Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafðu ánægju af námi þínu í orði Guðs

Hafðu ánægju af námi þínu í orði Guðs

Hafðu ánægju af námi þínu í orði Guðs

„Ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.“ — SÁLMUR 77:13.

1, 2. (a) Hvers vegna verðum við að taka okkur tíma til að hugleiða? (b) Hvað er fólgið í því að hugleiða og íhuga?

VIÐ erum lærisveinar Jesú Krists og ættum því að hugsa alvarlega um samband okkar við Guð og þær hvatir sem liggja að baki þjónustunni við hann. Flestir eru hins vegar svo uppteknir að þeir gefa sér ekki tíma til að hugleiða. Þeir eru algerlega niðursokknir í efnishyggju, kaupæði og hugsunarlausa skemmtanafíkn. Hvernig getum við forðast þess konar hégóma? Rétt eins og við tökum frá tíma á hverjum degi til að borða og sofa verðum við að íhuga athafnir og stórvirki Jehóva alla daga. — 5. Mósebók 8:3; Matteus 4:4.

2 Tekur þú þér tíma til að hugleiða? Hvað felur það í sér? Orðabók gefur upp samheitin „leiða hugann að, hugsa, ígrunda, íhuga, melta, skoða, yfirskoða, yfirvega.“ Önnur orðabók skilgreinir sögnina að „íhuga“ sem að „hugsa um, hugleiða, bræða með sér, bollaleggja.“ Hvað hefur þetta að segja fyrir okkur?

3. Hverju er andleg framför nátengd?

3 Þetta ætti að minna okkur á það sem Páll postuli skrifaði samþjóni sínum Tímóteusi: „Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna. . . . Stunda [„hugleiddu,“ NW] þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ Það var ætlast til þess að Tímóteus tæki framförum og orð Páls sýna að framför er nátengd því að hugleiða andleg mál. Því er eins farið nú á dögum. Við verðum að ,hugleiða‘ og ‚vera öll‘ í því sem tengist orði Guðs til að njóta gleðinnar sem fylgir því að taka andlegum framförum. — 1. Tímóteusarbréf 4:13-15.

4. Hvað getur hjálpað þér að hugleiða orð Jehóva reglulega?

4 Það er undir sjálfum þér og dagskrá fjölskyldunnar komið hvenær best er fyrir þig að hugleiða andleg mál. Margir íhuga ritningarstað snemma á morgnana þegar þeir lesa í bæklingnum Rannsökum daglega ritningarnar. Um 20.000 sjálfboðaliðar á Betelheimilum víðs vegar um heiminn byrja daginn á 15 mínútna umfjöllun um ritningarstað dagsins. Þó að það séu aðeins fáir sem svara á hverjum morgni hugleiða hinir það sem sagt er og lesið. Aðrir hugleiða orð Guðs á leið í vinnu með því að hlusta á hljóðupptökur af Biblíunni og Varðturninum og Vaknið! en þær eru fáanlegar á nokkrum tungumálum. Margar húsmæður gera þetta meðan þær sinna heimilisstörfunum. Í raun eru þau að líkja eftir sálmaritaranum Asaf sem skrifaði: „Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum, ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.“ — Sálmur 77:12, 13.

Rétt viðhorf gefur góðan árangur

5. Hvers vegna ætti einkanám að vera okkur mikilvægt?

5 Lestri hefur hrakað mjög í nútímasamfélagi þar sem mikil áhersla er lögð á sjónvarp, myndbönd og tölvur. Þannig ætti það alls ekki að vera hjá vottum Jehóva því að biblíulestur er í rauninni eins og líflína milli okkar og Jehóva. Þegar Jósúa tók við af Móse sem leiðtogi Ísraelsþjóðarinnar endur fyrir löngu var honum sagt að hann yrði að lesa orð Jehóva til að hljóta blessun hans. (Jósúabók 1:8; Sálmur 1:1, 2) Þess er einnig krafist af okkur. Þeir sem hafa litla menntun geta hins vegar átt erfitt með lestur eða fundist hann leiðigjarn. Hvað getur eflt löngun okkar til að lesa og grannskoða orð Guðs? Svarið er að finna í orðum Salómons konungs í Orðskviðunum 2:1-6. Flettu upp í biblíunni þinni og lestu þessi vers. Síðan skulum við ræða um þau saman.

6. Hvernig ættum við að líta á þekkinguna á Guði?

6 Versin byrja á eftirfarandi hvatningu: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, . . .“ (Orðskviðirnir 2:1, 2) Þetta segir okkur að hvert og eitt okkar ber þá ábyrgð að grannskoða orð Guðs. Taktu eftir skilyrðinu sem sett er: „Ef þú veitir orðum mínum viðtöku.“ Þetta er stórt „ef“ því að meirihluti mannkyns gefur orði Guðs engan gaum. Nám í Biblíunni verður ánægjulegt ef við erum fús að veita orðum Jehóva viðtöku og fara með þau eins og fjársjóð sem við viljum ekki glata. Við ættum aldrei að leyfa hinu daglega amstri að gera okkur svo upptekin eða annars hugar að orð Guðs fari að skipta okkur litlu máli eða jafnvel að efasemdir fari að slæðast inn í huga okkar. — Rómverjabréfið 3:3, 4.

7. Hvers vegna ættum við að vera viðstödd safnaðarsamkomur þegar við mögulega getum og taka vel eftir því sem þar fer fram?

7 ,Ljáum við virkilega athygli okkar‘ og hlustum við gaumgæfilega þegar orð Guðs er útskýrt á safnaðarsamkomum? (Efesusbréfið 4:20, 21) ,Hneigjum við hjarta okkar‘ að því að öðlast hyggindi? Ræðumaðurinn er ef til vill ekki mjög reyndur en hann á skilið að fá óskipta athygli okkar meðan hann fjallar um orð Guðs. Við verðum auðvitað að vera viðstödd safnaðarsamkomur hvenær sem þess er nokkur kostur til að geta gefið gaum að visku Jehóva. (Orðskviðirnir 18:1, NW) Hugsaðu þér vonbrigði þeirra sem kunna að hafa misst af samkomunni sem haldin var í loftstofu í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33. Þó að samkomur okkar séu ekki eins tilkomumiklar er fjallað þar um Biblíuna, helstu kennslubók okkar. Hver einasta samkoma getur því verið andlega uppörvandi ef við tökum vel eftir því sem sagt er og fylgjumst með í biblíum okkar. — Postulasagan 2:1-4; Hebreabréfið 10:24, 25.

8, 9. (a) Hvað útheimtir einkanám af okkur? (b) Hvernig myndir þú bera saman þekkinguna á Guði og verðmæti gulls?

8 Hinn vitri konungur segir næst: „Já, ef þú kallar á skynsemina [„skilning,“ NW] og hrópar á hyggindin, . . .“ (Orðskviðirnir 2:3) Hvaða viðhorf eða tilhneiging kemur fram í þessum orðum? Þau gefa til kynna einlæga löngun til að skilja orð Jehóva. Þau lýsa námfýsi með það að markmiði að öðlast hyggindi, að skilja hver vilji Jehóva er. En þetta útheimtir vissulega að við reynum á okkur og Salómon lýsir því vel í næstu líkingu sinni. — Efesusbréfið 5:15-17.

9 Hann heldur áfram: „Ef þú leitar að þeim [skilningi og hyggindum] sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, . . .“ (Orðskviðirnir 2:4) Þetta minnir á námugröft. Í aldanna rás hafa menn unnið mikil þrekvirki í leit að hinum svokölluðu eðalmálmum, silfri og gulli. Menn hafa drepið fyrir gull. Aðrir hafa leitað gulls alla ævi. En hvaða gildi hefur gull í raun og veru? Hvort myndir þú heldur vilja gullmola eða vatnsglas ef þú værir villtur í eyðimörk og værir að deyja úr þorsta? Menn hafa samt leitað að gulli af miklum ákafa þrátt fyrir að verðmæti þess sé tilbúið og sveiflukennt. * Hve miklu fremur ættum við ekki að leita eftir speki, hyggindum og skilningi á Guði og vilja hans! En hvaða gagn höfum við af slíkri leit? — Sálmur 19:8-11; Orðskviðirnir 3:13-18.

10. Hvað getum við fundið með námi í orði Guðs?

10 Salómon heldur umfjöllun sinni áfram: „Þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði.“ (Orðskviðirnir 2:5) Hugsa sér að við, syndugir menn, getum öðlast „þekking á Guði“ Jehóva, alheimsdrottni. Það er stórkostleg tilhugsun. (Sálmur 73:28; Postulasagan 4:24) Heimspekingar og svokallaðir vitringar heimsins hafa í aldaraðir reynt að skilja leyndardóma lífsins og alheimsins. Þeir hafa hins vegar ekki fundið ,þekkinguna á Guði‘ þó svo að hana hafi verið að finna í orði Guðs, Biblíunni, í árþúsundir. Þeir hafna henni vegna þess að þeim finnst hún of einföld og taka því hvorki við henni né skilja hana. — 1. Korintubréf 1:18-21.

11. Hvaða gagn höfum við meðal annars af einkanámi?

11 Salómon segir næst: „Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“ (Orðskviðirnir 2:6) Þetta ætti að vera mjög hvetjandi. Jehóva gefur örlátlega visku, þekkingu og hyggindi hverjum þeim sem er reiðubúinn að leita þeirra. Við höfum ærna ástæðu til að leggja rækt við einkanám í orði Guðs þó svo að það útheimti áreynslu, sjálfsaga og fórnir. Við höfum Biblíuna að minnsta kosti á prenti og þurfum ekki að búa til handskrifuð afrit af henni eins og sumir gerðu til forna. — 5. Mósebók 17:18, 19.

Að hegða sér eins og Jehóva er samboðið

12. Af hvaða hvötum ættum við að afla okkur þekkingar á Guði?

12 Hver ætti að vera hvötin að baki einkanámi okkar? Að sýnast betri en aðrir? Að láta bera á þekkingu okkar? Að verða lifandi biblíualfræðibækur? Nei, alls ekki. Markmið okkar er að vera kristin að öllu leyti, ávallt reiðubúin að hjálpa öðrum á uppörvandi hátt eins og Kristur gerði. (Matteus 11:28-30) Páll postuli aðvaraði: „Þekkingin blæs menn upp, en kærleikurinn byggir upp.“ (1. Korintubréf 8:1) Við ættum því að vera auðmjúk eins og Móse er hann sagði við Jehóva: „Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig, svo að ég finni náð í augum þínum.“ (2. Mósebók 33:13) Við ættum því að afla okkur þekkingar til að þóknast Guði en ekki til að vekja hrifningu manna. Okkur langar til að vera Jehóva Guði samboðin og auðmjúkir þjónar hans. Hvernig getum við gert það?

13. Hvað þarf þjónn Guðs að gera til að vera honum samboðinn?

13 Páll ráðlagði Tímóteusi hvernig hann gæti þóknast Guði er hann sagði: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Orðasambandið að ,fara rétt með‘ er þýðing á samsettri grískri sögn sem merkti upphaflega „klippandi beint“ eða ,að klippa beint.‘ (Kingdom Interlinear) Sumir álíta að hugsunin sé klæðskeri sem klippir dúk eftir sniði, bóndi sem gerir plógför í akur og svo framvegis. Lokaútkoman verður í það minnsta að vera bein eða rétt. Kjarni málsins er sá að Tímóteus varð að ,leggja kapp á‘ að kenna og hegða sér í samræmi við orð sannleikans til að vera hæfur þjónn Jehóva og honum samboðinn. — 1. Tímóteusarbréf 4:16.

14. Hvernig ætti einkanám að hafa áhrif á það sem við segjum og gerum?

14 Páll kom sömu hugsun á framfæri við kristna menn í Kólossu er hann hvatti þá til að ,hegða sér eins og Drottni er samboðið‘ með því að ,bera ávöxt í öllu góðu verki og vaxa að þekkingu á Guði.‘ (Kólossubréfið 1:10) Af orðum Páls að dæma er það að vera Jehóva samboðinn tengt því að ,bera ávöxt í öllu góðu verki‘ ásamt því að ‚vaxa að þekkingu á Guði.‘ Jehóva lítur með öðrum orðum ekki aðeins á það hversu mikils við metum þekkingu heldur einnig í hvaða mæli við förum eftir orði hans í því sem við segjum og gerum. (Rómverjabréfið 2:21, 22) Þetta merkir að einkanám okkar verður að hafa áhrif á hugsun okkar og hegðun ef við viljum þóknast Guði.

15. Hvernig getum við verndað huga okkar og hugsanir og haft stjórn á þeim?

15 Satan er ákveðinn í að eyðileggja andlegt hugarfar okkar með því að stuðla að innri baráttu með okkur. (Rómverjabréfið 7:14-25) Við verðum því að vernda huga okkar og hugsanir og hafa stjórn á þeim til að vera Guði okkar, Jehóva, samboðin. Við höfum ,þekkinguna á Guði‘ að vopni og með henni getum við ,hertekið hverja hugsun til hlýðni við Krist.‘ Þetta gefur okkur enn ríkari ástæðu til að nema Biblíuna á hverjum degi til að hreinsa hugann af eigingjörnum og holdlegum hugsunum. — 2. Korintubréf 10:5.

Námsrit til skilningsauka

16. Hvernig getum við haft gagn af kennslu Jehóva?

16 Kennsla Jehóva er ekki þurr háskólaguðfræði heldur gagnast okkur bæði andlega og líkamlega. Við lesum: „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ (Jesaja 48:17) Hvernig hjálpar Jehóva okkur að gera það sem okkur er gagnlegt? Fyrst og fremst höfum við innblásið orð hans, heilaga Biblíu. Hún er aðalkennslubók okkar sem við leitum sífellt til. Þess vegna er gott að fylgjast með í okkar eigin biblíu á safnaðarsamkomum. Við getum séð hversu gagnlegt það er af frásögunni um eþíópíska hirðmanninn í 8. kafla Postulasögunnar.

17. Hvað gerðist í tengslum við eþíópíska hirðmanninn og hvað undirstrikar það?

17 Eþíópíski hirðmaðurinn hafði tekið gyðingatrú. Hann var einlægur í trú sinni á Guð og grannskoðaði Ritningarnar. Eitt sinn var hann á ferð í vagni sínum og las í Jesaja. Filippus hljóp þá upp að vagninum og spurði: „Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?“ Hvernig svaraði hirðmaðurinn? Hann sagði: „,Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?‘ Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér.“ Filippus hjálpaði síðan hirðmanninum að skilja spádóminn í Jesaja undir handleiðslu heilags anda. (Postulasagan 8:27-35) Þetta undirstrikar að það er ekki nóg að lesa í Biblíunni út af fyrir sig. Með anda sínum notar Jehóva hinn trúa og hyggna þjónshóp til að hjálpa okkur að skilja orð sitt á réttum tíma. Hvernig er þetta gert? — Matteus 24:45-47; Lúkas 12:42.

18. Hvernig hjálpar hinn trúi og hyggni þjónshópur okkur?

18 Jesús sagði að þjónshópurinn yrði ,trúr og hygginn‘ en hann sagði ekki að hann yrði óskeikull. Þessi hópur andasmurðra bræðra samanstendur eftir sem áður af ófullkomnum kristnum mönnum. Jafnvel þó að þeir reyni sitt besta getur þeim skjátlast, rétt eins og andasmurðum mönnum á fyrstu öldinni. (Postulasagan 10:9-15; Galatabréfið 2:8, 11-14) En þeir þjóna af hreinu tilefni og Jehóva notar þá til að láta okkur í té biblíunámsgögn sem við getum notað til að byggja upp trú okkar á orð hans og loforð. Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar er helsta einkanámsritið sem þjónshópurinn hefur gefið okkur. Nú er hún fáanleg að hluta eða í heild á 42 tungumálum og 114 milljónir eintaka hafa verið prentaðar í hinum ýmsu útgáfum. Hvernig getum við notað hana á áhrifaríkan hátt í einkanámi okkar? — 2. Tímóteusarbréf 3:14-17.

19. Hvernig getum við haft gagn af Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar — með tilvísunum í einkanámi okkar?

19 Líttu til dæmis á Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar — með tilvísunum. Í henni eru neðanmálsathugasemdir, orðstöðulykill, atriðisorðaskrá fyrir neðanmálsathugasemdir, viðauki þar sem farið er ítarlega yfir 43 viðfangsefni ásamt kortum og skýringarmyndum og á hverri síðu er dálkur með millivísunum. Og ekki má gleyma innganginum þar sem útlistaðar eru hinar ýmsu heimildir sem notaðar voru við þessa einstæðu þýðingu á Biblíunni. Ef hún er til á tungumáli sem þú skilur skaltu fyrir alla muni læra að nota það sem hún hefur upp á að bjóða. Biblían er að minnsta kosti byrjunarreiturinn í námi okkar og í Nýheimsþýðingunni er rétt áhersla lögð á nafn Guðs og ríki. — Sálmur 149:1-9; Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10.

20. Hvaða spurningum um einkanám þarf nú að fá svör við?

20 Við gætum spurt okkur núna: ,Hvaða frekari hjálp þurfum við til að skilja Biblíuna? Hvernig getum við tekið frá tíma til einkanáms? Hvernig getum við gert námið árangursríkara? Hvernig ætti nám okkar að snerta aðra?‘ Næsta grein fjallar um þessa mikilvægu þætti í andlegum framförum okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Frá 1979 hefur verðgildi gulls sveiflast frá um 74.000 krónum á únsu árið 1980, þegar það var hæst, niður í um 22.000 krónur á únsu árið 1999 þegar það var lægst.

Manstu?

• Hvað þýðir það að „hugleiða“?

• Hvaða viðhorf ættum við að hafa til náms í orði Guðs?

• Hvaða hvatir ættu að liggja að baki einkanámi okkar?

• Hvaða námsrit höfum við til að hjálpa okkur að skilja Biblíuna?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Betelfjölskyldunni finnst trústyrkjandi að byrja daginn á því að ræða um ritningarstað.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Hægt er að nýta dýrmætan tíma með því að hlusta á biblíusnældur við akstur.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Menn lögðu hart að sér í leit að gulli. Hve mikið leggur þú þig fram um að nema orð Guðs?

[Credit line]

Með góðfúslegu leyfi California State Parks, 2002.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Biblían er fjársjóður sem getur leitt til eilífs lífs.