Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnir menn þarfnast hver annars

Kristnir menn þarfnast hver annars

Kristnir menn þarfnast hver annars

„Vér erum hver annars limir.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:25.

1. Hvað segir alfræðiorðabók um mannslíkamann?

MANNSLÍKAMINN er undravert sköpunarverk. Alfræðiorðabókin The World Book Encyclopedia segir: „Fólk kallar mannslíkamann stundum vél — stórkostlegustu vél sem hefur verið smíðuð. Mannslíkaminn er auðvitað ekki vél en það má líkja honum við vél að mörgu leyti. Líkaminn er gerður úr mörgum hlutum eins og vélin. Hver líkamshluti sinnir sérstöku verkefni líkt og hver hluti vélarinnar. En allir hlutarnir vinna saman svo að líkaminn eða vélin geti gengið þýðlega.“

2. Hvað er líkt með mannslíkamanum og kristna söfnuðinum?

2 Já, mannslíkaminn hefur marga hluta eða limi og hver þeirra sinnir þörfu verkefni. Engri æð, vöðva eða öðrum líkamshluta er ofaukið. Hið sama er að segja um kristna menn innan safnaðarins. Allir geta lagt sitt af mörkum til að stuðla að andlegu heilbrigði og fegurð safnaðarins. (1. Korintubréf 12:14-26) Þó að engum safnaðarmanni ætti að finnast hann öðrum æðri ætti heldur engum að finnast hann lítilvægur. — Rómverjabréfið 12:3.

3. Hvernig bendir Efesusbréfið 4:25 á að kristnir menn þarfnist hver annars?

3 Limir líkamans eru háðir hver öðrum. Á sama hátt þarfnast kristnir menn hver annars. Páll postuli sagði andasmurðum trúbræðrum sínum: „Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.“ (Efesusbréfið 4:25) Þeir sem tilheyra hinum andlega Ísrael eða „líkama Krists“ eru „hver annars limir“ og vinna því vel saman og eiga heiðarleg tjáskipti. Já, þeir tilheyra allir hver öðrum. (Efesusbréfið 4:11-13) Kristnir menn með jarðneska von njóta þess einnig að vinna með þeim og eru sannorðir og samstarfsfúsir.

4. Hvernig er hægt að aðstoða nýja?

4 Á hverju ári skírast þúsundir manna sem hafa þá von að lifa í paradís á jörð. Aðrir innan safnaðarins aðstoða þá fúslega við að „sækja fram til fullkomleikans.“ (Hebreabréfið 6:1-3) Þessi aðstoð felur meðal annars í sér að svara spurningum um Biblíuna eða aðstoða þá í boðunarstarfinu. Við getum gefið nýjum gott fordæmi með því að taka reglulega þátt í safnaðarsamkomum. Þegar erfiðleikar steðja að getum við líka uppörvað þá og hughreyst. (1. Þessaloníkubréf 5:14, 15) Reynum að finna leiðir til að hjálpa öðrum að ‚lifa í sannleikanum.‘ (3. Jóhannesarbréf 4) Hvort sem við erum ung eða gömul, höfum nýlega kynnst sannleikanum eða lifað í honum um áraraðir getum við stuðlað að andlegri velferð trúsystkina okkar — og þau þurfa á okkur að halda.

Þau buðu fram hjálp sína

5. Hvernig hjálpuðu Akvílas og Priskilla Páli?

5 Kristnum hjónum þykir ánægjulegt að hjálpa trúsystkinum sínum. Hjónin Akvílas og Priskilla (Priska) veittu Páli til dæmis aðstoð. Þau buðu honum að vera á heimili sínu, unnu með honum við tjaldgerð og hjálpuðu honum að styrkja nýja söfnuðinn í Korintu. (Postulasagan 18:1-4) Þau stofnuðu lífi sínu jafnvel í hættu fyrir Pál þó að ekki sé tilgreint með hvaða hætti. Þau bjuggu í Róm þegar Páll sagði kristnum mönnum í þeirri borg: „Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig, og fyrir það votta ég þeim ekki einn þakkir, heldur og allir söfnuðir meðal heiðingjanna.“ (Rómverjabréfið 16:3, 4) Kristnir menn nú á dögum styrkja söfnuði og hjálpa trúbræðrum sínum með ýmsu móti eins og Akvílas og Priskilla gerðu. Stundum hætta þeir jafnvel lífi sínu til að vernda aðra þjóna Guðs fyrir grimmd eða dauða af hendi ofsóknarmanna.

6. Hvaða aðstoð fékk Apollós?

6 Akvílas og Priskilla veittu líka hinum mælska Apollósi aðstoð en hann var að fræða Efesusmenn um Jesú Krist. Á þeim tíma þekkti Apollós aðeins skírn Jóhannesar sem var til tákns um iðrun vegna synda gegn lagasáttmálanum. Akvílas og Priskilla gerðu sér grein fyrir því að Apollós þurfti smá aðstoð og „skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg.“ Sennilega útskýrðu þau fyrir honum að kristin skírn fæli í sér niðurdýfingu í vatn og úthellingu heilags anda. Apollós tileinkaði sér það sem þau kenndu honum. Seinna, þegar hann var í Akkeu, varð hann „til mikillar hjálpar þeim, sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú, því hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum, að Jesús væri Kristur.“ (Postulasagan 18:24-28) Athugasemdir trúsystkina geta oft aukið skilning okkar á orði Guðs. Við þurfum líka hvert á öðru að halda hvað þetta varðar.

Efnisleg aðstoð

7. Hvernig brugðust Filippímenn við þegar trúbræður þeirra þurftu efnislega aðstoð?

7 Kristnum mönnum í söfnuðinum í Filippí þótti innilega vænt um Pál og þeir sendu honum nauðsynjar þegar hann var í Þessaloníku. (Filippíbréfið 4:15, 16) Þegar bræðurnir í Jerúsalem þurftu efnislega aðstoð sýndu Filippímenn að þeir voru fúsir til að leggja sitt af mörkum og gáfu jafnvel meira en þeir höfðu efni á. Páll kunni svo vel að meta hugarfar bræðra sinna og systra í Filippí að hann sagði þau vera fordæmi fyrir aðra trúaða menn. — 2. Korintubréf 8:1-6.

8. Hvaða hugarfar sýndi Epafrodítus?

8 Þegar Páll var í fangelsi gáfu Filippímenn honum ekki aðeins efnislegar gjafir heldur sendu þeir honum einnig erindreka sinn Epafrodítus. Páll sagði: „[Epafrodítus] var að vinna fyrir Krist. Þess vegna var hann að dauða kominn. Hann lagði líf sitt í hættu til þess að bæta upp það, sem brast á hjálp yðar mér til handa.“ (Filippíbréfið 2:25-30; 4:18) Okkur er ekki sagt hvort Epafrodítus hafi verið öldungur eða safnaðarþjónn. En hvað sem því líður var hann fórnfús og hjálpsamur kristinn maður og Páll þurfti virkilega á honum að halda. Er einhver eins og Epafrodítus í söfnuðinum þínum?

Þau voru „til huggunar“

9. Hvernig er Aristarkus okkur fordæmi?

9 Kærleiksríkir bræður og systur eins og Akvílas, Priskilla og Epafrodítus eru mikils metin í öllum söfnuðum. Sumir trúbræðra okkar eru kannski líkir Aristarkusi sem var kristinn maður á fyrstu öld. Sagt er að hann og aðrir hafi verið „til huggunar.“ Kannski hughreystu þeir bræðurna eða aðstoðuðu þá við ýmis almenn mál. (Kólossubréfið 4:10, 11) Aristarkus aðstoðaði Pál og reyndist þannig vera sannur vinur á neyðarstundu. Lýsingin í Orðskviðunum 17:17 á vel við hann: „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.“ Ættum við ekki öll að leitast við að vera trúsystkinum okkar „til huggunar“ og styrktar? Við ættum sérstaklega að aðstoða þá sem lenda í erfiðleikum.

10. Hvernig var Pétur kristnum öldungum fyrirmynd?

10 Sérstaklega verða kristnir öldungar að vera andlegum bræðrum sínum og systrum til huggunar og styrktar. Kristur sagði Pétri postula: „Styrk þú bræður þína.“ (Lúkas 22:32) Pétur gat gert það vegna þess að hann hafði til að bera sterka og trausta eiginleika; sérstaklega eftir upprisu Jesú. Öldungar, reynið eftir fremsta megni að gera hið sama á vingjarnlegan hátt og með fúsum huga, því að trúsystkini ykkar þarfnast ykkar. — Postulasagan 20:28-30; 1. Pétursbréf 5:2, 3.

11. Hvað getum við lært af hugarfari Tímóteusar?

11 Tímóteus, ferðafélagi Páls, var öldungur sem lét sér innilega annt um trúsystkini sín. Þó að hann hafi verið heilsulítill sýndi hann óhagganlega trú og ‚þjónaði að boðun fagnaðarerindisins með Páli.‘ Postulinn gat því sagt Filippímönnum: „Ég hef engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar.“ (Filippíbréfið 2:20, 22; 1. Tímóteusarbréf 5:23; 2. Tímóteusarbréf 1:5) Við getum verið öðrum tilbiðjendum Jehóva til blessunar með því að sýna sama hugarfar og Tímóteus. Auðvitað verðum við að berjast við mannlega veikleika og ýmsar prófraunir. En eins og Tímóteus getum við og ættum að sýna sterka trú og kærleiksríka umhyggju í garð andlegra bræðra okkar og systra. Við ættum alltaf að muna að þau þurfa á okkur að halda.

Konur sem létu sér annt um aðra

12. Hvað getum við lært af fordæmi Dorkasar?

12 Dorkas var guðrækin kona sem lét sér annt um aðra. Þegar hún dó kölluðu lærisveinarnir á Pétur og fóru með hann upp í loftstofu eina. Þar ‚komu allar ekkjurnar til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir sem Dorkas hafði gert meðan hún var hjá þeim.‘ Dorkas var lífguð við og hún hélt eflaust áfram að vera „góðgerðasöm og örlát við snauða.“ Í kristna söfnuðinum nú á dögum eru konur eins og Dorkas sem sauma kannski föt eða vinna önnur kærleiksverk fyrir þá sem eru þurfandi. Vissulega snúa góðverk þeirra aðallega að því að vinna að hagsmunum Guðsríkis og taka þátt í því að gera menn að lærisveinum. — Postulasagan 9:36-42; Matteus 6:33; 28:19, 20.

13. Hvernig sýndi Lýdía trúbræðrum sínum umhyggju?

13 Guðhrædd kona, Lýdía að nafni, lét sér einnig annt um aðra. Hún var ættuð frá Þýatíruborg en bjó í Filippí þegar Páll prédikaði þar um árið 50. Lýdía hafði sennilega tekið gyðingatrú en hugsanlegt er að fáir Gyðingar hafi búið í Filippí og ekkert samkunduhús hafi verið þar. Hún og aðrar guðhræddar konur voru samankomnar við á nokkra til að tilbiðja þegar postulinn boðaði þeim fagnaðarerindið. Frásagan segir: „Opnaði Drottinn hjarta [Lýdíu], og hún tók við því, sem Páll sagði. Hún var skírð og heimili hennar og hún bað oss: ‚Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á Drottin.‘ Þessu fylgdi hún fast fram.“ (Postulasagan 16:12-15) Lýdía vildi gera öðrum gott og taldi því Pál og félaga hans á að dvelja hjá sér. Við kunnum svo sannarlega að meta það þegar vingjarnlegir og kærleiksríkir kristnir menn sýna svipaða gestrisni nú á dögum. — Rómverjabréfið 12:13; 1. Pétursbréf 4:9.

Við þörfnumst ykkar barnanna líka

14. Hvernig kom Jesús Kristur fram við börn?

14 Sonur Guðs, Jesús Kristur, stofnaði kristna söfnuðinn. Fólki leið vel í návist hans því að hann var kærleiksríkur, hjartahlýr og brjóstgóður. Einu sinni, þegar fólk kom með börn sín til Jesú, reyndu lærisveinarnir að senda þau í burtu. En Jesús sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.“ (Markús 10:13-15) Til að fá blessun Guðsríkis verðum við að vera auðmjúk og námfús eins og börn. Jesús sýndi að honum þótti vænt um börnin með því að taka þau í faðm sér og blessa þau. (Markús 10:16) En hvað um ykkur börnin nú á dögum? Þið getið verið viss um að þið eruð elskuð og ykkar er þörf í söfnuðinum.

15. Hvaða frásaga úr lífi Jesú er skráð í Lúkasi 2:40-52 og hvaða fordæmi gaf hann börnum?

15 Jesús sýndi ungur að árum að honum þótti vænt um Guð og Ritninguna. Þegar hann var 12 ára fóru hann og foreldrar hans, Jósef og María, frá heimabæ sínum, Nasaret, til Jerúsalem til að halda páska. Á leiðinni heim uppgötvuðu foreldrar Jesú að hann var ekki með samferðafólkinu. Þau fundu hann að lokum þar sem hann sat í einum af musterissölunum og var að hlusta á kennara Gyðinga og spyrja þá spurninga. Jesús var hissa á því að Jósef og María skyldu ekki hafa vitað hvar hann væri og spurði þau: „Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?“ Hann fór heim með foreldrum sínum, var þeim áfram undirgefinn og hélt áfram að þroskast að visku og vexti. (Lúkas 2:40-52) Jesús gaf börnum mjög gott fordæmi. Þau ættu að hlýða foreldrum sínum og hafa áhuga á að læra um andleg mál. — 5. Mósebók 5:16; Efesusbréfið 6:1-3.

16. (a) Hvað hrópuðu nokkrir drengir þegar Jesús var að vitna í musterinu? (b) Hvaða sérréttindi hafa kristin börn nú á dögum?

16 Ef þú ert ungur að árum vitnarðu kannski um Jehóva í skólanum og hús úr húsi með foreldrum þínum. (Jesaja 43:10-12; Postulasagan 20:20, 21) Þegar Jesús var að vitna og lækna fólk í musterinu stuttu fyrir dauða sinn, hrópuðu nokkrir drengir: „Hósanna syni Davíðs!“ Æðstu prestarnir og fræðimennirnir urðu reiðir og spurðu: „Heyrir þú, hvað þau segja?“ „Já,“ svaraði Jesús. „Hafið þér aldrei lesið þetta: ‚Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof.‘“ (Matteus 21:15-17) Þið unga fólkið í söfnuðinum hafið þau miklu sérréttindi að lofa Guð og son hans eins og þessi börn gerðu. Við viljum og þurfum á því að halda að þið starfið með okkur sem boðberar Guðsríkis.

Þegar erfiðleikar steðja að

17, 18. (a) Hvers vegna efndi Páll til samskota fyrir kristna menn í Júdeu? (b) Hvaða áhrif höfðu frjálsu framlögin til trúaðra manna í Júdeu á Gyðinga og menn af þjóðunum sem tekið höfðu kristna trú?

17 Kærleikur knýr okkur til að hjálpa trúsystkinum í neyð, sama hverjar aðstæður okkar eru. (Jóhannes 13:34, 35; Jakobsbréfið 2:14-17) Það var kærleikur Páls til bræðra sinna og systra í Júdeu sem fékk hann til að efna til samskota fyrir þau í söfnuðunum í Akkeu, Galatíu, Makedóníu og Asíu. Ofsóknir, ólga og hungursneyð, sem lærisveinar í Jerúsalem þurftu að þola, er sennilega ástæðan fyrir því að Páll talar um ‚þjáningar‘ og að þeir hafi verið „aðþrengdir“ og „rændir eignum.“ (Hebreabréfið 10:32-34; Postulasagan 11:27–12:1) Þess vegna sá hann um sjóð handa fátækum kristnum mönnum í Júdeu. — 1. Korintubréf 16:1-3; 2. Korintubréf 8:1-4, 13-15; 9:1, 2, 7.

18 Frjáls framlög til hinna heilögu í Júdeu sönnuðu að bræðrabönd voru milli tilbiðjenda Jehóva af gyðinglegum og heiðnum uppruna. Þessi framlög gerðu kristnum mönnum af heiðnum uppruna líka kleift að sýna trúbræðrum sínum frá Júdeu þakklæti fyrir allar þær andlegu gjafir sem þeir höfðu fengið frá þeim. Fólk gaf því bæði andlegar og efnislegar gjafir. (Rómverjabréfið 15:26, 27) Nú á dögum er það einnig kærleikur sem knýr fólk til að gefa þurfandi trúsystkinum. (Markús 12:28-31) Við þörfnumst hvert annars á þessu sviði líka svo að það ríki jöfnuður og þá sem eiga lítið „skorti ekki.“ — 2. Korintubréf 8:15.

19, 20. Hvernig hefur fólk Jehóva veitt aðstoð þegar hamfarir hafa átt sér stað? Nefndu dæmi.

19 Við vitum að kristnir menn þarfnast hver annars og þess vegna komum við trúsystkinum okkar fljótt til aðstoðar. Skoðum til dæmis það sem gerðist í El Salvador snemma á árinu 2001 þegar jarðskjálftar og aurskriður ollu þar miklu tjóni. Í einni greinagerð segir: „Bræður hófust handa við hjálparstörf alls staðar í El Salvador. Hópur bræðra frá Gvatemala, Bandaríkjunum og Kanada rétti okkur hjálparhönd. . . . Á stuttum tíma voru reist yfir 500 hús og 3 fallegir ríkissalir. Allt það erfiði, sem þessir fórnfúsu bræður lögðu á sig og samvinnan þeirra á milli, hefur gefið mjög góðan vitnisburð.“

20 Í greinargerð frá Suður-Afríku segir: „Þau miklu flóð, sem gengu yfir stóran hluta Mósambík, höfðu líka áhrif á marga trúbræður okkar. Deildarskrifstofan í Mósambík gerði ráðstafanir til að sinna flestum þörfum þeirra. Hins vegar báðu þeir okkur að senda þurfandi bræðrum góð notuð föt. Við söfnuðum fötum sem fylltu 12 metra gám og sendum bræðrum okkar í Mósambík.“ Já, við þörfnumst hvert annars einnig á þennan hátt.

21. Um hvað verður fjallað í næstu grein?

21 Eins og fram hefur komið eru allir limir líkamans mikilvægir. Hið sama á vissulega við um kristna söfnuðinn. Allir í söfnuðinum þarfnast hver annars. Þeir þurfa líka að halda áfram að þjóna í einingu. Næsta grein fjallar um nokkra þætti sem gera það mögulegt.

Hvert er svarið?

• Hvað er líkt með mannslíkamanum og kristna söfnuðinum?

• Hvernig brugðust frumkristnir menn við þegar trúbræður þurftu aðstoð?

• Hvaða dæmi úr Biblíunni sýna fram á að kristnir menn þarfnast hver annars og hjálpa hver öðrum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Akvílas og Priskilla létu sér annt um aðra.

[Myndir á blaðsíðu 12]

Fólk Jehóva hjálpar bæði trúsystkinum sínum og öðrum þegar erfiðleikar steðja að.