Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlutlausir kristnir menn á síðustu dögum

Hlutlausir kristnir menn á síðustu dögum

Hlutlausir kristnir menn á síðustu dögum

„Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ — JÓHANNES 17:16.

1, 2. Hvað sagði Jesús um samband fylgjenda sinna við heiminn og hvaða spurningar vekur það?

JESÚS fór með langa bæn í áheyrn lærisveinanna þegar hann var með þeim síðasta kvöldið sem fullkominn maður. Í bæninni sagði hann svolítið sem lýsir lífi allra sannkristinna manna. Hann sagði um fylgjendur sína: „Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ — Jóhannes 17:14-16.

2 Jesús sagði tvisvar að fylgjendur sínir yrðu ekki af heiminum, það er að segja tilheyrðu honum ekki. Og þessi aðgreining myndi valda spennu því að heimurinn myndi hata þá. En kristnir menn þurftu ekki að kvíða því, vegna þess að Jehóva myndi gæta þeirra. (Orðskviðirnir 18:10; Matteus 24:9, 13) Með hliðsjón af orðum Jesú gætum við spurt: ‚Hvers vegna tilheyra sannkristnir menn ekki heiminum? Hvað merkir það að tilheyra ekki heiminum? Hvernig líta kristnir menn á heiminn fyrst hann hatar þá? Og síðast en ekki síst, hvernig líta þeir á stjórnvöld heimsins?‘ Svör Biblíunnar við þessum spurningum eru mikilvæg vegna þess að þau snerta okkur öll.

‚Við tilheyrum Guði‘

3. (a) Hvað veldur því að við tilheyrum ekki heiminum? (b) Hvað er til marks um að heimurinn sé „á valdi hins vonda“?

3 Við eigum náið samband við Jehóva og það er ein af ástæðunum fyrir því að við tilheyrum ekki heiminum. Jóhannes postuli skrifaði: „Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Ummæli Jóhannesar um heiminn eru dagsönn. Útbreidd stríð, glæpir, grimmd, kúgun, óheiðarleiki og siðleysi er til marks um áhrif Satans en ekki Guðs. (Jóhannes 12:31; 2. Korintubréf 4:4; Efesusbréfið 6:12) Sá sem gerist vottur Jehóva stundar hvorki slíkt né hefur velþóknun á því og þar af leiðandi tilheyrir hann ekki heiminum. — Rómverjabréfið 12:2; 13:12-14; 1. Korintubréf 6:9-11; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.

4. Hvernig sýnum við að við tilheyrum Jehóva?

4 Jóhannes sagði að ólíkt heiminum tilheyrðu kristnir menn Guði. Allir sem vígjast Jehóva tilheyra honum. Páll postuli sagði: „Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér Drottins.“ (Rómverjabréfið 14:8; Sálmur 116:15) Þar sem við tilheyrum Jehóva sýnum við honum óskipta hollustu. (2. Mósebók 20:4-6) Þess vegna helgar sannkristinn maður sig ekki einhverjum veraldlegum markmiðum eða metnaðarmálum. Og þótt hann virði þjóðartákn dýrkar hann þau ekki, hvorki í verki né í hjartanu. Hann dýrkar alls ekki stjörnur íþróttanna né önnur nútímagoð. Hann virðir auðvitað rétt annarra til að gera eins og þeim líkar en hann dýrkar engan nema skaparann. (Matteus 4:10; Opinberunarbókin 19:10) Að þessu leyti er hann einnig aðgreindur frá heiminum.

„Mitt ríki er ekki af þessum heimi“

5, 6. Hvernig stuðlar undirgefni við ríki Guðs að því að við séum aðgreind frá heiminum?

5 Kristnir menn eru fylgjendur Krists Jesú og þegnar Guðsríkis, og það gerir einnig að verkum að þeir tilheyra ekki heiminum. Jesús sagði þegar Pílatus réttaði yfir honum: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ (Jóhannes 18:36) Það er þetta ríki sem á að helga nafn Jehóva, réttlæta drottinvald hans og sjá til þess að vilji hans sé gerður á jörð eins og á himni. (Matteus 6:9, 10) Jesús boðaði fagnaðarerindið um ríkið meðan hann þjónaði á jörð og sagði að fylgjendur hans myndu boða það allt til endaloka heimskerfisins. (Matteus 4:23; 24:14) Árið 1914 rættust spádómsorðin í Opinberunarbókinni 11:15: „Heimsríkið er orðið ríki Drottins vors og hans Smurða, og hann mun ríkja um aldir alda.“ (Biblían 1912) Innan skamms verður þetta himneska ríki eina stjórnin yfir mannkyninu. (Daníel 2:44) Þar að kemur að veraldlegir valdhafar neyðast jafnvel til að viðurkenna yfirráð þess. — Sálmur 2:6-12.

6 Sannkristnir menn eru minnugir alls þessa og eru þegnar Guðsríkis, og þeir hlýða orðum Jesú um að ‚leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis.‘ (Matteus 6:33) Það þýðir ekki að þeir séu ótrúir landinu sem þeir búa í en þeir eru hins vegar andlega aðgreindir frá heiminum. Aðalverkefni kristinna manna núna er að ‚vitna um Guðs ríki,‘ líkt og á fyrstu öldinni. (Postulasagan 28:23) Engin stjórn manna hefur rétt til að torvelda þetta starf sem Guð hefur falið þjónum sínum.

7. Af hverju eru kristnir menn hlutlausir og hvernig hafa þeir sýnt það?

7 Vottar Jehóva hafa verið hlutlausir í átökum innan þjóða og milli þjóða á 20. og 21. öldinni vegna þess að þeir tilheyra Jehóva, fylgja Jesú og eru þegnar Guðsríkis. Þeir styðja engan gegn öðrum, hafa ekki beitt vopnum gegn neinum og hafa ekki haldið uppi áróðri fyrir nokkrum veraldlegum málstað. Þeir hafa sýnt óhagganlega trú, að því er virðist andspænis ofurefli, og hafa fylgt sömu meginreglum og þeir lýstu yfir við ráðamenn nasista í Þýskalandi árið 1934: „Við höfum engan áhuga á stjórnmálum heldur erum við algerlega helgaðir ríki Guðs í höndum konungsins Krists. Við munum ekki gera nokkrum manni mein eða skaða. Helst viljum við búa við frið og fá að gera öllum mönnum gott eftir því sem færi gefst.“

Erindrekar og sendimenn Krists

8, 9. Í hvaða skilningi eru vottar Jehóva erindrekar og sendimenn og hvaða áhrif hefur það á samband þeirra við þjóðir heims?

8 Páll talaði um sjálfan sig og aðra smurða kristna menn sem ‚erindreka Krists eins og það væri Guð sem áminnti þegar við áminnum.‘ (2. Korintubréf 5:20) Frá 1914 er réttilega hægt að tala um hina andasmurðu sem erindreka eða sendiherra Guðsríkis en þeir eru „börn“ þess eða synir. (Matteus 13:38; Filippíbréfið 3:20; Opinberunarbókin 5:9, 10) Auk þess hefur Jehóva safnað frá þjóðunum ‚miklum múgi‘ af ‚öðrum sauðum.‘ (Jóhannes 10:16) Þetta eru kristnir menn með jarðneska von sem styðja smurða syni ríkisins í erindrekstri þeirra. (Opinberunarbókin 7:9) Það mætti kalla þessa ‚aðra sauði‘ „sendimenn“ Guðsríkis.

9 Erindrekar og sendimenn erlends ríkis blanda sér ekki í málefni þess ríkis þar sem þeir þjóna. Kristnir menn eru á sama hátt hlutlausir í stjórnmálum þjóðanna. Þeir taka ekki afstöðu með eða móti nokkurri þjóð, kynþætti, þjóðfélagsstétt eða efnahagsstétt heldur ‚gera þeir öllum gott.‘ (Postulasagan 10:34, 35; Galatabréfið 6:10) Hlutleysi votta Jehóva merkir að enginn getur réttilega hafnað boðskap þeirra á þeirri forsendu að þeir styðji einhvern andstæðan kynþátt, þjóð eða ættflokk.

Kærleikur einkennir þá

10. Hve mikilvægur er kærleikurinn fyrir kristinn mann?

10 Samband kristinna manna hver við annan er önnur ástæða fyrir því að þeir eru hlutlausir í málefnum heimsins. Jesús sagði fylgjendum sínum: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Bróðurkærleikur er snar þáttur í því að vera kristinn. (1. Jóhannesarbréf 3:14) Samband kristinna manna hver við annan er mjög náið, enda er það skylt sambandi þeirra við Jehóva og Jesú. Kærleikur þeirra nær út fyrir heimasöfnuðinn því að hann teygir sig til ‚bræðranna um allan heim.‘ — 1. Pétursbréf 5:9.

11. Hvaða áhrif hefur kærleikur votta Jehóva hver til annars á framferði þeirra?

11 Vottar Jehóva sýna bróðurkærleikann í verki með því að fara eftir Jesaja 2:4: „[Þeir] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ Sannkristnir menn eru lærisveinar Jehóva Guðs og eiga frið við hann og hver við annan. (Jesaja 54:13) Fyrst kristnir menn elska Guð og bræður sína er óhugsandi að þeir taki sér vopn í hönd gegn trúbræðrum sínum — eða einhverjum öðrum — í öðru landi. Friður og eining er ómissandi þáttur í tilbeiðslu þeirra og sönnun þess að andi Guðs hvíli yfir þeim. (Sálmur 133:1; Míka 2:12; Matteus 22:37-39; Kólossubréfið 3:14) Þeir ‚leita friðar og leggja stund á hann,‘ vitandi að „augu Drottins hvíla á réttlátum.“ — Sálmur 34:15, 16.

Viðhorf kristinna manna til heimsins

12. Hvernig lítur Jehóva á íbúa heims og hvernig líkja vottar hans eftir því?

12 Þó að Jehóva hafi dæmt þennan heim er hann ekki búinn að dæma alla sem búa í honum. Það gerir hann í fyllingu tímans fyrir atbeina Jesú. (Sálmur 67:4, 5; Matteus 25:31-46; 2. Pétursbréf 3:10) Þangað til sýnir hann mannkyni mikinn kærleika. Hann gaf meira að segja eingetinn son sinn til að allir fengju tækifæri til að hljóta eilíft líf. (Jóhannes 3:16) Við líkjum eftir kærleika Guðs með því að segja öðrum frá hjálpræðinu sem hann býður upp á, jafnvel þó að okkur sé oft vísað frá.

13. Hvernig eigum við að líta á veraldlega valdhafa?

13 Hvernig ættum við að líta á valdhafa heimsins? Páll svaraði því er hann skrifaði: „Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði.“ (Rómverjabréfið 13:1, 2) Menn fara með vissar valdastöður (innbyrðis misháar en alltaf óæðri stöðu Jehóva) vegna þess að alvaldur Jehóva leyfir það. Kristinn maður er undirgefinn veraldlegum yfirvöldum vegna þess að það er þáttur í því að hlýða Jehóva. En hvað þá ef kröfur Guðs og mennskra stjórnvalda stangast á?

Lög Guðs og keisarans

14, 15. (a) Hvernig tókst Daníel að afstýra árekstri? (b) Hvaða afstöðu tóku Hebrearnir þrír þegar árekstur var ekki umflúinn?

14 Daníel og félagar hans þrír eru prýðisdæmi um jafnvægið milli þess að vera undirgefinn mennskum stjórnvöldum og vera undirgefinn yfirráðum Guðs. Hinir ungu Hebrear voru fluttir í útlegð til Babýlonar og hlýddu landslögum þar. Fljótlega voru þeir valdir til að hljóta sérstaka menntun. Daníel gerði sér grein fyrir því að sumt myndi líklega stangast á við lög Jehóva og ræddi málið við embættismanninn sem hafði umsjón með þeim. Í framhaldi af því voru gerðar ráðstafanir til að virða samvisku fjórmenninganna. (Daníel 1:8-17) Vottar Jehóva fylgja fordæmi Daníels og útskýra afstöðu sína með háttvísi fyrir embættismönnum í þeim tilgangi að afstýra óþörfum árekstrum.

15 Síðar meir var ekki hjá því komist að undirgefni við mennska valdhafa stangaðist á við undirgefni við Guð. Konungur Babýlonar lét reisa stórt skurðgoð í Dúradal og fyrirskipaði embættismönnum sínum, þeirra á meðal sýslumönnum, að safnast saman þegar skurðgoðið var vígt. Þremenningarnir, vinir Daníels, höfðu nú verið skipaðir sýslumenn yfir Babel-héraði þannig að tilskipunin náði til þeirra. Á ákveðnu augnabliki áttu allir sem voru saman komnir að falla fram fyrir líkneskinu. En Hebrearnir vissu að það stangaðist á við lög Guðs. (5. Mósebók 5:8-10) Þeir stóðu því kyrrir þegar allir hinir féllu fram. Með því að óhlýðnast skipun konungs áttu þeir á hættu að kalla yfir sig skelfilegan dauðdaga og það þurfti kraftaverk til að bjarga þeim. Engu að síður vildu þeir frekar deyja en að óhlýðnast Jehóva. — Daníel 2:49–3:29.

16, 17. Hvernig brugðust postularnir við þegar þeim var bannað að prédika og hvers vegna?

16 Á fyrstu öld voru postular Jesú Krists kallaðir fyrir leiðtoga Gyðinga í Jerúsalem og skipað að hætta að prédika í nafni Jesú. Hvernig brugðust þeir við? Jesús hafði skipað þeim að gera menn að lærisveinum meðal allra þjóða, þar á meðal í Júdeu. Hann hafði líka sagt þeim að vera vottar sínir í Jerúsalem og um heim allan. (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 1:8) Postularnir vissu að fyrirmæli Jesú túlkuðu vilja Guðs með þá. (Jóhannes 5:30; 8:28) Þeir sögðu þess vegna: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 4:19, 20; 5:29.

17 Postularnir voru ekki í uppreisnarhug. (Orðskviðirnir 24:21) En þegar mennskir valdhafar skipuðu þeim að hætta að gera það sem Guð vildi gátu þeir ekki annað en sagt: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ Jesús talaði um að við ættum að ‚gjalda keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.‘ (Markús 12:17) Ef við hlýðum ekki boði Guðs af því að menn banna okkur það, þá erum við að gefa mönnum það sem tilheyrir Guði. Við gjöldum keisaranum allt sem við skuldum honum en virðum hið æðsta vald Jehóva. Hann er Drottinn alheims og skapari, og hann er uppspretta allra yfirráða. — Opinberunarbókin 4:11.

Við verðum staðföst

18, 19. Hvaða afstöðu hafa margir af bræðrum okkar tekið og hvernig getum við fylgt fordæmi þeirra?

18 Flestar stjórnir manna viðurkenna hlutleysi votta Jehóva nú um stundir og við erum þakklát fyrir það. Í sumum löndum hafa vottarnir þó mætt mikilli andstöðu. Alla 20. öldina og fram á okkar dag hafa bræður og systur sums staðar háð harða baráttu. Þau hafa í andlegum skilningi barist „trúarinnar góðu baráttu.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:12.

19 Hvernig getum við verið staðföst eins og þau? Í fyrsta lagi skulum við hafa hugfast að við megum búast við andstöðu. Við ættum ekki að láta okkur bregða við andstöðu, hún ætti ekki einu sinni að koma okkur á óvart. Páll aðvaraði Tímóteus: „Allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ (2. Tímóteusarbréf 3:12; 1. Pétursbréf 4:12) Það er óhugsandi annað en að við verðum fyrir andstöðu í heimi sem Satan stjórnar. (Opinberunarbókin 12:17) Svo lengi sem við erum trúföst verða alltaf einhverjir sem ‚furða sig á okkur og hallmæla.‘ — 1. Pétursbréf 4:4.

20. Á hvaða styrkjandi sannleika erum við minnt?

20 Í öðru lagi erum við sannfærð um að Jehóva og englarnir styðji okkur. Eins og Elísa sagði forðum daga: „Fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.“ (2. Konungabók 6:16; Sálmur 34:8) Það er hugsanlegt að Jehóva hafi ástæðu til að leyfa andstæðingum að beita okkur þrýstingi enn um sinn, en hann mun alltaf gefa okkur nægan styrk til að standast álagið. (Jesaja 41:9, 10) Sumir hafa látið lífið en við látum það ekki skelfa okkur. „Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama,“ sagði Jesús. (Matteus 10:16-23, 28) Við erum aðeins ‚útlendingar‘ í þessu heimskerfi og notum tímann til að ‚höndla hið sanna líf,‘ eilífa lífið í nýjum heimi Guðs. (1. Pétursbréf 2:11; 1. Tímóteusarbréf 6:19) Enginn maður getur rænt okkur þessum launum, svo framarlega sem við erum Guði trú.

21. Hvað ættum við alltaf að hafa hugfast?

21 Munum því eftir hinu dýrmæta sambandi okkar við Jehóva Guð. Kunnum alltaf að meta þá blessun að vera fylgjendur Krists og þegnar ríkis hans. Elskum bræðurna af öllu hjarta og höfum alltaf yndi af kærleikanum sem þeir sýna okkur. Umfram allt skulum við fara eftir orðum sálmaritarans: „Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.“ (Sálmur 27:14; Jesaja 54:17) Þá verðum við staðföst og varðveitum vonina líkt og ótal kristnir menn á undan okkur — trúföst, hlutlaus og tilheyrum ekki heiminum.

Geturðu svarað?

• Hvernig gerir sambandið við Jehóva að verkum að við tilheyrum ekki heiminum?

• Hvernig varðveita þegnar Guðsríkis hlutleysi í þessum heimi?

• Á hvaða hátt gerir kærleikurinn til bræðranna okkur hlutlaus og aðgreinir okkur frá heiminum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Hvaða áhrif hefur það á samband okkar við heiminn að við skulum vera þegnar Guðsríkis?

[Mynd á blaðsíðu 30]

Hútúi og tútsi vinna glaðir saman.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Kristnir bræður úr hópi Araba og Gyðinga.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Kristinn Serbi, Bosníumaður og Króati njóta samverunnar.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Hvað er rétt að gera þegar valdhafar krefjast þess að við brjótum lög Guðs?