Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Gefum því enn betur gaum sem við höfum heyrt‘

‚Gefum því enn betur gaum sem við höfum heyrt‘

‚Gefum því enn betur gaum sem við höfum heyrt‘

„Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.“ — HEBREABRÉFIÐ 2:1.

1. Hvernig geta truflanir leitt til slysa? Lýstu með dæmi.

Í BANDARÍKJUNUM einum látast um 37.000 manns á ári hverju af völdum umferðarslysa. Sérfræðingar segja að hægt væri að koma í veg fyrir mörg þessara dauðsfalla ef ökumenn fylgdust betur með veginum. Sumir ökumenn láta farsíma, merki og auglýsingaskilti trufla sig. Aðrir leyfa sér að borða við stýrið. Í öllum þessum tilvikum geta truflanir leitt til slysa.

2, 3. Hvaða áminningu gaf Páll kristnum Hebreum og af hverju voru ráðleggingar hans viðeigandi?

2 Um 2000 árum áður en menn fundu upp bifreiðina talaði Páll postuli um annars konar truflun sem sumum kristnum Hebreum stafaði hætta af. Páll lagði áherslu á að hinn upprisni Jesús Kristur hefði verið settur ofar öllum englum til hægri handar Guði. Síðan sagði postulinn: „Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.“ — Hebreabréfið 2:1.

3 Hvers vegna þurftu kristnir Hebrear ‚að gefa því enn betur gaum er þeir höfðu heyrt‘ í sambandi við Jesú? Vegna þess að um 30 ár voru liðin frá því að Jesús yfirgaf jörðina. Og núna, þegar meistari þeirra var fjarverandi, fóru sumir kristnir Hebrear að berast afleiðis frá hinni sönnu trú. Gyðingdómurinn, gamla tilbeiðslufyrirkomulagið, var að trufla þá.

Þeir þurftu að gefa því enn betur gaum sem þeir höfðu heyrt

4. Hvers vegna kann sumum kristnum Hebreum að hafa fundist freistandi að aðhyllast gyðingdóminn að nýju?

4 Hvers vegna kann það að hafa verið freistandi fyrir kristna menn að snúa aftur til gyðingdómsins? Tilbeiðslukerfið undir lögmálinu var áþreifanlegt. Fólk gat séð prestana og fundið lyktina af brennifórnunum. Á vissum sviðum var kristnin hins vegar mjög ólík. Kristnir menn áttu sér æðstaprest, Jesú Krist, en hann hafði ekki sést á jörðinni í þrjá áratugi. (Hebreabréfið 4:14) Þeir áttu musteri en helgidómur þess var á himnum. (Hebreabréfið 9:24) Kristna umskurnin var „umskurn hjartans í anda,“ ólíkt hinni bókstaflegu umskurn undir lögmálinu. (Rómverjabréfið 2:29) Kannski fannst kristnum Hebreum trú sín vera orðin svolítið óraunveruleg.

5. Hvernig sýndi Páll fram á að tilbeiðslufyrirkomulagið, sem Jesús innleiddi, var æðra því sem var undir lögmálinu?

5 Kristnir Hebrear þurftu að gera sér grein fyrir þýðingarmiklu atriði sem einkenndi tilbeiðslufyrirkomulagið sem Kristur kom á fót. Það byggðist meira á trú en því sem sést. Samt var það æðra lögmálinu sem gefið var fyrir milligöngu Móse. Páll skrifaði: „Ef blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gjörst, helgar til ytri hreinleika, hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur fyrir eilífan anda bar fram sjálfan sig sem lýtalausa fórn fyrir Guði.“ (Hebreabréfið 9:13, 14) Já, sú fyrirgefning, sem hægt er að fá vegna trúar á lausnarfórn Jesú Krists, er að mörgu leyti mun æðri þeirri fyrirgefningu sem fórnirnar undir lögmálinu veittu. — Hebreabréfið 7:26-28.

6, 7. (a) Af hverju var áríðandi að kristnir Hebrear ‚gæfu því enn betur gaum, er þeir höfðu heyrt‘? (b) Hvað átti Jerúsalem langt eftir þegar Páll skrifaði bréfið til Hebreanna? (Sjá neðanmálsgrein.)

6 Það var önnur ástæða fyrir því að kristnir Hebrear þurftu að fylgjast gaumgæfilega með því sem þeir höfðu heyrt um Jesú. Hann hafði sagt fyrir að Jerúsalem yrði lögð í eyði. Hann sagði: „Þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ — Lúkas 19:43, 44.

7 Hvenær átti þetta að eiga sér stað? Jesús gaf ekki upp dag og stund heldur sagði þeim: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana.“ (Lúkas 21:20, 21) Á þeim 30 árum, sem liðin voru frá því að Jesús sagði þessi orð, höfðu sumir kristnir menn í Jerúsalem glatað ákafa sínum og orðið annars hugar. Það mætti orða það svo að þeir hafi litið af veginum. Ef þeir breyttu ekki hugsunarhætti sínum var voðinn vís. Hvort sem þeir álitu svo eða ekki var eyðing Jerúsalem yfirvofandi. * Vonandi varð áminning Páls til þess að andlega sljóir kristnir menn í Jerúsalem vöknuðu aftur til meðvitundar.

Að ‚gefa því enn betur gaum sem við höfum heyrt‘ núna

8. Hvers vegna þurfum við að ‚gefa enn betur gaum‘ að sannleikanum í orði Guðs?

8 Við þurfum, líkt og kristnir menn á fyrstu öld, ‚að gefa enn betur gaum‘ að sannleikanum í orð Guðs. Hvers vegna? Vegna þess að við stöndum líka frammi fyrir yfirvofandi eyðingu, ekki bara einnar þjóðar heldur heils heimskerfis. (Opinberunarbókin 11:18; 16:14, 16) Auðvitað vitum við ekki nákvæmlega daginn og stundina þegar Jehóva grípur í taumana. (Matteus 24:36) Engu að síður erum við sjónarvottar að uppfyllingu biblíuspádóma sem sýna greinilega fram á að við lifum á hinum „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þess vegna þurfum við að varast allt sem gæti truflað okkur. Við þurfum að gefa gaum að orði Guðs og viðhalda kappsemi okkar. Það er eina leiðin til að „umflýja allt þetta, sem koma á.“ — Lúkas 21:36.

9, 10. (a) Hvernig getum við sýnt að við gefum andlegum málum gaum? (b) Hvernig er orð Guðs ‚lampi fóta okkar‘ og ‚ljós á vegi okkar‘?

9 En hvernig getum við sýnt að við ‚gefum enn betur gaum‘ að andlegum málum núna á þessum örlagaríku tímum? Ein leið til þess er að sækja reglulega kristnar samkomur og mót. Við ættum líka að vera ötulir biblíunemendur svo að við getum nálægt okkur höfundi Biblíunnar, Jehóva. (Jakobsbréfið 4:8) Ef við öflum okkur þekkingar á Jehóva með einkanámi og samkomusókn verðum við eins og sálmaritarinn sem sagði við Guð: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ — Sálmur 119:105.

10 Biblían er eins og ‚ljós á vegum okkar‘ þegar hún segir okkur hvað Guð ætlar að gera í framtíðinni. Hún er líka ‚lampi fóta okkar.‘ Með öðrum orðum getur hún hjálpað okkur að stíga næsta skref þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum vandamálum lífsins. Þess vegna er nauðsynlegt að við fylgjumst enn betur með þegar við söfnumst saman með trúsystkinum okkar til að fá fræðslu og þegar við lesum orð Guðs sjálf. Það sem við lærum hjálpar okkur að taka viturlegar og gagnlegar ákvarðanir sem gleðja hjarta Jehóva. (Orðskviðirnir 27:11; Jesaja 48:17) Hvernig getum við aukið athyglisgrip okkar á samkomum og í einkanáminu svo að við getum haft sem mest gagn af andlegum ráðstöfunum Guðs?

Bætum einbeitinguna á samkomum

11. Hvers vegna getur stundum verið erfitt að fylgjast með á safnaðarsamkomum?

11 Stundum getur verið erfitt að fylgjast með á samkomum. Það er mjög auðvelt að láta trufla sig. Við heyrum kannski barnsgrát eða einhver kemur seint á samkomu og er að leita að sæti. Við gætum verið þreytt eftir langan vinnudag. Ræðumaðurinn er kannski ekkert sérlega líflegur og áður en við vitum af erum við farin að hugsa um eitthvað annað eða jafnvel að dotta! Í ljósi þess hve mikilvægar upplýsingar er verið að veita ættum við að leggja okkur fram um að bæta einbeitinguna á safnaðarsamkomum. En hvernig getum við gert það?

12. Hvað getur auðveldað okkur að fylgjast með á samkomum?

12 Það er oftast auðveldara að fylgjast með á samkomum ef við erum vel undirbúin. Væri því ekki skynsamlegt að taka frá tíma til að hugleiða fyrir fram það sem farið verður yfir? Það tekur bara nokkrar mínútur á dag að lesa og hugleiða hluta af biblíulesefni vikunnar. Með því að skipuleggja okkur getum við líka fundið tíma til að undirbúa okkur fyrir safnaðarbóknámið og Varðturnsnámið. Hvernig svo sem við skipuleggjum okkur er eitt víst: Undirbúningur auðveldar okkur að fylgjast með því sem farið er yfir á safnaðarsamkomum.

13. Hvað getur hjálpað okkur að halda huganum við það sem farið er yfir á samkomum?

13 Auk þess sem góður undirbúningur stuðlar að einbeitingu finnst sumum þeir fylgjast betur með ef þeir sitja framarlega í ríkissalnum. Til að koma í veg fyrir að hugurinn reiki er líka gott að halda augnasambandi við ræðumanninn, fylgjast með í Biblíunni þegar ritningarstaðir eru lesnir og skrifa minnispunkta. Aðalatriðið er hins vegar ekki að læra ákveðna einbeitingartækni heldur að hafa undirbúið hjarta. Við þurfum að skilja af hverju við söfnumst saman með trúsystkinum okkar. Við gerum það fyrst og fremst til að tilbiðja Jehóva. (Sálmur 26:12; Lúkas 2:36, 37) Samkomur eru mikilvæg leið til að næra okkur andlega. (Matteus 24:45-47) Þar að auki gefa þær okkur tækifæri til að ‚hvetja hvert annað til kærleika og góðra verka.‘ — Hebreabréfið 10:24, 25.

14. Hvað stuðlar að góðri samkomu?

14 Sumum hættir til að meta gæði samkomunnar út frá kennsluhæfileikum þátttakenda. Ef ræðumennirnir eru mjög færir þá er samkoman talin góð. En ef okkur finnst kennslan ekki nógu áhrifarík erum við kannski óánægð með samkomuna. Vissulega ættu ræðumennirnir að leggja sig alla fram um að vera góðir kennarar og reyna sérstaklega að ná til hjartna áheyrendanna. (1. Tímóteusarbréf 4:16) En við sem hlustum ættum ekki að vera of gagnrýnin. Þó að mikilvægt sé að þátttakendur séu góðir kennarar er það ekki það eina sem stuðlar að góðri samkomu. Ertu ekki sammála því að það sem ætti að skipta okkur mestu máli er ekki hversu vel ræðumaður flytur ræðuna heldur hversu vel við hlustum? Þegar við sækjum samkomur og fylgjumst vel með erum við að tilbiðja Guð í samræmi við vilja hans. Það er það sem stuðlar að góðri samkomu. Ef við höfum brennandi áhuga á því að afla okkur þekkingar á Guði njótum við góðs af samkomunum óháð hæfileikum ræðumannanna. (Orðskviðirnir 2:1-5) Við skulum því fyrir alla muni vera staðráðin í að ‚gefa enn betur gaum‘ að því sem kennt er á samkomum.

Hafðu fullt gagn af einkanáminu

15. Hvaða gagn höfum við af námi og hugleiðingu?

15 Við njótum góðs af því að vera gaumgæfin við einkanám og hugleiðingu. Með því að lesa og hugleiða Biblíuna og kristin rit fáum við kærkomin tækifæri til að festa sannleika Biblíunnar í hjörtum okkar. Það hefur síðan mikil áhrif á hugsun okkar og hegðun. Það hjálpar okkur að hafa yndi af því að gera vilja Jehóva. (Sálmur 1:2; 40:9) Þess vegna verðum við að bæta einbeitinguna svo að hún nýtist okkur vel við nám. Það er mjög auðvelt að láta trufla sig. Minni háttar truflanir eins og símhringing eða hávaði getur orðið til þess að við missum einbeitinguna. Athyglisgripið gæti líka verið frekar lítið til að byrja með. Við setjumst kannski niður með það fyrir augum að næra okkur andlega en áður en við vitum af er hugurinn farinn að reika. Hvernig getum við bætt athyglina í biblíunámi okkar?

16. (a) Hvers vegna er mikilvægt að ákveða tíma fyrir einkanám? (b) Hvernig hefur þú skapað þér tíma til að nema orð Guðs?

16 Gott er að velja stað og stund sem hentar vel til náms. Fyrir flest okkar er ró og næði ekki sjálfsagður hlutur. Kannski finnst okkur erill daglega lífsins þeyta okkur áfram eins og kvisti í straumharðri á. Við þurfum að berjast á móti straumnum og finna okkur litla eyju þar sem ríkir friður og ró. Við getum ekki aðeins beðið eftir að tækifæri til biblíunáms komi upp í hendurnar á okkur heldur verðum við að stjórna aðstæðunum og skapa okkur tíma til þess. (Efesusbréfið 5:15, 16) Sumir taka frá stuttan tíma á morgnana því að þá er lítið um truflanir hjá þeim. Öðrum finnst kvöldin henta betur. Aðalatriðið er að við megum ekki horfa fram hjá því að það er nauðsynlegt að afla sér nákvæmrar þekkingar á Guði og syni hans. (Jóhannes 17:3) Ákveðum þess vegna tíma fyrir einkanám og höldum okkur við hann.

17. Hvernig er hugleiðing til góðs?

17 Það er ómetanlegt að hugleiða það sem við lærum af einkanáminu. Það gerir okkur kleift að festa hugsanir Guðs í hjarta okkar. Hugleiðing hjálpar okkur að koma auga á hvernig við getum farið eftir heilræðum Biblíunnar svo að við verðum „gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“ (Jakobsbréfið 1:22-25) Með því að hugleiða efnið styrkjum við tengslin við Jehóva því að þá hugsum við um eiginleika hans og hvernig þeir koma fram í efninu sem við erum að fara yfir.

18. Hvaða aðstæður þarf til að hugleiðing beri árangur?

18 Til að hafa fullt gagn af námi og hugleiðingu þurfum við að gæta þess að láta ekkert trufla hugann. Við verðum að loka á allar þær truflanir sem fylgja nútímalífi til þess að geta tileinkað okkur nýjar upplýsingar. Þetta krefst tíma og einveru. En hversu hressandi er ekki að nærast á andlegu fæðunni og sannleiksvatninu sem við finnum í orði Guðs.

19. (a) Hvað hefur hjálpað sumum að auka athyglisgrip sitt í einkanáminu? (b) Hvaða viðhorf ættum við að hafa gagnvart námi og hvaða gagn höfum við af því?

19 Hvað er til ráða ef við höfum lítið athyglisgrip og hugurinn fer fljótt að reika? Sumum hefur tekist að bæta einbeitinguna með því að hafa einkanámið stutt til að byrja með og lengja það síðan smám saman. Við ættum að reyna að nema rólega frekar en að gera það í flýti. Við þurfum að glæða með okkur einlægan áhuga á efninu sem við erum að fara yfir. Og við getum leitað frekari upplýsinga með því að nota hin fjölmörgu rit sem hinn trúi og hyggni þjón hefur séð okkur fyrir. Það er mjög gagnlegt að skyggnast inn í „djúp Guðs.“ (1. Korintubréf 2:10) Þannig getum við aukið þekkingu okkar á Guði og þroskað skilningarvitin. (Hebreabréfið 5:14) Ef við erum iðnir biblíunemendur verðum við líka ‚fær um að kenna öðrum.‘ — 2. Tímóteusarbréf 2:2.

20. Hvernig getum við eignast náið sambandi við Jehóva Guð og viðhaldið því?

20 Safnaðarsamkomur og einkanám er okkur mikil hjálp til að eignast náið samband við Jehóva og viðhalda því. Þetta átti greinilega við um sálmaritarann sem sagði við Guð: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ (Sálmur 119:97) Við skulum því fyrir alla muni koma reglulega á samkomur og mót. Og við skulum líka kaupa upp tíma til að nema og hugleiða Biblíuna. Við fáum ríkulega umbun fyrir að gefa orði Guðs „enn betur gaum.“

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Hebreabréfið var sennilega skrifað árið 61. Það var aðeins fimm árum áður en herfylkingar Cestíusar Gallusar umkringdu Jerúsalem. Fljótlega dró herinn sig til baka og árvakrir kristnir menn fengu tækifæri til að flýja. Fjórum árum seinna eyddi rómverski herinn borgina undir stjórn Títusar hershöfðingja.

Manst þú?

• Hvers vegna voru sumir kristnir Hebrear að berast afleiðis frá sannri trú?

• Hvernig getum við fylgst vel með á safnaðarsamkomum?

• Hvað getur hjálpað okkur að njóta góðs af einkabiblíunámi og hugleiðingu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Kristnir Hebrear þurftu að vera vakandi fyrir yfirvofandi eyðingu Jerúsalem.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Foreldrar geta hjálpað börnunum að hafa gagn af kristnum samkomum.