Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Satan – goðsögn eða óhugnanlegur veruleiki?

Satan – goðsögn eða óhugnanlegur veruleiki?

Satan – goðsögn eða óhugnanlegur veruleiki?

UPPTÖK illskunnar hafa vakið forvitni hugsuða allt frá fornu fari. Orðabókin A Dictionary of the Bible eftir James Hastings segir: „Við upphaf vitundarlífsins stóð maðurinn frammi fyrir öflum sem hann réð ekki við, öflum sem höfðu skaðvænleg áhrif.“ Bókin segir einnig: „Fornmenn leituðu ósjálfrátt að orsökum og túlkuðu öfl náttúrunnar og aðrar birtingarmyndir hennar sem persónur.“

Sagnfræðingar segja að rekja megi trúna á djöflaguði og illa anda allt aftur til elstu sögu Mesópótamíu. Forn-Babýloníumenn trúðu að til væru undirheimar þaðan sem enginn ætti afturkvæmt. Þar sæti að völdum ofbeldisguðinn Nergal, „sá sem brennir.“ Þeir hræddust líka illa anda og reyndu að friða þá með töfraþulum. Guð illskunnar hét Set í goðafræði Egypta og var hann „í mynd furðuskepnu með mjóa, snúna snoppu, bein, ferköntuð eyru og stífan, klofinn hala.“ — Larousse Encyclopedia of Mythology.

Grikkir og Rómverjar áttu sér bæði góða og illa guði en enginn illu guðanna var ráðandi. Heimspekingar Grikkja og Rómverja kenndu að til væru tvö andstæð lögmál. Empedókles nefndi þau ást og hatur. Platón kenndi að heimurinn ætti sér tvær „sálir.“ Önnur var afl til góðs en hin til ills. Eins og Georges Minois segir í bók sinni, Le Diable (Djöfullinn), var „enginn djöfull viðurkenndur í klassískri, heiðinni trú“ Grikkja og Rómverja.

Í íranskri zaraþústratrú var kennt að yfirguðinn Ahura Mazda eða Ormazad hefði skapað Angra Mainyu eða Ahriman sem ákvað að gera illt og varð þar með eyðingarandi eða eyðandi.

Í gyðingdómnum var Satan lýst á einfaldan hátt sem andstæðingi Guðs og frumkvöðli syndarinnar. Þessi mynd litaðist af heiðnum hugmyndum í aldanna rás. Fræðibókin Encyclopaedia Judaica segir: „Mikil breyting var orðin . . . á síðustu öldunum fyrir okkar tímatal. Á þessu tímabili tók trúin [trú Gyðinga] . . . upp mörg einkenni tvíhyggjunnar þar sem Guð og öfl góðs og sannleika áttu sér andstæðu á himni og jörð í illsku og svikum. Þetta virðist hafa gerst vegna áhrifa frá persneskum trúarbrögðum.“ The Concise Jewish Encyclopedia segir: „Vernd gegn i[llum öndum] fékkst með því að halda boðorðin og nota verndargripi.“

Í guðfræði fráhvarfskristninnar

Fráhvarfsmenn frá kristinni trú tóku óbiblíulegar hugmyndir upp á arma sína, líkt og gyðingdómurinn tileinkaði sér óbiblíulegar hugmyndir um Satan og illa anda. Orðabókin Anchor Bible Dictionary segir: „Ein öfgafyllsta guðfræðihugmynd fortíðar var á þá lund að Guð endurleysti fólk sitt með því að greiða Satan fyrir að sleppa því.“ Írenaeus (á annarri öld) kom fram með þessa hugmynd. Origenes (á þriðju öld) útfærði hana nánar og hélt því fram að „djöfullinn hefði fengið lagalegt tilkall til manna“ og hann áleit „dauða Krists . . . vera lausnargjald sem greitt var djöflinum.“ — Adolf Harnack: History of Dogma.

Sú hugmynd að lausnargjaldið væri greitt djöflinum „gegndi áberandi hlutverki í sögu guðfræðinnar í um það bil þúsund ár,“ svo vitnað sé í The Catholic Encyclopedia, og var þáttur í trú kirkjunnar. Aðrir kirkjufeður, þeirra á meðal Ágústínus (á fjórðu og fimmtu öld), tóku upp þá hugmynd að lausnargjaldið væri greitt Satan. Það var loks á 12. öld að kaþólsku guðfræðingarnir Anselm og Abélard komust að þeirri niðurstöðu að fórn Krists væri ekki færð Satan heldur Guði.

Hjátrú miðalda

Á flestum kirkjuþingum kaþólskra var ótrúlega hljótt um Satan, en á fjórða Lateranþinginu árið 1215 var samþykkt „hátíðleg trúarjátning“ sem New Catholic Encyclopedia kallar svo. Fyrsta greinin hljóðar þannig: „Djöfullinn og aðrir illir andar voru skapaðir af Guði góðir í eðli sínu en gerðust illir af eigin hvötum.“ Bókin bætir við að þeir séu önnum kafnir við að freista mannanna. Sú hugmynd varð að útbreiddri þráhyggju á miðöldum. Satan var álitinn standa að baki öllu sem virtist óvenjulegt, svo sem óútskýrðum veikindum, skyndilegum dauða eða uppskerubresti. Gregoríus páfi níundi gaf út nokkur páfabréf gegn trúvillingum árið 1233, þeirra á meðal bréf gegn Lúsíferítum sem voru taldir djöfladýrkendur.

Sú trú að djöfullinn og illir andar gætu tekið sér bólfestu í fólki varð svo kveikjan að ofsóknarkennd — sjúklegum ótta við særingar og galdra — sem greip um sig meðal almennings. Galdraóttinn geisaði í Evrópu frá 13. öld fram á þá 17. og barst frá Evrópu til Norður-Ameríku með landnemum. Siðbótarmennirnir Marteinn Lúter og Jóhann Kalvín lögðu blessun sína yfir galdraofsóknir. Í Evrópu þurfti ekki annað en orðróm eða illgjarna ákæru til að fólk væri dregið fyrir veraldlegan dómstól eða rannsóknarréttinn. Oft var fólk pyndað til að játa „sekt“ sína.

Hægt var að dæma menn til dauða ef þeir voru fundnir sekir. Algengast var að brenna fórnarlömbin á báli en í Englandi og Skotlandi voru þau hengd. Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir að „sumir sagnfræðingar telji að frá 1487 til 1782 hafi hin kristna kirkja líflátið um 300.000 konur fyrir galdra.“ Ef það var Satan sem stóð að baki þessum harmleik miðalda, hver voru þá verkfæri hans? Voru það fórnarlömbin eða voru það trúarofstækismennirnir sem stóðu fyrir ofsóknunum?

Trú og vantrú okkar tíma

Á 18. öld náði skynsemistrúin yfirhöndinni með upplýsingarstefnunni sem svo er nefnd. Alfræðibókin Encyclopædia Britannica segir: „Heimspeki og guðfræði upplýsingarstefnunnar leitaðist við að ýta djöflinum út úr hugarheimi kristinna manna, á þeirri forsendu að hann væri goðsögulegur hugarburður miðalda.“ Rómversk-kaþólska kirkjan brást við þessu með því að staðfesta trú sína á tilvist djöfulsins á fyrsta Vatíkanþinginu (1869-70) og ítreka hana fremur varfærnislega á öðru Vatíkanþinginu (1962-65).

Opinberlega „trúir kirkjan á engla og illa anda,“ að sögn New Catholic Encyclopedia. Frönsk uppsláttarbók um kaþólska trú, nefnd Théo, viðurkennir hins vegar að „margir kristnir menn neiti nú að kenna djöflinum um illskuna í heiminum.“ Á síðustu árum hafa kaþólskir guðfræðingar dansað línudans milli hinnar opinberu kaþólsku kenningar og nútímahugsunar. „Frjálslynd kristin guðfræði vill líta á orð Biblíunnar um Satan sem óeiginlegt myndmál er ekki skuli tekið bókstaflega — sem goðsögulega tilraun til að skýra veruleikann og umfang illskunnar í alheiminum,“ segir Encyclopædia Britannica. Um mótmælendur segir hún: „Frjálslyndir mótmælendur okkar tíma hneigjast í þá átt að ekki sé nauðsynlegt að líta á djöfulinn sem persónu.“ En ættu sannkristnir menn að líta á orð Biblíunnar um Satan sem „óeiginlegt myndmál“?

Hvað kennir Biblían?

Heimspeki og guðfræði manna hafa ekki boðið fram betri skýringu en Biblían á uppruna illskunnar. Við þurfum að vita hvað Biblían segir um Satan til að geta skilið hvernig illska og þjáningar áttu upptök sín, og einnig til að skilja hvers vegna ólýsanlegt ofbeldi stigmagnast ár frá ári.

Einhver spyr kannski: ‚Ef Guð er góður og kærleiksríkur, hvernig gat hann þá skapað illa andaveru eins og Satan?‘ Biblían setur þá meginreglu að öll verk Jehóva Guðs séu fullkomin og að öllum viti bornum sköpunarverum hans sé gefinn frjáls vilji. (5. Mósebók 30:19; 32:4; Jósúabók 24:15; 1. Konungabók 18:21) Andaveran, sem varð Satan, hlýtur því að hafa verið sköpuð fullkomin og síðan farið af sjálfsdáðum út af vegi sannleika og réttlætis. — Jóhannes 8:44; Jakobsbréfið 1:14, 15.

Uppreisnarstefna Satans er að mörgu leyti hliðstæð stefnu ‚konungsins í Týrus‘ sem er á ljóðmáli kallaður „fullkominn að fegurð“ og ‚óaðfinnanlegur í breytni sinni frá þeim degi er hann var skapaður þar til yfirsjón fannst hjá honum.‘ (Esekíel 28:11-19) Satan véfengdi ekki yfirburði Jehóva sem skapara. Hvernig gat hann gert það þar sem hann var sjálfur sköpunarverk Guðs? Satan véfengdi hins vegar að Jehóva beitti drottinvaldi sínu rétt. Hann ýjaði að því í Eden að Guð meinaði fyrstu hjónunum að njóta einhvers sem þau ættu rétt á og vellíðan þeirra byggðist á. (1. Mósebók 3:1-5) Honum tókst að fá Adam og Evu til að rísa gegn réttlátu drottinvaldi Jehóva og kalla synd og dauða yfir sig og afkomendur sína. (1. Mósebók 3:6-19; Rómverjabréfið 5:12) Þannig sýnir Biblían að Satan er undirrót þjáninganna í mannheimi.

Einhvern tíma fyrir flóðið gengu aðrir englar til liðs við Satan. Þeir holdguðust sem menn til að fullnægja löngun sinni í kynlíf með dætrum mannanna. (1. Mósebók 6:1-4) Þegar flóðið brast á sneru þessir svikulu englar aftur yfir í andaheiminn en endurheimtu þá ekki ‚tign‘ sína hjá Guði á himnum heldur máttu dúsa í andlegu svartamyrkri. (Júdasarbréfið 6; 1. Pétursbréf 3:19, 20; 2. Pétursbréf 2:4) Þeir urðu illir andar og þjónuðu ekki lengur undir drottinvaldi Jehóva heldur undir stjórn Satans. Illu andarnir virðast ekki geta holdgast framar. Engu að síður hafa þeir mikið vald yfir hugum manna og lífi og bera eflaust mikla sök á því ofbeldi sem við horfum upp á núna. — Matteus 12:43-45; Lúkas 8:27-33.

Stjórn Satans tekur bráðlega enda

Það er ljóst að ill öfl eru að verki í heiminum núna. Jóhannes postuli skrifaði: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

Uppfylltir biblíuspádómar sýna samt sem áður að djöfullinn er að herða á hörmungum jarðar því að hann veit að hann hefur aðeins „nauman tíma“ til umráða áður en hann verður fjötraður. (Opinberunarbókin 12:7-12; 20:1-3) Þegar stjórn Satans tekur enda rennur upp réttlátur nýr heimur þar sem tár, dauði og kvalir ‚eru ekki framar til.‘ Þá verður vilji Guðs gerður „svo á jörðu sem á himni.“ — Opinberunarbókin 21:1-4; Matteus 6:10.

[Myndir á blaðsíðu 4]

Babýloníumenn trúðu á Nergal (lengst til vinstri) sem var ofbeldisguð; Platón (til vinstri) trúði að til væru tvær andstæðar „sálir.“

[Credit line]

Kefli: Musée du Louvre, París; Platón: National Archaeological Museum, Aþenu.

[Myndir á blaðsíðu 5]

Írenaeus, Origenes og Ágústínus kenndu að lausnargjaldið væri greitt djöflinum.

[Credit line]

Origenes: Culver Pictures; Ágústínus: Úr bókinni Great Men and Famous Women.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Galdraóttinn leiddi til þess að hundruð þúsunda manna voru tekin af lífi.

[Credit line]

Úr bókinni Bildersaal deutscher Geschichte.