Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fæðing Jesú — hvernig átti hún sér stað og hvers vegna?

Fæðing Jesú — hvernig átti hún sér stað og hvers vegna?

Fæðing Jesú — hvernig átti hún sér stað og hvers vegna?

„ÓHUGSANDI!“ Mörgum ókristnum mönnum verður þetta að orði þegar þeir heyra söguna um fæðingu Jesú. Þeim finnst óvísindalegt að trúa því að hrein mey hafi getað orðið þunguð og alið son án þess að mannlegur faðir kæmi við sögu. Hvað finnst þér?

Árið 1984 birti Lundúnablaðið The Times bréf um þetta mál þar sem sagði meðal annars: „Það er ekki rökrétt að nota vísindi til að mæla á móti kraftaverkum. Það er alveg eins mikið trúaratriði að trúa því að kraftaverk geti ekki átt sér stað og trúa því að þau geti gerst.“ Bréfið var undirritað af 14 vísindaprófessorum við breskan háskóla. Þeir sögðu: „Við viðurkennum fúslega meyjarfæðinguna, kraftaverkin í guðspjöllunum og upprisu Krists sem sögulega atburði.“

En samt er skiljanlegt að fólk verði undrandi þegar það heyrir söguna um meyjarfæðingu Jesú í fyrsta sinn. Móðir Jesú, sem var hrein mey, varð sjálf undrandi þegar engill Guðs sagði: „Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ.“ „Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“ spurði María. Engillinn útskýrði þá að Guð ætlaði að gera þetta kraftaverk með aðstoð heilags anda síns og bætti við: „Guði er enginn hlutur um megn.“ (Lúkas 1:31, 34-37) Sá sem gæti skapað hið undraverða æxlunarferli mannsins hlaut að geta látið Jesú fæðast af hreinni mey. Hafi Guð skapað alheiminn og lögmál hans, sem eru stillt af svo mikilli nákvæmni, hefur hann einnig getað notað eggfrumu úr eggjastokk Maríu til að skapa fullkominn son.

Vegna hvers var það nauðsynlegt?

Jósef, sem var guðrækinn maður, var heitbundinn Maríu um það leyti sem hún varð þunguð. Engill Guðs sagði Jósef í draumi frá ástæðunni fyrir því að heitkona hans væri barnshafandi. Engillinn sagði: „Óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.“ (Matteus 1:20, 21) Nafnið Jesús á hebresku merkir „Jehóva er hjálpræði.“ Það minnir okkur á þörfina fyrir hjálpræði frá synd og dauða og ráðstafanir Jehóva Guðs til að veita slíkt hjálpræði fyrir milligöngu Jesú.

Vegna þess að fyrsti maðurinn, Adam, syndgaði fæddust allir afkomendur hans ófullkomnir, með tilhneigingu til að brjóta lög Guðs. (Rómverjabréfið 5:12) Hvernig var hægt að bjarga afkomendum Adams frá synd svo að þeir gætu öðlast fullkomnun? Til þess að jafna vogarskálar réttlætisins varð að gjalda með öðru fullkomnu mannslífi sem jafngilti lífi Adams. Þess vegna lét Guð Jesú fæðast með yfirnáttúrulegum hætti og það var þess vegna sem Jesús leyfði óvinum sínum að lífláta sig. (Jóhannes 10:17, 18; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Eftir að hann reis upp frá dauðum og steig upp til himna gat hann sagt með fullri vissu: „Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar [sameiginlegrar grafar mannkyns].“ — Opinberunarbókin 1:18.

Með táknrænum lyklum dauðans og heljar opnar Jesús leiðina fyrir syndugt mannkyn til að endurheimta það sem Adam missti. Jesús sagði: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ (Jóhannes 11:25, 26) En dásamlegt loforð! Samt er enn stórkostlegri ástæða fyrir fæðingu Jesú.

Enn stórkostlegri ástæða

Líf Jesú hófst ekki með getnaði í móðurkviði Maríu. „Ég er stiginn niður af himni,“ sagði hann skýrum orðum. (Jóhannes 6:38) Jesús hafði lifað á andlegu tilverusviði með himneskum föður sínum frá upphafi sköpunarinnar. Biblían lýsir honum því sem „upphafi Guðs.“ (Opinberunarbókin 3:14) Frá himni varð Jesús vitni að uppreisn ills engils sem sneri fyrstu mönnunum á móti lögum Guðs. Það gaf Jesú mikilvægustu ástæðuna fyrir því að fæðast sem fullkominn, mennskur sonur Guðs. Hver var hún?

Hún var sú að sanna að himneskur faðir hans hafi réttinn til að ríkja yfir alheiminum. Með því að vera trúfastur allt frá fæðingu til dauðadags sýndi Jesús að hann væri fús til að vera undirgefinn stjórnarháttum Jehóva yfir sköpunarverum sínum. Áður en Jesús lét lífið fyrir hendi óvina Guðs sagði hann berum orðum hvers vegna hann væri fús til að halda út allt til enda og líða fórnardauða. „Heimurinn á að sjá, að ég elska föðurinn,“ sagði hann. (Jóhannes 14:31) Hefðu fyrstu manneskjurnar, Adam og Eva, ræktað með sér slíkan kærleika hefðu þær getað reynst trúfastar í prófraun sinni sem var miklu léttari. — 1. Mósebók 2:15-17.

Trúfesti Jesú fletti einnig ofan af illa englinum, Satan, og sýndi fram á að hann væri lygari. Satan hafði rægt Guð og menn með því að staðhæfa frammi fyrir englunum á himni: „Fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á.“ (Jobsbók 2:1, 4) Satan hafði ranglega komið með þá ásökun að allir menn myndu óhlýðnast Guði til að bjarga lífi sínu.

Með þessum ásökunum véfengdi Satan að stjórn Guðs væri réttmæt og réttlát. Til að útkljá þetta var Jesús fús til að fæðast sem maður og reynast trúfastur allt til dauða.

Eins og Jesús sagði sjálfur var því aðalástæðan fyrir fæðingu hans á jörðinni sú ‚að hann átti að bera sannleikanum vitni.‘ (Jóhannes 18:37) Hann gerði það með því að sýna í orði og verki að stjórn Guðs er að öllu leyti réttlát og að undirgefni við hana leiðir til eilífrar hamingju. Jesús sagðist einnig hafa komið í heiminn til að gefa líf sitt til „lausnargjalds fyrir marga,“ með því að opna syndugum mönnum leiðina til að öðlast fullkomleika og eilíft líf. (Markús 10:45) Það var nauðsynlegt að skrásetja fæðingu Jesú til þess að skilja þessi mikilvægu mál. Þar að auki eru atburðir, sem tengjast fæðingu hans, á margan annan hátt lærdómsríkir eins og fram kemur í næstu grein.

[Myndir á blaðsíðu 4]

Hvernig var hægt að bjarga afkomendum Adams frá syndinni?