Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líktu eftir kennaranum mikla

Líktu eftir kennaranum mikla

Líktu eftir kennaranum mikla

„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — MATTEUS 28:19, 20.

1, 2. (a) Hvernig erum við öll kennarar í vissum skilningi? (b) Hvaða sérstök kennsluskylda hvílir á öllum kristnum mönnum?

ERTU kennari? Í vissum skilningi erum við það öll. Hvenær sem þú leiðbeinir villtum ferðalangi, segir vinnufélaga til um verk eða sýnir barni hvernig það eigi að reima skóna sína ertu að kenna. Það veitir vissa ánægju að aðstoða aðra.

2 Það hvílir sérstök kennsluskylda á sannkristnum mönnum því að okkur er falið að ‚gera menn að lærisveinum og kenna þeim.‘ (Matteus 28:19, 20) Við höfum líka ýmis tækifæri til að kenna innan safnaðarins. Hæfir karlmenn eru skipaðir „hirðar og kennarar“ til að uppbyggja söfnuðinn. (Efesusbréfið 4:11-13) Þroskaðar konur eiga að kenna yngri konum það sem gott er í daglegu kristnu starfi sínu. (Títusarbréfið 2:3-5) Við erum öll hvött til að uppörva og uppbyggja trúsystkini okkar og við getum gert það með hjálp Biblíunnar. (1. Þessaloníkubréf 5:11) Það er mikill heiður að mega kenna orð Guðs og miðla andlegum verðmætum sem geta haft langvarandi gildi.

3. Hvernig getum við bætt okkur sem kennarar?

3 En hvernig getum við bætt kennslu okkar? Fyrst og fremst með því að líkja eftir Jesú, kennaranum mikla. ‚En hvernig getum við líkt eftir Jesú?‘ spyr kannski einhver. ‚Hann var fullkominn.‘ Vissulega getum við ekki verið fullkomnir kennarar. Hins vegar getum við gert okkar besta til að líkja eftir kennsluaðferðum Jesú, óháð hæfileikum okkar. Við skulum nú kanna hvernig við getum beitt fjórum af aðferðum hans — einfaldleika, áhrifaríkum spurningum, rökfærslu og viðeigandi líkingum.

Einföld kennsla

4, 5. (a) Hvers vegna er einfaldleiki mikilvægur þáttur sannleikans í Biblíunni? (b) Hvers vegna er orðaval mikilvægur þáttur einfaldrar kennslu?

4 Grundvallarsannindi Biblíunnar eru ekki flókin. Jesús sagði í bæn: „Ég vegsama þig, faðir . . . að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.“ (Matteus 11:25) Jehóva hefur opinberað einlægu og auðmjúku fólki ásetning sinn. (1. Korintubréf 1:26-28) Einfaldleikinn er því mikilvægur þáttur þess sannleika sem Biblían hefur að geyma.

5 Hvernig geturðu kennt á einfaldan hátt þegar þú stjórnar heimabiblíunámskeiði eða heimsækir aftur manneskju sem hefur sýnt áhuga? Hvað lærum við af kennaranum mikla? Margir af áheyrendum Jesú voru „ólærðir leikmenn“ þannig að Jesús talaði einfalt og auðskilið mál til að ná til þeirra. (Postulasagan 4:13) Orðavalið er því frumskilyrði þess að kennslan sé einföld. Við þurfum ekki að nota háfleyg orð eða flókin orðasambönd til að auka sannfæringargildi sannleikans í orði Guðs. Slík „mælskusnilld“ gæti orðið til þess að viðmælandinn fyndi til smæðar sinnar, ekki síst ef hann er lítið menntaður eða eru einhver takmörk sett. (Korintubréf 2:1, 2) Jesús sýndi fram á að einföld og vel valin orð geta komið sannleikanum kröftuglega til skila.

6. Hvernig getum við forðast að drekkja nemandanum í upplýsingum?

6 Til að kennslan sé einföld þarf einnig að gæta þess að drekkja ekki biblíunemandanum í upplýsingum. Jesús tók tillit til þess að lærisveinunum voru takmörk sett. (Jóhannes 16:12) Við þurfum einnig að taka tillit til nemandans. Til dæmis er ekki nauðsynlegt að útskýra hvert einasta atriði þegar við höldum biblíunámskeið með hjálp bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs. * Það er heldur engin ástæða til þess að æða yfir námsefnið eins og það sé meginatriði að komast yfir ákveðið efni. Það er skynsamlegra að láta hraðann ráðast af þörfum og getu nemandans. Markmið okkar er að hjálpa nemandanum að verða lærisveinn Krists og tilbiðja Jehóva. Við þurfum að gefa okkur þann tíma sem þarf til að hjálpa áhugasömum nemanda að skilja og meðtaka það sem hann er að læra. Þá getur sannleikurinn snortið hjarta hans og hvatt hann til verka. — Rómverjabréfið 12:2.

7. Hvað getur hjálpað okkur að flytja einfaldar ræður í ríkissalnum?

7 Hvernig getum við talað „skilmerkileg“ orð þegar við flytjum ræðu í ríkissalnum, einkum ef einhverjir nýir eru meðal áheyrenda? (1. Korintubréf 14:9) Þá er þrennt til ráða. Í fyrsta lagi geturðu útskýrt öll framandleg hugtök sem þú þarft að nota. Það er ákveðinn orðaforði sem fylgir biblíuskilningi okkar. Ef við notum hugtök eins og „hinn trúi og hyggni þjónn,“ „aðrir sauðir“ og „Babýlon hin mikla“ gætum við þurft að útskýra þau með einföldum orðum svo að ljóst sé hvað þau merkja. Í öðru lagi skaltu forðast mælgi. Áheyrendur gætu misst áhugann ef þú notar of mörg orð og flækir mál þitt. Það er til skýrleika að sleppa óþörfum orðum og setningarliðum. Í þriðja lagi skaltu ekki reyna að fara yfir meira efni en tími leyfir. Rannsóknarvinna þín getur skilað þér alls konar áhugaverðum upplýsingum. En það er best að flokka efnið niður í fáein aðalatriði og nota einungis það sem styður þau og hægt er að vinna vel úr á þeim tíma sem er til ráðstöfunar.

Áhrifaríkar spurningar

8, 9. Hvernig getum við sniðið spurningar okkar að hugðarefnum húsráðanda? Nefndu dæmi.

8 Þú manst að Jesús var snillingur í að örva og þjálfa hugsun lærisveinanna með spurningum og draga fram það sem lá þeim á hjarta. Þannig snart hann hjörtu þeirra mildilega. (Matteus 16:13, 15; Jóhannes 11:26) Hvernig getum við líkt eftir honum og notað spurningar á áhrifaríkan hátt?

9 Þegar við prédikum hús úr húsi getum við varpað fram spurningum til að vekja áhuga og leiða talið að ríki Guðs. Hvernig getum við sniðið spurningar okkar að hugðarefnum húsráðandans? Hafðu augun opin. Líttu í kringum þig þegar þú gengur að húsinu. Eru leikföng í garðinum sem bendir til þess að það séu börn á heimilinu? Ef svo er gætum við spurt: ‚Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvernig heimurinn verði þegar börnin þín vaxa úr grasi?‘ (Sálmur 37:10, 11) Eru rammgerðir lásar á útihurðinni eða öryggiskerfi í húsinu? Við gætum spurt: ‚Heldurðu að sá dagur renni einhvern tíma upp að fólk eins og ég og þú geti verið óhult á heimili okkar eða á götum úti?‘ (Míka 4:3, 4) Er hjólastólabraut við húsið? Við gætum spurt: ‚Ætli sá dagur komi einhvern tíma að allir búi við góða heilsu?‘ (Jesaja 33:24) Margar tillögur er að finna í bæklingnum Hvernig hefja má biblíusamræður og halda þeim áfram. *

10. Hvernig getum við notað spurningar til að draga fram hvernig nemandinn hugsar og hvað honum finnst, og hvers eigum við að gæta?

10 Hvernig getum við beitt spurningum þegar við stjórnum biblíunámskeiði? Ólíkt Jesú getum við ekki lesið hvað býr í hjörtum fólks. Hins vegar getum við beitt spurningum af skarpskyggni en nærgætni til að draga fram hvað nemandinn hugsar og hvaða tilfinningar búa í hjarta hans. (Orðskviðirnir 20:5) Segjum til dæmis að við séum að fara yfir kaflann „Hvers vegna guðrækilegt líf færir hamingju“ í Þekkingarbókinni. Þar er fjallað um afstöðu Guðs til óheiðarleika, saurlifnaðar og fleiri mála. Nemandinn svarar námsspurningunum kannski rétt en er hann sammála því sem hann er að læra? Við gætum spurt: ‚Finnst þér afstaða Jehóva til þessara mála sanngjörn?‘ ‚Hvernig geturðu farið eftir þessum meginreglum Biblíunnar?‘ En hafðu hugfast að þú þarft að vera háttvís og sýna nemandanum þá virðingu sem honum ber. Við viljum ekki niðurlægja hann eða gera hann vandræðalegan með spurningum okkar. — Orðskviðirnir 12:18.

11. Hvernig geta ræðumenn notað spurningar á áhrifaríkan hátt?

11 Ræðumenn geta líka beitt spurningum á áhrifaríkan hátt. Ræðuspurningar, sem ekki er ætlast til að áheyrendur svari upphátt, geta auðveldað þeim að rökhugsa. Jesús notaði stundum þess konar spurningar. (Matteus 11:7-9) Í framhaldi af inngangsorðunum gæti ræðumaður varpað fram spurningum til að lýsa í stuttu máli því sem hann ætlar að fjalla um. Hann gæti sagt: „Í dag ætlum við að leita svara við eftirfarandi spurningum . . .“ Síðan gæti hann rifjað upp aðalatriðin í niðurlagsorðunum með því að vísa í spurningarnar.

12. Lýstu með dæmi hvernig safnaðaröldungur getur spurt spurninga til að hjálpa trúsystkini sínu að fá hughreystingu frá orði Guðs.

12 Safnaðaröldungar geta beitt spurningum í hirðastarfinu til að hjálpa niðurdregnum safnaðarmanni að sækja hughreystingu í orð Guðs. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Öldungur gæti til dæmis bent niðurdregnum einstaklingi á Sálm 34:19. Þar segir: „Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ Til að ganga úr skugga um að hinn niðurdregni átti sig á því hvernig þetta snertir hann sjálfan gæti öldungurinn spurt: ‚Hverjum er Jehóva nálægur? Finnst þér þú stundum hafa „sundurmarið hjarta“ og „sundurkraminn anda“? Fyrst Jehóva er nærri þeim sem líður þannig, eins og Biblían segir, heldurðu þá ekki að hann sé nærri þér?‘ Þessi hughreysting getur lífgað hjarta hins niðurdregna. — Jesaja 57:15.

Rökfærsla

13, 14. (a) Hvernig mætti rökræða við mann sem segist ekki trúa á Guð af því að hann sér hann ekki? (b) Hvers vegna megum við ekki búast við að allir láti sannfærast?

13 Við viljum snerta hjörtu fólks í boðunarstarfinu með góðum og sannfærandi rökum. (Postulasagan 19:8; 28:23, 24) Merkir það að við þurfum að læra flókna rökfræði til að sannfæra fólk um sannleikann í orði Guðs? Alls ekki. Góð rökfærsla þarf ekki að vera flókin. Einföld rök eru oft áhrifaríkust. Tökum dæmi.

14 Hvernig mætti bregðast við ef einhver segist ekki trúa á Guð af því að hann sér hann ekki? Við gætum bent á náttúrlögmálið um orsök og afleiðingu. Þegar við sjáum einhverja afleiðingu ályktum við að hún hljóti að eiga sér orsök. Við gætum sagt: ‚Ef þú værir staddur á afskekktum slóðum og gengir fram á vel byggt hús með búri þar sem nóg er af matvælum (afleiðing) myndirðu viðurkenna fúslega að einhver (orsök) hafi byggt húsið og fyllt búrið. Eins er það með hin skýru merki um hönnun í náttúrunni og matarbúr jarðar (afleiðinguna). Er ekki rökrétt að ætla að einhver (orsök) standi að baki því?‘ Hin einföldu rök Biblíunnar lýsa þessu best: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ (Hebreabréfið 3:4) En það er alveg sama hve góð rökfærslan er hjá okkur, það láta ekki allir sannfærast. Biblían minnir á að þeir einir sem ‚hneigjast‘ til eilífs lífs taki trú. — Postulasagan 13:48, NW; 2. Þessaloníkubréf 3:2.

15. Hvers konar rökfærslu getum við notað til að leggja áherslu á eiginleika og vegi Jehóva, og hvaða tvö dæmi sýna hvernig við getum farið að?

15 Þegar við kennum, hvort sem það er í boðunarstarfinu eða í söfnuðinum, getum við beitt sannfærandi rökfærslu til að leggja áherslu á eiginleika Jehóva og vegi hans. Það er sérstaklega áhrifaríkt að nota ‚hve miklu fremur‘ aðferðina eins og Jesús gerði stundum. (Lúkas 11:13; 12:24) Þessi rökfærsluaðferð og þær andstæður, sem hún byggist á, geta haft sterk áhrif á fólk. Við gætum afhjúpað hve fáránleg kenningin um helvíti er með því að segja eitthvað þessu líkt: ‚Enginn ástríkur faðir myndi refsa barninu sínu með því að stinga hendi þess inn í eld og halda henni þar. Ástríkum föður okkar á himnum hlýtur að þykja hugmyndin um vítiseld þeim mun viðbjóðslegri.‘ (Jeremía 7:31) Til að kenna að Jehóva láti sér annt um hvern einasta þjón sinn gætum við sagt: ‚Jehóva þekkir milljarða stjarna allar með nafni. Hve miklu fremur hlýtur hann að láta sér annt um menn sem elska hann og eru keyptir með dýrmætu blóði sonar hans!‘ (Jesaja 40:26; Postulasagan 20:28) Þetta er sterk rökfærsla sem getur hjálpað okkur að ná til hjartna annarra.

Viðeigandi líkingar

16. Hvers vegna eru líkingar góð kennsluaðferð?

16 Áhrifaríkar líkingar eru eins og krydd sem getur gert kennsluna mjög lystuga. Hvers vegna eru líkingar góð kennsluaðferð? Kennslufræðingur sagði: „Eitt það erfiðasta sem mannshugurinn gerir er að hugsa óhlutlægt.“ Líkingar kveikja lifandi myndir í hugum okkar og auðvelda okkur að meðtaka nýjar hugmyndir. Jesús var snillingur í að nota líkingar. (Markús 4:33, 34) Við skulum nú skoða hvernig við getum notað þessa kennsluaðferð.

17. Nefndu fernt sem gerir líkingu áhrifaríka?

17 Hvað gerir líkingu áhrifaríka? Í fyrsta lagi þarf hún að hæfa áheyrendum og byggjast á aðstæðum sem þeir þekkja eða skilja. Við munum að Jesús sótti margar af líkingum sínum í daglegt líf áheyrenda sinna. Í öðru lagi ætti líkingin að vera allgóð hliðstæða þess sem hún á að undirstrika. Ef samlíkingin er óljós getur líkingin ruglað áheyrendur. Í þriðja lagi ætti líkingin einungis að segja það sem segja þarf. Við munum að Jesús tiltók einungis það sem nauðsynlegt var en sleppti óþörfum smáatriðum. Í fjórða lagi ættum við að gæta þess að heimfæra skýrt allar líkingar sem við notum. Að öðrum kosti er hætta á að sumir skilji ekki kjarnann í henni.

18. Hvernig getum við fundið upp á viðeigandi líkingu?

18 Hvernig getum við fundið upp á viðeigandi líkingum? Við þurfum ekki að upphugsa langar og flóknar sögur. Stuttar líkingar geta verið mjög áhrifaríkar. Reyndu einfaldlega að láta þér detta í hug dæmi um það sem til umræðu er. Segjum til dæmis að umræðuefnið sé fyrirgefning Guðs, og við viljum koma með líkingu til að herða á orðunum í Postulasögunni 3:19 þar sem segir að Jehóva ‚afmái‘ syndir okkar eða þurrki þær út. Þarna er í sjálfu sér gott myndmál en hvaða áþreifanlegt dæmi gætum við tekið til að lýsa þessu? Gætum við notað strokleður eða svamp? Það væri hægt að segja: ‚Þegar Jehóva fyrirgefur syndir okkar þurrkar hann þær út eins og með svampi (eða strokleðri).‘ Svona einfalda samlíkingu er varla hægt að misskilja.

19, 20. (a) Hvar getum við fundið góðar líkingar? (b) Nefndu dæmi um góðar líkingar sem birst hafa í ritum okkar. (Sjá rammagrein.)

19 Hvar geturðu fundið viðeigandi líkingar og raunsönn dæmi? Leitaðu fanga í þínu eigin lífi og í fjölbreyttum reynsluheimi trúsystkina þinna. Hægt er að sækja líkingar í margt annað, þar á meðal í lífríkið og í lífvana hluti, húsmuni eða nýafstaðna atburði sem eru vel þekktir í samfélaginu. Leiðin til að finna góðar líkingar er sú að vera vakandi og hafa augun opin fyrir daglegum kringumstæðum umhverfis okkur. (Postulasagan 17:22, 23) Handbók um ræðumennsku segir: „Ræðumaður, sem fylgist með mannlífinu og hinni ýmsu iðju mannanna, talar við alls konar menn, virðir hlutina vel fyrir sér og spyr spurninga uns hann skilur þá, safnar sér miklum efniviði í líkingar sem kemur að góðum notum þegar á þarf að halda.“

20 Við eigum okkur annan sjóð áhrifaríkra líkinga — Varðturninn, Vaknið! og önnur rit sem Vottar Jehóva gefa út. Það er lærdómsríkt að hafa augun opin fyrir því hvernig líkingar eru notaðar í þessum ritum. * Tökum sem dæmi líkinguna í 11. grein 17. kafla Þekkingarbókarinnar. Þar er fjölbreytni fólksins í söfnuðinum líkt við alls konar farartæki sem eru samferða þér á veginum. Hvers vegna er hún áhrifarík? Vegna þess að hún er byggð á hversdagslegum aðstæðum, er greinileg hliðstæða þess sem hún á að undirstrika og heimfærslan er skýr. Við getum notað okkur líkingar og dæmi, sem birst hafa á prenti, og kannski lagað þau að þörfum biblíunemanda eða að ræðu sem við ætlum að flytja.

21. Hvaða umbun fylgir því að vera góður kennari í orði Guðs?

21 Það er gefandi að vera góður kennari. Þegar við kennum erum við að gefa öðrum af sjálfum okkur og hjálpa þeim og það er gleðigjafi því að „sælla er að gefa en þiggja“ eins og Biblían segir. (Postulasagan 20:35) Þeir sem kenna orð Guðs vita að það sem þeir hafa að miðla — sannleikurinn um Jehóva — hefur varanlegt gildi og það veitir þeim gleði. Við getum líka notið gleðinnar sem fylgir því að vita að við líkjum eftir kennaranum mikla, Jesú Kristi.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 9 Sjá kaflann „Inngangsorð í boðunarstarfinu,“ bls. 2-7. — Gefinn út af Vottum Jehóva.

^ gr. 20 Hægt er að finna dæmi í Watch Tower Publications Index 1986-2000 undir flettunni „Illustrations.“ — Gefinn út á mörgum tungumálum af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Hvernig getum við kennt á einfaldan hátt á biblíunámskeiði? En þegar við flytjum ræðu í ríkissalnum?

• Hvernig getum við notað spurningar á áhrifaríkan hátt þegar við prédikum hús úr húsi?

• Hvernig getum við beitt sannfærandi rökfærslu til að leggja áherslu á eiginleika Jehóva og vegi hans?

• Hvar getum við fundið viðeigandi líkingar?

[Spurningar]

[Rammi/mynd á blaðsíðu 32]

Manstu eftir þessum samlíkingum?

Hér eru fáein dæmi um áhrifaríkar samlíkingar. Það gæti verið gott fyrir þig að fletta upp í ritinu, sem vísað er til, og skoða hvernig líkingin er notuð til áherslu.

• Gott hjónaband er að miklu leyti komið undir góðum félaga, líkt og loftfimleikar og listdans. — Varðturninn, 1. júlí 2001, bls. 22.

• Að tjá tilfinningar sínar er eins og að kasta bolta. Maður getur kastað honum gætilega eða þrusað honum af slíku afli að hann valdi meiðslum. — Vaknið! (ensk útgáfa), 8. janúar 2001, bls. 10.

• Að læra að sýna kærleika er ekki ósvipað því að læra nýtt tungumál. — Varðturninn, 1. mars 1999, bls. 14, 19.

• Erfðasyndin er sambærileg við tölvuveiru sem smitar skrár. — Er til skapari sem er annt um okkur?, bls. 156.

• Illir anda nota spíritisma eins og veiðimenn nota agn: til að laða bráðina að. — Þekking sem leiðir til eilífs lífs, bls. 111.

• Jesús kemur afkomendum Adams til bjargar líkt og auðugur velgerðamaður greiðir upp skuldir fyrirtækis (sem óheiðarlegur forstjóri hefur stofnað til) og opnar verksmiðjuna á ný til góðs fyrir starfsmenn. — Varðturninn, 1. mars 1991, bls. 11-12.

• Listunnendur leggja oft mikið á sig til að gera við skemmd meistaraverk. Á sama hátt horfir Jehóva fram hjá ófullkomleika okkar og sér hið góða í okkur, og að lokum mun hann veita okkur fullkomleikann sem Adam glataði. — Varðturninn (ensk útgáfa), 15. febrúar 1990, bls. 22.

[Myndir á blaðsíðu 30]

Sannkristnir menn kenna orð Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Öldungar geta notað spurningar til að hjálpa trú- systkinum sínum að fá hughreystingu frá orði Guðs.