Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að vaka!

Nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að vaka!

Nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að vaka!

„Vér skulum . . . ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.“ — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 5:6.

1, 2. (a) Hvers konar borgir voru Pompeii og Hercúlaneum? (b) Hvaða viðvörun hunsuðu margir íbúar Pompeii og Hercúlaneum og með hvaða afleiðingum?

BORGIRNAR Pompeii og Hercúlaneum stóðu í skugga eldfjallsins Vesúvíusar. Þarna var mikil velmegun á fyrstu öld og rómverskir auðmenn sóttu þangað sér til afþreyingar. Leikhúsin tóku meira en þúsund manns í sæti og í Pompeii var hringleikahús sem rúmaði næstum alla borgarbúa. Við uppgröft í Pompeii hafa fundist 118 krár og öldurhús og í sumum þeirra voru stunduð fjárhættuspil eða vændi. Veggskreytingar og aðrar menjar vitna um útbreitt siðleysi og mikla efnishyggju.

2 Eldgos hófst í Vesúvíusi hinn 24. ágúst árið 79. Vikri og ösku rigndi yfir borgirnar tvær í fyrsta sprengigosinu en eldfjallafræðingar telja að það hafi sennilega ekki hindrað að íbúarnir gætu forðað sér og margir virðast hafa gert það. En aðrir vanmátu hættuna eða hunsuðu hreinlega hættumerkin og fóru hvergi. Um miðnætti æddi sjóðheitt gjóskuský niður hlíðar eldfjallsins og kæfði alla sem eftir voru í Hercúlaneum. Snemma morguninn eftir fórust allir í Pompeii í svipuðu gjóskuhlaupi. Allt þetta fólk týndi lífi vegna þess að það hunsaði viðvörunarmerkin.

Þjóðskipulag Gyðinga líður undir lok

3. Hvað er sameiginlegt með eyðingu Jerúsalem annars vegar og eyðingu Pompeii og Hercúlaneum hins vegar?

3 Voveifleg endalok Pompeii og Hercúlaneum hverfa hins vegar í skuggann af eyðingu Jerúsalem níu árum áður, þó svo að eyðingin sú hafi verið af mannavöldum. Eyðing Jerúsalem hefur verið kölluð „eitt hræðilegasta umsátur mannkynssögunnar“ og sagt er að rösklega milljón Gyðingar hafi látið þar lífið. En Jerúsalem var ekki tortímt fyrirvaralaust frekar en Pompeii og Hercúlaneum.

4. Hvaða spádómlegu tákni lýsti Jesús til að vara fylgjendur sína við því að þjóðskipulag Gyðinga væri í þann mund að líða undir lok, og hvernig kom það fram á fyrstu öld?

4 Jesús Kristur hafði spáð því að borginni yrði eytt og sagt fyrir atburði sem yrðu undanfari þess. Hann nefndi styrjaldir, hungursneyð, jarðskjálfta og lögleysi. Falsspámenn myndu láta til sín taka en fagnaðarerindið um ríki Guðs yrði prédikað um heim allan. (Matteus 24:4-7, 11-14) Orð Jesú uppfyllast fyrst og fremst nú á dögum en rættust einnig í minna mæli á þeim tíma. Sagan segir frá alvarlegri hungursneyð í Júdeu. (Postulasagan 11:28) Gyðinglegi sagnaritarinn Jósefus minnist á jarðskjálfta á Jerúsalemsvæðinu skömmu áður en borginni var eytt. Er dró að endalokum hennar voru tíðar uppreisnir og innbyrðis átök klofningshópa meðal Gyðinga, og framin voru fjöldamorð í nokkrum borgum þar sem bjuggu bæði Gyðingar og heiðnir menn. Fagnaðarerindið um ríkið var engu að síður prédikað „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ — Kólossubréfið 1:23.

5, 6. (a) Hvaða spádómsorð Jesú rættust árið 66? (b) Hvers vegna féllu svona margir þegar Jerúsalem var eytt árið 70?

5 Gyðingar gerðu að lokum uppreisn gegn Rómverjum árið 66. Þegar Cestíus Gallus settist um Jerúsalem með her sínum minntust fylgjendur Jesú orða meistara síns: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana.“ (Lúkas 21:20, 21) Nú var kominn tími til að yfirgefa Jerúsalem — en hvernig? Öllum að óvörum hvarf Gallus á burt með hersveitir sínar þannig að kristnir menn í Jerúsalem og Júdeu gátu flúið til fjalla eins og Jesús hafði boðið þeim. — Matteus 24:15, 16.

6 Fjórum árum síðar, um páskaleytið, birtust rómverskar hersveitir á ný undir stjórn Títusar hershöfðingja sem var staðráðinn í að brjóta uppreisn Gyðinga á bak aftur. Herinn umkringdi borgina og reisti um hana „virki“ svo að engum var undankomu auðið. (Lúkas 19:43, 44) Þrátt fyrir stríðsógnina höfðu Gyðingar þyrpst til Jerúsalem alls staðar að úr Rómaveldi til að halda páska. Nú voru þeir innikróaðir. Að sögn Jósefusar voru flestir, sem féllu í umsátri Rómverja, úr hópi þessara lánlausu aðkomumanna. * Þegar borgin féll að lokum tortímdist um sjöundi hver Gyðingur í Rómaveldi. Með eyðingu Jerúsalem og musterisins leið ríki Gyðinga undir lok ásamt trúarkerfinu sem byggt var á Móselögunum. * — Markús 13:1, 2.

7. Hvers vegna lifðu trúfastir kristnir menn af þegar Jerúsalem var eydd?

7 Kristnir Gyðingar hefðu getað fallið eða verið hnepptir í þrælkun árið 70 eins og allir aðrir í Jerúsalem. En söguheimildir herma að þeir hafi hlýtt viðvöruninni sem Jesús gaf 37 árum áður, yfirgefið borgina og ekki snúið þangað aftur.

Tímabær viðvörun tveggja postula

8. Hvað áleit Pétur nauðsynlegt og hvaða orð Jesú hefur hann líklega haft í huga?

8 Nú á dögum vofir margfalt umfangsmeiri tortíming yfir gervöllu heimskerfinu. Sex árum áður en Jerúsalem var eytt kom Pétur með áríðandi og tímabær ráð sem eiga sérstakt erindi til kristinna manna nú á tímum: Haldið vöku ykkar! Pétur taldi nauðsynlegt að „vekja skýra hugsun“ trúsystkina sinna þannig að þau hunsuðu ekki „boðorð Drottins“ Jesú Krists. (2. Pétursbréf 3:1, 2, NW) Þegar Pétur hvetur kristna menn til að halda vöku sinni hefur hann líklega haft í huga það sem hann heyrði Jesú segja postulunum fáeinum dögum áður en hann dó: „Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.“ — Markús 13:33.

9. (a) Hvaða hættulega afstöðu myndu sumir tileinka sér? (b) Af hverju er sérstaklega hættulegt að efast?

9 Á okkar tímum spyrja sumir hæðnislega: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans?“ (2. Pétursbréf 3:3, 4) Þeim finnst greinilega ekkert breytast í raun og veru heldur haldi allt áfram eins og það hefur gert alla tíð frá sköpun heims. Slík vantrú er hættuleg. Efasemdir geta dregið úr ákafa okkar og orðið til þess að við förum að dekra við sjálf okkur. (Lúkas 21:34) Og eins og Pétur bendir á gleyma þessir spottarar flóðinu sem átti sér stað á dögum Nóa þar sem heimur þess tíma leið undir lok. Heimurinn breyttist svo sannarlega á þeim tíma! — 1. Mósebók 6:13, 17; 2. Pétursbréf 3:5, 6.

10. Hvernig hvetur Pétur þá sem kunna að verða óþolinmóðir?

10 Pétur hvetur lesendur bréfsins til að temja sér þolinmæði og minnir þá á hvers vegna Guð geri ekki alltaf tafarlaust það sem hann ætlar sér. Fyrst segir hann: „Einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.“ (2. Pétursbréf 3:8) Jehóva lifir að eilífu þannig að hann getur tekið mið af öllum þáttum málsins og valið heppilegasta tímann til að taka í taumana. Síðan bendir Pétur á að Jehóva vilji að fólk iðrist. Þolinmæði Guðs er mörgum til hjálpræðis sem myndu farast ef hann tæki hvatvíslega í taumana. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4; 2. Pétursbréf 3:9) En langlundargeð Jehóva merkir ekki að hann láti aldrei til skarar skríða. „Dagur Drottins mun koma sem þjófur,“ segir Pétur. — 2. Pétursbréf 3:10.

11. Hvernig getum við haldið andlegri vöku okkar og hvernig getum við ‚flýtt fyrir‘ degi Jehóva, ef svo má segja?

11 Samlíking Péturs er athyglisverð. Það er ekki auðvelt að handsama þjóf en vaki varðmaðurinn alla nóttina eru meiri líkur á að hann komi auga á þjófinn en ef hann dottar stund og stund. Hvernig getur varðmaður haldið sér vakandi? Hann á auðveldara með það ef hann gengur um heldur en ef hann situr alla nóttina. Við kristnir menn eigum líka auðveldara með að halda vöku okkar ef við störfum að málefnum trúarinnar. Pétur hvetur okkur þess vegna til að stunda ‚heilaga breytni og guðrækni.‘ (2. Pétursbréf 3:11) Slík athafnasemi hjálpar okkur að ‚flýta fyrir komu Guðs dags.‘ (2. Pétursbréf 3:12) Ekki svo að skilja að við getum breytt stundaskrá Jehóva því að dagur hans kemur á þeim tíma sem hann hefur ákveðið. Hins vegar finnst okkur tíminn þangað til mun fljótari að líða ef við erum önnum kafin í þjónustu hans. — 1. Korintubréf 15:58.

12. Hvernig getum við, hvert og eitt, notfært okkur langlyndi Jehóva?

12 Ef einhverjum finnst dagur Jehóva dragast á langinn er sá hinn sami hvattur til að fara eftir ráðleggingum Péturs og bíða þess þolinmóður að dagurinn renni upp. Við getum notað viturlega allan þann tíma sem langlyndi Guðs býður upp á. Við getum til dæmis haldið áfram að þroska með okkur mikilvæga kristna eiginleika og komið fagnaðarerindinu á framfæri við mun fleiri en við gætum annars gert. Ef við höldum vöku okkar verðum við ‚flekklaus og lýtalaus frammi fyrir Jehóva í friði‘ þegar þetta heimskerfi líður undir lok. (2. Pétursbréf 3:14, 15) Það verður mikil blessun.

13. Hvað sagði Páll í 1. Þessaloníkubréfi sem á sérstakt erindi til okkar?

13 Páll talar einnig um mikilvægi þess að vaka í fyrra bréfi sínu til kristinna manna í Þessaloníku. Hann ráðleggur: „Vér skulum . . . ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.“ (1. Þessaloníkubréf 5:2, 6) Þetta er mjög áríðandi í ljósi þess að allt heimskerfið líður bráðlega undir lok. Andlegt sinnuleysi er mjög útbreitt í heiminum og það getur haft áhrif á þá sem tilbiðja Jehóva. Þess vegna ráðleggur Páll: „Vér . . . skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi.“ (1. Þessaloníkubréf 5:8) Reglulegt nám í orði Guðs og regluleg samvera með trúsystkinum okkar á safnaðarsamkomum hjálpar okkur að fara eftir ráðleggingu Páls og viðhalda ákefðinni og kappseminni. — Matteus 16:1-3.

Milljónir manna halda vöku sinni

14. Hvaða tölur vitna um að margir fylgja ráðleggingu Péturs og halda vöku sinni?

14 Fara margir eftir hinni innblásnu hvatningu og halda vöku sinni? Já, þegar flest var á þjónustuárinu 2002 sýndu 6.304.645 boðberar að þeir héldu andlegri vöku sinni, 3,1 prósenti fleiri en árið áður. Þeir notuðu alls 1.202.381.302 klukkustundir í að segja öðrum frá ríki Guðs. Þetta starf var snar þáttur í lífi þeirra. Þau Eduardo og Noemi, sem búa í El Salvador, eru dæmigerð fyrir afstöðu margra þeirra.

15. Hvaða dæmi frá El Salvador sýnir að margir halda andlegri vöku sinni?

15 Fyrir nokkrum árum fóru Eduardo og Noemi að hugleiða orð Páls er hann sagði: „Heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.“ (1. Korintubréf 7:31) Þau einfölduðu líf sitt og gerðust brautryðjendur í fullu starfi. Með tíð og tíma hlutu þau margs konar blessun og tóku meðal annars þátt í farand- og umdæmisstarfi. Þrátt fyrir ýmis erfið vandamál eru Eduardo og Noemi sannfærð um að þau hafi tekið rétta ákvörðun þegar þau fórnuðu efnislegum þægindum til að gerast boðberar í fullu starfi. Margir hinna 29.269 boðbera — þeirra á meðal 2.454 brautryðjendur — í El Salvador sýna sömu fórnfýsina en það var meðal annars þess vegna sem boðberum fjölgaði um 2 prósent þar í landi á síðasta ári.

16. Hvaða hugarfar sýndi ungur bróðir á Fílabeinsströndinni?

16 Ungur kristinn maður á Fílabeinsströndinni sýndi sömu viðhorf. Hann skrifaði deildarskrifstofunni: „Ég er safnaðarþjónn. En ég get ekki sagt bræðrunum að gerast brautryðjendur ef ég gef ekki gott fordæmi sjálfur. Þess vegna hef ég sagt upp vel launaðri vinnu og stunda nú sjálfstæða starfsemi sem gefur mér meiri tíma fyrir boðunarstarfið.“ Þessi ungi maður er einn af þeim 983 boðberum sem eru brautryðjendur á Fílabeinsströndinni, en alls var þar 6.701 boðberi á síðasta ári og hafði þeim fjölgað um 5 prósent milli ára.

17. Hvernig sýndi stúlka í Belgíu að hún lét ekki fordóma hræða sig?

17 Umburðarleysi, fordómar og mismunun valda vottum Jehóva í Belgíu erfiðleikum, en þar er alls 24.961 boðberi. Þeir eru engu að síður starfsamir og láta ekki hræða sig. Þegar 16 ára stúlka, sem er vottur Jehóva, heyrði söfnuðinn kallaðan sértrúarreglu í siðfræðitíma í skólanum bað hún um leyfi til að segja frá hinni hliðinni á málinu. Hún notaði myndbandið Jehovah’s Witnesses — The Organization Behind the Name (Vottar Jehóva — skipulagið að baki nafninu) og bæklinginn Jehovah’s Witnesses — Who Are They? (Vottar Jehóva — hverjir eru þeir?) til að sýna fram á hverjir Vottar Jehóva eru í raun og veru. Framlag hennar var vel metið og í vikunni á eftir var lagt próf fyrir nemendur þar sem allar spurningarnar fjölluðu um Votta Jehóva.

18. Af hverju má sjá að boðberar í Argentínu og Mósambík hafa ekki látið fjárhagserfiðleika draga úr þjónustu sinni við Guð?

18 Flestir sannkristnir menn standa frammi fyrir alvarlegum erfiðleikum núna á síðustu dögum. En þeir reyna að láta það ekki leiða sig út af sporinu. Alkunna er að alvarleg efnahagsvandamál steðjuðu að Argentínu á síðasta ári, en þrátt fyrir það urðu boðberar þar í landi 126.709 sem er nýtt hámark. Enn er mikil fátækt í Mósambík. Engu að síður tóku 37.563 þátt í boðunarstarfinu sem er 4 prósenta aukning. Þrátt fyrir margs konar erfiðleika, sem steðja að í Albaníu, fjölgaði boðberum um 12 prósent og urðu þeir 2.708 þegar flestir voru. Ljóst er að erfiðleikar af ýmsu tagi tálma ekki anda Jehóva þegar þjónar hans láta ríki hans ganga fyrir öðru. — Matteus 6:33.

19. (a) Hvað er til merkis um að enn sé að finna fjölda sauðumlíkra manna sem hungrar í sannleika Biblíunnar? (b) Hvað annað í ársskýrslunni sýnir að þjónar Jehóva eru andlega vakandi? (Sjá skýrsluna á bls. 12-15)

19 Að meðaltali voru haldin 5.309.289 biblíunámskeið á mánuði í heiminum á síðasta ári sem sýnir að enn er að finna fjölda sauðumlíkra manna sem hungrar í sannleika Biblíunnar. Alls sóttu 15.597.746 manns minningarhátíðina og hafa aldrei verið fleiri. Meirihluti þeirra er ekki enn farinn að þjóna Jehóva að staðaldri. Vonandi halda þeir áfram að vaxa í þekkingu og kærleika til Jehóva og bræðrafélagsins. Það er hrífandi að sjá ‚mikinn múg‘ af ‚öðrum sauðum‘ þjóna skaparanum „dag og nótt í musteri hans,“ ásamt andasmurðum bræðrum sínum. — Opinberunarbókin 7:9, 15; Jóhannes 10:16.

Lærum af Lot

20. Hvaða lærdóm drögum við af Lot og konu hans?

20 Það getur auðvitað hent trúfastan þjón Guðs að missa niður ákafann um stund. Lot, bróðursonur Abrahams, er dæmi um það. Tveir englar sóttu hann heim og létu hann vita að Guð væri í þann mund að eyða Sódómu og Gómorru. Þessi tíðindi hafa varla komið Lot á óvart því að hann „mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu.“ (2. Pétursbréf 2:7) Engu að síður ‚hikaði hann við‘ þegar englarnir tveir komu til að fylgja honum út úr Sódómu. Englarnir þurftu næstum að draga hann og fjölskyldu hans með sér út úr borginni. Kona Lots óhlýðnaðist síðan viðvörun englanna og horfði um öxl. Þetta kæruleysi varð henni dýrkeypt. (1. Mósebók 19:14-17, 26) „Minnist konu Lots,“ sagði Jesús í viðvörunarskyni. — Lúkas 17:32.

21. Af hverju er brýnna en nokkru sinni fyrr að vaka?

21 Náttúruhamfarirnar sem tortímdu Pompeii og Hercúlaneum, atburðirnir fyrir eyðingu Jerúsalem, Nóaflóðið og dagar Lots eru dæmi sem minna á mikilvægi þess að taka viðvaranir alvarlega. Við sem erum þjónar Jehóva þekkjum táknið um tíma endalokanna. (Matteus 24:3) Við höfum sagt skilið við falstrúarbrögðin. (Opinberunarbókin 18:4) Við þurfum að ‚flýta fyrir komu Guðs dags‘ líkt og kristnir menn á fyrstu öld. (2. Pétursbréf 3:12) Já, nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að vaka! Hvað getum við gert til þess að halda vöku okkar og hvaða eiginleika getum við þroskað með okkur til að halda okkur vakandi? Það er efni greinarinnar á eftir.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Ólíklegt er að Jerúsalembúar hafi verið fleiri en 120.000 á fyrstu öld. Evsebíusi telst til að 300.000 manns, búsettir í Júdeu, hafi ferðast til Jerúsalem til að halda páska árið 70. Aðrir sem féllu hljóta að hafa komið annars staðar að úr Rómaveldi.

^ gr. 6 Frá sjónarhóli Jehóva hafði nýi sáttmálinn reyndar komið í stað Móselaganna árið 33. — Efesusbréfið 2:15.

Hvert er svarið?

• Hvaða framvinda gerði kristnum Gyðingum kleift að forða sér áður en Jerúsalem var eydd?

• Hvað ráðlögðu postularnir Pétur og Páll sem hjálpar okkur að halda okkur vakandi?

• Hverjir sýna merki þess að þeir eru glaðvakandi?

• Hvernig er frásagan af Lot og konu hans lærdómsrík?

[Spurningar]

[Tafla á blaðsíðu 12-15]

SKÝRSLA UM STARF VOTTA JEHÓVA ÞJÓNUSTUÁRIÐ 2002

(Sjá blaðið)

[Mynd á blaðsíðu 9]

Hið kristna samfélag í Jerúsalem hlýddi viðvörun Jesú árið 66.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Kristnir menn eiga auðveldara með að vaka ef þeir eru athafnasamir.