Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva ber umhyggju fyrir þér

Jehóva ber umhyggju fyrir þér

Jehóva ber umhyggju fyrir þér

„Varpið allri áhyggju yðar á [Guð], því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ — 1. PÉTURSBRÉF 5:7.

1. Að hvaða leyti eru Jehóva og Satan algerar andstæður?

JEHÓVA og Satan eru algerar andstæður. Sá sem laðast að Jehóva hefur óhjákvæmilega sterka andúð á djöflinum. Þessi andstæða er nefnd í viðurkenndu heimildarriti. Alfræðibókin Encyclopædia Britannica (1970) segir um starfsemi Satans eins og henni er lýst í Jobsbók: ‚Verkefni Satans er að flakka um jörðina og leita að saknæmum verkum eða fólki sem saka má um illsku; hann hefur því andstætt hlutverk við „augu Drottins“ sem skima um jörðina til að styrkja allt sem gott er (II. Kron. xvi, 9). Satan er tortrygginn á gæsku mannanna og fær leyfi Guðs til að reyna hana og ráða yfir henni innan þeirra marka sem Guð setur.‘ Já, hvílík andstæða! — Jobsbók 1:6-12; 2:1-7.

2, 3. (a) Hvernig er þrekraun Jobs lýsandi fyrir merkingu orðsins „djöfull“? (b) Hvernig sýnir Biblían að Satan heldur áfram að ákæra þjóna Jehóva á jörðinni?

2 Orðið „djöfull“ er dregið af grísku orði sem merkir „falskærandi“ eða „rógberi.“ Í Jobsbók kemur fram að Satan ákærir trúan þjón Guðs, Job, um að þjóna honum af eigingjörnum hvötum. „Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt?“ spyr hann. (Jobsbók 1:9) Frásaga Jobsbókar sýnir að samband hans við Jehóva styrktist í prófraunum hans og þrengingum. (Jobsbók 10:9, 12; 12:9, 10; 19:25; 27:5; 28:28) „Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!“ sagði hann Guði eftir þrekraunina. — Jobsbók 42:5.

3 Er Satan hættur að ákæra trúa þjóna Guðs? Nei, í Opinberunarbókinni kemur fram að Satan heldur áfram að ákæra smurða bræður Krists á endalokatímanum, og trúfasta félaga þeirra efalaust líka. (2. Tímóteusarbréf 3:12; Opinberunarbókin 12:10, 17) Þess vegna er áríðandi fyrir alla sannkristna menn að gefa sig umhyggjusömum Guði okkar á vald, þjóna honum af innilegum kærleika og sanna að ákærur Satans séu rangar. Þannig gleðjum við hjarta Jehóva. — Orðskviðirnir 27:11.

Jehóva leitar færis að hjálpa okkur

4, 5. (a) Að hverju leitar Jehóva á jörðinni, ólíkt Satan? (b) Hvað þurfum við að gera til að njóta velvildar Jehóva?

4 Djöfullinn reikar um jörðina og leitar að þeim sem hann getur ákært og gleypt. (Jobsbók 1:7, 9; 1. Pétursbréf 5:8) Jehóva leitar hins vegar færis til að hjálpa þeim sem þarfnast styrks frá honum. Hananí spámaður sagði Asa konungi: „Augu Drottins hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann.“ (2. Kroníkubók 16:9) Það er mikill munur á hatursfullri rannsókn Satans og ástríkri umhyggju Jehóva!

5 Jehóva njósnar ekki um okkur til að finna hvern einasta galla og mistök. „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“ spurði sálmaritarinn. (Sálmur 130:3) Óbeint er verið að segja að enginn stæðist. (Prédikarinn 7:20) Ef við nálgumst Jehóva af heilu hjarta hvíla augu hans á okkur, ekki í þeim tilgangi að fordæma okkur heldur til að fylgjast með viðleitni okkar og svara bænum okkar um hjálp og fyrirgefningu. „Augu Drottins eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra. En auglit Drottins er gegn þeim, sem illt gjöra,“ skrifaði Pétur postuli. — 1. Pétursbréf 3:12.

6. Hvernig er Davíð dæmi til hughreystingar og viðvörunar?

6 Davíð var ófullkominn og syndgaði mjög alvarlega. (2. Samúelsbók 12:7-9) En hann úthellti hjarta sínu fyrir Jehóva og nálgaðist hann í innilegri bæn. (Sálmur 51:1-14) Jehóva heyrði bæn Davíðs og fyrirgaf honum, þó svo að Davíð fyndi fyrir óþægilegum afleiðingum syndar sinnar. (2. Samúelsbók 12:10-14) Þetta ætti bæði að vera okkur til hughreystingar og viðvörunar. Það er hughreystandi til að vita að Jehóva er fús til að fyrirgefa syndir okkar ef við iðrumst í einlægni, en það er alvarlegt umhugsunarefni að syndir hafa oft slæm eftirköst. (Galatabréfið 6:7-9) Ef við viljum styrkja tengslin við Jehóva ættum við að forðast eins og við getum allt sem hann hefur vanþóknun á. — Sálmur 97:10.

Jehóva dregur fólk sitt til sín

7. Að hvers konar fólki leitar Jehóva og hvernig dregur hann það til sín?

7 „Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska,“ segir Davíð í einum af sálmum sínum. (Sálmur 138:6) Það kveður við svipaðan tón í öðrum sálmi þar sem segir: „Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt og horfir djúpt á himni og á jörðu. Hann reisir lítilmagnann úr duftinu.“ (Sálmur 113:5-7) Já, hinn alvaldi skapari alheims lætur svo lítið að horfa niður til jarðar og augu hans sjá ‚hina lítilmótlegu,‘ ‚lítilmagnana‘ og þá sem „andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru.“ (Esekíel 9:4) Hann dregur þá til sín fyrir atbeina sonar síns. „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann,“ sagði Jesús þegar hann var hér á jörð. „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn veiti honum það.“ — Jóhannes 6:44, 65.

8, 9. (a) Hvers vegna þurfum við öll að koma til Jesú? (b) Hvað er svona einstakt við lausnargjaldið?

8 Allir menn ættu að koma til Jesú og trúa á lausnarfórn hans vegna þess að þeir eru fæddir syndarar og fjarlægir Guði. (Jóhannes 3:36) Það þarf að sætta þá við Guð. (2. Korintubréf 5:20) Guð beið ekki eftir því að syndarar sárbændu hann um að gera einhverjar ráðstafanir til að þeir gætu átt frið við hann. Páll postuli skrifaði: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum. . . . Því að ef vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir.“ — Rómverjabréfið 5:8, 10.

9 Jóhannes postuli staðfesti þann háleita sannleika að Guð sætti mennina við sig. Hann skrifaði: „Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.“ (1. Jóhannesarbréf 4:9, 10) Það var Guð en ekki maðurinn sem átti frumkvæðið. Laðast þú ekki að Guði sem sýnir svona mikla ást á ‚syndurum‘ og jafnvel ‚óvinum‘? — Jóhannes 3:16.

Við þurfum að leita Jehóva

10, 11. (a) Hvað þurfum við að gera til að leita Jehóva? (b) Hvernig ættum við að líta á heimskerfi Satans?

10 Jehóva neyðir okkur auðvitað ekki til að koma til sín heldur verðum við að leita hans, ‚þreifa okkur til hans til að finna hann, en ekki er hann langt frá neinum af okkur.‘ (Postulasagan 17:27) Við verðum að viðurkenna rétt Jehóva til að krefjast þess að við séum undirgefin. „Gefið yður því Guði á vald,“ skrifaði lærisveinninn Jakob, „standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður. Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.“ (Jakobsbréfið 4:7, 8) Við ættum ekki að hika við að taka eindregna afstöðu með Jehóva og gegn djöflinum.

11 Þetta hefur í för með sér að við höldum okkur í vissri fjarlægð frá illu heimskerfi Satans. „Vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs,“ skrifaði Jakob. (Jakobsbréfið 4:4) Að sama skapi megum við búast við að heimur Satans hati okkur ef við viljum vera vinir Jehóva. — Jóhannes 15:19; 1. Jóhannesarbréf 3:13.

12. (a) Hvaða hughreystandi orð skrifaði Davíð? (b) Hvaða viðvörun gaf Jehóva fyrir munn spámannsins Asarja?

12 Þegar heimur Satans er okkur mótdrægur á einhvern sérstakan hátt er mjög áríðandi fyrir okkur að leita til Jehóva í bæn og biðja hann um hjálp. Davíð, sem fann margoft fyrir hjálparhendi Jehóva, skrifaði okkur til hughreystingar: „Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni. Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim. Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.“ (Sálmur 145:18-20) Þessi sálmur sýnir að Jehóva getur bjargað okkur þegar reynir á okkur hvert og eitt, og eins að hann muni bjarga fólki sínu í heild úr „þrengingunni miklu.“ (Opinberunarbókin 7:14) Jehóva er okkur nálægur ef við erum nálæg honum. „Drottinn er með yður, ef þér eruð með honum,“ sagði Asarja spámaður undir leiðsögn ‚anda Guðs.‘ „Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.“ (2. Kroníkubók 15:1, 2) Við megum líta á þetta sem almennan sannleika.

Jehóva þarf að vera okkur raunverulegur

13. Hvernig getum við sýnt að Jehóva er okkur raunverulegur?

13 Páll postuli sagði að Móse hefði verið „öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:27) Móse sá Jehóva auðvitað aldrei í raun og veru. (2. Mósebók 33:20) En Jehóva var honum svo raunverulegur að það var engu líkara en hann sæi hann. Eins var það hjá Job eftir að prófraunirnar voru afstaðnar. Þá sá hann Jehóva skýrar með augum trúarinnar. Hann sá hann sem Guð er yfirgefur trúa þjóna sína aldrei þó að hann leyfi að þeir gangi gegnum prófraunir. (Jobsbók 42:5) Sagt er að Enok og Nói hafi ‚gengið með Guði.‘ Þeir gerðu það með því að reyna að þóknast Guði og hlýða honum. (1. Mósebók 5:22-24; 6:9, 22; Hebreabréfið 11:5, 7) Ef Jehóva er okkur eins raunverulegur og hann var Enok, Nóa, Job og Móse, þá ‚munum við til hans á öllum vegum okkar og hann gerir stigu okkar slétta.‘ — Orðskviðirnir 3:5, 6.

14. Hvað merkir það að ‚halda sér fast við‘ Jehóva?

14 Rétt áður en Ísraelsmenn áttu að ganga inn í fyrirheitna landið gaf Móse þeim eftirfarandi ráð: „Drottni Guði yðar skuluð þér fylgja og hann skuluð þér óttast, og skipanir hans skuluð þér varðveita og raustu hans skuluð þér hlýða, og hann skuluð þér dýrka og við hann skuluð þér halda yður fast.“ (5. Mósebók 13:4) Þeir áttu að fylgja Jehóva, óttast hann, hlýða honum og halda sér fast við hann. Biblíufræðingur segir að orðið, sem hér er þýtt ‚halda sér fast við,‘ „gefi til kynna mjög náið og innilegt samband.“ „Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann,“ sagði sálmaritarinn. (Sálmur 25:14) Við eigum svona dýrmætt og náið samband við Jehóva ef hann er okkur raunverulegur og ef við elskum hann svo heitt að við óttumst að gera nokkuð sem er honum á móti skapi. — Sálmur 19:10-15.

Gerirðu þér grein fyrir umhyggju Jehóva?

15, 16. (a) Hvernig er umhyggju Jehóva lýst í Sálmi 34? (b) Hvað ættum við að gera ef við eigum erfitt með að muna eftir góðverkum Jehóva í okkar þágu?

15 Eitt af klækjabrögðum Satans er að reyna að láta okkur missa sjónar á því að Jehóva, Guð okkar, annast trúfasta þjóna sína stöðuglega. Davíð Ísraelskonungur fann vel fyrir verndarhendi Jehóva, jafnvel á hættustund. Þegar hann neyddist til að gera sér upp geðveiki frammi fyrir Akís konungi í Gat orti hann einkar fagran sálm þar sem hann lýsir trú sinni meðal annars þannig: „Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans. Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist. Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá. Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum. Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann. Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.“ — Sálmur 34:4, 5, 8, 9, 19, 20; 1. Samúelsbók 21:10-15.

16 Ert þú sannfærður um björgunarmátt Jehóva? Ertu meðvita um vernd englanna? Hefurðu sjálfur fundið að Jehóva er góður? Hvenær varstu síðast sérstaklega var við gæsku Jehóva? Reyndu að rifja það upp. Var það við síðustu dyrnar í boðunarstarfinu, þegar þér fannst þú ekki orka meira? Kannski áttirðu þá einstaklega skemmtilegt samtal við húsráðanda. Mundirðu eftir að þakka Jehóva fyrir að hafa gefið þér þann kraft sem þú þurftir og fyrir að blessa þig? (2. Korintubréf 4:7) En kannski áttu erfitt með að rifja upp eitthvert ákveðið gæskuverk sem Jehóva gerði fyrir þig. Ef til vill þarftu að hugsa viku, mánuð, ár eða lengra aftur í tímann. Ef svo er ættirðu kannski að leggja þig meðvitað fram um að styrkja sambandið við Jehóva og reyna að koma auga á hvernig hann leiðbeinir þér. Pétur postuli hvetur kristna menn: „Auðmýkið yður . . . undir Guðs voldugu hönd. . . . Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ (1. Pétursbréf 5:6, 7) Umhyggja hans er slík að þig mun undra. — Sálmur 73:28.

Haltu áfram að leita Jehóva

17. Hvað er nauðsynlegt til að halda áfram að leita Jehóva?

17 Það er óslitið verkefni að viðhalda sambandi okkar við Jehóva. Jesús sagði í bæn til föður síns: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Það er stöðug vinna að afla sér þekkingar á Jehóva og syni hans. Við þurfum hjálp bænarinnar og heilags anda til að skilja „djúp Guðs.“ (1. Korintubréf 2:10; Lúkas 11:13) Við þörfnumst líka leiðsagnar ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ til að næra huga okkar á andlegri fæðu „á réttum tíma.“ (Matteus 24:45) Fyrir milligöngu hans hefur Jehóva ráðlagt okkur að lesa daglega í orði sínu, sækja safnaðarsamkomur reglulega og eiga marktækan þátt í að boða ‚fagnaðarerindið um ríkið.‘ (Matteus 24:14) Þannig höldum við áfram að leita hins umhyggjusama Guðs, Jehóva.

18, 19. (a) Í hverju ættum við að vera staðráðin? (b) Hvaða blessun fylgir því að standa einarðlega gegn djöflinum og halda áfram að leita Jehóva?

18 Satan gerir allt sem hann getur til að kalla ofsóknir, andstöðu og þrýsting úr öllum áttum yfir fólk Jehóva. Hann reynir að spilla friði okkar og góðu sambandi við Guð. Hann vill ekki að við höldum áfram að leita að hjartahreinu fólki og hjálpa því að skipa sér Jehóva megin í deilunni um drottinvaldið yfir alheiminum. En við verðum að vera staðráðin í að sýna Jehóva hollustu og treysta að hann frelsi okkur frá hinum vonda. Ef við látum orð Guðs vísa okkur veginn og erum virk í sýnilegu skipulagi hans megum við treysta að hann styðji alltaf við bakið á okkur. — Jesaja 41:8-13.

19 Tökum því öll einarða afstöðu gegn djöflinum og vélabrögðum hans, og höldum stöðugt áfram að leita Jehóva Guðs sem ‚gerir okkur styrk og öflug.‘ (1. Pétursbréf 5:8-11) Þannig ‚varðveitum við sjálf okkur í kærleika Guðs og bíðum eftir náð Drottins okkar Jesú Krists til eilífs lífs.‘ — Júdasarbréfið 21.

Hvert er svarið?

• Hvað merkir orðið „djöfull“ og hvernig lifir djöfullinn eftir því?

• Hvernig horfa Jehóva og djöfulinn ólíkt á jarðarbúa?

• Af hverju er nauðsynlegt að viðurkenna lausnargjaldið til að nálgast Jehóva?

• Hvað merkir það að ‚halda sér fast‘ við Jehóva og hvernig getum við haldið áfram að leita hans?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Þrátt fyrir þrengingar sínar gerði Job sér ljóst að Jehóva bar umhyggju fyrir honum.

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

Við minnum okkur á að Jehóva er annt um okkur með því að lesa daglega í Biblíunni, sækja safnaðarsamkomur reglulega og taka dyggilega þátt í boðunarstarfinu.