Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Huggun sem nákvæm þekking á Guði veitir

Huggun sem nákvæm þekking á Guði veitir

Huggun sem nákvæm þekking á Guði veitir

ÞAÐ sem Biblían segir um kærleika Guðs og miskunn vekur upp óþægilegar spurningar hjá sumum. Þeir spyrja: Ef Guð langar til að afmá illskuna, veit hvernig hann á að fara að því og hefur mátt til að gera það, hvers vegna heldur illskan þá áfram að vera fyrir hendi í svo miklum mæli? Í þeirra augum felst vandamálið í því að koma heim og saman þrem fullyrðingum: (1) Guð er almáttugur, (2) Guð er kærleiksríkur og góður og (3) hörmulegir atburðir halda áfram að eiga sér stað. Þeir álykta að þar sem síðast talda fullyrðingin sé óneitanlega sönn geti ekki nema önnur hvor hinna verið sönn. Þeir líta svo á að annaðhvort geti Guð ekki komið í veg fyrir illskuna eða honum sé sama.

Nokkrum dögum eftir hrun World Trade Center í New York sagði þekktur trúarleiðtogi í Bandaríkjunum: „Ég hef verið spurður . . . ótal sinnum á ævinni hvers vegna Guð leyfi hörmungar og þjáningar. Ég verð að viðurkenna að í rauninni veit ég ekki alveg svarið, jafnvel ekki sjálfum mér til handa.“

Sem svar við þessari athugasemd skrifaði guðfræðiprófessor nokkur að hann væri snortinn af „hinni heiðarlegu trúarskoðun“ sem trúarleiðtoginn boðaði. Hann studdi einnig sjónarmið fræðimanns sem skrifaði: „Hið óskiljanlega við þjáningar er þáttur í því að Guð er óskiljanlegur.“ En er í raun ómögulegt að skilja hvers vegna Guð leyfir illskuna?

Upphaf illskunnar

Hvað sem trúarleiðtogar annars segja kemur ekki fram í Biblíunni að það sé óskiljanlegt að Guð leyfi illskuna. Til þess að skilja af hverju illskan er til er nauðsynlegt að viðurkenna að Jehóva skapaði ekki illan heim. Hann skapaði fyrstu hjónin fullkomin án syndar. Jehóva leit á sköpunarverk sitt og fannst það vera „harla gott.“ (1. Mósebók 1:26, 31) Ásetningur hans var að Adam og Eva stækkuðu paradísargarðinn Eden, svo að hann næði út um alla jörðina, og fylltu hana hamingjusömu fólki undir vernd kærleiksríkrar yfirstjórnar hans. — Jesaja 45:18.

Illskan hófst hjá andaveru sem var Guði trúföst í upphafi en ól síðar með sér löngun til að vera tilbeðin. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Uppreisn hennar kom í ljós á jörðinni þegar hún fékk fyrstu hjónin til að taka þátt með sér í andstöðu gegn Guði. Í stað þess að lúta skýrum fyrirmælum Guðs um að borða hvorki né snerta ávöxt af skilningstrénu góðs og ills tóku Adam og Eva af því og borðuðu. (1. Mósebók 3:1-6) Með því að gera það óhlýðnuðust þau ekki einungis Guði heldur sýndu einnig fram á að þau vildu vera óháð honum.

Upp kom siðferðilegt deilumál

Uppreisnin í Eden vakti upp siðferðilegt deilumál, ögrun sem hafði þýðingu fyrir allan heiminn. Uppreisnarmennirnir drógu í efa hvort Jehóva stjórnaði sköpunarverum sínum svo að vel færi. Hafði skaparinn rétt til þess að krefjast algerrar hlýðni af mannkyninu? Ætli mönnum vegnaði kannski betur ef þeir færu sínar eigin leiðir?

Jehóva tók á ögruninni gegn drottinvaldi sínu með því að sýna fullkomið jafnvægi er varðar kærleika, réttlæti, visku og mátt. Hann hefði getað notað vald sitt til að bæla niður uppreisnina samstundis. Það hefði getað virst sanngjarnt þar sem hann hafði réttinn til þess. En þá hefði siðferðilegu spurningunni, sem upp var komin, ekki verið svarað. Hins vegar hefði Guð einfaldlega getað litið fram hjá syndinni. Núna kann sumum að finnast að það hefði verið kærleiksrík ráðstöfun. En það hefði heldur ekki svarað fullyrðingu Satans um að mönnunum vegnaði betur með því að stjórna sér sjálfir. Og myndi það ekki hvetja enn aðra til að víkja af vegi Jehóva? Afleiðingarnar yrðu endalausar þjáningar.

Í visku sinni hefur Jehóva leyft mönnum að fara tímabundið eigin leiðir. Þótt það þýddi að illskunni yrði leyft að vara um stundar sakir þá hafa mennirnir haft tækifæri til að sýna fram á hvort þeir geti stjórnað sér giftusamlega, óháð Guði, með því að ákveða sjálfir hvað væri rétt og rangt. Hver hefur árangurinn verið? Mannkynssagan hefur einkennst af endalausum styrjöldum, óréttlæti, kúgun og þjáningum. Sú staðreynd að uppreisnin gegn Jehóva hafi algerlega misheppnast mun útkljá deilumálið, sem vakið var upp í Eden, í eitt skipti fyrir öll.

Í millitíðinni hefur Guð sýnt kærleika sinn með því að sjá okkur fyrir syni sínum, Jesú Kristi, sem gaf mannslíf sitt sem lausnarfórn. Þetta gerir hlýðnum mönnum kleift að losna undan fordæmingu syndar og dauða sem hlaust af óhlýðni Adams. Lausnargjaldið hefur opnað öllum, sem iðka trú á Jesú, leið til eilífs lífs. — Jóhannes 3:16.

Jehóva hughreystir okkur og lofar að þjáningar manna séu tímabundnar. Sálmaritarinn skrifaði: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir. En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:10, 11.

Öryggi og hamingja í framtíðinni

Uppfylling biblíuspádóma sýnir að tími Guðs til að uppræta sjúkdóma, sorg og dauða er í nánd. Veitum athygli hinni dásamlegu framtíðarsýn sem vitraðist Jóhannesi postula. Hann skrifaði: „Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. . . . Og Guð sjálfur mun vera hjá [mönnunum], Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Til að undirstrika trúverðugleika þessara loforða var Jóhannesi sagt til frekari áréttingar: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ — Opinberunarbókin 21:1-5.

Hvað um þá milljarða saklausra manna sem hafa dáið frá því að uppreisnin í Eden var gerð? Jehóva hefur lofað að hann muni endurlífga fólk sem sefur nú dauðasvefni. Páll postuli sagði: „Þá von hef ég til Guðs, . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Þetta fólk má vænta þess að lifa í heimi „þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13.

Kærleiksríkur faðir leyfir að barnið sitt gangist undir sársaukafullan uppskurð ef hann veit að það muni hafa varanlegan bata í för með sér. Eins hefur Jehóva leyft mönnunum að finna tímabundið fyrir illskunni á jörðu. Eigi að síður bíður eilíf blessun allra þeirra sem leitast við að gera vilja Guðs. Páll sagði: „Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ — Rómverjabréfið 8:20, 21.

Þetta eru sannarlega fréttir — ekki sams konar og við sjáum í sjónvarpinu eða lesum um í dagblöðunum, heldur góðar fréttir. Þetta eru bestu fréttir frá ‚Guði allrar huggunar‘ sem er í raun afar umhugað um okkur. — 2. Korintubréf 1:3.

[Myndir á blaðsíðu 6]

Tíminn hefur leitt í ljós að menn geta ekki stjórnað sér sjálfir, óháð Guði, svo að vel fari.

[Credit lines]

Fjölskylda frá Sómalíu: UN PHOTO 159849/M. GRANT; kjarnorkusprenging: USAF; útrýmingarbúðir: U.S. National Archives