hvaða rökfærsluaðferð notaði Jesús þegar hann ráðlagði lærisveinunum að hafa ekki áhyggjur af efnislegum hlutum? (b) Að hvaða niðurstöðu komumst við eftir að hafa farið yfir fáeinar af kennsluaðferðum Jesú?

21 Jesús beitti sams konar rökfærslu þegar hann ráðlagði lærisveinunum að hafa ekki áhyggjur af efnislegum hlutum. Hann sagði: „Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu, og Guð fæðir þá. Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum! Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. . . . Fyrst Guð skrýðir svo grasið á vellinum, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, hve miklu fremur mun hann þá klæða yður, þér trúlitlir!“ (Lúkas 12:24, 27, 28) Já, fyrst Jehóva annast fuglana og blómin hlýtur hann þeim mun fremur að annast þjóna sína. Þessi mildilega en sterka rökfærsla hlýtur að hafa snortið hjörtu áheyrenda Jesú.

22 Eftir að hafa farið yfir fáeinar af kennsluaðferðum Jesú er auðséð að þjónarnir, sem hættu við að handtaka hann, voru ekki að ýkja er þeir sögðu: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ Sennilega er Jesús þó þekktastur fyrir að nota líkingar og dæmisögur. Hvers vegna notaði hann þessa kennsluaðferð? Og hvers vegna voru líkingar hans og dæmisögur jafnáhrifaríkar og raun bar vitni? Því er svarað í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Þjónarnir voru líklega sendimenn æðstaráðsins og undir stjórn æðstuprestanna.

^ gr. 3 Sjá greinarnar „Ég hef gefið yður eftirdæmi“ og ‚Fylgið mér‘ í þessu sama blaði.

^ gr. 6 Síðasta dæmið, úr Postulasögunni 20:35, stendur ekki í guðspjöllunum þó að inntak þess sé að finna þar. Páll postuli er sá eini sem vitnar í þessi orð. Hugsanlegt er að hann hafi heyrt lærisvein hafa þau eftir Jesú eða heyrt þau af munni Jesú eftir upprisu hans, eða við guðlega opinberun. — Postulasagan 22:6-15; 1. Korintubréf 15:6, 8.

^ gr. 8 Gyðingum var gert að greiða tvær drökmur (um það bil tvenn daglaun) í musterisgjald á hverju ári. Gjaldið var notað til að standa undir viðhaldi musterisins, þjónustunni sem þar fór fram og hinum daglegu fórnum sem færðar voru fyrir þjóðina.

Manstu?

• Hvaða dæmi sýna að kennsla Jesú var einföld og skýr?

• Hvers vegna notaði Jesús spurningar er hann kenndi?

• Hvað eru ofhvörf og hvernig beitti Jesús þeim er hann kenndi?

• Hvernig rökræddi Jesús til að kenna lærisveinunum hjartnæm sannindi um Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Jesús talaði hversdagslegt mál sem almenningur skildi.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Farísearnir ‚síuðu mýfluguna en svelgdu úlfaldann.‘