Hvers vegna er kvöldmáltíð Drottins haldin hátíðleg?
Hvers vegna er kvöldmáltíð Drottins haldin hátíðleg?
„Ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður.“ — 1. KORINTUBRÉF 11:23.
1, 2. Hvað gerði Jesús á páskakvöldi árið 33?
EINGETINN sonur Jehóva var á staðnum ásamt 11 mönnum sem ‚höfðu verið stöðugir með honum í freistingum hans.‘ (Lúkas 22:28) Þetta var fimmtudagskvöldið 31. mars árið 33 og fullt tungl hefur sennilega prýtt himininn yfir Jerúsalem. Jesús Kristur og postular hans voru nýbúnir að ljúka páskamáltíðinni. Svikaranum Júdasi Ískaríot hafði verið vísað á dyr. En það var ekki tímabært fyrir hina að fara vegna þess að Jesús átti nokkuð eftir sem var afar þýðingarmikið. Hvað var það?
2 Guðspjallaritarinn Matteus var viðstaddur og við skulum láta hann segja frá. Hann skrifaði: „Jesús [tók] brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: ‚Takið og etið, þetta er líkami minn.‘ Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: ‚Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.‘“ (Matteus 26:26-28) Átti þetta aðeins að gerast einu sinni? Hvaða þýðingu hafði þetta? Hefur það eitthvert gildi fyrir okkur sem nú lifum?
„Gjörið þetta í mína minningu“
3. Hvers vegna var það þýðingarmikið sem Jesús gerði kvöldið 14. nísan árið 33?
3 Það sem Jesús gerði kvöldið 14. nísan árið 33 var enginn tilfallandi atburður í lífi hans. Páll postuli ræddi um þennan atburð í bréfi til smurðra kristinna manna í Korintu meira en 20 árum síðar og þá var hátíðin, sem Jesús stofnaði til, enn haldin þar. Páll var ekki með Jesú og postulunum 11 árið 33 en einhverjir þeirra hafa örugglega frætt hann um það sem fram fór. Og greinilegt er að Páll fékk innblásna staðfestingu á sumu sem átti sér stað þetta kvöld. Hann segir: „Ég hef meðtekið 1. Korintubréf 11:23-25.
frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gjörði þakkir, braut það og sagði: ‚Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu.‘ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ‚Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.‘“ —4. Hvers vegna ættu kristnir menn að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega?
4 Guðspjallaritarinn Lúkas staðfestir fyrirmæli Jesú: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19) Önnur biblíuþýðing orðar þetta þannig: „Gerið þetta til minningar um mig.“ (Today’s English Version) Þessi hátíð er oft kölluð minningarhátíðin um dauða Krists. Páll kallar hana einnig kvöldmáltíð Drottins sem er viðeigandi því að hún var innleidd að kvöldlagi. (1. Korintubréf 11:20, Biblían 1859) Kristnum mönnum er fyrirskipað að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega. En hvers vegna var þessari hátíð komið á?
Hvers vegna var henni komið á?
5, 6. (a) Nefndu eina ástæðu fyrir því að Jesús kom minningarhátíðinni á. (b) Nefndu aðra ástæðu fyrir því að kvöldmáltíð Drottins var komið á.
5 Ein af ástæðunum fyrir því að minningarhátíðinni var komið á var sú að Jesús dó meðal annars til að verja drottinvald föður síns á himnum. Þannig sannaði hann að Satan djöfullinn væri lygari en hann hafði fullyrt að menn þjónuðu Guði aðeins af eigingjörnum hvötum. (Jobsbók 2:1-5) Með því að deyja trúfastur sannaði Jesús að staðhæfing Satans væri röng og það gladdi hjarta Jehóva. — Orðskviðirnir 27:11.
6 Önnur ástæða fyrir því að kvöldmáltíð Drottins var komið á var að minna okkur á að Jesús ‚gaf líf sitt til lausnargjalds fyrir marga‘ er hann dó sem fullkominn og syndlaus maður. (Matteus 20:28) Þegar fyrsti maðurinn syndgaði gegn Guði fyrirgerði hann fullkomnu lífi og öllu sem það bauð upp á. Jesús sagði hins vegar: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Já, „laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ (Rómverjabréfið 6:23) Með því að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega minnum við okkur á hinn mikla kærleika Jehóva og sonar hans sem birtist í lausnarfórninni. Við ættum að vera innilega þakklát fyrir kærleika þeirra.
Hvenær á að halda hana?
7. Hvers vegna neyta smurðir kristnir menn „oft“ af brauðinu og víninu?
7 „Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur,“ sagði Páll er hann skrifaði um kvöldmáltíð Drottins. (1. Korintubréf 11:26) Kristnir menn af hópi hinna smurðu myndu neyta af brauðinu og víninu allt til dauðadags. Þannig myndu þeir lýsa margsinnis yfir trú sinni á lausnarfórn Jesú frammi fyrir Jehóva Guði og umheiminum.
8. Hve lengi áttu smurðir kristnir menn að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega?
8 Hversu lengi myndu smurðir kristnir menn sem hópur halda minningarhátíðina um dauða Krists? „Þangað til hann kemur,“ sagði Páll og átti þá greinilega við að hátíðin yrði haldin áfram uns Jesús kæmi og 1. Þessaloníkubréf 4:14-17) Það kemur heim og saman við orð Jesú er hann sagði postulunum 11 sem voru honum trúir: „Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“ — Jóhannes 14:3.
reisti smurða fylgjendur sína upp til himna. (9. Hvað merkja orð Jesú í Markúsi 14:25?
9 Þegar Jesús innleiddi minningarhátíðina vísaði hann til vínbikarsins og sagði trúföstum postulum sínum: „Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins til þess dags, er ég drekk hann nýjan í Guðs ríki.“ (Markús 14:25) Þar eð Jesús myndi ekki drekka bókstaflegt vín á himnum var hann augljóslega að tala um gleðina sem vín er stundum látið tákna. (Sálmur 104:15; Prédikarinn 10:19) Það yrði gleðilegt fyrir hann og fylgjendur hans að vera saman í ríki Guðs og þeir hlökkuðu ákaflega til þess. — Rómverjabréfið 8:23; 2. Korintubréf 5:2.
10. Hve oft ætti að halda minningarhátíðina?
10 Átti að minnast dauða Jesú mánaðarlega, vikulega eða jafnvel daglega? Nei. Jesús innleiddi kvöldmáltíðina og var líflátinn á páskadag sem var „endurminningardagur“ um frelsun Ísraels árið 1513 f.o.t. úr ánauðinni í Egyptalandi. (2. Mósebók 12:14) Páskar voru haldnir aðeins einu sinni á ári, á 14. degi mánaðarins nísan eftir almanaki Gyðinga. (2. Mósebók 12:1-6; 3. Mósebók 23:5) Þetta bendir til þess að það eigi að minnast dauða Jesú jafnoft og páskar voru haldnir — einu sinni á ári en ekki mánaðarlega, vikulega eða daglega.
11, 12. Hvað segja heimildarrit um minningarhátíðarhald á fyrstu öldum okkar tímatals?
11 Það er því viðeigandi að halda minningarhátíðina árlega hinn 14. nísan. Heimildarrit segir: „Kristnir menn í Litlu-Asíu voru kallaðir fjórtándamenn af því að þeir héldu ævinlega páska [kvöldmáltíð Drottins] hinn 14. nísan . . . Daginn gat borið upp á föstudag eða einhvern annan vikudag.“ — The New Schaff-Herzog Encyclopedia of Religious Knowledge. IV. bindi. Bls. 44.
12 Sagnfræðingurinn J. L. von Mosheim segir að á annarri öld hafi fjórtándamenn haldið minningarhátíðina hinn 14. nísan vegna þess að „þeir litu svo á að fordæmi Krists væri ígildi laga.“ Annar sagnfræðingur skrifar: „Kirkjur fjórtándamanna í Asíu fylgdu sömu venju og kirkjan í Jerúsalem. Á annarri öld héldu þessar kirkjur páska sína hinn 14. nísan til að minnast endurlausnarinnar sem dauði Krists kom til leiðar.“ — Studia Patristica. V. bindi. 1962. Bls. 8.
Hvað táknar brauðið?
13. Hvers konar brauð notaði Jesús þegar hann innleiddi kvöldmáltíðina?
13 Þegar Jesús innleiddi minningarhátíðina „tók hann brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf [postulunum].“ (Markús 14:22) Þetta var sams konar brauð og þeir höfðu borðað við páskamáltíðina rétt áður. (2. Mósebók 13:6-10) Brauðið var ósýrt þannig að það var þunnt og stökkt og það var brotið til að skipta því milli manna. Þegar Jesús vann það kraftaverk að margfalda brauð handa þúsundum manna var einnig um að ræða eins konar hrökkbrauð því að hann braut það til að hægt væri að dreifa því. (Matteus 14:19; 15:36) Að brjóta brauðið við minningarhátíðina hefur því greinilega enga trúarlega þýðingu.
14. (a) Hvers vegna er viðeigandi að minningarhátíðarbrauðið sé ósýrt? (b) Hvers konar brauð má nota eða baka fyrir kvöldmáltíð Drottins?
14 Jesús sagði um brauðið sem notað var við þetta tækifæri: „Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður.“ (1. Korintubréf 11:24; Markús 14:22) Það átti vel við að brauðið skyldi vera ósýrt. Hvers vegna? Vegna þess að súrdeig getur táknað illsku, vonsku eða synd. (1. Korintubréf 5:6-8) Brauðið táknaði fullkominn, syndlausan mannslíkama Jesú sem færður var að lausnarfórn. (Hebreabréfið 7:26; 10:5-10) Vottar Jehóva hafa þetta í huga og fylgja fordæmi Jesú með því að nota ósýrt brauð þegar þeir halda minningarhátíðina. Í sumum tilfellum nota þeir ókryddað páskabrauð Gyðinga ef engu er bætt í það, svo sem lauk eða eggjum. Hægt er að baka ósýrt brauð úr heilkornsmjöli (helst hveiti ef hægt er) og svolitlu vatni. Fletja skal deigið þunnt og hægt er að baka það á lítillega smurðri plötu eða pönnu uns það er þurrt og stökkt.
Hvað táknar vínið?
15. Hvað var í bikarnum sem Kristur notaði þegar hann innleiddi minningarhátíðina um dauða sinn?
15 Eftir að Jesús hafði rétt postulunum ósýrða brauðið tók hann bikar, „gjörði þakkir og gaf þeim, og þeir drukku af honum allir.“ Síðan sagði hann til skýringar: „Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga.“ (Markús 14:23, 24) Hvað var í bikarnum? Það var gerjað vín en ekki ógerjaður þrúgusafi. Þegar talað er um vín í Biblíunni er ekki átt við ógerjaðan vínberjasafa. Það var til dæmis gerjað vín en ekki þrúgusafi sem gat sprengt „gamla belgi“ eins og Jesús sagði. Og óvinir Krists ásökuðu hann um að vera „vínsvelgur.“ Það hefði verið út í hött ef vínið hefði bara verið þrúgusafi. (Matteus 9:17; 11:19) Vín var drukkið á páskahátíðinni og Kristur notaði það er hann innleiddi minningarhátíðina um dauða sinn.
16, 17. Hvers konar vín er viðeigandi að nota á minningarhátíðinni og hvers vegna?
16 Aðeins rauðvín er viðeigandi tákn um úthellt blóð Jesú sem innihald bikarsins stóð fyrir. Sjálfur sagði hann: „Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga.“ Og Pétur postuli skrifaði: „Þér [smurðir kristnir menn] vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar, heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.“ — 1. Pétursbréf 1:18, 19.
17 Það var eflaust rautt þrúguvín sem Jesús notaði þegar hann innleiddi minningarhátíðina. Sum rauðvín, sem nú eru á markaði, eru hins vegnar ónothæf vegna þess að þau eru styrkt með vínanda eða koníaki eða eru krydduð. Blóð Jesú var fullnægjandi og þurfti enga viðbót. Þess vegna ætti ekki að nota vín eins og portvín, sérrí eða vermút. Það ætti aðeins að vera ósykrað og óstyrkt rauðvín í bikarnum. Það mætti nota heimagert, ósykrað rautt þrúguvín og einnig vín eins og rautt búrgundarvín eða Bordeaux-rauðvín.
18. Af hverju breytti Jesús ekki brauðinu og víninu í hold sitt og blóð?
18 Jesús breytti ekki brauðinu og víninu í hold sitt og blóð með einhverju kraftaverki þegar hann innleiddi minningarhátíðina. Það hefði verið mannát og brot á lögum Guðs að borða mannakjöt og drekka blóð. (1. Mósebók 9:3, 4; 3. Mósebók 17:10) Ekkert var tekið af líkama eða blóði Jesú þetta kvöld. Fullkomnum líkama hans var fórnað og blóði hans úthellt síðdegis daginn eftir (sem var sami dagur, 14. nísan, eftir almanaki Gyðinga). Brauðið og vínið eru því notuð sem tákn um hold og blóð Krists. *
Minningarhátíðin — samfélagsmáltíð
19. Hvers vegna má nota fleiri en einn disk og bikar við kvöldmáltíð Drottins?
19 Þegar Jesús innleiddi minningarhátíðina bauð hann hinum trúu postulum að drekka af sama bikar. Matteusarguðspjall segir: „[Jesús] tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: ‚Drekkið allir hér af.‘“ (Matteus 26:27) Það var enginn vandi að notast við einn „kaleik“ eða bikar við þetta tækifæri því að þátttakendur voru aðeins 11 og voru greinilega við sama borð þannig að það var hægðarleikur að láta bikarinn ganga milli þeirra. Milljónir manna halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega á þessu ári í meira en 94.000 söfnuðum Votta Jehóva út um heim allan. Þegar svona margir koma saman til hátíðarinnar þetta sama kvöld er óhugsandi að allir geti notað sama bikarinn. En meginreglan er haldin í heiðri í fjölmennum söfnuðum með því að nota nokkra bikara til að það taki ekki of langan tíma að láta vínið berast milli viðstaddra. Eins er hægt að nota fleiri en einn brauðdisk. Það er engin vísbending í Biblíunni um að sjálfur bikarinn eigi að vera af einhverri sérstakri gerð. Hins vegar ættu bæði bikarinn og diskurinn að vera í samræmi við virðuleika hátíðarinnar. Ekki ætti að hella svo miklu víni í bikarinn að hætta sé á að það skvettist út úr honum þegar hann gengur milli manna.
20, 21. Hvers vegna má segja að minningarhátíðin sé samfélagsmáltíð?
20 Minningarhátíðin er samfélagsmáltíð þó að notaðir séu fleiri en einn brauðdiskur og vínbikar. Maður gat boðið til samfélagsmáltíðar í Forn-Ísrael með því að koma með skepnu í helgidóm Guðs þar sem henni var slátrað. Hluti skepnunnar var brenndur á altarinu, hluti hennar fór til prestsins sem var við embættisstörf og til sona Arons sem voru prestar, og sá sem kom með fórnina og fjölskylda hans tók þátt í máltíðinni. (3. Mósebók 3:1-16; 7:28-36) Minningarhátíðin er líka samfélagsmáltíð vegna þess að menn neyta hennar í sameiningu.
21 Jehóva á hlutdeild í þessari samfélagsmáltíð af því að hann er höfundur hennar. Jesús er fórnin og smurðir kristnir menn neyta af brauðinu og víninu sem sameiginlegir þátttakendur. Að matast við borð Jehóva táknar að eiga frið við hann. Páll skrifaði þess vegna: „Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.“ — 1. Korintubréf 10:16, 17.
22. Hvaða spurningum um minningarhátíðina er ósvarað?
22 Kvöldmáltíð Drottins er eina árlega trúarhátíðin sem Vottar Jehóva halda. Það er við hæfi vegna þess að Jesús sagði fylgjendum sínum að ‚gera þetta í sína minningu.‘ Á minningarhátíðinni minnumst við dauða Jesú, en með dauða sínum varði hann drottinvald föður síns. Eins og bent hefur verið á táknar brauðið við þessa samfélagsmáltíð líkamann sem Kristur fórnaði og vínið táknar úthellt blóð hans. En mjög fáir neyta af brauðinu og víninu. Hver er ástæðan? Hefur minningarhátíðin raunverulegt gildi fyrir þær milljónir sem taka ekki þátt í máltíðinni? Hvaða þýðingu ætti kvöldmáltíð Drottins að hafa fyrir þig?
[Neðanmáls]
^ gr. 18 Sjá Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 271. Gefin út af Vottum Jehóva.
Hverju svarar þú?
• Af hverju innleiddi Jesús kvöldmáltíð Drottins?
• Hve oft á að halda minningarhátíðina?
• Hvað táknar ósýrða brauðið?
• Hvað táknar vínið?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 23]
Jesús innleiddi kvöldmáltíð Drottins.