Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höldum áfram að iðka það sem við höfum lært

Höldum áfram að iðka það sem við höfum lært

Höldum áfram að iðka það sem við höfum lært

„Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 4:9.

1, 2. Hefur Biblían almennt áhrif á líf þeirra sem telja sig vera trúaða? Útskýrðu svarið.

„TRÚARBRÖGÐIN eru í sókn en siðferði á undanhaldi.“ Þessi fyrirsögn í fréttabréfinu Emerging Trends lýsir niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Þar í landi virðist sem fleiri séu farnir að sækja kirkjur og álíta trúna skipa veigamikinn sess í lífinu. Í fréttinni segir hins vegar: „Þrátt fyrir þessar athyglisverðu tölur efast greinilega margir Bandaríkjamenn um þau áhrif sem trúarbrögðin hafa á líf manna og samfélagið í heild.“

2 Þetta viðhorf er ekki bara einskorðað við þetta eina land. Margt fólk víða um heim segist viðurkenna Biblíuna og vera trúað en leyfir henni hins vegar ekki að hafa nein veruleg áhrif á líf sitt. (2. Tímóteusarbréf 3:5) „Við metum Biblíuna enn þá mikils,“ sagði umsjónarmaður rannsóknarhóps, „en að nota tíma til að lesa hana, rannsaka og fara eftir henni — það heyrir fortíðinni til.“

3. (a) Hvaða áhrif hefur Biblían á þá sem gerast sannkristnir? (b) Hvernig heimfæra fylgjendur Jesú ráðleggingarnar í Filippíbréfinu 4:9 á sjálfa sig?

3 Málin horfa hins vegar öðruvísi við hjá sannkristnum mönnum. Þeir hafa heimfært leiðbeiningarnar í orði Guðs á sjálfa sig og breytt hugsunarhætti sínum og hegðun í kjölfarið. Og aðrir taka greinilega eftir þessum breytta persónuleika. (Kólossubréfið 3:5-10) Hjá fylgjendum Jesú er Biblían ekki ónotuð bók sem safnar ryki upp á hillu. Þvert á móti sagði Páll postuli kristnum mönnum í Filippí: „Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.“ (Filippíbréfið 4:9) Kristnir menn gera meira en að viðurkenna sannleikann í orði Guðs. Þeir breyta í samræmi við það sem þeir læra og fara alltaf eftir ráðleggingum Biblíunnar — í fjölskyldunni, í vinnunni, í söfnuðinum og á öllum öðrum sviðum lífsins.

4. Hvers vegna er hægara sagt en gert að fylgja lögum Guðs?

4 Það er ekki auðvelt að breyta í samræmi við lög og meginreglur Guðs. Heimurinn, sem við lifum í, er á valdi Satans djöfulsins sem Biblían kallar „guð þessarar aldar.“ (2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Þess vegna er nauðsynlegt að vera á verði gagnvart hverju því sem gæti komið í veg fyrir að við séum Jehóva Guði ráðvönd. Hvernig getum við verið ráðvönd?

Hafðu „til fyrirmyndar heilnæmu orðin“

5. Hvað lærum við af orðum Jesú í Lúkasi 9:23?

5 Einn þáttur í því að iðka það sem við höfum lært er að vera trúföst og styðja sanna tilbeiðslu þrátt fyrir andstöðu þeirra sem ekki eru í trúnni. Þolgæði kallar á áreynslu. „Hver sem vill fylgja mér,“ sagði Jesús, „afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“ (Lúkas 9:23) Jesús sagði ekki að við ættum að fylgja sér í viku, mánuð eða ár heldur stöðuglega. Orð hans gefa til kynna að það að vera lærisveinn gæti ekki aðeins verið ákveðið tímabil í lífinu, skammvinn hollusta sem við sýnum í dag en ekki á morgun. Ef við ætlum að vera trúföst og styðja sanna tilbeiðslu verðum við að halda okkur staðfastlega við þá braut sem við höfum valið, sama hvað gerist. Hvernig getum við gert það?

6. Hvernig voru heilnæmu orðin, sem kristnir menn á fyrstu öld lærðu af Páli, fyrirmynd?

6 Páll hvatti samstarfsmann sinn, Tímóteus, og sagði: „Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.“ (2. Tímóteusarbréf 1:13) Hvað átti Páll við? Gríska orðið, sem hér er þýtt „fyrirmynd,“ vísar bókstaflega til rissmyndar listamanns. Þó að slík rissmynd sýni ekki öll smáatriði er þar að finna ákveðið form og glöggur áhorfandi getur séð heildarmyndina. Á svipaðan hátt átti sannleikurinn, sem Páll kenndi Tímóteusi og öðrum, ekki að veita ótvíræð svör við öllum hugsanlegum spurningum. Þetta kenningasafn gaf hins vegar næga leiðsögn, eða fyrirmynd, til að hjartahreinir menn gætu skilið hvers Jehóva krafðist af þeim. Til að gleðja Guð þyrftu þeir auðvitað að halda sér stöðugt við þennan sannleika með því að iðka það sem þeir lærðu.

7. Hvernig geta kristnir menn haldið fast við fyrirmyndina sem felst í heilnæmu orðunum?

7 Á fyrstu öldinni settu menn eins og Hýmeneus, Alexander og Fíletus fram hugmyndir sem stönguðust á við fyrirmyndina sem fólst í „heilnæmu orðunum.“ (1. Tímóteusarbréf 1:18-20; 2. Tímóteusarbréf 2:16, 17) Hvernig gátu frumkristnir menn forðast að láta fráhvarfsmenn leiða sig afvega? Með því að lesa hin innblásnu rit vandlega og heimfæra þau á líf sitt. Þeir sem fylgdu fordæmi Páls og annarra trúfastra manna gátu komið auga á og hafnað hverju því sem samræmdist ekki fyrirmyndinni eða sannleikanum sem þeir höfðu lært. (Filippíbréfið 3:17; Hebreabréfið 5:14) Í stað þess að vera ‚sóttteknir af þrætum og orðastælum‘ héldu þeir áfram að sækja fram í guðrækni. (1. Tímóteusarbréf 6:3-6) Við gerum það sama þegar við höldum áfram að tileinka okkur sannleikann sem við höfum lært. Hversu trústyrkjandi er ekki að sjá að milljónir manna þjóna Jehóva um allan heim og halda sér fast við fyrirmyndina eða biblíusannleikann sem þeim hefur verið kenndur. — 1. Þessaloníkubréf 1:2-5.

Hafnaðu „ævintýrum“

8. (a) Hvernig reynir Satan að spilla trú okkar? (b) Hvaða viðvörun gaf Páll í 2. Tímóteusarbréfi 4:3, 4?

8 Satan reynir að brjóta niður ráðvendni okkar með því að sá efasemdum um það sem okkur hefur verið kennt. Nú á dögum reyna fráhvarfsmenn og aðrir að spilla trú heiðvirðra manna líkt og á fyrstu öldinni. (Galatabréfið 2:4; 5:7, 8) Stundum nota þeir fjölmiðla til að dreifa upplýsingum sem þeir hafa rangfært eða hreinum lygum um aðferðir og hvatir fólks Jehóva. Páll varaði við því að sumir myndu láta snúa sér burt frá sannleikanum. „Þann tíma mun að bera,“ sagði hann, „er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun. Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:3, 4.

9. Hvað hafði Páll ef til vill í huga þegar hann talaði um „ævintýri“?

9 Í stað þess að fylgja þeirri fyrirmynd sem fólst í heilnæmu orðunum létu sumir „ævintýri“ vekja forvitni sína. Hver voru þessi ævintýri? Kannski hafði Páll í huga fjarstæðukenndar goðsögur eins og þær sem er að finna í hinni apokrýfu Tóbítsbók. * Kannski voru þetta líka ýmsar getgátur og æsifengnar sögusagnir. Aðrir gætu líka hafa fylgt sínum „eigin fýsnum“ og látið blekkjast af þeim sem höfðu frjálslyndar skoðanir á meginreglum Guðs eða voru gagnrýnir á þá sem fóru með forystuna í söfnuðinum. (3. Jóhannesarbréf 9, 10; Júdasarbréfið 4) Hvað svo sem varð sumum til hrösunar er greinilegt að þeir vildu frekar heyra ævintýri eða skröksögur heldur en sannleikann í orði Guðs. Fljótlega hættu þeir að iðka það sem þeir höfðu lært og það varð þeim til andlegs tjóns. — 2. Pétursbréf 3:15, 16.

10. Hver geta verið „ævintýri“ nútímans og hvernig lagði Jóhannes áherslu á að við þyrftum að vera varkár?

10 Við getum varað okkur á „ævintýrum“ með því að vera vandfýsin á það sem við hlustum á og lesum. Fjölmiðlar ýta til dæmis oft undir siðleysi. Margir hvetja til efasemdastefnu eða trúleysis. Æðri biblíugagnrýnendur gera gys að þeirri fullyrðingu að Biblían sé innblásin af Guði. Og fráhvarfsmenn okkar tíma reyna að sá efasemdum til að grafa undan trú kristinna manna. Jóhannes postuli varaði menn við svipaðri hættu sem stafaði af fölskum spámönnum fyrstu aldarinnar. Hann sagði: „Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.“ (1. Jóhannesarbréf 4:1) Við þurfum því að vera varkár.

11. Hver er ein leið til að reyna hvort við erum í trúnni?

11 Í þessu sambandi skrifaði Páll: „Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni.“ (2. Korintubréf 13:5) Postulinn hvatti menn til þess að reyna sjálfa sig til að ganga úr skugga um að þeir fylgdu kristinni trú í heild. Ef við erum gjörn á að hlusta á óánægjuraddir þurfum við að rannsaka sjálf okkur í bænarhug. (Sálmur 139:23, 24) Hættir okkur til að finna að fólki Jehóva? Ef svo er, hvers vegna? Hefur einhver sært okkur með orðum sínum eða verkum? Horfum við þá á málið frá réttu sjónarhorni? Allir erfiðleikar, sem við mætum í þessu heimskerfi, eru tímabundnir. (2. Korintubréf 4:17) Af hverju ættum við að hætta að þjóna Guði þó að við verðum fyrir einhverjum erfiðleikum í söfnuðinum? Ef við erum miður okkar einhverra hluta vegna er þá ekki mun betra að gera það sem við getum til að leysa málið og leggja það síðan í hendur Jehóva? — Sálmur 4:5; Orðskviðirnir 3:5, 6; Efesusbréfið 4:26.

12. Hvernig gáfu Berojubúar okkur gott fordæmi?

12 Í stað þess að vera gagnrýnin skulum við hafa andlega heilbrigt viðhorf til þeirra upplýsinga sem við fáum á samkomum og í einkanáminu. (1. Korintubréf 2:14, 15) Og í stað þess að efast um orð Guðs er mun viturlegra að hafa sama viðhorf og Berojubúar á fyrstu öld sem rannsökuðu Ritninguna vandlega. (Postulasagan 17:10, 11) Við skulum því breyta í samræmi við það sem við lærum, hafna „ævintýrum“og halda okkur fast við sannleikann.

13. Hvernig gætum við óafvitandi farið með skröksögur?

13 En til eru annars konar „ævintýri“ sem við þurfum að varast. Margar æsifengnar sögur ganga manna á milli með tölvupósti. Það er viturlegt að vera á varðbergi gagnvart slíku, sérstaklega ef við vitum ekki hvaðan sagan er upprunnin. Jafnvel þótt heiðvirður kristinn maður hafi sent okkur frásöguna er ekki víst að hann þekki hana frá fyrstu hendi. Þess vegna er mikilvægt að varast það að senda óstaðfestar frásögur áfram með tölvupósti eða tala um þær við aðra. Vissulega viljum við ekki hafa eftir öðrum „skröksögur“ eða ‚vanheilög ævintýri.‘ (1. Tímóteusarbréf 4:7; Nýja testamenti Odds) Okkur ber að tala sannleika hvert við annað og því er skynsamlegt að forðast allt sem gæti orðið til þess að við, jafnvel óafvitandi, segðum öðrum ósatt. — Efesusbréfið 4:25.

Gagnið af því að iðka sannleikann

14. Hvaða gagn höfum við af því að iðka það sem við lærum af orði Guðs?

14 Við njótum góðs af því að iðka það sem við lærum í einkabiblíunámi og á safnaðarsamkomum. Við gætum til dæmis komist að raun um að sambandið við trúsystkini okkar batnar. (Galatabréfið 6:10) Eðlisfar okkar breytist til hins betra þegar við förum eftir meginreglum Biblíunnar. (Sálmur 19:9) Og þegar við iðkum það sem við lærum prýðum við þar að auki „kenningu Guðs“ og aukum líkurnar á því að aðrir laðist að sannri tilbeiðslu. — Títusarbréfið 2:6-10.

15. (a) Hvernig hleypti ung stúlka í sig kjarki til að vitna í skólanum? (b) Hvað lærðir þú af frásögunni?

15 Meðal votta Jehóva er mikill fjöldi af ungu fólki sem iðkar það sem það lærir með því að lesa Biblíuna og kristin rit og koma reglulega á safnaðarsamkomur. Góð breytni þeirra er kröftugur vitnisburður fyrir kennurum og samnemendum. (1. Pétursbréf 2:12) Leslie er 13 ára stúlka sem býr í Bandaríkjunum. Hún viðurkennir að sér hafi fundist mjög erfitt að tala við skólafélagana um trú sína, en dag einn breyttist það. „Í bekknum voru umræður um það þegar fólk reynir að selja manni eitthvað. Stelpa rétti upp höndina og minntist á votta Jehóva.“ Hvernig brást Leslie við þar sem hún var vottur? „Ég svaraði fyrir trú mína,“ segir hún, „og ég er viss um að það kom öllum á óvart því að yfirleitt segi ég ekki mikið í skólanum.“ Hver var árangurinn af hugrekki Lesliar? „Stelpan hafði fleiri spurningar og ég gat látið hana fá bækling og smárit,“ segir Leslie. Jehóva hlýtur að gleðjast þegar unga fólkið iðkar það sem það lærir og hleypir í sig kjarki til að vitna í skólanum. — Orðskviðirnir 27:11; Hebreabréfið 6:10.

16. Hvernig hefur Guðveldisskólinn gagnast ungri vottastúlku?

16 Elísabet er annað dæmi. Frá því að hún var sjö ára gömul og á meðan hún var í grunnskóla bauð hún kennurum sínum alltaf að koma í ríkissalinn þegar hún var með ræðu í Guðveldisskólanum. Ef kennarinn komst ekki hélt Elísabet ræðuna fyrir kennarann eftir skóla. Á síðasta árinu í menntaskóla skrifaði hún tíu blaðsíðna ritgerð um gagn Guðveldisskólans og hélt kynningu fyrir fjórum kennurum. Henni var líka boðið að sýna þeim dæmi um guðveldisskólaræðu og hún valdi umræðuefnið „af hverju leyfir Guð illskuna?“ Elísabet hefur notið góðs af þeirri fræðslu sem Vottar Jehóva veita í Guðveldisskólanum. Hún er ein þeirra fjölmörgu kristnu ungmenna sem eru Jehóva til lofs með því að iðka það sem þau læra af orði hans.

17, 18. (a) Hvað ráðleggur Biblían varðandi heiðarleika? (b) Hvaða áhrif hafði heiðarleiki votts Jehóva á einn mann?

17 Biblían hvetur kristna menn til að breyta vel í öllum greinum. (Hebreabréfið 13:18) Óheiðarleiki getur skemmt samband okkar við aðra og enn fremur við Jehóva sjálfan. (Orðskviðirnir 12:22) Góð breytni okkar er sönnun þess að við iðkum það sem við lærum og hefur aukið virðingu margra fyrir vottum Jehóva.

18 Hermaður, sem heitir Phillip, týndi óútfylltri ávísun sem hann var búinn að skrifa undir. Henni var skilað í pósti áður en hann gerði sér grein fyrir því að hann hefði týnt henni. Vottur Jehóva hafði fundið hana. Með ávísununinni fylgdi miði þar sem votturinn útskýrði að vegna trúar sinnar hefði hann fundið sig knúinn til að skila henni. Phillip átti ekki til orð. „Hann hefði getað stolið 9000 dollurum,“ sagði hann. Áður hafði þessi maður orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar hattinum hans var stolið í kirkju. Kunningi hans hafði augljóslega stolið hattinum en síðan skilar ókunnug manneskja ávísun sem var mörg þúsund dollara virði. Heiðarlegir kristnir menn eru Jehóva sannarlega til heiðurs!

Haltu áfram að iðka það sem þú hefur lært

19, 20. Hvaða gagn höfum við af því að breyta í samræmi við það sem við lærum í Ritningunni?

19 Þeir sem iðka það sem þeir hafa lært af orði Guðs hljóta mikla blessun fyrir. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.“ (Jakobsbréfið 1:25) Já, ef við breytum í samræmi við það sem við lærum í Ritningunni hljótum við ósvikna hamingju og eigum auðveldara með að takast á við álag lífsins. En framar öllu höfum við blessun Jehóva og von um eilíft líf. — Orðskviðirnir 10:22; 1. Tímóteusarbréf 6:6.

20 Þú skalt því fyrir alla muni halda áfram að nema orð Guðs af kappi. Sæktu samkomur reglulega og fylgstu vel með því sem fram fer. Tileinkaðu þér það sem þú lærir, haltu áfram að iðka það og ‚Guð friðarins mun vera með þér.‘ — Filippíbréfið 4:9.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Tóbítsbók var sennilega skrifuð á 3. öld f.o.t. Í henni er meðal annars að finna sögu sem er mjög hjátrúarkennd og fjallar um Gyðing sem hét Tóbías. Hann var sagður geta læknað og rekið út illa anda með því að nota hjarta, gall og lifur úr risafiski.

Manstu?

• Hver er fyrirmyndin sem felst í ‚heilnæmu orðunum‘ og hvernig getum við haldið okkur við hana?

• Hvaða „ævintýrum“ verðum við að hafna?

• Hvaða blessun hlýst af því að iðka það sem maður lærir af orði Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Hvernig gátu frumkristnir menn varast að láta fráhvarfsmenn leiða sig afvega?

[Mynd á blaðsíðu 26]

Fjölmiðlar, Netið og fráhvarfsmenn okkar tíma geta sáð efasemdum.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Það er ekki skynsamlegt að senda öðrum óstaðfestar frásagnir.

[Myndir á blaðsíðu 28]

Vottar Jehóva fara eftir því sem þeir lesa í orði Guðs þegar þeir eru í vinnunni, skólanum og annars staðar.