Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað átti Páll við þegar hann sagði: „Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum“?

Í umfjöllun um það hvernig Jesús innleiddi minningarhátíðina um dauða sinn skrifaði Páll: „Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.“ (1. Korintubréf 11:25, 26) Sumir telja að orðið „oft“ gefi til kynna að það eigi að minnast dauða Krists sem oftast, svo að þeir gera það jafnvel oftar en einu sinni á ári. Var það þetta sem Páll átti við?

Nú eru liðin næstum 2000 ár síðan Jesús innleiddi minningarhátíðina um dauða sinn. Hún hefur því verið haldin oft síðan árið 33, þó að það hafi ekki verið gert nema einu sinni á ári. Samhengi 1. Korintubréfs 11:25, 26 sýnir hins vegar að Páll var ekki að ræða um það hve oft heldur hvernig ætti að halda minningarhátíðina. Í frumgríska textanum notaði hann ekki orðið pollakis sem merkir „oft“ eða „margsinnis“ heldur orðið hosakis sem merkir „svo oft sem“ en það þýðir „hvenær sem“ eða „í hvert sinn sem.“ Páll sagði því efnislega: ‚Í hvert sinn sem þið gerið þetta boðið þið dauða Drottins.‘

Hve oft á þá að halda minningarhátíðina um dauða Jesú? Það er rétt að halda hana einu sinni á ári. Þetta er minningarathöfn og minningarathafnir eru venjulega haldnar árlega. Auk þess dó Jesús á páskum Gyðinga sem voru haldnir einu sinni á ári. Páll kallaði Jesú þess vegna ‚páskalambið Krist‘ því að fórnardauði hans opnaði hinum andlega Ísrael leiðina til lífs, líkt og fyrsta páskafórnin verndaði frumburði Ísraelsmanna í Egyptalandi á sínum tíma og opnaði þjóðinni leið út úr ánauðinni. (1. Korintubréf 5:7; Galatabréfið 6:16) Þessi tengsl við páska Gyðinga vitna einnig um að halda beri minningarhátíðina um dauða Jesú einu sinni á ári en ekki oftar.

Páll setti dauða Jesú einnig í samband við friðþægingardaginn sem var annar árlegur hátíðisdagur hjá Gyðingum. Við lesum í Hebreabréfinu 9:25, 26: „Ekki gjörði hann það til þess að frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju [á friðþægingardeginum] með annarra blóð. . . . En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni.“ Þar eð fórn Jesú kom í stað hinnar árlegu fórnar friðþægingardagsins er rétt að halda minningarhátíðina um dauða hans einu sinni á ári. Það er engin biblíuleg ástæða til að halda minningarhátíðina oftar en það.

Sagnfræðingurinn John Laurence von Mosheim tekur í sama streng og segir að á annarri öld hafi kristnir menn í Litlu-Asíu verið vanir að halda minningarhátíðina um dauða Jesú „á fjórtánda degi fyrsta mánaðarins [nísan] eftir almanaki Gyðinga.“ Það var ekki fyrr en á síðari árum sem sá siður komst á í kristna heiminum að halda hana oftar en einu sinni á ári.