Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Temdu þér hlýðni er endirinn nálgast

Temdu þér hlýðni er endirinn nálgast

Temdu þér hlýðni er endirinn nálgast

‚Honum [Síló] eiga þjóðirnar að hlýða.‘ — 1. MÓSEBÓK 49:10, NW.

1. (a) Hvað var oft fólgið í því að hlýða Jehóva hér áður fyrr? (b) Hvaða spádóm bar Jakob fram sem tengdist hlýðni?

HLÝÐNI við Jehóva hefur oft falið í sér að hlýða fulltrúum hans, svo sem englum, ættfeðrum, dómurum, prestum, spámönnum og konungum. Hásæti Ísraelskonunga var jafnvel kallað hásæti Jehóva. (1. Kroníkubók 29:23, NW) En því miður óhlýðnuðust margir af stjórnendum Ísraels Guði og kölluðu ógæfu yfir sjálfa sig og þegna sína. En Jehóva skildi trúfasta menn ekki eftir án vonar. Hann hughreysti þá og lofaði þeim að setja í embætti áreiðanlegan konung sem réttlátir menn myndu hlýða með gleði. (Jesaja 9:6, 7) Á dánarbeði sínu bar ættfaðirinn Jakob fram spádóm um þennan framtíðarstjórnanda og sagði: „Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd [„honum eiga þjóðirnar að hlýða,“ NW].“ — 1. Mósebók 49:10.

2. Hvað þýðir orðið „Síló“ og yfir hverjum átti hann að ríkja?

2 „Síló“ er herbreskt orð sem þýðir „hann hvers það er“ eða „hann sem það tilheyrir.“ Já, Síló fengi í arf hvorki meira né minna en réttinn til að stjórna, sem veldissprotinn táknaði, og réttinn til að gefa fyrirmæli, sem ríkisvöndurinn táknaði. Og það sem meira er, hann átti ekki aðeins að ríkja yfir afkomendum Jakobs heldur öllum ‚þjóðum.‘ Þetta er í samræmi við loforðið sem Jehóva gaf Abraham: „Niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna. Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:17, 18) Jehóva staðfesti að Jesús frá Nasaret væri þetta „afkvæmi“ þegar hann smurði hann með heilögum anda árið 29. — Lúkas 3:21-23, 34; Galatabréfið 3:16.

Fyrsta ríki Jesú

3. Við hvaða ríki tók Jesús þegar hann steig upp til himna?

3 Jesús tók ekki strax að ríkja yfir þjóðum jarðar þegar hann steig upp til himna. (Sálmur 110:1) Hann tók samt við „ríki“ með þegnum sem voru honum hlýðnir. Páll postuli var að tala um þetta ríki þegar hann skrifaði: „[Guð] hefur frelsað oss [andasmurða kristna menn] frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar.(Kólossubréfið 1:13) Þessi frelsun hófst á hvítasunnu árið 33 þegar heilögum anda var úthellt yfir trúfasta fylgjendur Jesú. — Postulasagan 2:1-4; 1. Pétursbréf 2:9.

4. Hvernig sýndu lærisveinar Jesú á fyrstu öld hlýðni sína og hvað nefndi Jesú þá sem hóp?

4 Andasmurðir lærisveinar störfuðu hlýðnir sem „erindrekar Krists“ og fóru að safna saman öðrum sem yrðu „samþegnar“ í þessu andlega ríki. (2. Korintubréf 5:20; Efesusbréfið 2:19; Postulasagan 1:8) Þar að auki þurftu þeir að vera „fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun“ til að njóta velþóknunar konungsins Jesú Krists. (1. Korintubréf 1:10) Sem hópur mynduðu þeir hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ eða ráðsmann. — Matteus 24:45; Lúkas 12:42.

Jehóva blessar fólk sitt fyrir að hlýða ‚ráðsmanninum‘

5. Hvernig hefur Jehóva kennt fólki sínu frá fornu fari?

5 Jehóva hefur alltaf séð fólki sínu fyrir kennurum. Til dæmis gerði hann það þegar Gyðingarnir sneru heim frá Babýlon. Þá lásu Esra og aðrir góðir kennarar lögmál Guðs upphátt fyrir fólkið og „útskýrðu“ það „svo að menn skildu“ orð Guðs. — Nehemíabók 8:8.

6, 7. Hvernig hefur þjónshópurinn séð fyrir fæðu á réttum tíma fyrir milligöngu hins stjórnandi ráðs og hvers vegna er viðeigandi að hlýða þjónshópnum?

6 Á fyrstu öldinni, þegar deilumálið um umskurnina kom upp árið 49, fór stjórnandi ráð hins trúa þjónshóps, sem þá var, vandlega yfir málið í bænarhug og komst að biblíulegri niðurstöðu. Þegar það tilkynnti niðurstöðu sína í bréfi hlýddu söfnuðirnir þeim leiðbeiningum sem þeir fengu og hlutu ríkulega blessun Guðs. (Postulasagan 15:6-15, 22-29; 16:4, 5) Hinn trúi þjónn okkar tíma hefur á svipaðan hátt, fyrir milligöngu hins stjórnandi ráðs, skýrt nánar mikilvæg mál eins og kristið hlutleysi, heilagleika blóðsins og notkun tóbaks og fíkniefna. (Jesaja 2:4; Postulasagan 21:25; 2. Korintubréf 7:1) Jehóva blessaði fólk sitt fyrir að hlýða orði sínu og hinum trúa þjóni.

7 Með því að hlýða þjónshópnum sýnir fólk Guðs líka undirgefni við meistara sinn, Jesú Krist. Slík undirgefni er enn þá mikilvægari nú á dögum því að valdsvið Jesú hefur nú verið aukið eins og boðað var í spádómi Jakobs á dánarbeðinu.

Síló verður réttmætur stjórnandi jarðarinnar

8. Hvaða aukið vald fékk Kristur og hvenær?

8 Spádómur Jakobs sagði að ‚þjóðirnar ættu að hlýða‘ Síló. Augljóst er að Kristur átti ekki að ríkja aðeins yfir andlegu Ísraelsþjóðinni. Hvert yrði valdsvið hans? Opinberunarbókin 11:15 svarar því: „Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda.“ Biblían opinberar að Jesús hafi fengið þetta vald árið 1914, við lok hinna spádómlegu ‚sjö tíða‘ eða ‚tíma heiðingjanna.‘ * (Daníel 4:16, 17; Lúkas 21:24) Það ár hófst ósýnileg nærvera Krists sem messíasarkonungur og tími hans kom til að ‚drottna mitt á meðal óvina sinna.‘ — Matteus 24:3; Sálmur 110:2.

9. Hvað gerði Jesús þegar hann tók við ríki sínu og hvaða óbein áhrif hafði það á mannkynið og þá sérstaklega á lærisveina hans?

9 Fyrsta verk Jesú, eftir að hann fékk konungsvald, var að varpa sjálfum persónugervingi óhlýðninnar — Satan — og illum englum hans „niður á jörðina.“ Síðan hafa þessar illu andaverur kallað eindæma ógæfu yfir mannkynið og skapað umhverfi sem gerir okkur erfitt fyrir að hlýða Jehóva. (Opinberunarbókin 12:7-12; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Aðalskotspónn Satans í þessu andlega stríði eru smurðir þjónar Jehóva sem „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú“ og félagar þeirra, ‚aðrir sauðir.‘ — Opinberunarbókin 12:17; Jóhannes 10:16.

10. Hvaða spádómar hafa uppfyllst sem sýnir, svo ekki verður um villst, að stríð Satans við sannkristna menn eigi ekki eftir að bera tilætlaðan árangur?

10 Satan á hins vegar eftir að mistakast því að þetta er ‚Drottins dagur‘ og ekkert getur komið í veg fyrir að Jesús vinni fullnaðarsigur. (Opinberunarbókin 1:10; 6:2) Hann mun til dæmis ljúka við að innsigla hina 144.000 andlegu Ísraelsmenn. Hann mun einnig vernda ‚mikinn múg, sem enginn getur tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ (Opinberunarbókin 7:1-4, 9, 14-16) Ólíkt smurðum félögum sínum verða þessir hlýðnu menn jarðneskir þegnar Jesú. (Daníel 7:13, 14) Sú staðreynd að þeir skuli vera á jörðinni er áþreifanleg sönnun þess að Síló hafi raunverulega „fengið vald yfir heiminum.“ — Opinberunarbókin 11:15.

Núna er tíminn til að ‚hlýða fagnaðarerindinu‘

11, 12. (a) Hverjir einir lifa af endalok þessa núverandi heimskerfis? (b) Hvað einkennir þá sem leyfa „anda heimsins“ að hafa áhrif á sig?

11 Allir sem þrá eilíft líf verða að læra hlýðni því að Biblían segir skýrt að þeir ‚sem þekki ekki Guð, og hlýði ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú‘ lifi ekki af hefndardag Guðs. (2. Þessaloníkubréf 1:8) En hið illa umhverfi nútímans og uppreisnarandinn, sem ríkir gagnvart lögum og meginreglum Biblíunnar, gerir að verkum að það er ekki auðvelt að hlýða fagnaðarerindinu.

12 Biblían kallar þennan uppreisnaranda gegn Guði „anda heimsins.“ (1. Korintubréf 2:12) Í bréfi sínu til frumkristinna manna í Efesus lýsti Páll postuli þeim áhrifum sem þessi andi hefur á fólk og sagði: „Þér lifðuð . . . samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa [„hlýða,“ NW ]. Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.“ — Efesusbréfið 2:2, 3.

13. Hvernig geta kristnir menn staðið gegn anda heimsins og hvaða blessanir fá þeir í kjölfarið?

13 Sem betur fer héldu kristnir menn í Efesus ekki áfram að vera þrælar þessarar óhlýðni heldur urðu þeir hlýðin börn Guðs með því að lúta anda hans og uppskera heilnæman ávöxt hans ríkulega. (Galatabréfið 5:22, 23) Á svipaðan hátt hjálpar andi Jehóva — sterkasta aflið í alheiminum — milljónum manna að vera honum hlýðnir svo að ‚von þeirra geti fullkomnast.‘ — Hebreabréfið 6:11; Sakaría 4:6.

14. Hvernig varaði Jesús kristna menn á síðustu dögum við vissum hlutum sem myndu reyna á hlýðni þeirra?

14 Hafðu líka hugfast að við höfum öflugan stuðning Síló og hann og faðir hans leyfa engum óvinum — hvort sem þeir eru menn eða illir andar — að reyna hlýðni okkar um megn fram. (1. Korintubréf 10:13) Til að hjálpa okkur í þessu andlega stríði hefur Jesús lýst nokkrum vandamálum sem við stöndum frammi fyrir núna á síðustu dögum. Hann gerir það í sjö bréfum sem voru opinberuð Jóhannesi postula. (Opinberunarbókin 1:10, 11) Leiðbeiningarnar í þessum bréfum voru vissulega nauðsynlegar fyrir kristna menn hér áður fyrr en þær eiga samt aðallega við á „Drottins degi“ frá 1914. Það er því mjög viðeigandi að gefa þessum leiðbeiningum gaum. *

Forðumst sinnuleysi, siðleysi og efnishyggju

15. Af hverju verðum við að varast vandamálið sem hrjáði söfnuðinn í Efesus og hvernig getum við gert það? (2. Pétursbréf 1:5-8)

15 Fyrsta bréf Jesú var til safnaðarins í Efesus. Eftir að hafa hrósað söfnuðinum fyrir þolgæði hans sagði Jesús: „En það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika.“ (Opinberunarbókin 2:1-4) Nú á dögum hafa sumir kristnir menn, sem áður voru kappsamir, glatað þeim innilega kærleika sem þeir báru til Guðs í fyrstu. Slíkt getur veikt samband okkar við Guð og því verður að breyta strax. Hvernig er hægt að endurvekja slíkan kærleika? Með reglulegu biblíunámi, samkomusókn, bæn og hugleiðingu. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Auðvitað verðum við að ‚leggja alla stund‘ á þetta en það er svo sannarlega þess virði. (2. Pétursbréf 1:5-8) Ef heiðarleg sjálfsrannsókn leiðir í ljós að kærleikur þinn hafi kólnað skaltu leiðrétta það fljótt. Þannig hlýðir þú hvatningu Jesú: „Minnst þú því, úr hvaða hæð þú hefur hrapað, og gjör iðrun og breyttu eins og fyrrum.“ — Opinberunarbókin 2:5.

16. Hvaða andlega hættuleg áhrif voru í söfnuðunum í Pergamos og Þýatíru og hvers vegna eiga orð Jesú til þeirra erindi til okkar?

16 Kristnum mönnum í Pergamos og Þýatíru var hrósað fyrir ráðvendni, þolgæði og kostgæfni. (Opinberunarbókin 2:12, 13, 18, 19) En þeir voru hins vegar undir áhrifum vissra manna sem sýndu sama hugarfar og Bíleam og Jesebel en þau höfðu spillandi áhrif á Ísrael fortíðar með siðleysi og Baalsdýrkun. (4. Mósebók 31:16; 1. Konungabók 16:30, 31; Opinberunarbókin 2:14, 16, 20-23) En hvað með okkar tíma — ‚dag Drottins‘? Eru þessi sömu illu áhrif enn þá til staðar? Já, því að siðleysi er langalgengasta ástæðan fyrir því að fólki er vikið úr söfnuði Votta Jehóva. Það er því mjög mikilvægt að forðast allan siðspillandi félagsskap — bæði innan safnaðarins og utan. (1. Korintubréf 5:9-11; 15:33) Þeir sem vilja vera hlýðnir þegnar Síló forðast einnig vafasama skemmtun og klám á prenti eða á Netinu. — Amos 5:15; Matteus 5:28, 29.

17. Hvaða viðhorf og hegðun sýndi fólkið í Sardes og Laódíkeu og hvað fannst Jesú um andlegt ásigkomulag þess?

17 Aðeins örfáir einstaklingar í söfnuðinum í Sardes fengu hrós. Annars var söfnuðurinn í heild aðeins lifandi „að nafninu“ en andlegt sinnuleysi var svo mikið að í augum Jesú var söfnuðurinn „dauður.“ Menn hlýddu fagnaðarerindinu nánast aðeins til málamynda. Þetta var hörð fordæming. (Opinberunarbókin 3:1-3) Svipað ástand var í söfnuðinum í Laódíkeu. Hann stærði sig af efnislegum auði og sagði: „Ég er ríkur,“ en í augum Krists var hann „vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn.“ — Opinberunarbókin 3:14-17.

18. Hvað getum við gert til að verða ekki andlega hálfvolg í augum Guðs?

18 Sumir kristnir menn nú á dögum, sem áður voru trúfastir, hafa sýnt sams konar óhlýðni. Kannski hafa þeir leyft anda heimsins að deyfa ákafa sinn og tamið sér hálfvelgju gagnvart biblíunámi, bænum, safnaðarsamkomum og boðunarstarfi. (2. Pétursbréf 3:3, 4, 11, 12) Það er mikilvægt að slíkir menn hlýði Kristi með því að fjárfesta í andlegum auði — já, ‚kaupi af Kristi gull, skírt í eldi.‘ (Opinberunarbókin 3:18) Í sönnum auði felst meðal annars að ‚vera ríkur af góðum verkum, örlátur og fús að miðla öðrum.‘ Með því að fjárfesta í þessum dýrmætu andlegu eigum ‚söfnum við handa sjálfum okkur fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og getum höndlað hið sanna líf.‘ — 1. Tímóteusarbréf 6:17-19.

Hrósað fyrir hlýðni sína

19. Hvernig hrósaði Jesús kristnum mönnum í Smýrnu og Fíladelfíu og hvatti þá?

19 Söfnuðirnir í Smýrnu og Fíladelfíu sýndu framúrskarandi fordæmi í hlýðni því að í bréfum Jesú til þeirra eru engar áminningar. Við söfnuðinn í Smýrnu sagði hann: „Ég þekki þrengingu þína og fátækt — en þú ert samt auðugur.“ (Opinberunarbókin 2:9) Hvílíkur munur á þeim og Laódíkeumönnum sem hreyktu sér af veraldlegum auði en voru í rauninni algerlega snauðir. Djöfullinn var auðvitað ekki ánægður að sjá fólk sem var trúfast og hlýðið Kristi. Því gaf Jesús þessa viðvörun: „Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ (Opinberunarbókin 2:10) Jesús hrósaði söfnuðinum í Fíladelfíu á svipaðan hátt og sagði: „[Þú] hefur varðveitt orð mitt [eða hlýtt mér] og ekki afneitað nafni mínu. Ég kem skjótt. Haltu fast því, sem þú hefur, til þess að enginn taki kórónu þína.“ — Opinberunarbókin 3:8, 11.

20. Hvernig hafa milljónir manna varðveitt orð Jesú og það þrátt fyrir hvaða kringumstæður?

20 Trúfastar leifar og félagar þeirra, aðrir sauðir sem skipta milljónum, hafa líka varðveitt orð Jesú með því að taka dyggilega þátt í boðunarstarfinu og vera ráðvandir núna á ‚Drottins degi.‘ Eins og bræður þeirra á fyrstu öldinni hafa sumir þjáðst vegna hlýðni sinnar við Krist og þeim hefur jafnvel verið varpað í fangelsi og útrýmingarbúðir. Aðrir hafa varðveitt orð Jesú með því að halda ‚auga sínu heilu‘ þótt þeir séu umkringdir auðlegð og græðgi. (Matteus 6:22, 23) Já, þegar sannkristnir menn eru hlýðnir undir öllum kringumstæðum gleðja þeir hjarta Jehóva. — Orðskviðirnir 27:11.

21. (a) Hvaða andlegri skyldu ætlar þjónshópurinn að halda áfram að sinna? (b) Hvernig getum við sýnt að við viljum í raun hlýða Síló?

21 Núna, þegar við nálgumst þrenginguna miklu, er hinn „trúi og hyggni þjónn“ staðráðinn í að víkja sér ekki undan hlýðni við meistarann Krist. Það felur í sér að undirbúa andlega fæðu á réttum tíma fyrir heimilisfólk Guðs. Við skulum því halda áfram að vera þakklát fyrir hið frábæra guðræðisskipulag Jehóva og það sem þetta skipulag sér okkur fyrir. Þannig sýnum við undirgefni okkar við Síló sem mun launa öllum hlýðnum þegnum sínum með eilífu lífi. — Matteus 24:45-47; 25:40; Jóhannes 5:22-24.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Útskýringu á hinum ‚sjö tíðum‘ er að finna í 10. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 14 Nánari umfjöllun um bréfin sjö er að finna frá blaðsíðu 33 í bókinni Revelation — Its Grand Climax At Hand! (Opinberunin — hið mikla hámark hennar er í nánd!), gefin út af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Hvert átti hlutverk Jesú að vera samkvæmt spádómi sem Jakob flutti á dánarbeðinu?

• Hvernig sjáum við að Jesús er Síló og hvaða hugarfar verðum við að forðast?

• Hvaða viðeigandi leiðbeiningar fyrir okkur nú á dögum er að finna í bréfunum til safnaðanna sjö í Opinberunarbókinni?

• Að hvaða leyti getum við líkt eftir söfnuðunum í Smýrnu og Fíladelfíu til forna?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 14]

Jehóva blessar fólk sitt fyrir að hlýða trúa ‚ráðsmanninum.‘

[Mynd á blaðsíðu 15]

Vegna áhrifa Satans er ekki auðvelt að hlýða Guði.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Sterkt samband við Jehóva hjálpar okkur að vera honum hlýðin.