Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Sjötíumannaþýðingin“ — gagnsemi hennar í fortíð og nútíð

„Sjötíumannaþýðingin“ — gagnsemi hennar í fortíð og nútíð

„Sjötíumannaþýðingin“ — gagnsemi hennar í fortíð og nútíð

HÁTTSETTUR maður frá Eþíópíu var á heimleið frá Jerúsalem. Þar sem hann fór eftir óbyggðavegi í vagni sínum las hann upphátt upp úr bókrollu. Útskýringarnar á því sem hann las höfðu slík áhrif á hann að líf hans breyttist upp frá því. (Postulasagan 8:26-38) Maðurinn var að lesa Jesaja 53:7, 8 í fyrstu þýðingu Biblíunnar — grísku Sjötíumannaþýðingunni. Öldum saman hefur þetta verk gengt svo þýðingarmiklu hlutverki í að breiða út boðskap Biblíunnar að það hefur verið kallað biblíuþýðingin sem breytti heiminum.

Hvenær og undir hvaða kringumstæðum varð Sjötíumannaþýðingin til? Hvers vegna var þörf á slíkri þýðingu? Hve gagnleg hefur hún reynst vera í aldanna rás? Hvað getur Sjötíumannaþýðingin kennt okkur yfirhöfuð nú á tímum?

Gerð fyrir grískumælandi Gyðinga

Alexander mikla var fagnað sem frelsara þegar hann gekk fylktu liði inn í Egyptaland árið 332 f.o.t. eftir að hafa lagt í eyði fönikísku borgina Týrus. Þar setti hann á stofn borgina Alexandríu sem var menntasetur til forna. Þar sem Alexander langaði til að útbreiða gríska menningu meðal fólks í sigruðu löndunum innleiddi hann almenna grísku (koine) um allt hið víðáttumikla ríki sitt.

Á þriðju öld f.o.t. var fjöldi Gyðinga orðinn búsettur í Alexandríu. Margir höfðu flust þangað en höfðu áður átt heima í hinum dreifðu nýlendum utan Palestínu eftir herleiðinguna til Babýlonar. Hve mikið kunnu þessir Gyðingar í hebresku? Í Cyclopedia McClintocks og Strongs segir: „Það er vel þekkt að eftir að Gyðingar sneru til baka úr ánauðinni í Babýlon hafi upplestur úr Mósebókunum í samkunduhúsunum í Palestínu verið skýrður út fyrir þeim á máli Kaldea þar sem þeir höfðu að mestu týnt niður almennri kunnáttu í fornhebresku . . . Gyðingar í Alexandríu kunnu sennilega enn minna í hebresku; þeir voru vanir grískunni þar.“ Greinilega bauð andrúmsloftið í Alexandríu upp á að Hebresku ritningarnar yrðu þýddar á grísku.

Aristóbúlus, Gyðingur sem var uppi á annarri öld f.o.t., skrifaði að útgáfa af hebresku lögunum hafi verið þýdd á grísku og henni hafi verið lokið í stjórnartíð Ptólemeosar Fíladelfosar (285-246 f.o.t.) Skiptar skoðanir eru á því hvað Aristóbúlus hafi átti við með „lögum.“ Sumir álíta að hann hafi einungis átt við Mósebækurnar en aðrir telja að hann gæti hafa átt við Hebresku ritningarnar í heild.

Hvað sem því líður segja heimildir að 72 fræðimenn meðal Gyðinga hafi gert þessa fyrstu rituðu þýðingu á Ritningunni úr hebresku á grísku. Síðar var talan námunduð í 70. Þess vegna var þýðingin kölluð Sjötíumannaþýðingin og er merkt LXX sem er rómverska talan fyrir 70. Í lok annarrar aldar f.o.t. var hægt að lesa allar bækur Hebresku ritninganna á grísku. Þannig vísaði nafnið Sjötíumannaþýðing til allra Hebresku ritninganna sem þýddar voru á grísku

Gagnleg á fyrstu öldinni

Sjötíumannaþýðingin var mjög mikið notuð af grískumælandi Gyðingum fyrir daga Jesú Krists og á dögum hans og postulanna. Margir Gyðinganna og heiðingjanna, sem komu saman í Jerúsalem á hvítasunnunni árið 33, voru frá Asíu, Egyptalandi, Líbýu, Róm og Krít — svæðum þar sem fólk talaði grísku. Enginn vafi leikur á því að þeir voru vanir að lesa í Sjötíumannaþýðingunni. (Postulasagan 2:9-11) Þessi þýðing kom því að góðum notum við að breiða út fagnaðarerindið á fyrstu öldinni.

Lærisveinninn Stefán sagði til dæmis þegar hann talaði við menn frá Kýrene, Alexandríu, Kilikíu og Asíu: „Jósef sendi eftir Jakobi föður sínum [í Kanaan] og öllu ættfólki sínu, sjötíu og fimm manns.“ (Postulasagan 6:8-10; 7:12-14) Hebreski textinn í 1. Mósebók 46. kafla getur um að ættmenn Jósefs hafi verið sjötíu að tölu. En Sjötíumannaþýðingin notar töluna sjötíu og fimm. Stefán vitnar greinilega í Sjötíumannaþýðinguna. — 1. Mósebók 46:20, 26, 27.

Páll postuli prédikaði fyrir mörgum ‚guðræknum Grikkjum‘ og heiðingjum sem óttuðust Guð er hann fór um Litlu-Asíu og Grikkland í annarri og þriðju trúboðsferð sinni. (Postulasagan 13:16, 26; 17:4) Þetta fólk fór að óttast Guð eða tilbiðja hann af því að það hafði fengið nokkra þekkingu á honum frá Sjötíumannaþýðingunni. Þegar Páll prédikaði fyrir þessu grískumælandi fólki vitnaði hann oft í hluta þeirrar þýðingar eða umorðaði texta hennar. — 1. Mósebók 22:18; Galatabréfið 3:8.

Í kristnu Grísku ritningunum eru um 320 beinar tilvitnanir og samanlagt má segja að 890 tilvitnanir og tilvísanir séu í Hebresku ritningarnar. Flestar þeirra eru byggðar á Sjötíumannaþýðingunni. Þar af leiðandi urðu tilvitnanirnar í þessa þýðingu en ekki hebresku handritin hluti af hinum innblásnu kristnu Grísku ritningum. Þetta var mjög þýðingarmikil staðreynd. Jesús hafði sagt fyrir að fagnaðarerindið um Guðsríki yrði prédikað um alla heimsbyggðina. (Matteus 24:14) Þessu til uppfyllingar leyfði Jehóva að innblásið orð sitt yrði þýtt á hin ýmsu tungumál sem fólk gat lesið út um allan heim.

Gagnleg nú á tímum

Sjötíumannaþýðingin er gagnleg enn í dag og er notuð til að afhjúpa afritunarvillur sem hafa getað læðst inn í síðari tíma afrit af hebreskum handritum. Má sem dæmi nefna að í frásögunni í 1. Mósebók 4:8 stendur: „Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: [‚Göngum út á akurinn!‘] Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann.“

Setninguna innan hornklofans „göngum út á akurinn“ er ekki að finna í hebreskum handritum frá 10. öld. Samt sem áður er hún til staðar í eldri handritum af Sjötíumannaþýðingunni og í fáeinum öðrum fornum ritum. Í hebreska textanum er orð sem er oftast undanfari beinnar ræðu en engin orð koma í kjölfarið. Hvað gæti hafa gerst? Í 1. Mósebók 4:8 eru tvær setningar hvor á eftir annarri sem enda á „út á akurinn/á akrinum.“ Í Cyclopedia McClintocks og Strongs er sett fram tilgáta: „Auga hebreska afritarans hefur líklega leiðst afvega vegna þess að [sama] orðið . . . er í lok beggja setninganna. Þess vegna gæti afritarinn hafa litið fram hjá og sleppt fyrri setningunni sem endar á ‚út á akurinn.‘ Greinilega getur Sjötíumannaþýðingin, auk annarra handrita sem hafa varðveist, verið gagnleg til þess að greina villur í síðari afritum af hebreska textanum.

Hins vegar geta einnig verið villur í afritum af Sjötíumannaþýðingunni og stundum er vísað í hebreska textann til þess að leiðrétta þann gríska. Með samanburði á hebresku handritunum og þeim grísku og á þýðingum á önnur tungumál má finna bæði þýðingarvillur og mistök afritara sem tryggir að orð Guðs komist nákvæmlega til skila.

Til eru afrit af Sjötíumannaþýðingunni í heild allt frá fjórðu öld f.o.t. Þessi handrit og síðari afrit hafa ekki að geyma nafn Guðs, Jehóva, sem dregið er af hebreska fjórstafanafninu (JHVH). Í þessum handritum hafa grísku orðin fyrir „Guð“ og „Drottinn“ alls staðar verið sett í stað fjórstafanafnsins þar sem það stendur í hebreska textanum. En fundur í Palestínu fyrir hér um bil hálfri öld varpaði ljósi á málið. Vinnuhópur, sem vann að því að rannsaka hella nálægt vesturströnd Dauðahafs, fann slitur úr fornum skinnbókum spámannanna 12 (Hósea til og með Malakí) ritaðar á grísku. Þessi rit náðu yfir tímabilið frá því 50 f.o.t. til 50 e.o.t. Í þessum fyrri handritabrotum höfðu grísku orðin fyrir „Guð“ og „Drottinn“ ekki verið sett í staðinn fyrir fjórstafanafnið. Þar með var staðfest að nafn Guðs hafði staðið í fyrri þýðingum Sjötíumannaþýðingarinnar á Ritningunni.

Árið 1971 birtist útgáfa af handritabroti úr fornri bókrollu úr papírusi (Fouad 266). Hvað leiddi þessi hluti Sjötíumannaþýðingarinnar frá annarri eða fyrstu öldinni f.o.t. í ljós? Nafn Guðs var einnig varðveitt í þeim. Þessi fornu handritabrot frá Sjötíumannaþýðingunni eru sterk sönnun fyrir því að Jesús og lærisveinar hans á fyrstu öld hafi þekkt og notað nafn Guðs.

Nú á tímum hefur engin bók í sögunni verið þýdd á jafnmörg tungumál og Biblían. Yfir 90 af hundraði mannkyns hafa í það minnsta aðgang að hluta af henni á eigin tungumáli. Við erum sérstaklega þakklát fyrir Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar, sem er nákvæm nútímaþýðing og er fáanleg í heild eða að hluta á yfir 40 tungumálum. Í Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar — með tilvísunum eru hundruð neðanmálsvísana í Sjötíumannaþýðinguna og önnur forn handrit. Vissulega er Sjötíumannaþýðingin áhugaverð og hefur mikið gildi fyrir biblíunemendur nú á tímum.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Lærisveinninn Filippus skýrði út kafla sem lesinn var upp úr „Sjötíumannaþýðingunni.“

[Mynd á blaðsíðu 32]

Páll postuli vitnaði oft í „Sjötíumannaþýðinguna.“