Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er hægt að temja sér heilbrigt viðhorf til vinnu?

Hvernig er hægt að temja sér heilbrigt viðhorf til vinnu?

Hvernig er hægt að temja sér heilbrigt viðhorf til vinnu?

HEIMUR atvinnulífsins einkennist af miklu álagi, miskunnarlausri samkeppni og fjöldaframleiðslu. Það er því eðlilegt að margir hlakki ekki til að fara í vinnuna á morgnana. En við ættum að njóta þess að vinna. Hvers vegna? Vegna þess að við erum sköpuð í Guðs mynd — og Guð hefur ánægju af því að vinna. Í 1. Mósebók 1:31 segir til dæmis að þegar hann hafi virt fyrir sér það sem hann gerði á „sköpunardögunum sex“ — sem hver um sig var langt tímabil — „leit [hann] allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“

Ein ástæðan fyrir því að Jehóva er kallaður ‚hinn sæli Guð‘ er eflaust sú að hann nýtur þess að vinna. (1. Tímóteusarbréf 1:11; Biblían 1912) Er því ekki rökrétt að álykta að við verðum því hamingjusamari sem við líkjum betur eftir honum? Salómon, konungur Ísraels til forna, var framúrskarandi byggingarmeistari og skipuleggjandi og hann skrifaði um þessi mál: „Maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ — Prédikarinn 3:13.

Það getur verið erfitt að rækta með sér heilbrigt viðhorf til vinnu í vinnuumhverfi nútímans sem breytist svo hratt. En Jehóva Guð blessar þá sem fylgja kærleiksríkri leiðsögn hans. (Sálmur 119:99, 100) Þeir sem gera það verða áreiðanlegir og mikils metnir starfsmenn og þar með er þeim síður hætt við að missa vinnuna. Þeir læra líka að sjá lífið og vinnuna ekki aðeins út frá efnislegum sjónarhóli heldur einnig andlegum. Þetta gerir þeim kleift að taka ábyrgar ákvarðanir í lífinu og sjá að hamingja þeirra og öryggistilfinning er ekki eingöngu háð starfi þeirra eða óstöðugum vinnumarkaði. (Matteus 6:31-33; 1. Korintubréf 2:14, 15) Það hjálpar þeim að rækta með sér heilbrigt vinnusiðferði.

Vinnusiðferði sem er Guði að skapi

Sumir eru vinnufíklar og láta starfið ganga fyrir öllu öðru. Aðrir bíða þess með óþreyju að vinnudeginum ljúki svo að þeir geti farið heim. Hver er millivegurinn? Biblían svarar: „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 4:6) Fólk sem vinnur of mikið er í rauninni að vinna á móti sjálfu sér og ‚sækjast eftir vindi‘ eða hégóma. Hvers vegna er hægt að segja það? Vegna þess að slíkt fólk gæti verið að skaða samband sitt við fjölskyldu og vini, andlegt hugarfar sitt, heilsuna og jafnvel möguleikana á löngu lífi — í rauninni það sem veitir því sanna hamingju í lífinu. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Við ættum því frekar að vera ánægð með minna af efnislegum gæðum og njóta þess friðar sem því fylgir, í stað þess að vera hlaðin allt of mikilli vinnu og þurfa þá að takast á við þá streitu og það erfiði sem er því samfara.

En þó að Biblían hvetji okkur til að hafa heilbrigt viðhorf til vinnu ýtir hún ekki undir leti. (Orðskviðirnir 20:4) Leti grefur undan sjálfsvirðingu okkar og virðingu annarra fyrir okkur. Og það sem verra er, hún skaðar samband okkar við Guð. Biblían segir skýrt og skorinort að sá sem neiti að vinna eigi ekki skilið að fá mat á kostnað annarra. (2. Þessaloníkubréf 3:10) Hann ætti öllu heldur að breyta viðhorfi sínu og vera iðjusamur og sjá þannig með sæmd fyrir sér og sínum. Ef hann er duglegur gæti hann jafnvel hjálpað þeim sem raunverulega þurfa á því að halda — og orð Guðs hvetur okkur til þess. — Orðskviðirnir 21:25, 26; Efesusbréfið 4:28.

Kennum þeim iðjusemi frá barnæsku

Góðar starfsvenjur koma ekki af sjálfu sér; fólk lærir þær snemma á lífsleiðinni. Þess vegna hvetur Biblían foreldra: „Fræð þú sveininn [eða stúlkuna] um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ (Orðskviðirnir 22:6) Skynsamir foreldrar leitast auðvitað við að setja gott fordæmi sjálfir með því að vera ástundunarsamir, en þeir þjálfa einnig börnin með því að gefa þeim ýmis verkefni á heimilinu sem hæfa þeirra aldri. Jafnvel þótt börnin kvarti stundum eða finnist sum verkin leiðinleg eiga þau seinna eftir að líta á sig sem mikils metna meðlimi fjölskyldunnar — sérstaklega þegar mamma þeirra og pabbi hrósa þeim fyrir það sem þau gera vel. Því miður gera sumir foreldrar nánast allt fyrir börnin, ef til vill af misskilinni góðvild. Slíkir foreldrar ættu að hugleiða það sem kemur fram í Orðskviðunum 29:21: „Dekri maður við þræl sinn [eða barn] frá barnæsku verður hann vanþakklátur að lokum.“ — Biblíurit, ný þýðing 1998.

Ábyrgir foreldrar hafa líka áhuga á menntun barna sinna og hvetja þau til að læra og leggja sig fram í skóla. Það er góður grunnur fyrir börnin seinna þegar þau fara út á vinnumarkaðinn.

Skynsamlegt val á vinnu

Þó að Biblían segi okkur ekki hvers konar vinnu við eigum að stunda gefur hún okkur góðar meginreglur sem koma í veg fyrir að andlegar framfarir okkar, þjónustan við Guð og önnur mikilvæg ábyrgðarstörf sitji á hakanum. Páll postuli skrifaði til dæmis: „Tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir . . . sem nota heiminn, [vera] eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að [„mynd þessa heims er að breytast,“ NW].“ (1. Korintubréf 7:29-31) Það er ekkert í þessu núverandi heimskerfi sem er varanlegt eða algerlega öruggt. Ef við því gefum heiminum allan tíma okkar og krafta væri það eins og að nota allt sparifé sitt til að fjárfesta í húsi sem er byggt á flóðasvæði. Það væri óhyggileg fjárfesting.

Önnur biblíuþýðing þýðir orðin „færðu sér hann ekki í nyt“ sem „láta hann ekki gleypa sig.“ (The Jerusalem Bible) Skynsamt fólk missir aldrei sjónar á því að þetta heimskerfi á stutt eftir og að ef við leyfum því að ‚gleypa okkur‘ er það ávísun á vonbrigði og eftirsjá. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

‚Guð mun ekki yfirgefa þig‘

Jehóva þekkir þarfir okkar betur en við sjálf. Hann veit líka hvar við stöndum í framrás tímans. Þess vegna segir hann okkur til áminningar: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ (Hebreabréfið 13:5) Þessi orð eru sannarlega hughreystandi. Jesús líkti eftir umhyggjunni sem Jehóva ber fyrir fólki sínu og notaði því stóran hluta hinnar frægu fjallræðu til að kenna lærisveinunum rétt viðhorf til vinnu og efnislegra hluta. — Matteus 6:19-33.

Vottar Jehóva reyna að fara eftir þessum leiðbeiningum. Til dæmis bauð vinnuveitandi nokkur rafvirkja, sem var vottur, að vinna yfirvinnu á reglulegum grundvelli. Hann afþakkaði boðið. Hvers vegna? Vegna þess að hann vildi ekki að vinnan tæki frá honum tíma sem hann var búinn að helga fjölskyldunni og andlegum málum. Vinnuveitandinn virti óskir hans þar sem hann var mjög góður og áreiðanlegur starfskraftur. Auðvitað fara málin ekki alltaf svona vel og fólk getur jafnvel þurft að leita að nýrri vinnu til að viðhalda hófsömum lífsstíl. En þeir sem leggja allt sitt traust á Jehóva komast oftast að því að góð hegðun þeirra og vinnusiðferði veitir þeim velvild vinnuveitandans. — Orðskviðirnir 3:5, 6.

Þegar öll störf verða ánægjuleg og gefandi

Í ófullkomnu heimskerfi nútímans eiga alltaf eftir að vera vandamál og óvissa í tengslum við atvinnu og atvinnuhorfur. Ástandið gæti meira að segja versnað núna þegar heimurinn verður enn þá óstöðugri, efnahagur sveiflast upp og niður og hagkerfi hrynja jafnvel. En þetta ástand er aðeins tímabundið. Bráðlega verður enginn atvinnulaus. Auk þess verða öll störf ánægjuleg og gefandi. Hvernig er það mögulegt? Hvað mun koma þessari breytingu til leiðar?

Jehóva vísaði til þessa tíma fyrir milligöngu Jesaja spámanns. „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð,“ segir Jehóva, „og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.“ (Jesaja 65:17) Hann var að tala um nýja ríkisstjórn sem hann mun koma á fót og undir þessari stjórn verður nýtt og breytt mannfélag að veruleika. — Daníel 2:44.

Spádómurinn lýsir því hvernig fólk mun lifa og starfa og segir: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er Drottinn hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.“ — Jesaja 65:21-23.

Þessi nýi heimur Guðs mun sannarlega breyta miklu. Langar þig ekki til að lifa í slíkum heimi, þar sem þú munt ekki „erfiða til ónýtis“ heldur njóta ‚ávaxtar‘ erfiðisins? Taktu eftir því hverjir fá að njóta þessara blessana: „Þeir eru kynslóð manna, er Drottinn hefir blessað.“ Þú getur verið einn þeirra sem Jehóva blessar með því að læra um hann og uppfylla kröfur hans. Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Vottar Jehóva vilja gjarnan hjálpa þér við markvisst biblíunám til að þú getir fengið þessa lífgandi þekkingu.

[Rammi á blaðsíðu 6]

„STÖÐUG EFTIRSPURN“

„Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og Drottinn ætti í hlut, en ekki menn,“ segir Biblían. (Kólossubréfið 3:23) Það gefur auga leið að sá sem vinnur eftir þessari góðu meginreglu verður eftirsóttur starfskraftur. Í bók sinni How to Be Invisible ráðleggur J. J. Luna verðandi vinnuveitendum að leita að starfsmönnum sem eru virkir í vissum trúfélögum. Síðan bætir hann við: „Raunin er sú að oftast endum við með því að ráða votta [Jehóva].“ Hann segir að ástæðan sé meðal annars sú að þeir séu þekktir fyrir heiðarleika og þess vegna sé „stöðug eftirspurn“ eftir þeim á ýmsum sviðum atvinnulífsins.

[Myndir á blaðsíðu 5]

Það veitir okkur gleði og ánægju að hafa jafnvægi á milli vinnu, andlegra starfa og afþreyingar.