‚Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna‘
‚Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna‘
„Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið.“ — 1. PÉTURSBRÉF 2:17.
1, 2. (a) Hvað sagði fréttaritari nokkur um votta Jehóva? (b) Hvers vegna leggja vottar Jehóva sig fram um að halda góðar siðferðisreglur í heiðri?
FRÉTTARITARI dagblaðs í Amarillo í Texas í Bandaríkjunum sótti samkomur fyrir fáeinum árum hjá nokkrum trúarsöfnuðum á svæðinu og greindi síðan frá því sem hann varð áskynja. Einn hópur fólks stóð upp úr að hans mati. Hann sagði: „Í þrjú ár sótti ég árleg mót Votta Jehóva í Amarillo Civic Center en aldrei sá ég nokkurn mann kveikja í sígarettu, opna bjórdós eða blóta. Þetta er hreinasti, kurteisasti, snyrtilegasti og gæfasti hópur fólks sem ég hef nokkurn tíma hitt.“ Svipaðar athugasemdir hafa oft birst á prenti um votta Jehóva. Af hverju hljóta vottarnir oft lof fólks sem er annarrar trúar?
2 Yfirleitt er fólki Guðs hrósað fyrir góða hegðun. Þó að viðmið umheimsins séu á niðurleið á heildina litið álíta vottar Jehóva það skyldu sína og þátt í tilbeiðslunni að halda góðar siðferðisreglur í heiðri. Þeir vita að hegðun þeirra segir öðrum sitthvað um Jehóva og kristna bræður þeirra, og að góð hegðun mælir með sannleikanum sem þeir prédika. (Jóhannes 15:8; Títusarbréfið 2:7, 8) Við skulum því kanna hvernig við getum ástundað góða breytni áfram og viðhaldið góðum orðstír Jehóva og votta hans. Við skulum líka skoða hvernig það er okkur til góðs.
Kristin fjölskylda
3. Fyrir hverju þarf að vernda kristnar fjölskyldur?
3 Skoðum fyrst breytni okkar innan fjölskyldunnar. Bókin Die Neuen Inquisitoren: Religionsfreiheit und Glaubensneid (Nýju rannsóknardómararnir: Trúfrelsi og trúaröfund) eftir Gerhard Besier og Erwin K. Scheuch segir: „[Vottar Jehóva] leggja sig sérstaklega fram um að vernda fjölskylduna.“ Þetta er hverju orði sannara og fjölskyldan þarf vissulega vernd gegn margs konar hættum. Fjöldi barna er ‚foreldrum óhlýðinn‘ og margir fullorðnir eru „kærleikslausir“ eða „taumlausir.“ 2. Tímóteusarbréf 3:2, 3) Fjölskyldan er vettvangur ofbeldis hjóna hvort gegn öðru og foreldra gegn börnum. Börn eru vanrækt, þau gera uppreisn, ánetjast fíkniefnum, leiðast út í siðleysi eða hlaupast á brott. Allt þetta má rekja til ‚anda heimsins‘ og þeirra skaðlegu áhrifa sem hann hefur á fólk. (Efesusbréfið 2:1, 2) Við þurfum að verja fjölskyldur okkar gegn þessum anda. Hvernig? Með því að fylgja ráðleggingum og fyrirmælum Jehóva til fjölskyldna.
(4. Hvaða skyldur hafa allir í kristinni fjölskyldu hver við annan?
4 Kristin hjón gera sér grein fyrir því að þeim er skylt að hugsa um tilfinningalega, andlega og líkamlega velferð hvort annars. (1. Korintubréf 7:3-5; Efesusbréfið 5:21-23; 1. Pétursbréf 3:7) Kristnir foreldrar eiga alvarlegum skyldum að gegna gagnvart börnum sínum. (Orðskviðirnir 22:6; 2. Korintubréf 12:14; Efesusbréfið 6:4) Þegar börnin stækka læra þau að þau hafa líka ákveðnum skyldum að gegna á kristnu heimili. (Orðskviðirnir 1:8, 9; 23:22; Efesusbréfið 6:1; 1. Tímóteusarbréf 5:3, 4, 8) Það kostar vinnu, staðfestu, kærleika og fórnfýsi að rækja skyldur sínar innan fjölskyldunnar. En hver og einn er öðrum í fjölskyldunni og söfnuðinum til blessunar með því að rækja þær skyldur sem Guð hefur lagt honum á herðar. Síðast en ekki síst heiðrar hann höfund fjölskyldunnar, Jehóva Guð. — 1. Mósebók 1:27, 28; Efesusbréfið 3:15.
Hið kristna bræðrafélag
5. Hvaða blessun fylgir því að blanda geði við trúsystkini okkar og sækja samkomur?
5 Kristnir menn eiga einnig skyldum að gegna gagnvart trúsystkinum sínum í söfnuðinum og raunar gagnvart öllum í bræðrafélaginu „um allan heim.“ (1. Pétursbréf 5:9) Sambandið við söfnuðinn er nauðsynlegt til að við séum andlega sterk. Það er hvetjandi að blanda geði við trúsystkini okkar á samkomum og nærast á andlegri fæðu frá ‚hinum trúa og hyggna þjóni.‘ (Matteus 24:45-47) Ef við eigum í erfiðleikum getum við leitað til bræðra okkar og fengið góð ráð byggð á biblíulegum meginreglum. (Orðskviðirnir 17:17; Prédikarinn 4:9; Jakobsbréfið 5:13-18) Bræðurnir snúa ekki við okkur bakinu þegar við eigum í erfiðleikum. Það er mikil blessun að mega tilheyra skipulagi Guðs!
6. Hvernig sýndi Páll fram á að við höfum skyldum að gegna gagnvart trúsystkinum okkar?
6 En við eigum ekki aðeins að vera þiggjendur í söfnuðinum heldur einnig gefendur. „Sælla er að gefa en þiggja,“ sagði Jesús. (Postulasagan 20:35) Páll postuli lagði áherslu á gjafmildi er hann skrifaði: „Höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið. Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ — Hebreabréfið 10:23-25.
7, 8. Hvernig sýnum við bræðrum okkar gjafmildi, bæði í heimasöfnuðinum og í öðrum löndum?
7 Við ‚játum vonina‘ þegar við svörum á safnaðarsamkomum eða tökum þátt í dagskránni á einhvern annan hátt. Framlag okkar er hvetjandi fyrir trúsystkini okkar. Við hvetjum þau líka með því að ræða við þau fyrir og eftir samkomur. Við getum notað þessar stundir til að styrkja veikburða, hugga niðurdregna og hughreysta sjúka. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Einlægir kristnir menn gefa örlátlega af sjálfum sér og það er ástæðan fyrir því að margir hrífast af kærleikanum, sem þeir finna meðal okkar, þegar þeir sækja samkomu í fyrsta sinn. — Sálmur 37:21; Jóhannes 15:12; 1. Korintubréf 14:25.
8 En kærleikur okkar er ekki takmarkaður við heimasöfnuðinn heldur nær hann til bræðrafélagsins um allan heim. Þess vegna er til dæmis baukur fyrir ríkissalasjóðinn í öllum ríkissölum. Ríkissalurinn okkar er kannski í góðu standi en við vitum að þúsundir bræðra okkar í öðrum löndum vantar hentugan samkomustað. Þegar við leggjum í ríkissalasjóðinn sýnum við kærleika okkar til þeirra, þó svo að við þekkjum þá ekki persónulega.
9. Hver er aðalástæðan fyrir því að vottar Jehóva elska hver annan?
9 Af hverju elska vottar Jehóva hver annan? Nú, Jesús sagði þeim að gera það. (Jóhannes 15:17) Og kærleikur þeirra hver til annars er merki þess að andi Guðs starfi með þeim, bæði sem einstaklingum og sem heild. Kærleikur er hluti af ‚ávexti andans.‘ (Galatabréfið 5:22, 23) Þegar vottar Jehóva rannsaka Biblíuna, sækja safnaðarsamkomur og biðja án afláts til Guðs verður kærleikurinn þeim eðlilegur, þó að þeir búi í heimi þar sem ‚kærleikur flestra hefur kólnað.‘ — Matteus 24:12.
Samskipti við umheiminn
10. Hvaða ábyrgð berum við gagnvart umheiminum?
10 Að Páll skuli nefna ‚játningu vonarinnar‘ minnir okkur á aðra ábyrgð sem hvílir á okkur. Þessi játning er meðal annars fólgin í því að prédika fagnaðarerindið meðal fólks sem er ekki enn hluti af bræðrafélagi okkar. (Matteus 24:14; 28:19, 20; Rómverjabréfið 10:9, 10, 13-15) Við erum að gefa með því að prédika, því að það kostar tíma, krafta, undirbúning og þjálfun, auk einhverra útgjalda. Samt skrifaði Páll: „Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa. Svo er ég og fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið, einnig yður, sem eruð í Róm.“ (Rómverjabréfið 1:14, 15) Verum ónísk að greiða af þessari „skuld.“
11. Hvaða tvær meginreglur stjórna samskiptum okkar við heiminn en hvað vitum við samt sem áður?
11 Höfum við aðrar skyldur gagnvart þeim sem eru ekki trúbræður okkar? Tvímælalaust. Okkur er auðvitað ljóst að „allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Við vitum að Jesús sagði um lærisveinana: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ Engu að síður búum við og vinnum fyrir okkur í heiminum og við þiggjum ýmsa þjónustu frá honum. (Jóhannes 17:11, 15, 16) Við höfum því ákveðnum skyldum að gegna gagnvart umheiminum. Hvaða skyldur eru það? Pétur postuli svarar því. Skömmu áður en Jerúsalem var eytt skrifaði hann kristnum mönnum í Litlu-Asíu, og í bréfinu er ritningargrein sem hjálpar okkur að halda réttu sambandi við heiminn.
12. Í hvaða skilningi eru kristnir menn ‚gestir og útlendingar‘ og hvað forðast þeir þess vegna?
12 Fyrst sagði Pétur: „Þér elskuðu, ég áminni yður sem gesti og útlendinga að halda yður frá holdlegum girndum, sem heyja stríð gegn sálunni.“ (1. Pétursbréf 2:11) Sannkristnir menn eru í vissum skilningi ‚gestir og útlendingar‘ af því að athygli þeirra beinist fyrst og fremst að voninni um eilíft líf — á himnum hjá þeim sem eru andasmurðir og í paradís á jörð hjá ‚öðrum sauðum.‘ (Jóhannes 10:16; Filippíbréfið 3:20, 21; Hebreabréfið 11:13; Opinberunarbókin 7:9, 14-17) En hverjar eru holdlegu girndirnar? Þetta eru langanir eins og peningagræðgi, metorðagirnd, ósiðlegar kynferðislanganir og langanir sem kallaðar eru „öfund“ og „ágirnd.“ — Kólossubréfið 3:5; 1. Tímóteusarbréf 6:4, 9; 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16.
13. Hvernig ‚heyja holdlegar girndir stríð gegn sálinni‘?
13 Langanir sem þessar „heyja stríð gegn sálunni.“ Þær spilla smám saman sambandinu við Guð og tefla von kristins manns (‚sálinni‘ eða lífinu) í tvísýnu. Hvernig getum við til dæmis boðið okkur fram „að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn“ ef við nærum með okkur áhuga á einhverju siðlausu? Hvernig getum við ‚leitað fyrst ríkis Guðs‘ ef við föllum í gildru efnishyggjunnar? (Rómverjabréfið 12:1, 2; Matteus 6:33; 1. Tímóteusarbréf 6:17-19) Það er betra að fylgja fordæmi Móse, hafna tálbeitum heimsins og þjóna Jehóva af heilum hug. (Matteus 6:19, 20; Hebreabréfið 11:24-26) Þetta er mikilvægur þáttur í því að halda sambandi sínu við heiminn í réttu horfi.
‚Hegðið ykkur vel‘
14. Hvers vegna leggja kristnir menn sig fram um að breyta vel?
14 Aðra mikilvæga viðmiðunarreglu er að finna í næsta versi hjá Pétri: „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna [„þjóðanna,“ Biblían 1912], til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.“ (1. Pétursbréf 2:12) Kristnir menn leggja sig fram um að vera til fyrirmyndar. Við erum námfús í skóla. Við erum iðin og heiðarleg á vinnustað — jafnvel þótt vinnuveitandinn virðist ósanngjarn. Þjónn Guðs leggur sig sérstaklega fram um að fylgja meginreglum kristninnar á heimilinu ef maki hans er ekki í trúnni. Það er ekki alltaf auðvelt en við vitum að við þóknumst Jehóva með því að vera til fyrirmyndar og það hefur oft góð áhrif á þá sem eru ekki vottar. — 1. Pétursbréf 2:18-20; 3:1.
15. Hvernig vitum við að vottar Jehóva eru þekktir víða um heim fyrir breytni sína?
15 Umsagnir um votta Jehóva, sem birst hafa á prenti, eru til vitnis um að flestum þeirra tekst að vera til fyrirmyndar. Ítalska dagblaðið Il Tempo sagði til dæmis: „Þeir sem vinna með vottum Jehóva lýsa þeim sem heiðarlegum starfsmönnum, svo sannfærðum í trúnni að þeir geta virst alveg gagnteknir af henni. En þeir verðskulda virðingu fyrir ráðvendni sína.“ Dagblaðið Herald í Búenos Aíres í Argentínu sagði: „Vottar Jehóva hafa reynst vera iðjusamir, skynsamir, sparsamir og guðhræddir borgarar.“ Rússneski fræðimaðurinn Sergej Ívanenko segir: „Vottar Jehóva [eru] þekktir um allan heim fyrir óaðfinnanlega löghlýðni og einkum og sér í lagi fyrir að vera samviskusamir skattgreiðendur.“ Forstöðumaður sýningarsvæðis í Simbabve, þar sem Vottar Jehóva héldu mót, sagði: „Ég sé votta tína upp pappírsrusl og þrífa salerni. Þið skiljið við sýningarsvæðið hreinna en það var. Unga fólkið hjá ykkur er agað. Ég vildi óska að heimurinn væri fullur af vottum Jehóva.“
Kristin undirgefni
16. Hvert er samband okkar við yfirvöld og hvers vegna?
16 Pétur talar einnig um samskipti okkar við yfirvöld. Hann segir: „Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta, og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel. Því að það er vilji Guðs, að þér skuluð með því að breyta vel 1. Pétursbréf 2:13-15) Við erum þakklát fyrir gott stjórnarfar, og við erum löghlýðin og greiðum skatta eins og Pétur hvetur til. Okkur er ljóst að Guð hefur gefið stjórnvöldum þann rétt að refsa lögbrjótum en það er þó fyrst og fremst „Drottins vegna“ sem við hlýðum stjórnvöldum. Það er vilji Guðs. Og við viljum ekki kasta rýrð á nafn Jehóva með því að brjóta lög og taka út refsingu fyrir það. — Rómverjabréfið 13:1, 4-7; Títusarbréfið 3:1; 1. Pétursbréf 3:17.
þagga niður vanþekkingu heimskra [„ósanngjarnra,“ NW] manna.“ (17. Hverju getum við treyst þegar ‚heimskir menn‘ eru okkur mótsnúnir?
17 Því miður eru til ‚ósanngjarnir menn‘ í stjórnsýslu sums staðar sem ofsækja okkur eða vinna gegn okkur með öðrum hætti — til dæmis með því að standa fyrir ófrægingarherferð gegn okkur. En Jehóva sér til þess að lygar þeirra verði afhjúpaðar fyrr eða síðar og þá er þaggað niður í „vanþekkingu“ þeirra. Kristin breytni okkar talar sínu máli. Þess vegna hafa heiðarlegir embættismenn og stjórnmálamenn oft hrósað okkur fyrir að gera gott. — Rómverjabréfið 13:3; Títusarbréfið 2:7, 8.
Þjónar Guðs
18. Hvernig getum við forðast að misnota frelsi okkar?
18 Síðan segir Pétur í viðvörunartón: „Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs.“ (1. Pétursbréf 2:16; Galatabréfið 5:13) Biblíuþekkingin frelsar okkur úr fjötrum falskenninga. (Jóhannes 8:32) Og við höfum öll frjálsan vilja og getum tekið ákvarðanir. Við misnotum samt ekki frelsi okkar. Þegar við tökum ákvarðanir varðandi félagsskap, klæðnað, klippingu, snyrtingu og skemmtiefni — jafnvel mat og drykk — þá höfum við hugfast að sannkristnir menn eru þjónar Guðs en hugsa ekki fyrst og fremst um að þóknast sjálfum sér. Við veljum að þjóna Jehóva frekar en að hlýða löngunum holdsins eins og þrælar eða elta tískusveiflur heimsins. — Galatabréfið 5:24; 2. Tímóteusarbréf 2:22; Títusarbréfið 2:11, 12.
19-21. (a) Hvernig lítum við á yfirvöldin? (b) Hvernig hafa sumir sýnt ‚bræðrafélaginu‘ kærleika? (c) Hver er alvarlegasta skyldan sem hvílir á okkur?
19 Pétur heldur áfram: „Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið, óttist Guð, heiðrið keisarann.“ (1. Pétursbréf 2:17) Jehóva Guð leyfir mönnum að fara með ýmiss konar völd og þess vegna sýnum við þessum mönnum tilhlýðilega virðingu. Við biðjum jafnvel fyrir þeim í því augnamiði að við fáum frelsi til að sinna þjónustu okkar í friði og guðrækni. (1. Tímóteusarbréf 2:1-4) En samtímis ‚elskum við bræðrafélagið.‘ Við reynum alltaf að gera bræðrum okkar gott en ekki illt.
20 Þegar þjóðernisofbeldi braust út í einu Afríkuríki skáru vottar Jehóva sig úr fjöldanum vegna kristilegrar framkomu sinnar. Svissneska dagblaðið Reformierte Presse sagði: „Árið 1995 gátu mannréttindasamtökin African Rights . . . sannað að öll trúfélög nema Vottar Jehóva“ hefðu tekið þátt í átökunum. Þegar fréttir bárust til annarra landa af þessum hörmulegu átökum sendu Vottar Jehóva í Evrópu matvæli og læknishjálp með hraði til bræðra sinna og annarra í þessu hrjáða landi. (Galatabréfið 6:10) Þeir fóru eftir Orðskviðunum 3:27: „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.“
21 En það hvílir á okkur önnur ábyrgð sem er alvarlegri en það að virða yfirvöldin og elska bræðurna. Hver er hún? „Óttist Guð,“ sagði Pétur. Við skuldum Jehóva miklu meira en mönnum. Hvernig þá? Og hvar liggur jafnvægið milli þess að rækja skyldur sínar við Guð og skyldur sínar við yfirvöldin? Þessum spurningum er svarað í greininni á eftir.
Manstu?
• Hvaða ábyrgð hvílir á kristnum mönnum innan fjölskyldunnar?
• Hvernig getum við verið gjafmild innan safnaðarins?
• Hvaða ábyrgð berum við gagnvart umheiminum?
• Hvernig er það okkur til góðs að vera til fyrirmyndar í breytni okkar?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 23]
Hvernig getur kristin fjölskylda verið mikill gleðigjafi?
[Myndir á blaðsíðu 24]
Hvers vegna elska vottar Jehóva hver annan?
[Myndir á blaðsíðu 24]
Hvernig getum við sýnt bræðrum okkar kærleika, jafnvel þó að við þekkjum þá ekki persónulega?