Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Huggun fyrir þá sem þjást

Huggun fyrir þá sem þjást

Huggun fyrir þá sem þjást

Í ALDANNA rás hafa margir heimspekingar og guðfræðingar velt því fyrir sér hvers vegna Guð leyfi þjáningar. Sumir hafa haldið því fram að þar sem Guð er almáttugur hljóti hann að vera ábyrgur fyrir þjáningum þegar upp er staðið. Höfundur hómilíubókar frá annarri öld, sem er ranglega eignuð Klemensi kirkjuföður, sagði að Guð stjórnaði heiminum með báðum höndum. Með „vinstri hendinni“ djöflinum, sem veldur þjáningum og sorg, og með „hægri hendinni“ Jesú sem frelsar og blessar.

Aðrir geta ekki sætt sig við það að Guð leyfi þjáningar — jafnvel þótt hann valdi þeim ekki — og hafa ákveðið að neita því að þær séu til. „Illska er aðeins blekking og hefur engan raunverulegan grunn,“ skrifaði Mary Baker Eddy. „Ef litið væri svo á að synd, veikindi og dauði væru ekkert, myndu þau hverfa.“ — Science and Health With Key to the Scriptures.

Í ljósi þeirra hörmulegu atburða, sem hafa átt sér stað, sérstaklega frá fyrri heimsstyrjöldinni og fram á okkar dag, hafa margir dregið þá ályktun að Guð geti einfaldlega ekki komið í veg fyrir þjáningar. „Ég held að Helförin hafi sýnt fram á að það er ekki hægt að eigna Guði almætti,“ skrifaði Gyðingurinn og fræðimaðurinn David Wolf Silverman. „Ef Guð á að vera skiljanlegur með einhverjum hætti,“ bætti hann við, „verður gæska hans að geta farið saman við tilvist illskunnar og þá getur hann ekki verið almáttugur.“

Þeir sem halda því fram að Guð sé að einhverju leyti ábyrgur fyrir þjáningum, að hann geti ekki komið í veg fyrir þær eða að þjáningar séu aðeins okkar eigin hugarburður, geta lítið gert til að hughreysta þá sem þjást. Og það sem meira er þá stangast slíkar hugmyndir algerlega á við hinn réttláta, máttuga og umhyggjusama Guð sem lýst er á síðum Biblíunnar. (Jobsbók 34:10, 12; Jeremía 32:17; 1. Jóhannesarbréf 4:8) En hver segir Biblían að sé ástæða þess að þjáningar fá að viðgangast?

Hvernig hófust þjáningar?

Þegar Guð skapaði mennina ætlaðist hann ekki til þess að þeir myndu þjást heldur gaf hann fyrstu hjónunum, Adam og Evu, fullkominn huga og líkama, bjó til unaðslegan garð sem átti að vera heimili þeirra og lét þeim í té þýðingarmikið og ánægjulegt verkefni. (1. Mósebók 1:27, 28, 31; 2:8) En áframhaldandi hamingja þeirra var undir því komin að þau viðurkenndu stjórn hans og rétt til að ákveða hvað væri gott og hvað illt. Þessi réttur Guðs var táknaður með tré sem kallað var ‚skilningstré góðs og ills.‘ (1. Mósebók 2:17) Adam og Eva áttu að sýna undirgefni sína við Guð með því að hlýða skipun hans og borða ekki af trénu. *

Því miður hlýddu Adam og Eva ekki Guði. Uppreisnargjörn andavera, sem seinna er kölluð Satan djöfullinn, sannfærði Evu um að það væri henni í hag að óhlýðnast Guði. Satan hélt því fram að Guð væri að neita henni um eitthvað mjög eftirsóknarvert — sjálfstæði eða réttinn til að ákveða sjálf hvað væri gott og hvað illt. Hann sagði að ef hún borðaði af trénu ‚myndu augu hennar upp ljúkast og hún myndi verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.‘ (1. Mósebók 3:1-6; Opinberunarbókin 12:9) Eva lét tælast af tilhugsuninni um sjálfstæði og tók af forboðna ávextinum. Adam fylgdi síðan fljótlega í fótspor hennar.

Þennan sama dag fundu Adam og Eva fyrir afleiðingum uppreisnarinnar. Með því að hafna stjórn Guðs glötuðu þau þeirri vernd og blessun sem undirgefni við Guð hafði veitt þeim. Guð rak þau út úr paradís og sagði við Adam: „Sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar.“ (1. Mósebók 3:17, 19) Adam og Eva urðu undirorpin veikindum, sársauka, hrörnun og dauða. Þjáningar urðu hluti af lífi manna. — 1. Mósebók 5:29.

Deilumálið leyst

Sumir gætu spurt: ‚Hefði Guð ekki einfaldlega getað horft fram hjá synd Adams og Evu?‘ Nei, því að það hefði grafið undan virðingu fyrir yfirvaldi hans, kannski hvatt fleiri til að gera uppreisn í framtíðinni og að lokum valdið enn meiri þjáningum. (Prédikarinn 8:11) Ef Guð hefði leyft þessari óhlýðni að viðgangast hefði hann þar að auki gerst sekur um misgerð. Biblíuritarinn Móse segir: „Fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:4) Til að vera samkvæmur sjálfum sér varð Guð að láta Adam og Evu finna fyrir afleiðingum óhlýðni sinnar.

Hvers vegna eyddi Guð ekki strax fyrstu hjónunum og Satan sem var ósýnilegur upphafsmaður uppreisnarinnar? Hann hafði máttinn til þess. Þá hefðu Adam og Eva ekki eignast ófullkomna afkomendur sem fengu dauða og þjáningar í arf. Slík valdbeiting hefði hins vegar ekki sannað réttmæti stjórnar Guðs yfir vitibornum sköpunarverum hans. Ef Adam og Eva hefðu dáið barnlaus hefði það auk þess þýtt að sú fyrirætlun Guðs, að fylla jörðina fullkomnum afkomendum þeirra, hefði brugðist. (1. Mósebók 1:28) Og „Guð er ekki maður, . . . skyldi hann segja nokkuð og gjöra það eigi, tala nokkuð og efna það eigi?“ — 4. Mósebók 23:19.

Í fullkominni visku sinni ákvað Jehóva Guð að leyfa uppreisninni að standa yfir í takmarkaðan tíma. Uppreisnarmennirnir fengu næg tækifæri til að finna fyrir áhrifum þess að vera óháðir Guði. Sagan myndi sýna, svo að ekki yrði um villst, að mannkynið þarfnast leiðsagnar Guðs og að stjórn hans er langtum betri en stjórn manna eða Satans. Á sama tíma gerði Guð ráðstafanir til að tryggja að upprunalegur tilgangur hans með jörðina næði fram að ganga. Hann lofaði að fram kæmi ‚sæði‘ eða afkomandi sem myndi ‚merja höfuð Satans‘ og þannig binda enda á uppreisnina og skaðleg áhrif hennar í eitt skipti fyrir öll. — 1. Mósebók 3:15.

Jesús Kristur var fyrirheitna sæðið. Í 1. Jóhannesarbréfi 3:8 lesum við: „Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.“ Það gerði hann með því að fórna fullkomnu mannslífi sínu og borga lausnargjaldið til að endurleysa börn Adams frá erfðarsynd og dauða. (Jóhannes 1:29; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Þeim sem raunverulega sýna trú á lausnarfórn Jesú er heitið varanlegri lausn undan þjáningum. (Jóhannes 3:16; Opinberunarbókin 7:17) Hvenær mun það gerast?

Endi bundinn á þjáningar

Þegar yfirvaldi Guðs var hafnað kallaði það ómældar þjáningar yfir mannkynið. Það er því viðeigandi að Guð noti vald sitt á sérstakan hátt til að binda enda á þjáningar manna og koma upprunalegum tilgangi sínum með jörðina til leiðar. Jesús minntist á þessa ráðstöfun Guðs þegar hann kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum, . . . til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:9, 10.

Nú er brátt á enda sá reynslutími sem Guð hefur gefið mönnum til að stjórna sér sjálfir. Í samræmi við spádóma Biblíunnar var ríki hans stofnað á himnum árið 1914 með Jesú Krist sem konung. * Bráðlega mun þetta ríki knosa og binda enda á allar ríkisstjórnir manna. — Daníel 2:44.

Á þeim skamma tíma, sem Jesús þjónaði hér á jörð, gaf hann okkur innsýn í þá blessun sem endurreist stjórn Guðs veitir mannkyninu. Guðspjöllin gefa okkur sönnun fyrir því að Jesús var samúðarfullur í garð fátækra og þeirra sem voru órétti beittir. Hann læknaði sjúka, gaf hungruðum mat og reisti upp dána. Náttúruöflin hlýddu honum jafnvel. (Matteus 11:5; Markús 4:37-39; Lúkas 9:11-16) Ímyndaðu þér hverju Jesús kemur til leiðar þegar hann notar hreinsunarmátt lausnarfórnarinnar í þágu allra hlýðinna manna. Biblían lofar að Guð muni nota stjórn Krists til að „þerra hvert tár af augum [manna]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:4.

Huggun fyrir þjáða

Það er uppörvandi að vita til þess að kærleiksríkum og almáttugum Guði okkar, Jehóva, þyki vænt um okkur og að hann muni fljótlega koma mannkyninu til hjálpar. Oftast nær er alvarlega veikur sjúklingur tilbúinn að gangast undir læknismeðferð, jafnvel þótt hún sé mjög sársaukafull. Ef við vitum að aðferð Guðs til að sjá um þessi mál hefur eilífa blessun í för með sér ætti það á sama hátt að veita okkur kraft, þó að ýmsir erfiðleikar steðji að um tíma.

Ricardo, sem minnst var á í fyrri greininni, hefur lært að leita uppörvunar í loforðum Biblíunnar. „Eftir að konan mín dó vildi ég helst einangra mig,“ segir hann, „en fljótlega gerði ég mér grein fyrir því að það myndi ekki bæta mér missinn heldur aðeins gera illt verra.“ Ricardo hélt því frekar áfram að sækja kristnar samkomur eins og hann var vanur og segja öðrum frá boðskap Biblíunnar. „Tengslin við Jehóva styrktust þegar ég fann kærleiksríkan stuðning hans og sá hvernig hann svaraði bænum mínum, jafnvel í tengslum við frekar smávægileg mál,“ segir Ricardo. „Ég var meðvita um kærleika Guðs og það hjálpaði mér að þola erfiðustu prófraun sem ég hef nokkurn tíma lent í.“ Hann viðurkennir samt: „Ég sakna konu minnar enn þá sárlega en núna trúi ég því staðfastlega að Jehóva leyfi engu að valda okkur varanlegu tjóni.“

Þráir þú, eins og Ricardo og milljónir annarra, að sjá þann tíma þegar núverandi þjáninga manna ‚skal ekki minnst verða og þær skulu engum í hug koma‘? (Jesaja 65:17) Þú getur vissulega notið þeirra blessana sem ríki Guðs veitir ef þú fylgir þessu ráði Biblíunnar: „Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur!“ — Jesaja 55:6.

Til að hjálpa þér að gera það skaltu leggja ríka áherslu á að lesa og hugleiða orð Guðs vandlega. Kynnstu Guði og þeim sem hann sendi, Jesú Kristi. Leggðu þig fram um að lifa í samræmi við meginreglur Guðs og sýndu þannig að þú sért fús til að lúta drottinvaldi hans. Ef þú gerir þetta veitir það þér aukna hamingju núna þótt þú verðir fyrir prófraunum. Og þá færðu í framtíðinni að lifa í heimi sem er laus við þjáningar. — Jóhannes 17:3.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Neðanmálsathugasemd við 1. Mósebók 2:17 í The Jerusalem Bible segir ‚skilning á góðu og illu‘ vera „valdið til að ákveða . . . hvað sé gott og hvað illt og breyta samkvæmt því, krafan um algert sjálfstæði í siðferðilegum efnum þar sem maðurinn neitar jafnframt að viðurkenna stöðu sína sem sköpuð vera.“ Hún bætir við: „Fyrsta syndin var árás á alræðisvald Guðs.“

^ gr. 17 Nákvæma umfjöllun um spádóma Biblíunnar varðandi árið 1914 er að finna í 10. og 11. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Vottum Jehóva.

[Rammi á blaðsíðu 6, 7]

HVERNIG GETUM VIÐ UMBORIÐ ÞJÁNINGAR?

„Varpið allri áhyggju yðar á [Guð].“ (1. Pétursbréf 5:7) Það er eðlilegt að vera í uppnámi, reið eða finnast við yfirgefin þegar við þjáumst eða horfum upp á ástvin þjást. En við getum verið fullviss um að Jehóva skilur tilfinningar okkar. (2. Mósebók 3:7; Jesaja 63:9) Við getum úthellt hjarta okkar fyrir honum og tjáð efasemdir okkar og áhyggjur eins og trúfastir menn gerðu forðum daga. (2. Mósebók 5:22; Jobsbók 10:1-3; Jeremía 14:19; Habakkuk 1:13) Hann vinnur kannski ekki kraftaverk til að losa okkur við raunir en þegar við biðjum til hans einlæglega getur hann gefið okkur visku og kraft til að takast á við þær. — Jakobsbréfið 1:5, 6.

„Látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.“ (1. Pétursbréf 4:12) Hérna er Pétur að tala um ofsóknir en orð hans má alveg eins heimfæra á þær þjáningar sem trúaðir menn þurfa kannski að þola. Menn líða skort, verða veikir og missa ástvini. Biblían segir að „tími og tilviljun“ mæti öllum. (Prédikarinn 9:11) Þessir hlutir eru þættir í lífi manna nú á dögum. Þegar við gerum okkur grein fyrir því hjálpar það okkur að takast á við þá ógæfu og erfiðleika sem við mætum. (1. Pétursbréf 5:9) En umfram allt fáum við hughreystingu ef við minnumst þess að „augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.“ — Sálmur 34:16; Orðskviðirnir 15:3; 1. Pétursbréf 3:12.

‚Verið glöð í voninni.‘ (Rómverjabréfið 12:12) Í stað þess að hugsa of mikið um fyrri hamingju getum við hugleitt loforð Guðs um að binda enda á allar þjáningar. (Prédikarinn 7:10) Þessi trausta von getur verndað okkur eins og hjálmur verndar höfuðið. Vonin mýkir áföllin í lífinu og kemur í veg fyrir að þau skaði okkur til frambúðar, hvort sem er hugarfarslega, tilfinningalega eða andlega. — 1. Þessaloníkubréf 5:8.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Adam og Eva höfnuðu stjórn Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Guð lofar okkur heimi sem er laus við þjáningar.