Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Standið gegn djöflinum“

„Standið gegn djöflinum“

„Standið gegn djöflinum“

„Standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 4:7.

1. Hvað má segja um heim nútímans og hvers vegna þurfa hinir smurðu og félagar þeirra að vera árvakrir?

„GUÐ er horfinn en djöfullinn ekki.“ Það mætti vel heimfæra þessi orð franska rithöfundarins André Malraux upp á þann heim sem við búum í, því að mannanna verk virðast frekar endurspegla vélabrögð djöfulsins en vilja Guðs. Satan leiðir mennina afvega „með miklum krafti, lygatáknum og undrum og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast.“ (2. Þessaloníkubréf 2:9, 10) Núna á „síðustu dögum“ beinir Satan öllum kröftum sínum að vígðum þjónum Guðs. Hann heyr stríð gegn smurðum kristnum mönnum sem „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1; Opinberunarbókin 12:9, 17) Þessir smurðu vottar og félagar þeirra með jarðneska von þurfa að vera árvakrir.

2. Hvernig tældi Satan Evu og hvað óttaðist Páll postuli?

2 Satan er alger blekkingameistari. Hann beitti fyrir sig höggormi og taldi Evu trú um að hún yrði hamingjusamari ef hún yrði óháð Guði. (1. Mósebók 3:1-6) Um fjögur þúsund árum síðar lét Páll postuli í ljós að hann óttaðist að smurðir kristnir menn í Korintu myndu láta blekkjast af vélabrögðum Satans. Hann skrifaði: „Ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.“ (2. Korintubréf 11:3) Satan spillir hugum manna og brenglar hugsun þeirra. Hann getur, alveg eins og hann tældi Evu, komið kristnum mönnum til að telja sér trú um að hamingjan sé háð einhverju sem Jehóva og sonur hans hafa vanþóknun á.

3. Hvaða vernd veitir Jehóva gegn djöflinum?

3 Það má líkja Satan við fuglaveiðara sem leggur gildrur fyrir grunlausa bráð. Til að forðast gildrur hans þurfum við að ‚sitja í skjóli Hins hæsta‘ en það er táknrænn staður þar sem Jehóva verndar þá sem sýna í öllu að þeir virða drottinvald hans yfir alheimi. (Sálmur 91:1-3) Til að ‚standast vélabrögð djöfulsins‘ þurfum við alla þá vernd sem Guð lætur í té með orði sínu, anda og skipulagi. (Efesusbréfið 6:11) Gríska orðið, sem þýtt er „vélabrögð,“ má einnig þýða „klækjabrögð“ eða „prettir.“ Djöfullinn beitir óneitanlega alls konar prettum og klækjabrögðum til að reyna að tæla þjóna Jehóva.

Gildrur sem Satan lagði fyrir frumkristna menn

4. Í hvers konar umhverfi bjuggu frumkristnir menn?

4 Rómaveldi var á blómaskeiði sínu á fyrstu og annarri öld, á tíma frumkristninnar. Rómarfriðurinn, Pax Romana, stuðlaði að blómlegri verslun og velmegun sem veitti valdastéttinni rúman frítíma. Valdhafarnir sáu svo til þess að fjöldinn gæti skemmt sér nóg þannig að ekki kæmi til uppreisnar. Á tímabilum voru opinberir frídagar jafnmargir virkum dögum. Leiðtogarnir notuðu almannafé til að gefa fólki „brauð og leika“ til að seðja magann og friða hugann.

5, 6. (a) Hvers vegna var það ekki viðeigandi fyrir kristna menn að stunda leikhús og hringleikahús Rómverja? (b) Hvaða bragði beitti Satan og hvernig gátu kristnir menn séð við því?

5 Stafaði frumkristnum mönnum hætta af þessu umhverfi? Ef marka má varnaðarorð kristinna rithöfunda skömmu eftir postulatímann, svo sem Tertúllíanusar, stafaði sannkristnum mönnum andleg og siðferðileg hætta af flestri tómstundaiðju samtíðarinnar. Það kom meðal annars til af því að flestar opinberar hátíðir og leikar voru haldnir til heiðurs heiðnum guðum. (2. Korintubréf 6:14-18) Mörg hinna klassísku leikrita voru annaðhvort gróflega siðlaus eða afar ofbeldisfull. Þegar tímar liðu dvínaði áhugi almennings á klassísku verkunum og við tóku lostafull látbragðsverk. Sagnfræðingurinn Jérôme Carcopino segir í bók sinni, Daily Life in Ancient Rome: „Leikkonur í þessum hermileikjum máttu afklæðast alveg . . . Blóði var úthellt í stórum stíl. . . . [Látbragðsleikurinn] gjörnýtti þá siðspillingu sem hafði heltekið alþýðu manna í höfuðborginni. Menn klígjaði ekki við þessum grófu sýningum því að hinar hryllilegu blóðsúthellingar hringleikahússins voru löngu búnar að svæfa tilfinningar þeirra og brengla eðlishvatirnar.“ — Matteus 5:27, 28.

6 Skylmingaþrælar börðust upp á líf og dauða í hringleikahúsinu, hver við annan eða við villidýr, til að drepa eða vera drepnir. Dæmdum glæpamönnum var kastað fyrir grimm villidýr og síðar mörgum kristnum mönnum einnig. Strax á þeim tíma beitti Satan því bragði að slæva andúð fólks á siðleysi og ofbeldi uns það varð hversdagslegt og almenningur sóttist eftir því. Eina leiðin til að lenda ekki í gildrunni var að halda sig frá leikhúsinu og hringleikahúsinu. — 1. Korintubréf 15:32, 33.

7, 8. (a) Af hverju hefði verið óhyggilegt af kristnum manni að horfa á kappreiðar? (b) Hvernig hefði Satan getað notað rómversku baðhúsin til að klófesta kristna menn?

7 Kappreiðar voru haldnar á stórum, ílöngum leikvöngum og voru eflaust mjög spennandi, en kristnir menn áttu ekki heima þar vegna þess ofbeldis sem oft greip um sig meðal mannfjöldans. Rithöfundur á þriðju öld greinir frá því að komið hafi til slagsmála meðal áhorfenda og Carcopino segir að „stjörnuspekingar og vændiskonur hafi stundað viðskipti sín“ undir bogagöngum leikvanganna. Ljóst er að kristnir menn áttu ekki heima á rómverska leikvanginum. — 1. Korintubréf 6:9, 10.

8 Hvað um hin frægu, rómversku baðhús? Það var auðvitað ekkert að því að baða sig í hreinlætisskyni. En rómversku baðhúsin voru, sum hver, heilar stofnanir með nuddherbergjum, íþróttasölum, fjárhættuspilaherbergjum og veitingasölum. Samkvæmt reglunni var ákveðinn tími ætlaður hvoru kyni í baðhúsunum en í reynd var það látið viðgangast að bæði kynin notuðu baðhúsin á sama tíma. Klemens frá Alexandríu skrifaði: „Böðin eru opin jafnt körlum sem konum sem eru nakin til lostafullra nautna.“ Satan gat því hæglega notað góða og gilda stofnun sem gildru fyrir kristna menn. Hinir vitru sniðgengu baðhúsin.

9. Hvaða gildrur þurftu frumkristnir menn að forðast?

9 Fjárhættuspil áttu miklum vinsældum að fagna á blómaskeiði Rómaveldis. Frumkristnir menn gátu forðast veðmál kappreiðanna með því að halda sig einfaldlega fjarri leikvöngunum. Ólögleg fjárhættuspil voru stunduð í smærri mæli í bakherbergjum veitingahúsa og gistikráa. Spilararnir veðjuðu á það hvort mótspilarinn væri með jafna tölu eða oddatölu af steinvölum eða kjúkubeinum í hendi sér. Fjárhættuspilin krydduðu tilveru fólksins því að þau gáfu von um auðfengið fé. (Efesusbréfið 5:5) Og oft stunduðu barþernur á þessum stöðum vændi sem jók hættuna á siðleysi. Þannig voru sumar af gildrunum sem Satan egndi fyrir kristna menn í borgum Rómaveldis. Er nútíminn svo frábrugðinn þessu?

Gildrur Satans nú á tímum

10. Hvað er líkt með nútímanum og Rómaveldi?

10 Brögð Satans hafa lítið breyst í aldanna rás. Korintuborg var ákaflega spillt þannig að Páll postuli gaf kristnum mönnum þar í borg alvarlegar leiðbeiningar til að þeir yrðu ekki „vélaðir af Satan.“ Páll sagði: „Ekki er oss ókunnugt um vélráð hans.“ (2. Korintubréf 2:11) Í mörgum iðnríkjum heims er ástandið áþekkt því sem var í Rómaveldi á blómaskeiði þess. Margir hafa meiri frítíma en nokkru sinni fyrr. Ríkisrekin happdrætti veita jafnvel fátækum vonarneista. Mikið framboð er af ódýru skemmtiefni til að halda fólki uppteknu. Íþróttaleikvangar eru troðfullir, fólk stundar veðmál, stundum kemur til átaka meðal áhorfenda og oft meðal íþróttamanna. Spillandi tónlist glymur í eyrum fólks og lostafull verk eru sýnd á leiksviði, í kvikmyndahúsum og í sjónvarpi. Í sumum löndum er algengt að bæði kynin stundi saman gufuböð og heitar laugar án sundfata, og hið sama er að segja um baðstrendur sums staðar. Satan reynir að tæla þjóna Guðs með veraldlegri tómstundaiðju líkt og á fyrstu öldum kristninnar.

11. Hvaða gildra er fólgin í lönguninni til að slaka á?

11 Þar sem álag umheimsins er mikið er eðlilegt að finna fyrir því að maður þurfi að slaka á eða gera sér dagamun. En sumir orlofs- og ferðamannastaðir hafa reynst vera gildra sem Satan notar til að leiða kristna menn út í siðleysi eða ofneyslu áfengis, rétt eins og rómversku baðhúsin gátu reynst frumkristnum mönnum hættuleg sökum þess sem fór þar fram. Páll skrifaði kristnum mönnum í Korintu: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum. Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði.“ — 1. Korintubréf 15:33, 34.

12. Hvaða brögðum beitir Satan meðal annars til að klófesta þjóna Jehóva nú á tímum?

12 Eins og við höfum séð beitti Satan slægð til að spilla hugsun Evu. (2. Korintubréf 11:3) Ein af þeim snörum, sem djöfullinn egnir núna, er að telja kristnum mönnum trú um að þeir geti laðað fólk til sannleikans ef þeir leggja sig í líma við að sýna fram á að vottar Jehóva séu eins og allir aðrir menn. Stundum ganga þeir of langt og hið gagnstæða gerist. (Haggaí 2:12-14) Annað bragð Satans er að fá vígða kristna menn, bæði unglinga og fullorðna, til að lifa tvöföldu lífi og ‚hryggja Guðs heilaga anda.‘ (Efesusbréfið 4:30) Sumir hafa fallið í þessa gildru með því að misnota sér Netið.

13. Hvaða dulbúna snöru leggur Satan víða og hvaða ráðlegging Orðskviðanna á hér við?

13 Dulbúið andakukl er enn ein snara Satans. Enginn sannkristinn maður myndi af ásettu ráði koma nálægt Satansdýrkun eða spíritisma. Sumir eru hins vegar óvarkárir gagnvart kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, tölvuleikjum og jafnvel barnabókum og myndasögum þar sem ofbeldi eða dulrænum fyrirbærum er haldið á loft. Það er nauðsynlegt að forðast hvaðeina sem ber keim af dulspeki. „Þyrnar, snörur, eru á vegi hins undirförula, sá sem varðveitir líf sitt, kemur ekki nærri þeim,“ segir viturlegur orðskviður. (Orðskviðirnir 22:5) Þar sem Satan er „guð þessarar aldar“ má búast við að hann leggi gildrur sínar innan um allt sem er sérstaklega vinsælt. — 2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16.

Jesús stóð gegn djöflinum

14. Hvernig stóðst Jesús fyrstu freistingu djöfulsins?

14 Jesús er góð fyrirmynd um að standa gegn djöflinum þannig að hann flýi af hólmi. Satan freistaði hans eftir að hann var skírður og hafði fastað í 40 daga. (Matteus 4:1-11) Í fyrstu freistingunni reyndi Satan að notfæra sér eðlilegt hungur Jesú vegna föstunnar og hvatti hann til að vinna fyrsta kraftaverkið til að fullnægja líkamlegri þörf. Jesús tók andlega fæðu fram yfir líkamlega, vísaði í 5. Mósebók 8:3 og neitaði að nota mátt sinn í eigingjörnum tilgangi.

15. (a) Hvaða eðlilega löngun reyndi Satan að notfæra sér til að freista Jesú? (b) Hvaða freistingu leggur djöfullinn helst fyrir þjóna Guðs nú á tímum en hvernig getum við staðið gegn honum?

15 Það er athyglisvert að djöfullinn reyndi ekki að fá Jesú til að fremja siðferðisbrot. Hungrið, sem vekur eðlilega löngun í mat, virtist vera sterkasta löngunin sem hægt var að nota til að freista Jesú í þessu tilfelli. Hvernig reynir djöfullinn að freista fólks Guðs nú á tímum? Það er með margvíslegum hætti en siðferðilegar freistingar eru eitt helsta bragðið til að reyna að spilla ráðvendni þjóna Jehóva. Við getum staðið gegn djöflinum og staðist freistingar með því að líkja eftir Jesú. Hann ónýtti tilraunir Satans með því að rifja upp viðeigandi ritningarstaði, og við getum gert slíkt hið sama þegar okkar er freistað og rifjað upp ritningarstaði eins og 1. Mósebók 39:9 og 1. Korintubréf 6:18.

16. (a) Hvernig freistaði Satan Jesú öðru sinni? (b) Hvernig gæti Satan reynt að tæla okkur til að freista Jehóva?

16 Næst skoraði djöfullinn á Jesú að stökkva fram af musterisveggnum og láta reyna á hvort Guð notaði engla sína til að vernda hann. Jesús vitnaði í 5. Mósebók 6:16 og neitaði að freista föður síns. Satan reynir kannski ekki að fá okkur til að stökkva fram af musterisvegg en hann getur reynt að tæla okkur til að freista Jehóva. Finnst okkur freistandi að sjá hve langt við getum gengið í að elta veraldlega tísku í snyrtingu og klæðaburði án þess að fá tiltal? Finnst okkur vafasamt skemmtiefni freistandi? Þá gætum við verið að freista Jehóva. Ef við höfum slíkar tilhneigingar gæti Satan dokað við í stað þess að flýja frá okkur, og reynt linnulaust að tæla okkur til að taka afstöðu með sér.

17. (a) Hvernig freistaði djöfullinn Jesú í þriðja sinni? (b) Hvernig getur Jakobsbréfið 4:7 ræst á okkur?

17 Þegar Satan bauð Jesú öll ríki heims í skiptum fyrir eina tilbeiðsluathöfn stóð Jesús enn sem fyrr gegn honum með því að vitna í Ritninguna. Hann var einbeittur í því að tilbiðja engan nema föður sinn. (5. Mósebók 5:9; 6:13; 10:20) Satan býður okkur tæplega öll ríki heims, en hann freistar okkar linnulaust með táli efnishyggjunnar og reynir jafnvel að koma þeirri hugmynd inn hjá okkur að við getum búið okkur til okkar eigið „ríki.“ Eru viðbrögð okkar þau sömu og Jesú? Sýnum við Jehóva óskipta hollustu? Ef svo er gerist það sama og gerðist hjá Jesú. Matteus segir: „Þá fór djöfullinn frá Jesú.“ (Matteus 4:11) Satan yfirgefur okkur ef við tökum eindregna afstöðu gegn honum með því að rifja upp viðeigandi meginreglur í Biblíunni og fara eftir þeim. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ (Jakobsbréfið 4:7) Trúbróðir okkar skrifaði deildarskrifstofu Votta Jehóva í Frakklandi: „Satan er feikilega slóttugur. Þrátt fyrir góðan ásetning finnst mér mjög erfitt að ráða við tilfinningar mínar og langanir. Með hugrekki, þolinmæði og síðast en ekki síst, með hjálp Jehóva, hefur mér samt tekist að vera trúfastur og halda mig fast við sannleikann.“

Albúin til að standa gegn djöflinum

18. Hvaða andleg herklæði getum við notað til að verjast djöflinum?

18 Jehóva hefur látið okkur í té alvæpni sitt til að við getum „staðist vélabrögð djöfulsins.“ (Efesusbréfið 6:11-18) Kærleikurinn til sannleikans gyrðir lendar okkar svo að við erum reiðubúin til kristinna starfa. Staðfesta okkar í að fylgja réttlætisstöðlum Jehóva verndar hjartað eins og brynja. Ef við erum skóuð fagnaðarerindinu bera fæturnir okkur reglulega út í boðunarstarfið og það styrkir okkur og verndar andlega. Sterk trú er eins og stór skjöldur sem ver okkur fyrir ‚eldlegum skeytum hins vonda,‘ það er að segja lævísum árásum hans og freistingum. Hin örugga von um að Jehóva uppfylli fyrirheit sín er eins og hjálmur sem verndar hugsunina og veitir okkur hugarfrið. (Filippíbréfið 4:7) Ef við verðum leikin í að fara rétt með orð Guðs verður það eins og sverð sem við getum notað til að frelsa fólk úr fjötrum Satans. Við getum líka beitt því til að verja okkur eins og Jesús gerði þegar hans var freistað.

19. Hvað er nauðsynlegt auk þess að ‚standa gegn djöflinum‘?

19 Ef við varðveitum „alvæpni Guðs“ og erum bænrækin getum við treyst á vernd Jehóva þegar Satan gerir árás. (Jóhannes 17:15; 1. Korintubréf 10:13) En Jakob benti á að það sé ekki nóg að ‚standa gegn djöflinum.‘ Það er ekki síður mikilvægt að við ‚gefum okkur Guði á vald‘ því að hann ber umhyggju fyrir okkur. (Jakobsbréfið 4:7, 8) Hvernig förum við að því? Greinin á eftir fjallar um það.

Hvert er svarið?

• Hvaða gildrur Satans þurftu frumkristnir menn að forðast?

• Hvaða brögðum beitir Satan til að reyna að klófesta þjóna Jehóva nú á tímum?

• Hvernig stóðst Jesús freistingar djöfulsins?

• Hvaða andlegt alvæpni gerir okkur kleift að standa gegn djöflinum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8, 9]

Jesús stóð einbeittur gegn djöflinum.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Kristnir menn á fyrstu öld höfnuðu ofbeldisfullri og siðlausri afþreyingu.

[Credit line]

The Complete Encyclopedia of Illustration/J. G. Heck.