Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Atvinnuöryggi og ánægja í starfi á undir högg að sækja

Atvinnuöryggi og ánægja í starfi á undir högg að sækja

Atvinnuöryggi og ánægja í starfi á undir högg að sækja

SAMKVÆMT mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna ættu allir menn að hafa „rétt á atvinnu.“ Það er hins vegar ekki alltaf öruggt að fólk njóti þessara grundvallarréttinda. Atvinnuöryggi er háð mörgum skilyrðum — allt frá ástandi hagkerfisins í landinu til stöðunnar á alþjóðamarkaði. En þegar fólk missir atvinnu eða á á hættu að gera það fylgja oft mótmælagöngur, uppþot og verkföll í kjölfarið. Fá lönd eru ónæm fyrir þessu ástandi. Einn rithöfundur sagði jafnvel að orðið „‚vinna‘ vekti og hefði alltaf vakið sterkar tilfinningar.“

Það eru margar ástæður fyrir því að atvinna er okkur mikilvæg. Hún sér okkur bæði fyrir tekjum og stuðlar að andlegri og tilfinningalegri velferð. Atvinna fullnægir löngun mannsins til að vera nýtur þjóðfélagsþegn og hafa tilgang í lífinu. Hún veitir okkur líka ákveðna sjálfsvirðingu. Þess vegna kjósa margir að halda áfram að vinna jafnvel þótt þeir séu komnir á eftirlaunaaldur eða eigi meiri en nóga peninga til að sjá fyrir þörfum sínum. Já, atvinna er svo mikilvæg að ef hana vantar leiðir það oftast til alvarlegra þjóðfélagsvandamála.

Á hinn bóginn eru líka margir sem hafa atvinnu en eru undir svo miklu álagi í vinnunni að þeir missa ánægjuna af starfi sínu. Vegna mikillar samkeppni á markaðinum hafa til dæmis mörg fyrirtæki fækkað starfsmönnum til að lækka útgjöld. Þar af leiðandi eru kannski auknar kröfur gerðar til þeirra sem eftir eru og þeir gætu þurft að vinna meira.

Tæknivæðing nútímans á að gera lífið einfaldara og vinnuna skilvirkari en eykur oft álagið á vinnustöðum. Tölvur, bréfasími og Netið gera mönnum til dæmis kleift að taka vinnuna með sér heim við lok vinnudagsins. Þetta gerir skilin milli heimilisins og skrifstofunnar óljós. Einn starfsmaður sagði að sér fyndist símboði og farsími fyrirtækisins vera eins og ósýnilegur taumur um hálsinn á sér sem yfirmaðurinn héldi í.

Þeir sem eru farnir að reskjast hafa margir áhyggjur af því að vera álitnir óstarfhæfir löngu fyrir sinn tíma þar sem efnahagskerfið og vinnuumhverfið breytist svo ört. Chris Sidoti, fyrrverandi mannréttindafulltrúi, sagði um þessi mál: „Margir virðast líta svo á að þeir sem eru yfir fertugt ráði ekki við tölvur og nýja tækni.“ Þess vegna eru margir duglegir starfsmenn, sem áður hefðu verið álitnir í blóma lífsins, taldir of gamlir til að koma að notum. Þetta er sorglegt.

Eins og skiljanlegt er hefur vinnusiðferði og tryggð gagnvart fyrirtækinu farið halloka á síðustu árum. „Hollusta gagnvart fyrirtækinu heyrir sögunni til þegar fyrirtæki láta starfsmenn fjúka við minnstu hreyfingu á verðbréfamarkaði,“ sagði í franska tímaritinu Libération. „Auðvitað verður maður að vinna en maður vinnur fyrir sjálfan sig en ekki fyrirtækið.“

En þrátt fyrir þessi auknu vandamál hafa menn áfram grundvallarþörf fyrir að vinna. En hvernig er bæði hægt að hafa heilbrigt viðhorf til vinnu og finna atvinnuöryggi og ánægju í starfi í umróti nútímans?

[Mynd á blaðsíðu 3]

Tæknivæðing nútímans kann að hafa aukið álagið á vinnustöðum.