Fyrir og eftir — orð Guðs að verki
„Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður“
Fyrir og eftir — orð Guðs að verki
TONY var ruddalegur og árásargjarn unglingur sem vandi komur sínar í sum af skuggahverfum Sydney í Ástralíu. Meðal vina hans voru meðlimir í glæpaklíkum. Þeir voru oft viðriðnir innbrot, átök við aðrar klíkur og skotbardaga á götum úti.
Tony byrjaði að reykja níu ára að aldri og 14 ára var hann farinn að nota marijúana að staðaldri og lifa siðlausu lífi. Sextán ára var hann orðinn heróínfíkill og í framhaldi af því fór hann að nota kókaín og LSD — „í raun allt sem gat komið mér í vímu,“ eins og hann orðar það. Hann gerði samning við tvö alræmd glæpasamtök um dreifingu eiturlyfja og fyrr en varði var hann þekktur sem einn af áreiðanlegustu eiturlyfjasölum á austurströnd Ástralíu.
Heróín- og marijúanafíkn hans kostaði hann um 14 til 28 þúsund krónur á dag. En það kostaði fjölskyldu hans mun meira. Hann segir: „Nokkrum sinnum otuðu glæpamenn hnífi eða haglabyssu beint framan í mig og konuna mína þegar þeir leituðu að eiturlyfjum og peningum sem við höfðum í fórum okkar.“ Þegar Tony hafði setið þrisvar í fangelsi fannst honum hann nauðbeygður til að endurskoða lífstefnu sína.
Tony fór iðulega í kirkju en fannst hann samt fjarlægur Guði sem sagður var refsa syndurum með því að brenna þá í helvíti að eilífu. Það kom honum þess vegna á óvart þegar tveir af vottum Jehóva heimsóttu hann og sögðu að Guð væri ekki þannig. Og hann var ánægður að hann gæti komið lífi sínu í rétt horf og notið blessunar Guðs. Hann sótti mikla hvatningu í orð Jesú Krists: „Guð megnar allt.“ (Markús 10:27) Og hann var sérstaklega snortinn þegar hann heyrði þessi hughreystandi orð í Jakobsbréfinu 4:8: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“
Nú átti Tony það erfiða verk fyrir höndum að samræma líf sitt siðferðiskröfum Biblíunnar. Hann segir: „Fyrst hætti ég að reykja. Ég hafði reynt mörgum sinnum áður en aldrei tekist það. Og með styrk frá Jehóva gat ég hætt að nota heróín og marijúana sem höfðu haldið mér í heljargreipum í 15 ár. Mig óraði ekki fyrir því að hægt væri að losna við þessa ávana.“
Tony og kona hans hræddust ekki lengur Guð sem kvelur fólk í vítiseldi að eilífu, en það er kenning sem á sér enga stoð í Biblíunni. Þau öðluðust þá von að lifa að eilífu í paradís á jörð. (Sálmur 37:10, 11; Orðskviðirnir 2:21) „Það tók mig langan tíma og mikla vinnu að samræma líf mitt siðferðiskröfum Guðs,“ viðurkennir Tony, „en með stuðningi Jehóva hefur mér tekist það.“
Já, þessi fyrrverandi eiturlyfjafíkill varð kristinn maður. Hann og konan hans hafa gefið fúslega af tíma sínum og efnislegum eigum með því að verja þúsundum klukkustunda í biblíufræðslustarf. Þau eru einnig upptekin við að ala upp tvö guðhrædd börn. Þessar róttæku breytingar voru gerðar með ómótstæðilegum krafti orðs Guðs, Biblíunnar. Eins og Páll postuli segir er ,orð Guðs lifandi og kröftugt.‘ —Þrátt fyrir svona jákvæð dæmi staðhæfa sumir að biblíufræðslustarf Votta Jehóva eyðileggi fjölskyldur og grafi undan heilbrigðum lífsgildum hjá ungu fólki. Frásagan af Tony afsannar þessa óréttlátu fullyrðingu.
Líkt og Tony hafa margir komist að raun um að það er hægt að yfirstíga banvæna ávana með því að trúa á Guð og reiða sig á hann og orð hans, ásamt því að fá stuðning frá umhyggjusömum og kærleiksríkum kristnum mönnum. Tony segir að lokum glaður í bragði: „Ég hef orðið vitni að því hvernig meginreglur Biblíunnar hafa verndað börnin mín. Kenningar Biblíunnar hafa bjargað hjónabandi mínu. Og nágrannarnir sofa rótt þar sem engin hætta stafar af mér lengur.“
[Innskot á blaðsíðu 31]
,Með styrk frá Jehóva gat ég lagt af fíkniávana sem hafði haldið mér í heljargreipum í 15 ár.‘
[Rammi á blaðsíðu 31]
Meginreglur Biblíunnar að verki
Hinar ýmsu meginreglur í Biblíunni hafa hjálpað mörgum eiturlyfjafíklum að snúa baki við þessum heilsuspillandi ávana. Hér eru sumar af þessum meginreglum:
„Hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ (2. Korintubréf 7:1) Það samræmist ekki lögum Guðs að nota eiturlyf.
„Ótti Drottins er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn heilaga eru hyggindi.“ (Orðskviðirnir 9:10) Lotning fyrir Jehóva, sem byggð er á nákvæmri þekkingu á honum og vegum hans, hefur hjálpað mörgum að losna úr viðjum eiturlyfja.
„Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Með því að treysta á Guð af öllu hjarta og reiða sig algerlega á hann er hægt að leggja af banvæna ávana.