Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Guð, af hverju leyfðirðu þetta?‘

‚Guð, af hverju leyfðirðu þetta?‘

‚Guð, af hverju leyfðirðu þetta?‘

RICARDO man enn þá eftir því þegar hann og María, eiginkona hans, sátu á læknabiðstofunni. * Hvorugt þeirra þorði að lesa niðurstöðurnar úr síðustu læknisskoðun Maríu. Að lokum opnaði Ricardo umslagið og þau renndu augunum í flýti yfir læknahugtökin í skýrslunni. Þau sáu orðið „krabbamein“ og fóru bæði að gráta þegar þau gerðu sér grein fyrir því hvaða þýðingu það hafði.

„Læknirinn var mjög vingjarnlegur,“ segir Ricardo, „en hann gerði sér augljóslega grein fyrir alvöru málsins því að hann sagði okkur aftur og aftur að við þyrftum að treysta á Guð.“

Áður en geislameðferðin hófst tók læknirinn eftir ósjálfráðum hreyfingum á hægri fæti Maríu. Fleiri rannsóknir leiddu í ljós að krabbameinið hafði dreift sér og var komið upp í heila. Eftir aðeins eina viku var geislameðferðinni hætt. María féll í dauðadá og lést tveimur mánuðum seinna. „Ég var feginn að hún skyldi ekki þurfa að þjást lengur,“ segir Ricardo, „en ég saknaði hennar svo mikið að ég var stundum farinn að óska þess að líf mitt tæki einnig enda. Oft hrópaði ég til Guðs: ‚Af hverju leyfðirðu þessu að gerast?‘“

Spurningar vakna þegar harmleikur dynur yfir

Fjöldi fólks um allan heim neyðist til að horfast í augu við ýmsa harmleiki eins og Ricardo. Oft á tíðum er það saklausa fólkið sem þjáist. Hugsaðu um þá gríðarlegu sorg sem miskunnarlaus hernaðarátök kalla yfir mannkynið. Eða þá kvöl allra þeirra kvenna sem er nauðgað og barna sem sæta kynferðisofbeldi, að ekki sé talað um heimilisofbeldi eða önnur illskuverk sem maðurinn fremur. Í tímans rás virðast engin takmörk hafa verið fyrir því óréttlæti og þeim þjáningum sem fólk hefur verið tilbúið til að leggja hvert á annað. (Prédikarinn 4:1-3) Og svo má nefna sálarkvöl þeirra sem lenda í náttúruhamförum eða eiga við tilfinningalega, andlega eða líkamlega kvilla að stríða. Það kemur ekki á óvart að margir skuli spyrja: „Af hverju leyfir Guð þessar þjáningar?“

Það er aldrei auðvelt fyrir fólk að kljást við slíka erfiðleika jafnvel þótt það sé trúað. Þú veltir því kannski líka fyrir þér hvers vegna kærleiksríkur og almáttugur Guð leyfi að mennirnir þjáist. Það er nauðsynlegt að fá skýrt og fullnægjandi svar við þessari erfiðu spurningu því að það veitir okkur hugarfrið og hefur áhrif á samband okkar við Guð. Biblían veitir okkur svarið. Í næstu grein er bent á það sem hún segir. Við hvetjum þig til að athuga það nánar.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Nöfnum hefur verið breytt.

[Myndir á blaðsíðu 3]

Læknirinn sagði okkur aftur og aftur að við þyrftum að treysta á Guð.