Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað þýðir kvöldmáltíð Drottins fyrir þig?

Hvað þýðir kvöldmáltíð Drottins fyrir þig?

Hvað þýðir kvöldmáltíð Drottins fyrir þig?

„Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.“ — 1. KORINTUBRÉF 11:27.

1. Hver er mikilvægasti atburður ársins 2003 og hver er uppruni hans?

MIKILVÆGASTI atburður ársins 2003 á að eiga sér stað eftir sólsetur hinn 16. apríl. Þá safnast vottar Jehóva saman til að halda minningarhátíðina um dauða Jesú Krists en hún er einnig kölluð kvöldmáltíð Drottins. Eins og fram kom í greininni á undan kom Jesús þessari hátíð á eftir að hann hafði haldið páska með postulum sínum hinn 14. nísan árið 33. Á minningarhátíðinni er borið fram ósýrt brauð og rauðvín sem tákna syndlausan líkama Jesú og úthellt blóð hans. Þetta er eina fórnin sem getur leyst mannkyn úr fjötrum erfðasyndar og dauða. — Rómverjabréfið 5:12; 6:23.

2. Hvaða viðvörun er gefin í 1. Korintubréfi 11:27?

2 Þeir sem neyta af brauðinu og víninu verða að vera til þess verðugir. Páll postuli tók það fram í bréfi til kristinna manna í Korintu en þar var kvöldmáltíð Drottins ekki haldin hátíðleg á réttan hátt. (1. Korintubréf 11:20-22) Hann skrifaði: „Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður . . . sekur við líkama og blóð Drottins.“ (1. Korintubréf 11:27) Hvað er átt við með þessu?

Sumir héldu hana óverðugir

3. Hvernig var hegðun margra kristinna manna í Korintu við kvöldmáltíð Drottins?

3 Margir kristnir menn í Korintu tóku óverðugir þátt í minningarhátíðinni. Það var sundrung á meðal þeirra og um tíma, að minnsta kosti, var það siður sumra að taka með sér mat og borða hann fyrir samkomuna eða meðan á henni stóð. Oft var etið og drukkið í óhófi svo að menn voru sljóir og andlega sinnulausir. Þess vegna voru þeir ‚sekir við líkama og blóð Drottins.‘ Þeir sem höfðu ekki borðað kvöldmat voru svangir og annars hugar. Margir neyttu sem sagt af brauðinu og víninu með virðingarleysi og án þess að gera sér fulla grein fyrir því að þetta var alvarlegur atburður. Engin furða að þeir skyldu kalla yfir sig dóm. — 1. Korintubréf 11:27-34.

4, 5. Hvers vegna er nauðsynlegt fyrir þá sem eru vanir að taka þátt í minningarhátíðinni að skoða stöðu sína vel?

4 Ár hvert, þegar minningarhátíðin nálgast, er nauðsynlegt fyrir þá sem eru vanir að neyta af brauðinu og víninu að skoða hug sinn vel. Þeir verða að vera andlega heilbrigðir til að rétt sé að þeir taki þátt í þessari samfélagsmáltíð. Hver sem óvirðir eða lítilsvirðir fórn Jesú á það á hættu að verða ‚upprættur úr þjóð Guðs,‘ rétt eins og Ísraelsmaður sem tók óhreinn þátt í samfélagsmáltíð. — 3. Mósebók 7:20; Hebreabréfið 10:28-31.

5 Páll líkti minningarhátíðinni við samfélagsmáltíð í Forn-Ísrael. Hann talaði um þátttakendurna sem áttu hlut í henni með Kristi og sagði síðan: „Ekki getið þér drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.“ (1. Korintubréf 10:16-21) Ef einhver sem er vanur að neyta af brauðinu og víninu fremur alvarlega synd ætti hann að játa hana fyrir Jehóva og leita sér andlegrar hjálpar hjá öldungum safnaðarins. (Orðskviðirnir 28:13; Jakobsbréfið 5:13-16) Ef hann iðrast í einlægni og ber ávöxt samboðinn iðruninni er hann ekki óverðugur þess að taka þátt í kvöldmáltíðinni. — Lúkas 3:8.

Áhorfendur að kvöldmáltíðinni

6. Hverjum hefur Guð gefið hið einstæða tækifæri að taka þátt í kvöldmáltíð Drottins?

6 Ættu þeir sem styðja leifar 144.000 bræðra Krists að taka þátt í kvöldmáltíð Drottins? (Matteus 25:31-40; Opinberunarbókin 14:1) Nei, það eru aðeins „samarfar Krists“ sem Guð hefur smurt heilögum anda og gefið þetta einstæða tækifæri. (Rómverjabréfið 8:14-18; 1. Jóhannesarbréf 2:20) Hver er þá staða þeirra sem vonast eftir að lifa að eilífu í paradís á jörð undir stjórn Guðsríkis? (Lúkas 23:43; Opinberunarbókin 21:3, 4) Þeir eru ekki samerfingjar Jesú og hafa ekki himneska von þannig að þeir sækja minningarhátíðina sem áhorfendur. — Rómverjabréfið 6:3-5.

7. Hvernig vissu kristnir menn á fyrstu öld að þeir áttu að neyta brauðsins og vínsins?

7 Sannkristnir menn á fyrstu öld voru smurðir heilögum anda. Margir þeirra höfðu fengið eina eða fleiri af náðargáfum andans, svo sem tungutal. Það hefur því verið augljóst fyrir þessa einstaklinga að þeir væru andagetnir og ættu að neyta brauðsins og vínsins. Á okkar tímum er hins vegar hægt að meta það hvort menn hafi himneska köllun út frá innblásnum orðum eins og: „Allir þeir, sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs börn. En þér hafið ekki fengið anda, sem gjörir yður að þrælum að lifa aftur í hræðslu, heldur hafið þér fengið anda, sem gefur yður barnarétt. Í þeim anda köllum vér: ‚Abba, faðir!‘“ — Rómverjabréfið 8:14, 15.

8. Hverja táknar „hveitið“ og „illgresið“ í Matteusi 13. kafla?

8 Í aldanna rás hafa smurðir þjónar Guðs vaxið eins og ‚hveiti‘ innan um „illgresi“ sem táknar falskristna menn. (Matteus 13:24-30, 36-43) „Hveitið“ fór að koma skýrar í ljós á áttunda áratug 19. aldar og nokkrum árum síðar var kristnum umsjónarmönnum sagt: „Öldungarnir . . . ættu að leggja eftirfarandi skilmála og skilyrði fyrir þá sem safnast saman [til að halda minningarhátíðina] — (1) þeir verða að trúa á blóðið [Krists] og (2) að vera vígðir Drottni og þjónustu hans allt til dauða. Þeir ættu síðan að bjóða öllum, sem eru þannig þenkjandi og vígðir, að taka þátt í að minnast dauða Drottins.“ — Studies in the Scriptures, VI. ritröð, The New Creation. Bls. 473. *

Leitin að ‚öðrum sauðum‘

9. Hvernig var það skýrt árið 1935 hver ‚múgurinn mikli‘ væri og hvaða áhrif hafði það á suma sem höfðu neytt brauðsins og vínsins?

9 Þegar fram liðu stundir fór skipulag Jehóva að beina athyglinni að öðrum en smurðum fylgjendum Krists. Markverð þróun átti sér stað um miðjan fjórða áratug 20. aldar. Fram að þeim tíma hafði fólk Guðs álitið að ‚múgurinn mikli‘ í Opinberunarbókinni 7:9 væri lægra settur andlegur hópur sem ætti að vera á himnum með hinum 144.000 upprisnum — líkt og brúðarmeyjar eða félagar brúðar Krists. (Sálmur 45:15, 16; Opinberunarbókin 7:4; 21:2, 9) En 31. maí 1935 var flutt ræða á móti Votta Jehóva í Washington, D.C., í Bandaríkjunum þar sem skýrt var með biblíuvísunum að ‚múgurinn mikli‘ væri það sama og ‚aðrir sauðir‘ sem eru uppi á endalokatímanum. (Jóhannes 10:16) Sumir sem höfðu áður tekið af brauðinu og víninu hættu því eftir mótið af því að þeir gerðu sér ljóst að von þeirra væri jarðnesk en ekki himnesk.

10. Lýstu von og ábyrgð ‚annarra sauða‘ nútímans.

10 Frá 1935 hefur sérstaklega verið lögð áhersla á að leita að væntanlegum ‚öðrum sauðum‘ sem trúa á lausnargjaldið, vígjast Guði og styðja „litla hjörð“ hinna smurðu í boðunarstarfinu. (Lúkas 12:32) Aðrir sauðir vonast eftir eilífu lífi á jörðinni en líkjast leifum ríkiserfingjanna að öllu öðru leyti. Þeir taka á sig skyldur kristinnar trúar, svo sem þá að boða fagnaðarerindið ásamt hinum andlegu Ísraelsmönnum. (Galatabréfið 6:16) Þannig líkjast þeir búföstum útlendingum í Ísrael fortíðar sem tilbáðu Jehóva og héldu lögmálið. En útlendingar gátu aldrei orðið konungar í Ísrael eða prestar, og aðrir sauðir geta ekki heldur stjórnað eða verið prestar í ríkinu á himnum. — 5. Mósebók 17:15.

11. Hvers vegna getur vígsluár manns haft áhrif á það hvort hann tilheyri hópi hinna smurðu?

11 Mönnum varð því smám saman ljóst á fjórða áratug síðustu aldar að það væri búið að velja himneska hópinn að mestu leyti. Um áratuga skeið hefur því staðið yfir leit að öðrum sauðum með jarðneska von. Ef einhver af hinum 144.000 smurðu reynist ótrúr er langlíklegast að fyllt sé í skarðið með því að velja einhvern úr hópi annarra sauða sem hefur þjónað Jehóva dyggilega um langt skeið.

Hvers vegna halda sumir ranglega að þeir hafi himneska von?

12. Undir hvaða kringumstæðum ætti einhver sem neytti brauðsins og vínsins að hætta því og hvers vegna?

12 Smurðir kristnir menn eru algerlega sannfærðir um himneska köllun sína. En segjum sem svo að einhverjir hafi neytt af brauðinu og víninu þó að þeir hafi ekki þessa köllun. Þegar þeir gera sér ljóst að þeir höfðu aldrei himneska von hlýtur samviskan að knýja þá til að hætta að neyta brauðsins og vínsins. Guð hefur tæpast velþóknun á nokkrum manni sem þykist vera kallaður til konungs- og prestdóms á himni en veit samt að hann hefur enga slíka köllun. (Rómverjabréfið 9:16; Opinberunarbókin 20:6) Jehóva tók levítann Kóra af lífi fyrir þá ósvífni að sækjast eftir prestdómi sem ætlaður var ættmönnum Arons. (2. Mósebók 28:1; 4. Mósebók 16:4-11, 31-35) Ef kristinn maður uppgötvar að hann hefur neytt brauðsins og vínsins á röngum forsendum ætti hann að hætta því og biðja Jehóva auðmjúklega um fyrirgefningu. — Sálmur 19:14, Biblían 1859.

13, 14. Hvers vegna gætu einhverjir haldið sig ranglega hafa himneska köllun?

13 Af hvaða orsökum gæti einhver haldið ranglega að hann hafi himneska köllun? Alvarlegt áfall, til dæmis það að missa maka sinn, getur orðið til þess að fólk missi áhugann á því að lifa á jörðinni. Eins gæti einhver þráð sama hlutskipti og náinn vinur sem játar himneska von. En Guð hefur auðvitað ekki falið nokkrum manni að safna nýjum til þessa sérstaka hlutverks. Og hann smyr ekki erfingja Guðsríkis með því að láta þá heyra raddir sem segja þeim að þeir séu smurðir.

14 Hin ranga trúarkenning að allt gott fólk fari til himna gæti komið þeirri hugmynd inn hjá sumum að þeir hafi himneska köllun. Við verðum því að gæta þess að láta ekki rangar hugmyndir, sem við höfðum áður, eða eitthvað annað hafa áhrif á okkur. Sumir gætu til dæmis spurt sig: ‚Nota ég lyf sem hafa áhrif á tilfinningalífið? Hættir mér til að hafa sterkar tilfinningar sem ég gæti rangtúlkað?‘

15, 16. Hvers vegna gætu einhverjir ályktað ranglega að þeir séu smurðir?

15 Sumir gætu jafnvel spurt sig: ‚Langar mig til að láta bera á mér? Sækist ég eftir völdum núna eða í framtíðinni sem samerfingi Krists?‘ Ekki gegndu allir erfingjar Guðsríkis á fyrstu öld ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. Og fólk með himneska köllun sækist ekki eftir upphefð eða gortar af því að hafa hlotið andasmurningu. Það sýnir af sér þá auðmýkt sem ætlast má til af þeim sem hafa „huga Krists.“ — 1. Korintubréf 2:16.

16 Sumir hafa kannski talið sig hafa himneska köllun vegna þess að þeir hafa aflað sér staðgóðrar biblíuþekkingar. En andasmurning veitir mönnum ekki sérstakan skilning umfram aðra því að Páll þurfti að fræða suma af hinum smurðu og leiðbeina þeim. (1. Korintubréf 3:1-3; Hebreabréfið 5:11-14) Guð hefur ákveðið fyrirkomulag til að koma andlegri fæðu á framfæri við alla þjóna sína. (Matteus 24:45-47) Enginn ætti því að halda að smurning andans gefi honum visku umfram þá sem hafa jarðneska von. Andasmurning birtist ekki í því að vera fær að vitna, svara biblíuspurningum eða flytja biblíuræður. Kristnir menn með jarðneska von eru líka færir á þessum sviðum.

17. Hverju og hverjum er andasmurning háð?

17 Ef trúsystkin er með spurningar um himnesku köllunina getur öldungur eða annar þroskaður kristinn maður rætt málið við það. En enginn getur ákveðið hvort einhver annar sé andasmurður. Sá sem hefur þessa köllun í alvöru þarf ekki að spyrja aðra um það hvort hann hafi hana. Hinir smurðu eru „endurfæddir, ekki af forgengilegu sæði, heldur óforgengilegu, fyrir orð Guðs, sem lifir og varir.“ (1. Pétursbréf 1:23) Með anda sínum og orði gróðursetur Guð ‚sæðið‘ sem gerir manninn að nýrri sköpun með himneska von. (2. Korintubréf 5:17) Og það er Jehóva sem velur. Smurning er ‚ekki komin undir vilja mannsins né áreynslu heldur Guði.‘ (Rómverjabréfið 9:16) Hvernig er þá hægt að vera viss um himneska köllun?

Hvers vegna eru þeir sannfærðir?

18. Hvernig vitnar andi Guðs með anda hinna smurðu?

18 Vitnisburður anda Guðs sannfærir smurða kristna menn um að þeir hafi himneska köllun. „Þér [hafið] fengið anda, sem gefur yður barnarétt,“ skrifaði Páll. „Í þeim anda köllum vér: ‚Abba, faðir!‘ Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.“ (Rómverjabréfið 8:15-17) Heilagur andi hefur þau áhrif á „anda“ eða ríkjandi viðhorf hinna smurðu að þeir finna sig knúna til að heimfæra á sjálfa sig það sem Ritningin segir um andleg börn Jehóva. (1. Jóhannesarbréf 3:2) Andi Guðs gefur þeim sonartilfinningu gagnvart honum og vekur með þeim einstæða von. (Galatabréfið 4:6, 7) Guð hefur ekki gefið þeim þá von að lifa að eilífu á jörðinni sem fullkomnir menn, umkringdir ættingjum og vinum, þótt það sé unaðsleg von. Með anda sínum hefur Guð vakið með þeim svo sterka himneska von að þeir eru fúsir til að fórna öllum jarðneskum samböndum og væntingum. — 2. Korintubréf 5:1-5, 8; 2. Pétursbréf 1:13, 14.

19. Hvaða hlutverki gegnir nýi sáttmálinn í lífi smurðra kristinna manna?

19 Smurðir kristnir menn eru vissir um himneska von sína, vissir um að þeir hafi fengið aðild að nýja sáttmálanum. Jesús nefndi það þegar hann innleiddi minningarhátíðina og sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.“ (Lúkas 22:20) Það eru Guð og hinir smurðu sem eru aðilar að nýja sáttmálanum. (Jeremía 31:31-34; Hebreabréfið 12:22-24) Jesús er meðalgangarinn. Nýi sáttmálinn tók gildi þegar blóði Krists var úthellt og samkvæmt honum var valið fólk, bæði af hópi Gyðinga og þjóðanna, til að bera nafn Guðs og verða „niðjar“ Abrahams. (Galatabréfið 3:26-29; Postulasagan 15:14) Þessi ‚eilífi sáttmáli‘ sér til þess að allir andlegir Ísraelsmenn hljóti himneska upprisu og ódauðleika. — Hebreabréfið 13:20.

20. Hvaða sáttmáli er gerður milli Krists og hinna smurðu?

20 Hinir smurðu eru öruggir um von sína og hafa fengið aðild að öðrum sáttmála með Kristi. Þetta er sáttmálinn um ríkið. Jesús sagði um sáttmálsaðild þeirra: „Þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér.“ (Lúkas 22:28-30) Sáttmálinn milli Krists og meðkonunga hans gildir að eilífu. — Opinberunarbókin 22:5.

Tímabilið kringum minningarhátíð er auðgandi

21. Hvernig getur tímabilið kringum minningarhátíð verið mjög auðgandi fyrir okkur?

21 Tímabilið kringum minningarhátíðina getur verið mjög auðgandi fyrir okkur. Það er til dæmis gagnlegt að lesa biblíulesefnið sem er á dagskrá vegna minningarhátíðarinnar. Þetta er líka sérlega góður tími til bæna, til að hugleiða jarðlíf og dauða Jesú og til að taka þátt í boðunarstarfinu. (Sálmur 77:13; Filippíbréfið 4:6, 7) Sjálf hátíðin minnir okkur á kærleika Guðs og Krists sem birtist í lausnarfórninni. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16) Fórnin hughreystir okkur og veitir von, og hún ætti að gera okkur enn einbeittari í að líkja eftir Kristi. (2. Mósebók 34:6; Hebreabréfið 12:3) Eftir minningarhátíðina ættum við að vera enn staðráðnari í að halda vígsluheit okkar við Guð og fylgja ástkærum syni hans dyggilega.

22. Hver er mesta gjöf Guðs til manna og hvernig er meðal annars hægt að sýna þakklæti sitt fyrir hana?

22 Jehóva hefur sannarlega gefið okkur góðar gjafir! (Jakobsbréfið 1:17) Við höfum orð hans til leiðsagnar, anda hans til hjálpar og von um eilíft líf. Mesta gjöf Guðs er fórn Jesú sem friðþægir fyrir syndir hinna smurðu og allra annarra sem iðka trú. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Hvaða þýðingu hefur dauði Jesú þá fyrir þig? Verður þú í hópi þeirra sem sýna þakklæti sitt með því að safnast saman eftir sólsetur 16. apríl 2003 til að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega?

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Gefnar út af Vottum Jehóva en ekki fáanlegar lengur.

Hverju svarar þú?

• Hverjir eiga að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni?

• Hvers vegna eru ‚aðrir sauðir‘ aðeins áhorfendur að kvöldmáltíð Drottins?

• Hvernig vita smurðir kristnir menn að þeir eigi að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni um dauða Krists?

• Hvað er gott að gera um minningarhátíðarleytið?

[Spurningar]

[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 26]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Viðstaddir minningarhátíð

Í MILLJÓNUM

15,597,746

15

14

13,147,201

13

12

11

10

 9

 8

 7

 6

 5

4,925,643

 4

 3

 2

 1

878,303

63,146

1935 1955 1975 1995 2002

[Mynd á blaðsíðu 26]

Verður þú viðstaddur kvöldmáltíð Drottins á þessu ári?

[Myndir á blaðsíðu 29]

Gott er að nota tímabilið kringum minningarhátíðina til að lesa meira í Biblíunni og taka meiri þátt í boðunarstarfinu.