Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eru ill öfl að verki?

Eru ill öfl að verki?

Eru ill öfl að verki?

„Heimurinn er ráðvilltur, rétt eins og einhver dularfull öfl reyni vandlega að loka öllum undankomuleiðum.“ — Jean-Claude Souléry, blaðamaður.

‚Vanmáttarkennd mannsins vekur þá tilfinningu með honum að yfirþyrmandi illska sé að verki.‘ — Josef Barton, sagnfræðingur.

HINAR ógnvekjandi hryðjuverkaárásir 11. september 2001 vöktu marga til alvarlegrar umhugsunar. Michael Prowse sagði í enska dagblaðinu Financial Times: „Ekkert dýr myndi sýna eða gæti sýnt svona hrottalega grimmd.“ Dagblaðið New York Times lét þau orð falla í ritstjórnargrein að það sé ekki nóg að átta sig á allri skipulagningunni, sem árásirnar útheimtu, heldur sé „jafnmikilvægt að gera sér grein fyrir því ógurlega hatri sem þurfti til að gera þær. Þetta er miklu sterkara hatur en gerist og gengur í hernaði, það á sér engin takmörk, virðir enga samninga.“

Fólk af ýmsum trúarbrögðum fór að velta þeim möguleika fyrir sér að einhver ill öfl væru að verki. Kaupsýslumaður frá Sarajevo sagði eftir að hafa orðið vitni að þjóðernishatrinu í Bosníu og hryllingnum samfara því: „Ég hef horft upp á Bosníustríðið í eitt ár og tel að Satan haldi um taumana. Þetta er hreint brjálæði.“

Aðspurður hvort hann tryði á tilvist djöfulsins svaraði sagnfræðingurinn Jean Delumeau: „Hvernig gæti ég afneitað afli illskunnar þegar ég sé það sem er að gerast og hefur gerst síðan ég fæddist: Síðari heimsstyrjöldina sem kostaði meira en 40 milljónir mannslífa, Auschwitz og dauðabúðirnar, þjóðarmorðið í Kambódíu, blóði drifna hörku Ceauşescu-stjórnarinnar og horfi upp á það að pyndingar eru viðurkennd aðferð stjórnvalda víða um heim. Listinn yfir skelfingarnar er endalaus. . . . Ég tel því réttlætanlegt að kalla þessi verk ‚djöfulleg,‘ ekki í þeim skilningi að þau séu innblásin af djöfli með horn og klaufir heldur af djöfli sem er tákn þeirra áhrifa og þess illa afls sem er að verki í heiminum.“

Margir nota orðið ‚djöfullegur,‘ líkt og Jean Delumeau, til að lýsa þeim hryllingi sem á sér stað í mannlegu samfélagi, hvort heldur það er innan veggja heimilisins eða á alþjóðavettvangi. En hvað merkir þetta? Eru það ópersónuleg ill öfl sem valda viðbjóðnum eða eru það illar andaverur sem fá menn til að fremja margfalt svívirðilegri glæpi en hægt er að skrifa á reikning venjulegrar mannvonsku? Er höfðingi illskunnar — Satan djöfullinn — heilinn að baki þessum illu öflum?

[Mynd credit line á blaðsíðu 3]

Börn: U.S. Coast Guard.